fimmtudagur, 13. ágúst 2009

síðsumarspistill

Sumargæfan 2009 felst í því að sumarfríið mitt framlengist fram í september með því að dvelja á eyjunni Cape Breton í 3 vikur. Rólega magnast spennan. Sé fyrir mér að reyna að ná bláma vatnsins á pappír. Sé fyrir mér nóg af eldi. Nóg af jörð og nóg af lofti. Rými til að anda. Kvöldið eftir annað kvöld sofna ég á eynni. Enginn er eyland. Sú hugmynd hefur einmitt tekið breytingum hjá mér síðan ég var með Maðurinn er alltaf einn á heilanum. Nú er öldin önnur. Bókstaflega.

Alpha og Omega á fóninum. Mæli með nýútkominni plötu bróður míns, Þorvaldar Þórs Þorvaldssonar. Umslagið er fyrir augað og fer vel í hendi. Tónlistin fer vel í eyrum. Sérstaklega ef þér dáið djass. Mér finnst djass stundum erfiður en ég get líka átt ómótstæðilega djúsí móment með honum. En ég hallast að hugtakinu ást og segi því köld: ég elska djass.

Ein mamman sem ég hitti stundum úti á róló er ofursvöl og fer í djassballet. Annars er maður ekkert mikið að bonda svona á dýpra leveli við foreldra og forráðamenn barnanna á róló. Þetta er alveg búið að vera rólósumarið mikla, góð kynning á því sem koma skal. Næsta sumar vonast ég til að geta verið á bekknum. Bekknum á róló.

Ali Baba á Ingólfstorgi er núna uppáhaldsveitingastaðurinn minn. Innflutt Baklava nammigott í boxi á 350 kall. Hentug tækifærisgjöf. Spari fékk ég chili-heitt sushi í take-out á Sushismiðjunni niðri á höfn. Athugið sumarfríið er framlengt. 4 bækur komnar í töskuna. Jii hvað ég er spennt. Vonast til að fara sem minnst í tölvu. Bara vera.