Fimmtudagur: flogið til Glasgow FI430, náð í svartan sænskan bílaleigubíl. Ekið til Oban (á vesturströndinni) í gegnum þjóðgarðinn og meðfram Loch Lomond. ég hafði prjónadótið með til þess að þurfa ekki alltaf að hafa augun á veginum því alex var búinn að taka það að sér að vera ökumaður. Prjónadótið var í skottinu.
Oban: keyrðum í gegnum þennan bæ sem var ekkert spes, fullur af eldra fólki. Fundum mömmuna Betty og systurina Jean niðri á höfn. Ferjan ferjaði okkur og bílinn til Lochboisdale á eyjunni South Uist á eyjaklasanum sem kallast Outer Hebrides. Ferðin yfir tók um 5 klukkustundir.
Lochboisdale: komum í myrkri og fundum Bed & Breakfast húsið okkar úti í sveit hjá gamalli hvíthærðri konu. Morgunmaturinn sem hún framreiddi morguninn eftir samanstóð af hafragraut, eggjum, pulsum, blóðmör, lifrarpylsu, steiktum tómötum og að sjálfsögðu tei. Og með þetta í maganum héldum við á vit ævintýranna.
Föstudagur: Keyrðum á einbreiðum vegum í suður, þar sem við fundum ferju sem fór til eyjarinnar Barra. En það er einmitt staðurinn þaðan sem MacNeilararnir koma. Eyjan er ekki stór, en falleg. Í Castlebay, sem er aðal staðurinn, var fyndin stemning. Í glugga einnar búðarinnar var skilti sem á stóð: we´re open when we´re open. Smábátur við höfnina færði okkur yfir á eyjuna sem kastali ættarinnar stendur á. En hann var lánaður skosku varðveitingarstofunni til þúsund ára fyrir eina viskíflösku. Kastalinn var magnaður. Hann stendur semsagt á lítilli eyju í höfninni og fyllir alveg útí eyjuna. En innan veggjana er garður sem kom mér mjög á óvart.
Keyrðum alla leið til South Uist og fundum B&B þar þar sem við lögðumst til hvílu.
Laugardagur: Eyjan South Uist skoðuð og m.a. svona mini-Stonehenge. Ferja tekin til Isle of Skye frá Lochmaddy. Keyrt frá Skye til skosku hálandanna. Nánar tiltekið Inverness sem er aðalborgin þar í norður Skotlandi. Í sveitinni þar hafði Jean reddað sumarbústað rétt við Loch Ness. Það tók rosalegan tíma að finna staðinn og allir orðnir nett pirraðir á því að vera í svona nánu rými sem einn bíll er, en á endanum voru allir glaðir.
Sunnudagur: Þrátt fyrir að vita það að vísindalega séð, þá gæti skrímsli á stærði við Nessie aldrei lifað á því æti sem finnst í Loch Ness, þá var ég nú samt aðeins að líta eftir henni Nessie. En hvað um það.
Keyðum um sveitirnar þarna í kring og ætluðum að enda í Granttown, þaðan sem Grantararnir koma. Betty (mamman) er semsagt fædd Grant og fyrir u.þ.b. 30 árum heimsótti hún staðinn og Grant-kastalann sem þá var í eyði. Og heldur brá okkur í brún þegar við komum að honum að augljóslega var búið í honum. Og eins og sveitafólki sæmir bönkuðum við uppá og var boðið inn að skoða. Þessi skoðunarferð átti eftir að taka langan tíma, enda talaði maðurinn endalaust, fullur af fróðleik, en kastalann keypti hann eftir að hafa séð hann auglýstan í Home & Gardens tímaritinu. Til þess að gefa nánari mynd af upplifuninni, þá minnti hann mig á brjálaða vísindamanninn / einræna rithöfundinn, en við komumst aldrei að því á hverju hann lifði, en hann var búinn að vera retired í tvö ár. Hér sletti ég ensku, enda finnst mér ,, það að vera komin á eftirlaun" ekki passa, því það er sjaldgæft að vel efnað fólk fari á eftirlaun hjá ríkinu. Jæja, uppi á þaki í miklu roki tók kappinn upp dauðan skorpnaðan fugl sem hann ætlaði að eiga, taka mynd af honum og varpa henni upp á vegg í veislunni sem verður í nóvember. Og að sjálfsögðu var okkur boðið. Grant-kastalinn og umhverfi hans var alveg einstakt og ævintýri líkast.
Eftir þennan túr og te, var haldið til Colladen, en það er sléttan sem skosku Stewartarnir börðust við ensku Tutorana. 1200 skotar féllu. England vann og í kjölfarið voru allar skosku ættirnar gerðar útlægar, m.a. mátti ekki vera í skotapilsum og ekki spila skoska tónlist. Þess vegna fluttu MacNeil fjölskyldan og Grant fjölskyldan til Kanada.
Mánudagur: Lestin tekin til Glasgow, þar sem leiðir skildu. Mæðgurnar héldu áfram för sinni í leit að ævintýrum, en við Alex hurfum inn í borgargeðveikina og enduðum ferðina á frábærum ítölskum veitingastað þar sem við borðuðum kjöt af Boar (er það villisvín?)
Þriðjudagur: Flogið með FI431 frá Glasgow heim eftir frábæra ferð, en jafnframt mjög nána, bæði í líkamlegum og andlegum skilningi þar sem þurfti að ræða mörg fjölskyldumál. En kastalarnir voru tvímælalaust hápunkturinn.
fimmtudagur, 30. september 2004
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)