miðvikudagur, 23. ágúst 2006

auf wiedersehen

Á tónleikunum í Colombia Halle í gærkvöld komu fram Broken Social Scene, Nada Surf og Calexico. (ok. verð að viðurkenna það, og eitt þýskt upphitunarband sem ég bara man ekki hvað heitir, því ég heyrði bara 2 óspennandi lög með þeim). Bannað að skilja útundan.

Nada Surf
IMG_2986
Ég þekkti tvö lög með þessu bandi líklega úr fjölmiðlum og bjóst við argasta poppi. En þá er svo gaman að láta sér koma á óvart og fara með opnum og frjálsum hug. Vissulega var Nada Surf hreinlega leiðinlegt áheyrnar á köflum. En nokkrum sinnum fóru þeir á gott djamm-flæði og þá var gaman. Söngvarinn/gítarleikarinn minnti mig á Beck á sínum yngri árum, þ.e.a.s. í útliti og í fjarskanum inni í sal að sviðinu. Formaðurinn bað fólk vinsamlega um að vagga sér til hliðanna í einu lagi (dansa) og jafnvel klappa með viðlaginu. Áhorfendur tóku vel í þá bón og húrruðu, en þegar allir voru sveittir að vanda sig við að vagga til hliðanna, þá gleymdi ég að hlusta (því ég var að vanda mig svo mikið við að verða við bóninni og vagga mér eins og allir hinir) og lagði við hlustir og komst að því að lagið væri frekar leiðinlegt fyrir minn smekk. Það lét mig hugsa um sambandið eða vansambandið milli listamannanna á sviðinu og áhorfenda. Það er raunverulegt, líkamlegt bil á milli (upphækkuð svið, herskurður (á stærri sviðum) og girðing og öryggislið). Síðan er það bilið milli þess að vera að koma fram sem skemmtikraftur, listamaður o.þ.h. og þess að vera kominn á staðinn sem áhorfandi, áhangandi, aðdáandi, til þess að berja listamanninn augum og það sem hann býður uppá. Nóg um bil í bili.

Broken Social Scene
IMG_2982
Þessa skemmtilegu hljómsveit þekki ég betur og hef alltaf verið forvitin um að vita hvað gerist næst. (á morgun hætti ég að reykja, jibbý) Þarna var blásarasveitin í góðu formi, söngkonurnar komu allar sínu vel til skila, Feist átti þó salinn enda vinsæl hér á slóðum, hinir leikararnir stóðu sig vel í því að skipta um hljóðfæri og 2 trommusett sem nutu sín vel (en ábyggilega erfitt að vera á sviði með 2 háværum trommusettum, eller hvad? veit ekki sjálf) Sólógítarleikarinn kom með skemmtileg tilbrigði við að smella saman fingrum. Sýni það kannski einhvern tímann. Það fyndna við þetta er að á meðan tónleikunum stóð fannst mér hljómsveitin hafa verið betri, e.t.v. hrárri fyrir 2 árum á Hróarskeldu. Eða var það þremur árum? Nenni ekki að reikna. En í gærkvöldi stóð hún uppúr.

Calexico - engin mynd því þegar hún steig á stokk var ég orðin mjög mjög þreytt í fótunum og í hausnum á mér því ég ílengdist á karaókí-kvöldinu á mánudaginn. Sá ekki alveg sjarmann. Lúðrasveit. Mér finnst soldið leiðinlegt hvað ég er eitthvað neikvæð, en ég velti því einmitt fyrir mér í gærkvöldi hvort smekkur minn hefði breyst, hvort ég væri orðin gömul, hvort ég gerði meiri kröfur til listamanna, hvort ég gerði meiri kröfur til sjálfrar mín sem áhorfanda... Til að gera langa sögu stutta létu spænskættuðu lög Calexico mig dansa. Síðan fór ég heim.

Núna aftur á móti er staðan þessi: Fela Kuti kominn á fóninn. Búin að pakka öllu sem ég þarf ekki að nota næstu stundirnar. Held af stað á morgun í bílnum hans Gero. Fer í matarboð á eftir, síðasta kvöldmáltíðin í þetta skiptið, með góðu fólki. Niðurstaðan: Búin að vera mjög ánægð hér. Stefni á það að koma hingað aftur, jafnvel til lengri tímadvalar, sátt með mína vinnu sem hefur farið fram í góðu flæði. Ætli haustið sé komið? Veit ekki einu sinni hvenær skólinn byrjar, en byrja að vinna á mánudaginn. Bless í bili Berlín.

IMG_2975
IMG_2964

Engin ummæli: