miðvikudagur, 10. febrúar 2010

febrúarhrím

Vindurinn feykir vetrinum á brott. Vindurinn minn feykir mér aftur í skólann. Í þetta sinn grunnskólann sem er a.m.k. frá árinu 1909. Nú í hlutverki umsjónarkennara með margt á sínum snærum. Nýtt fólk, nýir draugar, ný saga. Ég er mjög spennt og hlakka til. Skólabjallan hringir eftir hvern tíma og inn í þann næsta eftir hlé. Býð vind tímans velkominn að vera með mér.

Nýjustu afrek afkvæmisins eru að kunna að segja heimilisfangið sitt, telja upp á 10 og syngja endalaust. Að gráta er henni hugleikið þessar vikurnar. Móðurmálsblöndu má stundum greina eins og í: Dog þarna. Hún fer sjaldan í bað og er alveg frábær að öllu leyti. Nema þegar nei nei nei nei nei er þulið upp í belg og biðu og þegar hún tekur öskurköst sem yfirleitt má auðveldlega afvegaleiða.

Síðan bíð ég spennt eftir að heyra nýju Massive Attack plötuna. Annars er það bara eldhúsið sem bíður mín núna og undrauppþvottavélin sem þvær og þurrkar án þess að blikna.
Ást og friður.