þriðjudagur, 24. mars 2009

Slægð ýsa - hvernig fara skal að

Í kvöld var kennslustund hjá karli föður mínum:

1. Beittur hnífur
2. skafa af slímið af hreistrinu
3. Finna góðan stað, eins þétt upp við hausinn og hægt er til að skera hausinn af. Nýtnisjónarmið eitt ræður því hversu nálægt hausnum maður sker.
4. Þetta skref fyrir pempíur - skafið innan úr iðrunum til að hreinsa enn betur - þó þessi hafi verið slægð og búið að fjarlægja allt gumsið var enn pínu blóð og dót... eldrautt blóðið er merki um nýjan fisk, það lýsist eftir því sem fiskurinn er eldri, og blóðið verður svart við soðningu.
5. uggarnir klipptir af með skærum
6. Fiskurinn bútaður niður - ja kannski í svona 6 búta - sporðinum hent.
7. Vatn og salt sett í flatan pott / pönnu með loki
8. suðan látin koma upp
9. Fiskbitarnir útí - slökkt undir hellunni.
10. Fiskurinn tilbúinn þegar kjötið losnar auðveldlega frá beinunum.

Fyrir óvana er það pínulítil kúnst að leggja sér bitana til munns þar sem beinin eru enn í fiskinum, en það er auðvelt að sjá út hvernig beinin liggja og maður tyggur bara varlega ef maður er óöruggur.

nammi namm. Ýsu sem þessa má fá á verðbilinu 300 - 600 krónur og þessi elska dugði fyrir fimm og eina einsárs. Soðnar kartöflur, smjör og rúgbrauð nauðsynlegt meðlæti. Takk fyrir mig.

1 ummæli:

Heiða sagði...

Hvernig eru diskarnir?