sunnudagur, 31. maí 2009

Tímaleysi og ferðafrelsi

Gott að batteríið kláraðist í klukkunni á eldhúsveggnum. Það hefur gert mér kleift að njóta dagsins með ákveðnu frelsi frá tímanum. Samt er ég búin að standa mig að því margoft að líta upp eftir tímanum, þó batteríin séu búin og klukkan á hvolfi á kommóðunni.

Hvað ferðafrelsið varðar finnst mér frábært að foreldrar mínir taki glaðir við barnabarninu yfir nótt og fram á næsta dag því þá getum við skötuhjú verið saman, frjáls ferða okkar, eins og t.d. á föstudaginn á tónleikum og í tveimur partíum. Mér finnst math-rokk skemmtilegt og hafði mjög gaman af hljómsveitinni Me, The Slumbering Napoleon. Og ég og barnið lærum líka aðra hluti í annarra manna húsum sem hlýtur bara að vera gott mál.

Gleði og friður.

mánudagur, 25. maí 2009

Kona gengur niður götuna. Klædd í smart föt, milli 40 og 50 ára. Ég lít aftur út og þá er hún að bjástra við rúðuna á bíl í götunni og ég áleit sem svo að hún væri að fjarlægja stöðumælasekt af bílnum sínum áður en hún hélt af stað. Ekki var það svo. Hún fer að næsta bíl sem er bíll nágranna míns og bjástrar við rúðuþurrkurnar, skilur þær eftir uppistandandi og gengur sína leið.

Já ýmislegt hægt að gera í bítið á mánudagsmorgnum.

fimmtudagur, 14. maí 2009

rolo

Bræðraborgarstígur / Túngata
2 rólur í góðu standi
Kastali með rennibraut í stóran sandkassa
Vegasalt
Fjögurralaufasmára- jafnvægisgormur
2 bekkir mót suðri á steyptum sökkli – mjög traustir
Ruslafata – mjög nauðsynlegt fyrirbæri nema í þetta skiptið var hún yfirfull.
Gott rými

Update: búin að heimsækja þennan 2x aftur og enn var ruslið fullt og almennt soldið sóðó.


Grjótagata / Mjóstræti

Fínn bekkur
Rólur 2
Hús
Eftir að mynd af fólki að eðla sig birtist á netinu hérna um árið í þessu barnahúsi er ég ekkert of spennt að fara að leika þarna...


Landakotstún

Stórar ruslafötur
1 bekkur, vantar fleiri.
Konan með skeggið og enskumælandi með þýskum hreim eldri konan með staf.
2 rólur
1 vegasalt
1 lítil rennibraut
Mölin í kringum leiksvæðið fín, tekur athylgina frá ruslinu sem í henni leynist....


Freyjugata

Hreinleg möl?
1 bekkur
Engin ruslafata
Fín tæki:
Kastalinn góður
2 rólur
1 vegasalt
sandkassi
Jafnvægistæki sem S.MM fanst m jög gaman að, sat í miðjunni og lét mig um að hrista tækið.
Þrátt fyrir að allt grænt umhverfi vantar þá virtist þessi róló bara nokkuð góður, enda fórum við mæðgur yfir í garð Einars Jónssonar til að snæða matarkexið eftir viðburðaríkan dag í kastalanum.

Annars eru fleiri róló-ar sem ég á eftir að fjalla um, bíðið spennt! Síðan er síðan líka í viðgerð. Nýtt útlit birtist vonandi brátt... Hafið það gott í þessu fallega vori.

laugardagur, 2. maí 2009

húslesturinn

Bækurnar hafa verið vinkonur mínar að undanförnu og verða það líklega áfram því ég er með eintak af The Girl with the Dragon Tattoo/Karlar sem hata konur sem bíður lestrar.

Núna er það aftur á móti The Great Gatsby e. F. Scott Fitzgeral frá New York Ameríku í kringum 1920. Ég er búin að ætla mér það lengi að lesa þessa bók og fann núna frið til þess. Lifandi lýsing á lífi auðmanna þess tíma þar sem konurnar voru í ólíkum kjólum yfir daginn. Ég er svona hálfnuð og enn hefur bókin ekki hrifið mig sérstaklega, nema fyrir samfélagslýsingarnar.

Eric-Emmanuel Schmitt skrifaði þríleik þar sem hver ótengd saga fjallar um ólík trúarbrögð. Óskar og bleikklædda konan. Herra Ibrahim og blóm Kóransins. Milarepa. Nú hefur Bjartur gefið þennan þríleik út í einu hefti. Mjög stílhreinar sögur og falleg frásögn. Tilvalið fyrir pælarann!

Dave Eggers - What is the What?
Í formála er tekið fram að þessi frásögn gæti verið kölluð ævisaga, en að gefnu tilefni er hún skáldsaga. Tilefnið er að enn í dag eru margar sögupersónurnar bráðlifandi, fyrrverandi flóttafólk, núverandi flóttafólk, morðingjar, hermenn og margir aðrir sem upplifðu það að vera í Súdan í kringum 1990 og áfram. Þetta er saga manns sem byrjar í Súdan hvar þorpið hans er brennt og hann hrekst á flótta ásamt þúsundum ungra drengja. Foreldralausir ganga þeir frá Súdan og enda í flóttamannabúðum í Kenýa. Við erum að tala um hljóð næturinnar á sléttunum, drengi sem hverfa í gin ljónanna, marga líkfundi á veginum og ofbeldi af verstu sort. Söguhetja ver æsku sinni í flóttamannabúðum í a.m.k. 13 ár og fær síðan hæli í Atlanta, B.N.A. Hvílíkt þakklæti sem maður upplifir við lesturinn og mannlegur ömurleikinn og þjáningin birtast í öllu sínu veldi. Crazy saga, mjög þörf lesning.

Í spilaranum er það síðan Without Sinking Hildar Guðnadóttur. Mögnuð.
Þetta var menningarsjokk dagsins. Lifið heil.