þriðjudagur, 13. mars 2007

í sveitinni

seinni partinn í dag, allt til klukkan 20:30 leið mér sem ég væri í sveitinni. Fyrir utan nokkrum sinnum þegar ég leit út um gluggann á götuna. Annars var það frekar regnið, tónlistin og galopnir gluggar sem læddu þessari sveitatilfinningu inn. Það var grá ró.

Ef til vill þyrfti ég að þróa þennan tilfinninga-hæfileika til þess að geta horfið í sveitina hvaðan sem er á þriðjudagskvöldi, svolítið eins og Hiro. Eða kannski var ég að mótttaka skilaboð um að ég ætti að fara út í sveit. Að elta gamla geit.

Þessi misserin elda ég á þriðjudögum og fimmtudögum. Þegar ég geri hummus byrja ég á því að fjarlægja húðina af kjúklingabaununum eftir að ég hef haft þær stutt í vatni. Það tekur líka sinn tíma og kannski var baunapillingin hluti af sveitastemningunni. Næst ætla ég ekki að setja hvítlauk í hummusinn og hef haldbærar upplýsingar um að það sé ekki nauðsynlegt. Fleira fallegt kom upp í sveitasælunni í kvöld sem ekki verður tíundað hér.

Ég reyni eftir bestu getu að halda mig við skólaefnið. Það er gaman þó það sé stundum erfitt þegar maður vill frekar bara sitja við eldhúsborðið og drekka kaffi og hlusta á útvarpið og lesa um dvöl DiCaprios og Sports Illustrated kærustunnar uppi á jökli eða um reddingarnar sem eru í gangi á Alþingi og Hans Blix varðandi samskipti BNA og Íran sem hann segir vera pre-invasion replay frá Írak.
Yogað í dag var gott og ég varð ljón um stund.

Engin ummæli: