föstudagur, 24. október 2008

andartakið

Vikurnar mínar eru þéttsetnar þetta haustið. Þess vegna líður tíminn svo hratt. Dóttir mín búin að vera jafn lengi úti og hún var inni (þó faktískt hafi hún verið nær 10 mánuðum að vaxa innan í mér). Hvað gerist núna? Ég hlakka til að sjá hvað hver dagur ber í skauti sér þó stundum sé svolítið erfitt að vakna þegar veturinn leggst yfir landið. Hef núna kamfórustein á náttborðinu til að þefa af í morgunsárið.

Ég kenni íslensku fyrir erlent starfsfólk á vinnustöðum hér í borg. Ég velti því fyrir mér hvort einhverja vinnu verði að hafa í þessum geira eftir áramót þegar þessum námskeiðum sleppir í desember. Nemendur mínir eru líka ringlaðir og vita ekki í hvorn fótinn sé betra að stíga, þrauka hér eða þar.

Í Bónus í dag dró maðurinn fyrir framan mig upp þrjú greiðslukort sem öllum var synjað og úr varð að hann varð að skila matvörurnar eftir á kassanum. Nágrannakona mín er döpur yfir ástandinu, svo döpur að tár runnu þegar við spjölluðum í stigahúsinu í dag. Nú er ráð að vera skapandi í lífstíl okkar, einblína á kærleikann og þakka fyrir kraftaverkið í hverju andartaki.

sunnudagur, 19. október 2008

Hápunktur föstudagskvöldsins var þegar nornin las í spilin mín og talaði um það sem ég var að koma úr, núverandi aðstæður og þangað sem ég stefni. Mjög svo hressandi viðbót við tónleikana í Iðnó en hluti af Sequences engu að síður. Nornin las í spil nokkurra vina minna og öll túlkuðum við það sem kom upp eitthvað sem passaði mjög vel við hugarástand okkar. Í Iðnó sá ég Bedroom Community settið sem náði hápunktinum fyrir mig með Valgeiri Sigurðssyni. Dr. Spock og Seaber voru einnig á dagskránni það kvöldið.

Á laugardaginn var hápunkturinn Lasagna matarboð hjá góðu fólki sem endaði í fagurrauðum Cosmopolitan. Lítið fór fyrir tónlistarlegri upplifun það kvöldið nema fyrir Junior Boys og Robots in Disguise.

föstudagur, 17. október 2008

já Airwaves.
Hingað til: Benni Hemm Hemm, Mammút, Mae Shi, Fuck Buttons, XXX Rottweiler, FM Belfast.

Amman Betty á besta tíma í heimsókn. Hún mætti meira að segja með tösku sem lítur út eins og Mary Poppins taska. Með old school trix fyrir börn eins og að gefa þeim mulinn klaka þegar þau vilja ekki drekka vegna horstíflna. Foreldrarnir nýgræðingar en allt gengur vel.

Góða helgi.

mánudagur, 6. október 2008

Símtal dagsins

drrriiiiing.

ak: halló
kona: er alex við?
ak: nei hann er ekki við.

þögn.

ak: hver spyr?
kona: mamma hennar alexöndru
ak: jáaaá,

þögn.

kona: ok bæ...

Þetta símtal átti sér stað nú um hádegi, númerið birtist sem out of area á símtólinu, konan talaði íslensku með erlendum hreim.
Eins og staðan er nú sé ég möguleikana sem eftirfarandi:
1. mamma hans alexar að æfa sig í íslensku áður en hún kemur bráðum í heimsókn og greinilega búin að æfa sig mjög vel í hreimnum en ekki alveg með eignarfornöfn og beygingu eiginnafna á hreinu.

2. nr.1 plús að alex er búinn að fara í aðgerð til að leiðrétta kyn sitt og búinn að láta mömmu sína vita.

3. Skakkt númer þar sem tilviljun ein réð því að verið var að reyna að ná á manneskju sem heitir líku nafni. Þetta er nokkuð raunhæfur kostur fyrir utan það að í símaskránni er alex skráður undir sínu fulla nafni sem byrjar ekki alex...

fimmtudagur, 2. október 2008