laugardagur, 9. júní 2007

Gurudev

Hingað til hef ég ekki lagt í vana minn að sækjast eftir því að hitta heimsfræga yogameistara sem draga grilljón áhorfendur að hvarvetna. En nú eftir að hafa fengið tækifæri til þess að upplifa það get ég borið þannig samkundur við tónleika. Áhorfendur eru samankomnir á einn stað með eftirvæntingu og opin hjörtu, hlusta síðan (þögulir) á boðskapinn sem á borð er borinn. Hver og einn tekur með sér það sem hann vill og skilur eftir það sem hann þarfnast ekki þá stundina. Upplifunin er persónubundin, oft byggð á fyrri reynslu og þekkingu, líkt og með tónleika. Ætli það hafi ekki verið um 150 manns komnir saman í gær og ég upplifði kynjahlutfallið nokkuð jafnt. Ólíkt rokktónleikum var klappið í lokin mjög meðvitað eða kannski bara dannað og líklega sendi hver og einn góða orku í þakklætisskyni með hverju klappi.

Upplifunin var í heildina mjög góð og ég fékk fullt í nesti til að maula, en á tímabili fór ég að efast og hugmyndir um heilaþvott komu upp en hurfu jafnhraðan og þegar Gurudev var að sýna öndunaræfingu og mér fannst hann bókstaflega svífa yfir sæti sínu. Magnað.

Í dagrenningu hannaði ég síðan yoga-stærðfræði-kennslu í svefnrofanum alveg frá a-ö. Þetta var nokkurs konar vakandi draumur. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna það gerðist en það var frábært. Hugur minn leitar kannski aftur til kennslunnar, ég veit það ekki, en þetta voru kannski einhver skilaboð um framtíðina... Hvað stærðfræði varðar þá hef ég hingað til aldrei talið mig stærðfræðisnilla, en er löngu hætt að vera hrædd við stærðfræði og finnst hún meira að segja mjög spennandi og skemmtileg.

Verð að koma því að að Skátar voru þrusu á Sirkús á fimmtudag. Það er gaman að fara á barinn og geta verið í sömu fötum daginn eftir án þess að þurfa að viðra þau. Stundum langar mig samt mikið í sígó. Ég held líka að það hafi verið sterkur leikur að setja reykingarbannið nú 1. júní til þess að fólk hafi sumarið til þess að venjast því að standa úti í ögn skárra veðri en um hávetur. Á morgun verður dúndrað í rice crispies kransaköku með aðstoð mömmu, en fyrst í partý í kvöld. Til hamingju með daginn elsku Anna Sigríður. Ást og friður.

2 ummæli:

baba sagði...

vá ég vil fá að vita hvað gúrújeff hafði að segja! ég sá líka skátana á föstudagskveldi í keflovik og magnaður kraftur var það! engin reykingarlykt af fötunum er gott og sumar hugmyndin góð...en hvað gerist í vetur? hitalampar duga engan vegin í slagveðri og hríð og frosthörkum....ég mæli með því að kraftgallar verði á snaga við hurðina...múhaha...

Linda sagði...

Frábær hugmynd! Bara kraftgallar við hurðina fyrir þá sem vilja fara út í hríðina. Mér finnst við ættum að berjast fyrir þessu!

Mig langar alveg rosa rosa mikið í yoga akkúrat núna. Hef ekki metnað til að stunda það sjálf heima hjá mér og þyrfti því að komast í nokkra tíma svona til að koma mér á skrið... veistu, kannski ég rifji bara upp gamla takta hér á gólfinu hjá mér núna. Jamm, ég held ég geri það bara.