mánudagur, 29. desember 2008

jóla jóla en ekki bóla

jólagjafirnar þetta árið voru eftirfarandi:

Rökkurbýsnir
Skaparinn
Vetrarsól
Standlampi
Hálsklútur
Heimaprjónuð ofurfallegablá húfa.
Nudd inneign.

Ekki amalegt það. Enn hef ég ekki lokið við Rökkurbýsnir sem er fyrsta bókin sem ég tek mér í hönd. Algjört konfekt að lesa. Spiluð var vist í einu boðinu þar sem verðlaun voru í boði og í öðru voru free-style dansar dansaðir við jólalög. Jólakalkúnninn dugði í margar máltíðir og þrjár bíða í frystinum. Í kvöld voru beinin soðin og gómsæt súpa löguð. Gaman að geta nýtt hvert bein. Nú hef ég staðið mig að því að hugsa til hækkandi sólar og þeirrar gleði sem hver sólargeisli býður uppá. Ég hlakka til lengri daga og þeirra atvinnulausu ævintýra sem nýja árið hefur að geyma.

þriðjudagur, 23. desember 2008

mánudagur, 22. desember 2008

laugardagur, 20. desember 2008

hvar er hún jólabóla?
Útlit er fyrir að hún sé að koma í heimsókn á andlit mitt. Byrja þar að hreiðra um sig í sönnum anda jólanna þar sem allir eiga skjól.
hvar er hún jólabóla?

mánudagur, 8. desember 2008

um veðrið og annan fjanda

Þá er ég komin í hátíðarleyfi frá kennslu. Útskriftin í dag var skemmtileg og notaleg enda var ég að kveðja einstaklega góðan og samrýndan hóp fólks sem margt hvert hefur verið hér í um 10 ár. Við afhendingu prófskírteina fengu nemendur skírteini annarra og áttu að lýsa þeirri persónu þar til hinir höfðu giskað á hver átti skírteinið. Það sem kom upp var m.a.: hún er gömul, falleg, með stóran rass, skemmtileg, dugleg að tala íslensku, síminn hennar er alltaf að hringja, hún eldar góðan mat og hún þarf að læra að segja R.

Annars er niðurgangur daglegt brauð hér á bæ og bleyjurnar á baðinu ilma ekki vel. Vanalega er kúkurinn fullkominn. Þ.e.a.s. þéttir hnullungar sem maður gæti ímyndað sér að sjá í grínbúð. Það er alltaf jafngaman að skoða skítinn. Nú tekur við að segja niðurganginum stríð á hendur, góð ráð óskast. Þá er jólajóla farið að láta á sér kræla og seríur komnar út í glugga en ekkert á borð við systur mína sem bauð í dásamlega súpu í gær í skreytt og notalegt hús.

Þegar snjórinn sest niður og lýsir upp umhverfið líður mér vel. Mér líður líka vel í sundi þegar stjörnurnar tindra fyrir ofan mig og ljósin í vatninu umlykja mig. Það er nokkuð svalt að sjá lognið á undan storminum í bókstaflegri merkingu eins og í gær þegar ég sá hvíta úrkomuna nálgast, lita blásvartan himinninn gráan og loks byrja að berja á höfuð mitt. Þá er gott að geta farið inn.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

dagurinn í dag

Eftir að hafa sturtað mig og borðað 2 ristabrauðsneiðar með einum Assam tebolla fór ég til tannlæknis. Hann er alltaf með rosa fönkí gleraugu. Mér finnst tannlæknastólar ekki þægilegir og þegar hausnum og búknum sem fylgir með er slengt aftur með rafmagnsfjarstýringunni ímynda ég mér píningarbekki gömlu tímanna. Þannig er það nú bara þó tannsi sé góður í sínu fagi og borar vel. Í dag var ekki borað heldur fylling sett á milli tveggja tanna til að hindra matarleifar og þ.a.l. Karíus og Baktus. Síðan var allt settið hreinsað.

Þegar út var komið beið mín símtal við samstarfskonu mína sem velti því upp hvort eitthvað skringilegt væri á seyði í húsinu hennar í kjölfar þess að símalínan virðist alltaf detta út. Við tók klukkustundar langur göngutúr með kerruna og sofandi barn. Ég er glöð yfir að geta nýtt dagsbirtuna og verið úti við þó það sé kalt. Á göngunni í dag sá ég m.a. menntaskólafólk og myndatakandi ferðamenn en enga róna. Dagmamman tók við barnavagninum og áður en ég hélt til vinnu fékk ég mér súpuskál í eldhúsinu og kíkti í blaðið.

Í einum kúrsinum erum við að vinna með nákvæmlega þetta. Hvernig var dagurinn í dag? sem skýrir þessa nokkuð nákvæmu lýsingu sem hér fer. Eftir vinnu kíkti ég til ömmu og náði í jólaóróana úr háa skápnum til vinstri inni í svefnherbergi. Amma spurði mig hvort ég tryði á endurholdgun og við ræddum það yfir tebolla ásamt kryddi af þjóðfélagsmálum og þó henni finnist Steingrímur J. góður ræðumaður er hún hrædd um að ,,kommúnistaflokkurinn" vilji bara komast til valda.

Þegar heim var komið náði ég einum kaffibolla áður en arkað var út í dimmuna til að ná í barnið sem sefur svo miklu betur úti heldur en inni. Skiptar skoðanir fjölskyldu barnsins eru um útisvefn barna, en í Kanada er fátítt að börn séu látin sofa úti. Heima tók við undirbúningur kvöldmatar þar sem þetta var mitt kvöld í að sjá um matinn og ég tók til við að gera 9 tómata tómatsósu með chili, lauk og sveppum sem var borin fram með spaghetti. Nú geri ég ráð fyrir að barnið sé sofnað og að stjörnurnar vaki yfir okkur.

föstudagur, 14. nóvember 2008

3131313131313131 áramót

Við útskrift í gær stóð ég stjörf á meðan nemendurnir stilltu sér upp með mér, einn og einn í einu fyrir myndatöku. Við myndatökur verð ég alltaf vör um mig og hugsa hvernig ætli þessi mynd komi út? Enn hef ég ekki þróað upp Zoolander/myndatöku-andlit með mér og er það á stefnuskránni fyrir næsta ár sem bíður mín, árið sem ég verð þrjátíuogeins árs. Helena las upp frumsamið ljóð (ein a4 síða) á pólsku sem var mjög svo hjartnæmt. Það fjallaði um hvernig Ísland hefur verið henni sem móðir þrátt fyrir þá erfiðleika sem nú steðja að í landinu og hvernig Ísland tekur opnum örmum á móti fólki alls staðar að. Þar sem ég tala ekki pólsku fékk ég þessar upplýsingar í gegnum þýðingu samnemenda Helenu. Kazimiera fékk tár í augun við upplesturinn. Ég var sannarlega snortin. Nemendurnir færðu mér ilmandi blómvönd og pakka sem ég á eftir að opna. Á svona stundum er gott að vera kennari. Það er líka gott að vera kennari á öðrum stundum. Ég er heppin að hafa vinnu.

Árið sem ég varð þrítug var ég líka kennari með barn í bumbu. Síðan sprakk bumban og barnið kom út. Það er hún Sophie. Hún er skemmtileg. Næstu mánuðir af þrítugasta árinu mínu liðu um eins og í stjörnuþoku. Ég man bara ekki neitt þangað til fór að vora. Þá kom sumarið með sól í lofti og í sinni. Núna er síðan kominn vetur, svo hratt sé farið yfir sögu. Á morgun verða friðsamleg mótmæli í 6. sinn á Austurvelli. Á sama tíma verður sherryflaskan sem mér áskotnaðist dregin fram og dreitill borinn fram með vöfflunum. Komdu ef þú þorir.

föstudagur, 7. nóvember 2008

Updates frá kanadísku tengdó:

This was an exciting week with the election of Obama - we are really happy and my brother Bill put it this way: for the first time since November 22, 1963 when Kennedy was assassinated, he could think of the US without a knot in his stomach. It was like a great weight was lifted from all of us. I agreed remembering how depressing everything was after the assassination. The arrival of the Beatles helped, but the world still seemed to be spinning out of control into violence and chaos with the most unimaginable things happening and mostly bad news. Obama may actually be able to achieve what Lennon wrote about in Imagine. It puts a lot of expectation on him, but the fact that a black man could be elected and that he seems to have so much to offer is in itself a kind of cosmic shift. I hope he remains safe and whatever flaws he has he will accomplish some good. We might even be able to drop cynicism and adopt idealism and optimism. You young people must feel good about this.

mánudagur, 3. nóvember 2008

þetta helsta

Þegar kurteisi kom upp á pallborðið í einni kennslustundinni voru eftirfarandi atriði nemendum efst í huga hvað varðar siði og venjur í þeim efnum:

Að vaska upp með látum – þá telst uppvaskarinn greinilega reið/ur og bent var á að það er líka hægt að vaska upp hljóðlega í flýti. Semsagt leggja leirtauið hljóðlega niður.
Að stíga fast niður til jarðar þegar gengið er – talið vera óþarfi, sýndu jörðinni frekar virðingu og ekki meiða hana!
Að sýna eldri virðingu með því að lúta höfði þegar þú mætir þeim og hlusta á þau.
Að bjóða góðan daginn, þ.e. viðurkenna aðra sem deila sama rými, t.d. á gangi eða á gangstétt.
Að tala milli herbergja – hvers vegna að kalla þegar þú getur verið augliti til auglitis?
Að sleikja fingurna þegar borðað er – hundslegt og ekki æskilegt að sitja til borðs með fólki sem hagar sér svoleiðis.
Að smjatta, borða með opinn munn og að prumpa og ropa fyrir framan aðra– hvaða siðmenntaða fólk gerir það?

Annars bara allt í gangi. Nógur fiskur, svo mikill að kennsla fellur niður í HB Granda þessa vikuna. 2 nýir einstaklingar nýkomnir í heiminn í kringum mig sem er sérstaklega gleðilegt. Nóvember verður spennandi viðbót í framhaldssöguna mína sem er auðvitað óskrifuð. Mig langar að lesa fullt af bókum og stefni á að endurnýja bókasafnskortið. Fyrst væri þó við hæfi að klára Brick Lane sem er á náttborðinu. Jóla hvað?

p.s. spes kveðjur til Hjördísar, Atla Steins, og auðvitað litla bróðurs.

föstudagur, 24. október 2008

andartakið

Vikurnar mínar eru þéttsetnar þetta haustið. Þess vegna líður tíminn svo hratt. Dóttir mín búin að vera jafn lengi úti og hún var inni (þó faktískt hafi hún verið nær 10 mánuðum að vaxa innan í mér). Hvað gerist núna? Ég hlakka til að sjá hvað hver dagur ber í skauti sér þó stundum sé svolítið erfitt að vakna þegar veturinn leggst yfir landið. Hef núna kamfórustein á náttborðinu til að þefa af í morgunsárið.

Ég kenni íslensku fyrir erlent starfsfólk á vinnustöðum hér í borg. Ég velti því fyrir mér hvort einhverja vinnu verði að hafa í þessum geira eftir áramót þegar þessum námskeiðum sleppir í desember. Nemendur mínir eru líka ringlaðir og vita ekki í hvorn fótinn sé betra að stíga, þrauka hér eða þar.

Í Bónus í dag dró maðurinn fyrir framan mig upp þrjú greiðslukort sem öllum var synjað og úr varð að hann varð að skila matvörurnar eftir á kassanum. Nágrannakona mín er döpur yfir ástandinu, svo döpur að tár runnu þegar við spjölluðum í stigahúsinu í dag. Nú er ráð að vera skapandi í lífstíl okkar, einblína á kærleikann og þakka fyrir kraftaverkið í hverju andartaki.

sunnudagur, 19. október 2008

Hápunktur föstudagskvöldsins var þegar nornin las í spilin mín og talaði um það sem ég var að koma úr, núverandi aðstæður og þangað sem ég stefni. Mjög svo hressandi viðbót við tónleikana í Iðnó en hluti af Sequences engu að síður. Nornin las í spil nokkurra vina minna og öll túlkuðum við það sem kom upp eitthvað sem passaði mjög vel við hugarástand okkar. Í Iðnó sá ég Bedroom Community settið sem náði hápunktinum fyrir mig með Valgeiri Sigurðssyni. Dr. Spock og Seaber voru einnig á dagskránni það kvöldið.

Á laugardaginn var hápunkturinn Lasagna matarboð hjá góðu fólki sem endaði í fagurrauðum Cosmopolitan. Lítið fór fyrir tónlistarlegri upplifun það kvöldið nema fyrir Junior Boys og Robots in Disguise.

föstudagur, 17. október 2008

já Airwaves.
Hingað til: Benni Hemm Hemm, Mammút, Mae Shi, Fuck Buttons, XXX Rottweiler, FM Belfast.

Amman Betty á besta tíma í heimsókn. Hún mætti meira að segja með tösku sem lítur út eins og Mary Poppins taska. Með old school trix fyrir börn eins og að gefa þeim mulinn klaka þegar þau vilja ekki drekka vegna horstíflna. Foreldrarnir nýgræðingar en allt gengur vel.

Góða helgi.

mánudagur, 6. október 2008

Símtal dagsins

drrriiiiing.

ak: halló
kona: er alex við?
ak: nei hann er ekki við.

þögn.

ak: hver spyr?
kona: mamma hennar alexöndru
ak: jáaaá,

þögn.

kona: ok bæ...

Þetta símtal átti sér stað nú um hádegi, númerið birtist sem out of area á símtólinu, konan talaði íslensku með erlendum hreim.
Eins og staðan er nú sé ég möguleikana sem eftirfarandi:
1. mamma hans alexar að æfa sig í íslensku áður en hún kemur bráðum í heimsókn og greinilega búin að æfa sig mjög vel í hreimnum en ekki alveg með eignarfornöfn og beygingu eiginnafna á hreinu.

2. nr.1 plús að alex er búinn að fara í aðgerð til að leiðrétta kyn sitt og búinn að láta mömmu sína vita.

3. Skakkt númer þar sem tilviljun ein réð því að verið var að reyna að ná á manneskju sem heitir líku nafni. Þetta er nokkuð raunhæfur kostur fyrir utan það að í símaskránni er alex skráður undir sínu fulla nafni sem byrjar ekki alex...

fimmtudagur, 2. október 2008

þriðjudagur, 30. september 2008
Myndirnar fara hægt inn í tölvuna mína þar sem hún er alltaf að gera eitthvað annað. Kaldur vindur í kvöld og ég sá glitta í Norðurljósin.

fimmtudagur, 11. september 2008

kúkínögl

Að bera hönd sína að andlitinu og finna gamla kúkafýlu úr pínulitlu kúkakorni fast undir einni nöglinni getur orðið leiðigjarnt dag eftir dag.

þriðjudagur, 9. september 2008

Daycare

Fyrsti í yoga í gær, fyrsti í dagmömmu í dag.
Ég tók einn sundsprett á meðan pían var ein í fyrsta skipti (stefnt er á 12 - 17 í framtíðinni). Aðskilnaðarstefnan, brjóstagjafaminnkun, öðruvísi frelsi fyrir móður og dóttur, gleði, grátur og gaumur.

Saftað í koníakflöskur. Galdrað á meðan hrært var í. Heppin að eiga mömmu sem kennir manni svonalagað. Spurning um að fiffa garðinn fyrir veturinn?

miðvikudagur, 3. september 2008

Svipmyndir úr smábæ

Hádegismaturinn var yfirleitt aðalmáltíð Madame Adeleine Blanc. Með henni fögnuðum við 93 ára afmæli hennar með ís og köku. Annars borðuðum við oft hádegismat með Adeleine ömmu Sophie Lavoie og Manon Lavoie, vinkvenna okkar. Hádegismaturinn var líflegur og oft rifist hátt og hvellt yfir saltmagni, edikmagni í salatdressingu, hvort morðinginn væri kominn aftur í götuna, hvort hann hefði tekið saman við yngri konuna á meðan hann sat inni, hvers vegna stólarnir fúna, nú eða hvort smábörn megi borða sykur, baguette og banana. Það var gaman. Adeleine elskar Scrabble og eftir hádegismatinn, áður en Siestan hófst spilaði hún oft við Sophie og Manon. Adeleine átti það til að svindla svolítið í spilinu.

Í öll þau ár sem Adeleine var gift Henri Blanc sem dó í fyrra sá hún um fjármálin og heimilið. Henni tókst að halda vel á spilunum og á nú enn íbúð í Marseille auk hússins sem hún býr í í Ribiers. Engin króna fór framhjá henni eða þar til Henri birtist einn daginn með umslag handa henni fullt af peningum. Hún spurði engra spurninga og enn veit enginn hvaðan peningarnir komu.

Adeleine var fyrst til að segja mér að Frakkar hefðu unnið Íslendinga í handboltanum hér á dögunum, en ég vissi ekki af leiknum. Hnén eru farin að láta segja til sín, en Adeleine fer oft á tíðum í styttri gönguferðir, sest á bekkinn fyrir ofan þorpið og horfir á fjöllinn með lokuð augun. Hnén eru þó ekki það slæm að hún rýkur upp úr eldhússtólnum og ætlar að æða út við heitar umræður þegar hún er gagnrýnd. Enn litar hún hárið á sér ljóst þó það sé orðið hvítt og notar stafinn sinn til þess að slá fíkjunum sem eru í vegi hennar á götunni.

Yngri kynslóðin átti líka sínar sögur. Einn af kunningjum okkar talaði opinskátt um reynslu sína af vændiskonum og ætlaði að hætta að hitta þær 15. september. Sá hinn sami hafði gefið út bók, en aldrei komst ég að því um hvað hún fjallaði. Önnur reddaði 9 manna gulum bíl (með stýrinu vinstra megin) til þess að koma okkur á tónleika. Eplauppskeran var að byrja og farandverkamaðurinn sá eina möguleikann á skemmtun á kvöldin að ríða. Hundur bareigandans dó. Faðir hins bareigandans (21) keypti barinn handa honum, vann sjálfur í eitt ár á barnum verandi í ársleyfi frá vinnunni sinni áður en hann tók son sinn úr skóla þá 16 ára til þess að sjá um barinn.

Skemmtun okkar, litlu fjölskyldunnar fólst í því að vera saman í nýju umhverfi. Við fórum reglulega í sund, bæði í gilið og í sundlaugina. Nokkrar ferðir á barinn á hverjum degi var algengt enda tókum við þá meðvituð ákvörðun um að kaupa ekki kaffivél, þar sem það var engin í hesthúsinu, heldur fara frekar á barinn og hitta fólk. Það gekk vel, enda bærinn lítill og vinalegur. Jazzkvöldið og kvöldið þegar cover-hljómsveitin spilaði á torginu hjálpaði okkur líka til við að kynnast stemmningunni.

Aix-en-Provence var heimsótt, enda hittumst við kæri þar fyrst og ekki hægt að sleppa því. Sú borg hefur mikið breyst á 11 árum. Ég verð samt að taka til greina þann möguleika að ég hafi breyst. Mér fannst þó sama lyktin vera til staðar. Heit borgar-matar-sólar-hellu-lykt. Einn daginn röltum við í garðinn (Parc Jourdan) í Aix til þess að slappa af og njóta blíðunnar. Ég vildi gefa brjóst í skugga og fann lausan bekk við hliðina á unglingahóp. Yfirleitt hef ég gaman af því að vera í návígi við ólíka hópa þjóðfélagsins og kippti mér ekkert upp við það þó þau reyktu hass og ærsluðust. Það var þegar einn strákanna tók upp hníf (týpan þegar blaðið þýtur upp þegar maður ýtir á takka að ég held) að mér stóð ekki á sama og við tókum saman föggur okkar til að færa okkur um set og klára brjóstagjöfina á öðrum sólríkari bekk.

Marseille var jafn hávær, rykug og skítug og mig minnti, en yndislega lifandi og litrík. Þar kynntumst við Béatrice og Eric sem vinna hjá félagsþjónustunni í Marseille. Já, best að taka það fram að allir þeir Frakkar sem við kynntumst púuðu á Sarkozy. Skv. Béa og Eric er ástandið ömurlegt í Marseille þegar kemur að minnihlutahópum. Fátækt hefur aukist til muna en Béa vinnur við að hlúa að börnum innflytjenda sem búa við erfiðar aðstæður, skoða aðstæður þeirra, fara með þau í réttarsal o.þ.h. og Eric vinnur með fólki sem er í vændi (80% kvenna og 20% karla). Í Marseille var Alex spurður hvar hægt væri að kaupa sterkt dóp og þjónninn á litla tapasbarnum kallaði einn viðskiptavininn (kvk) hóru eftir að henni fannst reikningurinn eitthvað hár.

Þess utan var líf okkar þriggja rólegt og notalegt og ég er þakklát fyrir að hafa átt svona góðan tíma. Sophie Magdalena varð veik í fyrsta skipti og við fórum á sjúkrahúsið í næsta bæ (þar sem ekkert er í Ribiers) og fengum jafn góða þjónustu og er sýnd í myndinni Sicko. Sophie jafnaði sig fljótt án lyfja (Roseole var nafnið á pestinni). Það var líka gott að fá að upplifa það að það er ekkert mál að ferðast með ungabarn. Við komumst meira að segja fram fyrir röðina í Louvre vegna þess að við vorum með kerru! Í fyrsta sinn fórum við skötuhjú í Louvre höllina til að berja listina augum. Nutum nokkurra daga í París á leiðinni heim og fórum fótgangandi út um allt auk þess að taka Batobus (Signu-strætó). Í París heimsóttum við líka Moskuna og Notre Dame dómkirkjuna (í fyrsta sinn) og vorum yfirhöfuð mjög staðfastir ferðalangar. Nú er bara að detta inn í íslenska raunveruleikann. Spennandi sjómennska á sólríkum dögum.

þriðjudagur, 2. september 2008

Svipmyndir úr smábæ

Komin heim. Sjávarlyktin mætti mér úti á svölum og grassprettan í garðinum með ólíkindum í þennan eina mánuð sem leið.

Lífið í Ribiers var svalt. Það var kaldara inni í húsinu okkar, sem var einmitt hesthús ljósmóðurinnar í sveitinni. Þegar konurnar á bæjunum í kring uppi í fjöllum voru komnar að því að eiga hengdu þær hvítt lak út. Húsin í götunni voru byggð á 17. öld. Gatan var aðeins breiðari en einn faðmur á minn eigin mælikvarða. Lítill Fiat gat bakkað upp hluta af henni þegar mennirnir frá Marokkó og Túnis voru að fara að laga baðherbergið hjá sér. Þeir voru nágrannar okkar og færðu okkur 11 nýtíndar perur á fati daginn áður en við fórum.

Madame Thérese Martin bjó á neðri hæðinni beint á móti. Sonur hennar og kona hans, ásamt dótturinni búa á efri hæðinni. Maður Madame Martin dvaldi nokkuð lengi á spítala á meðan dvöl okkar stóð og því náðum við ekki að hittast. Á hverju kvöldi fyrir háttinn mátti heyra Madame Martin ganga heim segjandi bænir upphátt. Hún heimsækir Maríu Meyjar styttuna sem er rétt við bæjarfótinn á hverju kvöldi.

Í Ribiers búa um 600 manns. Að sjálfsögðu er heilsast með kossum, 3 í Ribiers en annars staðar geta þeir verið 1 eða 2. Eftir að maður er búinn að kynnast einhverjum eða hitta einhvern í 1 skipti. Þá er það bókað að maður kyssist í næsta skipti þegar maður hittist og oft þegar maður kveður. Þessi siður gerir það að verkum að maður fær að nota lyktarskynið og snertiskynið á annan hátt en ella. Til dæmis var ein alltaf með of mikið af ilmvatni þannig að það sat í vitum mínum eftir að við heilsuðumst. Það pirraði mig mikið. Kannski líka af því að mér líkaði ekki lyktin. Orðrómurinn segir að þessi tiltekna kona sé alki. Ein var kölluð garðkonan því hún stal dóti úr görðum. Þar sem Ömmudóttir Madame Martin bjó til armband handa Sophie Magdalenu, með kuðung á. Á milli barna tíðkast að kyssa bara einu sinni í Ribiers.

Í Seinni Heimsstyrjöldinni var pabbi Madame Martin skotinn til bana á torgi Ribiers, eina stóra torginu, miðjunni sjálfri, Place de la Fontaine. Hann var skotinn af meðlimum Frakka, La Resistance. Enda hafði hann verið að leka upplýsingum til óvinarins. Enginn þorði að taka líkið svo dögum skipti. Þarna var Madame Martin um 10 ára gömul og í dag er sagt að hún sé mjög skrítin. Er það skrítið?

Að tala frönsku kom fljótt. Kannski af því að maður stökk bara út í djúpu enda engar grunnar laugar þarna á slóðum þó bærinn standi uppi í fjöllum með nóg af fersku góðu fjallavatni. Draumar mínir voru æsispennandi á meðan dvölinni stóð.

Myndir og meira seinna.

þriðjudagur, 29. júlí 2008

sumar myndir


Hér að ofan má m.a. sjá gosbrunninn í lystigarðinum á Akureyri, borðað undir berum, Ísafjarðardjúp, róðrakeppni í sundlaug og állömb úr holu.
Annars allt gott og andlegur undirbúningur fyrir ferðalag til France er hafinn. Yngsti meðlimurinn búinn að fá passa, ég búin að finna orðabókina og er að æfa mig í að dreyma á frönsku. Au revoir et á bientót.

miðvikudagur, 16. júlí 2008

laugardagur, 5. júlí 2008

Dularfalla taskan

Hér var dinglað á dyrabjöllunni um klukkan 06:00 í morgun. Það er svosem ekki nýlunda, en í morgun þegar ég fór á fætur og niður að ná í blöðin lá svartur bakpoki á tröppunum utandyra. Um hann skeytti ég engu enda er ég helgaráskrifandi að Mogganum og fæ því enn meira að kjamsa á um helgar. Síðmorguns var bakpokinn kominn yfir götuna við horn hússins og girðingarinnar á móti. Mogginn og hin runnu niður með kaffinu og fyrr en varði var mér litið út um gluggann til þess eins að uppgötva bakpokann kominn í tröppurnar sem eru eilítið niðurgrafnar hér á móti. Seinnipartinn var farið í garðinn auk þess sem ég náði að vinna að skrifum við eldhúsborðið. Nú, þegar ró er komin yfir börnin 2 og 3 fullorðna sá ég 2 framhaldsskólapilta vera að vasast við húsið á móti, kíkja yfir grindverið og yppa öxlum og með vindinum heyrði ég þá segja að þeim þótti skrítið að pokinn væri ekki lengur á sínum stað. Hvað ætli hafi verið í bakpokanum?

föstudagur, 4. júlí 2008

Gluggarnir þvegnir í dag og það mætti halda að það snjóaði úr trjánum.
Bóla á leiðinni á vinstra gagnauga við enda augabrúnar.
Til hamingju með afmælið til Brooklyn.
Helgi að koma.
Mér líkar lífið vel.

mánudagur, 30. júní 2008

Ættarmót, sumó og útskriftarveisla út í sveit að baki. Verst að þurfa að koma strax í bæinn aftur. Það er svo gott að vera í kyrrðinni og liggja úti í móa. Meiri sveit framundan. En næst á dagskrá er að skrifa meira Airwaves, fagna júlímánuði, fara í sund og taka á móti föðursysturinni og barni hennar frá Kanadia í eina viku. Það verður fjör hjá fjölskyldunni.
Annars bara allt alveg meinhægt og gott.

þriðjudagur, 17. júní 2008

hæbbý jriÁ 72 ára afmælisdegi pabba í dag fórum við í bíltúr í Hveragerði. Apinn í búrinu segir nýja brandara, páfagaukar í búri og bananatréð. Lýsisflaskan á 700 krónur. Allt eins og það á að vera, ísbjörninn skotinn... Nýr bíll fyrir nýju öxlina hans sem dugar í 20 ár í viðbót ef hann heldur uppteknum hætti. Á myndinni má sjá bæði auk fatlans sem fylgir. Til hamingju elsku pabbi. Sá hluta úr ræði forsetisráðherra í sjónvarpinu þar sem skiltin í bakgrunninum fönguðu athylgi mína: Ríkisstjórnin brýtur mannréttindi. Vér mótmælum allir. Það kom mér pínu á óvart að letur skiltanna hefði ekki verið máð af með nútíma kvikmyndatækni. Líklega er háttvirtur forsetisráðherra og Ríkissjónvarpið sammála. Nú hljómar tónlist úr miðbænum, greina má hiphop, popp og gamaldags. Óhollur bræðingur á meðan ég stóð út á svölunum og kíkti yfir húsin á hafið. hæ hó og jibbýjei

laugardagur, 14. júní 2008

bongóhlátur

Það fer ekki framhjá mér að sumarið er komið.
Það er gott og blessað og sólarvörnina verður að taka í gagnið.

Djass á Jómfrúnni og djass á hverfisgötunni í mjög metnaðarfullri garðveislu með heimasmíðuðu mini-golfi, búningsklefa fyrir 8 manna plastsundlaugina, sundlaugarpallur, bar með bárujárni á þakinu og barborð og stólar. Þá má ekki gleyma, skreytingunum og sundbúningaleigunni þar sem heimasaumuð gyllt sundföt voru einkennismerki og buxurnar voru með ásaumuðum píkuhárum í ýmsum litum, krulluðum úr hollenskum hárstofum fólks víðsvegar frá Afríku. Til að kóróna þetta allt var grillað hvalkjöt í sesam olíu með sósum og kartöflum í boði á barnum. Sannkallað listaverk, enda gjörningameistararnir listamenn. Eru allir listamenn?

Ég upplifði það að vera skapandi í yoga-tímanum í morgun. Skapandi í gegnum líkama minn og huga í því andartaki sem var hverju sinni með hjálp flæðisins í yogastöðunum. Mjög gaman, fullnægjandi og sveitt. Síðan hjólaði ég heim og gaf brjóst. Mér finnst ég soldið mikið í því þessa dagana og eiginlega er það búið að vera bæði hið ljúfa og hið erfiða í 5 mánuði. Ekki samt eins og fyrst, heldur einhvern veginn er brjóstagjöfin orðin markvissari ef svo má að orði komast. Ég upplifi brjóstagjöf ekki sem eitthvað sem gerist á náttúrulegan hátt án æfingar, heldur er hún lært ferli beggja aðila sem getur gengið misvel og misilla. Hver gjöf tekur skemmri tíma núna, mjólkurþeginn veit hvað hún vill og hvað hún fær, forvitin um umhverfið, farin að snúa sér kröftuglega af baki á maga. Vantar að komast aftur tilbaka eins og er, en annars bara vanalega í stuði. Mér þykir vænt um að það er stutt í hláturinn. Ég hef miklar mætur á hlátri.

Ég óska Garðbúum til hamingju með 100 ára afmælið og vona að forsetinn hafi aldrei þurft að vera einn í heimsókninni. Mér finnst við hæfi að enda á þessari kveðju: Gleðilegt sumar.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Aðgerðir

Þá er The Red Thunder komin á sjúkrahús. Hún æsti sig eitthvað á Strandgötunni í Hafnarfirði þegar ég var að litast um hvar hægt væri að beygja og keyrði aftan á jeppa. Til allrar hamingju meiddist enginn annar en hún og jeppinn. Einungis ég og önnur kona vorum í bílunum. Vinstra framhornið, ljós og bæði innra og ytra bretti í maski, hurðin óopnanleg og nokkrar beyglur. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins kom fyrstur á vettvang úr Firðinum þar sem unglingar höfðu verið að safnast saman og hugsaði vel um okkur. Tryggingarfélagið keyrði mig heim eftir að ökumennirnir höfðu gefið rafræna skýrslu í þjónustubílnum. Það er víst svo mikið að gera hjá löggunni að hún er í minna mæli að sinna svona atburðum ef ekki þarf að kalla til sjúkrabíls. Ég fékk pínu sjokk í magann sem leið hjá seinna um kvöldið. Satt best að segja fékk ég tár í augun og þakklætið streymdi fram í huga mér fyrir það að ekki fór verr. Nú jæja, lexíurnar sem myndgerðust þarna voru t.d. þær að flýta sér hægt, horfa á veginn og umferðina fyrir framan og þakka fyrir kaskó. Og fara með blóm og konfekt á sjúkrahúsið.

Aðgerðir á þakinu hafa gengið vel og koma vonandi í veg fyrir leka á loftinu í hvassri suðvestanátt. Þakið glansandi fínt en svalirnar fengu sinn skerf af grænu þakmálningunni. Spurningin er hvort það sé charmant að hafa sletturnar eða ekki. Ilmur terpentínunnar er að gera út af við mig í svona miklu magni auk þess sem vírbursti dugar skammt. Vanalega finnst mér þó terpentína á olíumálunarpensli afar seiðandi.

Spenningur fyrir sumrinu og helgarplön af ýmsu tagi láta kræla á sér. Brúðkaup, ættarmót, sumó, heimsókn frá Kanadia, útskriftarveisla og svo veit maður aldrei nema litli bærinn Ribiers í Suður-Frakklandi fái að njóta nærveru okkar í ágúst. Það er í spilunum þó óákveðin enn, hús í boði og frábært fólk. Best að fara að skoða flugmöguleika og æfa frönskuna. Mais oui, bien sur. Las nýlega í The Economist um hvernig ritmál frönskunnar er að breytast með tilkomu rafrænna samskiptamáta, þannig er t.d. á morgun eða demain orðið að 2m1. Semsagt, sams konar áhyggjur í France eins og hjá hreinræktunarsinnum íslenskunnar sem líta á tungumálið m.a. sem hluta af þjóðarímyndinni en síður sem lifandi miðil. Sumarið er tími aðgerða.

miðvikudagur, 28. maí 2008

Draumur og veruleiki

Í skjóli nætur gekk fréttamaðurinn Helgi Seljan framhjá húsinu og henti dauðum lunda upp á þak áður en hann fór inn í næsta hús.

Nú í morgun hófu þakviðgerðarmennirnir viðgerð á þakinu.

sunnudagur, 25. maí 2008

Eru sunnudagar framtíðin?

Sunnudagar eru svo ljúfir. Sérstaklega þegar sólin skín. Þessi tími ársins þegar sólin er komin á kreik og gróðurinn að lifna, túlípanalaukarnir blómstra og hlussubýflugurnar suða er æði. Þá finnur maður sig vakna, lundina léttast og líkaminn lifnar við. Framkvæmdagleðin tekur völdin og þessi aukaskammtur af krafti sem maður á eftir að búa við fram að hausti fær sín notið.

Fyrsta heimsóknin mín á Listahátíð var í dag á sýningu í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg var í dag. Þar mætti myndlistin arkítektúr á framandi máta. Verk hvers listamanns var yfirleitt í stærri kantinum þegar kemur að myndlist, heilu rýmin og hvergi var að sjá för pensils. Þarna mátti sjá kertaloga skapa fjórfalda birtu í dimmu rými, rólur hangandi úr lofti heils salar sem mann langaði að róla í væri það ekki fyrir skírskotunina í kynlífsrólur hverskonar, sexfalt vídeóverk sem mátti einungis skoða í bláum skó-plasthlífum skoðaði hringformið og iðandi uppsprettur sem minntu á landslag reikistjarnanna, endalaus ranghali í niðamyrkri til þess að kynnast/ögra sjálfum sér? auk annarra smærri verka. Lillablábleiki álskúlptúrinn var einnig heillandi.

Hér er tækifærið til að óska landsliðskonunni í fjölskyldunni til hamingju með stúdentsprófið. Veislan í gær vatt huga mínum aftur um 10 eða 11 ár í mína eigin stúdentsveislu og í minningunni var ein vinkona mín sett í það að fá einn bjórkassa lánaðan úr bílskúrnum fyrir meira partý seinna um kvöldið. Mér fannst það sniðug hefð svo að í gær fékk ég að vísu bara 2 bjóra lánaða í nesti á leiðinni heim. Takk fyrir mig. Hvað gerir maður ekki í kreppunni?

Þá hækkar bensínið stöðugt. Svo mikið að manni finnst hálfblóðugt að setjast upp í bifreið. En á morgun eru einmitt 40 ár síðan hægriumferð tók við að vinstriumferð. Þá þurfti að panta inn nýja strætisvagna með dyrnar réttu megin. Mun Reykjavíkurborg einhvern tímann fá rafmagnslestar eða aðra gerð af almenningssamgöngum sem eru skilvirkari? Hvenær komum við til með að fljúga loftförunum okkar á milli staða? Hvenær er framtíðin?

Á sunnudögum vökva ég blómin. Einhverra hluta vegna finnst mér ekki við hæfi að vökva þau á kvöldin. Þess vegna þurfa þau að bíða með að fá að drekka þangað til í fyrramálið. Sem er framtíðin. Kannski get ég bara haft alladaga sem sunnudaga. Þá væru sunnudagar alltaf framtíðin.

fimmtudagur, 15. maí 2008

Allt gott í kringum okkur

Ætli það rigni í nótt? hugsaði ég nú rétt í þessu út á svölum. Gróðurinn hefur tekið stakkaskiptum og maður sér mun á trjánum næstum því á hverjum degi. Ómar úr Hafnarhúsinu berast í kvöldgolunni, líklega Amiina og Kippi að gera listaverk á Listahátíð. Það var hálfgerð listahátíð hér þegar tengdafjölskyldan bjó í íbúðinni. Fá orð fá því lýst hversu vel okkur gengur að eyða tíma saman, en ég er ótrúlega heppin með að þekkja svona gott fólk og fá að vera í návígi við það. Kannski er það einmitt málið, en oft hef ég hugsað að fjarlægðin geri samband okkar líka svona gott. Amma og afi Sophie, ásamt tveimur frábærum föðurbræðrum. Einn með óbilandi áhuga á leiklist og hinn á leið í listir lækninganna. Gæðagaurar sem fóru á tvenna tónleika hjá stóra bróður og annar lét þau orð falla að hann trúði því hreinlega ekki að bróðirinn væri pabbi, en að á sama tíma væri það frábært. Einn Gullni hringur nægði þeim út fyrir borgarmörkin en annars var tíminn vel nýttur í almennt hangs og vöffluát. Þá var einnig dýrleg máltíð á Sjávarkjallaranum þar sem allt var klárað upp til agna. Ekki veit ég hvort skammtarnir voru smáir, allir svona hungraðir eða maturinn svo góður að maður gat hreinlega ekki sleppt því að borða aðeins meira. Eflaust sambland af þessu öllu.

Mér finnst tíminn líða svo ógurlega hratt að næstu þrír dagar verða tileinkaðir öndun. Ekki öndum. Heldur öndun til að fanga augnablikið, senda góða orku í ýmsar óskir, vera auðmjúk og þakka, lofa loftið, borða, elska og vera úti í náttúrunni. Til að það gerist mun The Red Thunder, einn af nýjustu fjölskyldumeðlimunum færa okkur nær takmarkinu. Hér má sjá hana hvíla sig úti á götu


Vona semsagt að það rigni fyrir grasfræin sem ég sáði í jörðina, eftir að tengdafaðir Wilfred var búinn að stinga hana upp.

Þrjár Basilikum plöntur gróðursetti ég að undirlagi Garðyrkjubóndans, eina fyrir hvert okkar hér í nýju fjölskyldunni.

föstudagur, 9. maí 2008

Music for Marimba, Guitar, Decks, Drums and Choir
eftir Alex MacNeil

Útskriftartónleikar úr tónsmíðadeild nýmiðla LHÍ
Sunnudaginn 11. maí, kl. 21:00 í Iðnó.
Aðgangur ókeypis, allir velkomnir.


Verkið fjallar um tengsl manneskjunnar við guð í tilefni Hvítasunnudags og Shavuot.
Flytjendur verksins eru samansafn af tónlistarfólki, m.a. úr Sinfóníuhljómsveit Íslands og 2 rokkhljómsveitum.

Flytjendur eru:
Alex MacNeil,
Arnar Ingi Viðarsson,
Eggert Pálsson,
Frank Aarnink,
Gísli Galdur,
Gylfi Blöndal,
Kári Halldórsson,
Kjartan Bragi Bjarnason,
Kjartan Guðnason,
Kolbeinn Hugi Höskuldsson
ásamt kór sem Hreiðar Ingi Þorsteinsson stjórnar.

sunnudagur, 4. maí 2008

Sveitt á sunnudegi

Í kvöldgöngunni sá ég laufin spretta og grasið grænka.
Mikill léttir að vera búin að fá pabbann heim þó það hafi verið nokkuð átakalaust að vera einstæð móðir í viku, þá var alveg kominn tími á það að fara ein út að ganga. Respect til einstæðra foreldra.

Það er enn pínku skrítin tilfinning að vera orðin kona með framlengingu, mamma móðir magga móða. Styrkt verða fjölskyldubönd í komandi viku þegar kanadíska fjölskyldan mætir á svæðið. Afinn og amman og 2 frændur. Tengdafjölskylda mín. Fjölskyldubönd og tengingar geta verið skrítnar, tilfinningaríkar, flóknar og síðan auðvitað ekki fyrir hendi. En það er umfram allt skemmtilegt að hitta þetta fallega fólk og ég hlakka til. Líka hlakka ég til útskriftartónleika tónsmiðsins í Iðnó eftir viku, 11. maí klukkan 21. Þér er boðið.

Best að þrífa ælu.
Sunnudagur til sælu.

föstudagur, 2. maí 2008

Frúin spæjar á föstudegi

Eftir hreinsunina sem átti sér stað í rokinu fyrir nokkrum dögum er yndislegt að fara út. Á leiðinni heim í dag tók ég eftir að búið var að koma 3 grjóthnullungum fyrir í götunni minni þar sem áður lögðu bílar. Þarna var maður að sýsla og mála yfir veggjakrot svo ég spurði hann um grjótið sem er fyrir framan eitt af elstu húsunum í Reykjavík, Vaktmannskofann. Ekki vissi hann hvað fólk hefði vaktað í kofanum. Við spjölluðum aðeins meira og að lokum kvaddi ég og óskaði ég honum góðs dags og hann svaraði til, ,,sömuleiðis frú”. Þá veit ég það, maður er orðin frú. Líklega fyrst ég fylli þrjá tugi.

Þegar við S. nálguðumst síðan húsið okkar rann lögreglubíll í hlað. Út stigu 2 lögregluþjónar og gengu að húsinu á móti. Ég þaut upp eins og vindurinn til þess að missa ekki af neinu enda alkunnur spæjari. S. lét sér fátt um finnast og hélt áfram að sofa.

Lögregluþjónarnir litu á nokkrar hurðir hússins til þess að finna réttu hurðina. Þegar hún var fundin bankaði kk. löggan (sem keyrði líka löggubílinn) með hinum frægu orðum: ,,opnið, þetta er lögreglan”. Enginn svaraði og næsta skref var það að fá lykil hjá nágrannanum sem stóð hjá og fylgdist með aðgerðum lögreglunnar. Seinna í ferlinu ímyndaði ég mér að það hefði verið hún sem hringdi á lögregluna. Og þá vatt lögreglan sér í það að berja með hnefanum á hurðina, og segja: ,,Opnið þetta er lögreglan að koma inn með lykli”.

Hér verður hlé gert á þessari æsispennandi frásögn. Í fyrsta lagi því ég fór í sturtu og missti því aðeins af sjónarspilinu. Á meðan sambýlingurinn spilar fyrir Belgíu reyni ég að hoppa í sturtu hvenær sem færi gefst og sérstaklega þegar S. sefur. Í öðru lagi vegna þess að þessi nágrannaíbúð á sér forsögu skv. dagbókum spæjarans sem eyðir langtímum út við gluggann með ber brjóst.

Ég man eftir tveimur íbúum umræddrar íbúðar. Fyrrverandi íbúinn var miðaldra maður sem hélt nokkuð mörg partý. Ekkert til að amast yfir enda hinum megin við götuna. Mannfjöldinn var nokkur í þessum partýum og misjafnir karakterar.
Maðurinn var ávallt nokkuð blautur og lét sambýling minn óspart vita hversu góð hljómsveit Grateful Dead var. Nú má hitta þennan ágæta mann í góðu veðri á Austurvelli við hliðina á Lalla & co.

Núverandi íbúi íbúðarinnar er búin að vera í burtu í nokkurn tíma. Hún virðist búa þarna ein en engu að síður hafa margir aðgang og lykla að íbúðinni. Vinir Lalla virðast líka þekkja þessa konu því oft er bankað uppá um miðjan dag með opna bjórdós í hönd og annað slíkt. Þá eru 2 karlmenn með aðgang að íbúðinni og kíkja oft við hvort sem núverandi íbúi er heima eða ekki. Nýlega var einni konu hleypt inn af einum þessara manna, en útgangurinn á henni lét mig hugsa sem svo að hún ætti ekki bað né hrein föt. Kannski eru þetta fyrirframgefnir fordómar í mér um útlit fólks og auðvitað ætti ég ekki að dæma fólkið á útlitinu einu saman. Einn þessara manna kemur við sögu í þessari frásögn sem heldur nú áfram.

Eftir sturtuna var kominn jeppi á staðinn með 2 mönnum í sem voru tíðir gestir í húsinu. Fljótlega fór jeppinn að fyllast með ýmsu dóti úr íbúðinni, helst þá klæðnaði og stórum pokum, og sagði einn maðurinn það vera erfitt að vera heimilislaus og þurfa að bera allt þetta. Því virtist mér sem hann hafi ákveðið að gera þessu heimilislausa fólki greiða með því að geyma þetta dót í íbúð vinkonu sinnar sem hann hafði aðgang að á meðan hún var í burtu. Það fannst mér nokkuð vinsamlegt af manninum en það var greinilega ekki gert með leyfi því annars hefði löggan ekki verið þarna. Einnig datt mér í hug að þetta væri þýfi, en þar sem þetta voru ekki tölvur og skjávarpar, heldur ,,mjúkir” pokar þá útilokaði spæjarinn það fljótt. Kunninginn virtist ekki glaður en sagðist vera bara eðlilegur maður Hann kallaði nágrannakonuna helvítist tík, öskraði og var með ögrandi líkamstilburði við lögregluna. Lögregluþjónarnir héldu sig í ákveðinni fjarlægð og báðu mennina tvo að drífa sig í að fjarlægja dótið úr íbúðinni sem þeir og gerðu. Kunninginn var ekki sáttur við lögregluna og að þurfa gera þetta og hnykkti út með þessum orðum: ,,Þið sem nauðgið heimilislausum konum í klefanum... “

Hér lauk vakt spæjarans en margar hugleiðingar brjótast um eins og: það er gott að einhver vill hjálpa heimilislausum konum með því að geyma dótið þeirra og leyfa þeim að gista í íbúðum annarra. Spurning hvort gjald sé tekið fyrir og þá í hvaða formi? Varðandi fangaklefana hvar heimilislausir þurfa víst oft að gista þar sem þeir fá ekki inni í gistiskýlunum ef þeir eru undir áhrifum (eða svo hef ég heyrt í fréttum), þá finnst mér skrítið að maður fyndi upp á þessari staðhæfingu hjá sjálfum sér án þess að vita til þannig atvika. Að sjálfsögðu getur verið að hann hafi verið svo reiður að þetta hafi verið það ljótasta sem hann hafi fundið upp á á þessari stundu. Nú þegar heimilislausum konum fjölgar stöðugt og Konukot alltaf fullt, er augljóst að eitthvað þarf að gera í málinu.

Það er ráð að enda þennan pistil á því að senda góða orku til allra sem á henni þurfa á að halda. Ást, friður og kærleikur til ykkar allra. Góða helgi.

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Les Jardins des Mandarines

Það var dimmt úti og ljós borgarinnar lýstu upp hafflötinn. Klettarnir við höfnina voru dimmir og tignarlegir. Við sátum afturí og bílstjórinn keyrði okkur tvö, ástfangin sem aldrei fyrr, um borgina. Ég vissi að ég þurfti að fara ein af stað og bað bílstjórann um að láta mig út. Ákveðið var að við myndum hittast aftur á sama torgi eftir skamma stund. Ég hélt af stað og fór m.a. inn í einnar hæðar verslunarmiðstöðvar sem voru mjög gamaldags með gömlum vörum í. Þar var margt um manninn. Þegar líða tók á drauminn fann ég að ég þyrfti að fara að finna leiðina á torgið til að hitta sambýlinginn/ástmann minn í bílnum hjá bílstjóranum. Það gekk ekki vel. Ég leitaði út um allt að torginu en án árangurs. En var mikið af fólki sem ég mætti í þessum gömlu verslunum á meðan ég var að leita að torginu. Að lokum fann ég lögregluþjón sem ég var sannfærð um að gæti hjálpað mér. Við hann talaði ég frönsku eins vel og ég gat, enda komst ég að því þegar ég talaði við hann að ég væri stödd í borginni Les Jardins des Mandarines. Lögreglumaðurinn gat ekkert hjálpað mér. Ég vissi að ég yrði að finna torgið og komast burt, því á morgun, klukkan 13:30 var áformaður fundur. Fundur þar sem ég myndi hitta manninn sem aðrir höfðu ákveðið að ég ætti að giftast.

mánudagur, 21. apríl 2008

list

Smágerð og fínleg listaverk innan á sturtuhurðinni verða til við hvern hárþvott þessi misserin. Ég er með þykkt hár og eðlilega losnar um slatta af hárum undir eðlilegum kringumstæðum. Þegar ég var með barn í bumbu hætti það en núna hrynur hárið á mér úr höfði mínu. Ekki svo að skilja að ég sé komin með skalla, heldur er ég með ágætan makka, en þetta veldur mér smá heilabrotum á borð við:
á hárið á mér eftir að þynnast mjög og aldrei verða samt aftur?
Þarf ég að nota stíflulosandi eitur í niðurfall sturtunnar?
Ætti ég að snoða mig, því þetta er pirrandi í sturtunni og við hárburstun (annars tek ég ekki eftir þessu.)?
Getur maður fengið hárlos ef maður er snoðaður?

Nóg um það.
Heimsóttum útskriftarsýningu LHÍ á sunnudag. Þessi sýning í heild sinni náði mér ekki eins vel og þær hafa oft gert áður. Ég þarf líka aðeins að setja mig í stellingar til þess að sjá point-ið í welfare- bónus - listinni sem bar stundum á góma á sýningunni. Mörg verk náðu þó að sjóða hausinn á mér og það var hressandi.

Allt í sómanum hér, halleljúka allegjója. Uppi á lofti er verið að brasa við að semja texta fyrir kórinn sem verður hluti af stærri hljómsveit í lokaverki tónsmíðanemandans. Hvers vegna má ekki bara vera da da da do do do dí dí dí fyrir kórinn? Verður merking listar dýpri ef raunveruleg orð eru til grundvallar listaverkinu? Getur listaverk ekki verið til af því bara?

Listarlaus kveð ég með ljós í hjarta.

föstudagur, 18. apríl 2008

Göngutúr í kreppunni

Í mömmuklúbbnum sem haldinn var hérna heima í fyrradag var mér litið yfir stofuna og sá 20 fallega einstaklinga haldandi á snuddum og bleyjum. Hugurinn bar upp svipaða mynd af góðu fólki í stofunni okkar fyrir um ári síðan haldandi á bjór og sígó.

Á horninu á Snorrabraut og Laugavegi voru 2 bílar á rauðu ljósi fyrr í dag. Allt í einu heyri ég dynk og lít við og sé þá stóran ruslapoka liggja á götunni. Innkaupapoka fullan af rusli, drykkjarumbúðum og slíku. Ljósið verður grænt og bílarnir keyra í burtu. Ég veit ekki úr hvorum bílnum ruslið kom, hneykslaðist mjög af vanvirðingu fólks við umhverfið. En kannski er þetta ekkert verra en að henda sígarettustubb út um bílglugga? Fattaði síðan að ég hefði gleymt spæjaramerkinu heima, því ég gleymdi að taka niður bílnúmerin og hringja og kvarta... já hvert hringir maður og kvartar yfir svona löguðu....? Ein sem hefur nógan tíma á höndum sér þessa dagana.

Við gamla útvarpshúsið á Skúlagötu sem nú hýsir Sjávarútvegsráðuneytið hitti ég eldri mann. Hann kom akandi á stóra jeppanum sínum, sá mig með vagninn, keyrði upp á gangstétt og lagði bílnum þar. Þvert í veg fyrir gönguleið mína. Hann vippaði sér út og spurði eitthvað á þá leið hvort hann væri fyrir mér. Já, svaraði ég og sagði það hættulegt að fara út á götuna með vagninn. Hann svaraði því til að jú, verðmætin í vagninum væru mikil, en umferðin væri lítil og því gæti ég nú alveg skotist fram fyrir bílinn á götunni....

Annars þýtur tónlistarhúsið upp. Það verður spennandi að sjá hverjir fá þar inni. Verður skilum há- og lágmenningar viðhaldið, eða fá allir aðgang að húsinu til tónleikahalds? Síðan má líka vera að húsið bjóði ekki upp á það andrúmsloft sem margir kjósa og verði of sterílt með hörðum útúrnýtískulegum plastsætum.

Þrátt fyrir þessa viðburði dagsins í dag, var dagurinn ljúfur og góður. Ég er södd og sæl.
Já kreppan.

sunnudagur, 13. apríl 2008

brjost og bilar

Þá er ungfrúin að ná þriggja mánaða aldri utan þjónustusvæðis. Ekki amalegt það og brjóstin full sem aldrei fyrr. Merkilegt hvað þessi brjóst eru fullkomin. Alltaf nóg að drekka á réttu hitastigi. Athyglisvert er að nú tekur hver drekkutími mun skemmri tíma en til að byrja með og getur farið niður í allt að 15 mínútur á meðan hann var um 60 mínútur fyrst um sinn. Þetta gefur mömmunni meira svigrúm til að athafna sig eins og til dæmis til rannsókna og er lestur ýmissa fræðirita hafinn. Það er gaman. Annað sem vekur furðu er að það skiptir ungfrú S. miklu máli á hvoru brjóstinu byrjað er að drekka. Það vinstra er best í desert og því má aldrei byrja á því í forrétt. Síðan er klassískt að kúka vel og ropa kröftuglega án tafar eftir að búið er að svolgra í sig.

Þegar að þjónustusvæðum kemur, þá hefur þjónusta Reykjanesbúa á bílasölum algjörlega vinninginn miðað við í Reykjavík. Það er engin spurning að næsti bíll sem kemur í fjölskylduna í framtíðinni mun koma af Reykjanesinu. Nú nýlega skiptum við út Hnakkanum fyrir The Red Thunder (sem er dökk-blá-grá Skoda Octavia, keyrð 51000 km, árgerð 2005 (nýrra módelið)) og fengum klárlega besta dílinn á Reykjanesi auk þess að nýjum heilsársdekkjum var hent undir kaggann. Hér í Reykjavík var viðmótið yfirleitt það að fyrst þú varst ekki alveg á kafi í bílum (ég tel mig nú nokkuð vel á kafi í bílum miðað við sambýlinginn) þá varstu ekki ómaksins verð í viðskiptum. Mér dettur líka í hug hvort það hafi skipt máli að ég væri kona í þessum viðskiptum með karlkyns útlending í ,,eftirdragi”. Topgear.com hefur verið mitt hald og traust í þessum viðskiptum auk þess sem pabbi kom í einn bíltúrinn og gaf góð ráð. Annars er allt í blóma og kominn tími á það að maður hætti að vakna við snævi þakta jörð. Sumar og sól takk.

föstudagur, 11. apríl 2008

sunnudagur, 6. apríl 2008

in the ghetto?Í skjóli nætur skrásetti Tagg-art viðveru sína hér í götunni með því að skilja eftir merki sitt HPCS á útidyrahurðinni. Mér brá nokkuð þegar sambýlingurinn tilkynnti mér þetta og varð jafnvel reið án þess að hafa séð merkið. Sú reiði rann fljótt af mér enda hugsa ég vanalega til veggjalistar og graffítis sem ákveðna tegund listforms. Þegar ég svo sá loksins merkið á leið til ömmu varð ég fúl og glöð. Fúl yfir því að það sé ekki einu sinni flott. Glöð yfir því að það rennur ágætlega inn í viðinn og að Taggart hafi séð ástæðu á þeim tímapunkti að merkja þessa hurð. En hver taggar á viðarhurð?

Eins og glöggir lesendur láta ekki fram hjá sér fara má sjá hvítan límmiða á dyrabjöllunni sem einmitt fékk þetta nýja heimili í skjóli helgarnætur fyrir löngu. Enginn hefur einu sinni reynt að fjarlægja hann. Nú verður forvitnilegt að sjá hvað íbúar hússins gera, verður aksjón um að fjarlægja HPCS eða fær merkið að vera?

mánudagur, 31. mars 2008

hælsæri?

Ein ákvað að taka af sér skóna til þess að fara úr sokkunum sem hún stakk í veskið sitt.

föstudagur, 28. mars 2008

ding dong

Himininn litaður rauður af sólinni sem er að setjast. Klukkan er 21:13. Þýðir það þá að vorið sé komið? Í dag fékk ég tölvupóst þar sem sendandi tók fram að þeir í Lúxembúrg segja að vorið komi eftir 2 vikur.

Þegar konan í bleiku joggingbuxunum gekk niður götuna í dag mundi ég hvað ég ætlaði að blogga í gær þegar hún gekk upp götuna í sömu buxunum.

Í húsinu á móti búa a.m.k. 3 kettir í mismunandi íbúðum. Þeir eru gæfir og kelnir og oft stoppa gangandi vegfarendur til þess að klappa þeim. Þá hef ég líka orðið vör við að ferðalangar taki af þeim myndir, en ofar í götunni er gistiheimili og því oft mikið af túristum á röltinu. Konan í bleiku buxunum kom askvaðandi, hægði á sér, beygði sig og klappaði einni kisunni. Eftir stutta stund fór kisan upp á útidyratröppurnar og dvaldi þar um stund. Þá tók konan sig til og dinglaði á dyrabjöllunni og gekk síðan mjög rösklega í burtu. Á leiðinni leit hún nokkrum sinnum til baka, en enginn opnaði fyrir kisu sem sat í makindum sínum á tröppunum.

laugardagur, 22. mars 2008

kaka kuku

í dag fannst þornaður kúkur á milli stóru táar og þeirrar við hliðina á á vinstri fót S.
Í gær fannst mér gaman að fara í fyrstu sveitaferðina með S. Ekki kannski alveg sveita, en út á Reykjanes þar sem sólin skein og skein. Skeina mér eða skeina mig?

Það var brotist inn í bráðnaða páskaeggið í dag. mmm.

fimmtudagur, 20. mars 2008

skirdagur

Í búðinni í morgun gat ég ekki munað hvaða dagur var.
Spurði dökkhærða konu.
Hvíthærður maður spurði mig hvar hvítan pipar væri að finna.
Vildi fá hann í stórum umbúðum til þess að setja í stauka á borðið sitt.

Eftir þetta ævintýri fór ég heim og umpottaði.
Nú eru blómin glöð. Ég er glöð.

miðvikudagur, 19. mars 2008

umhverfi

Af greiddum skatti hverrar bandarískrar fjölskyldu síðastliðin 5 ár hafa $ 25000 verið varið til stríðsreksturs í Írak. Já, bara í Írak og það gera um 2 íslenskar milljónir frá hverri fjölskyldu. En auðvitað fær maður litlu ráðið í hvað skattpeningar manns fara nema maður kjósi rétt...

Ég kaus ekki núverandi borgarstjóra, en komið hefur verið á laggirnar 1,2 og Reykjavík eða eitthvað slagorð í þá áttina þar sem borgarbúar geta sent inn óskir um lagfæringar á praktískum borgarmálum. Sem dyggur og löghlýðinn borgari sem lætur sig umhverfið varða setti ég inn ósk á vef Reykjavíkurborgar þess efnis að hluti gangstéttar hér í götunni yrði þrifinn af maukuðum bunkum af dagblöðum svo það yrði greiðfærara fyrir okkur S. í tryllitækinu vagninum. Og sjá, tveimur dögum síðar var búið að þrífa maukið.

Annars er útlit fyrir það að Hnakkinn fari úr fjölskyldunni fljótlega sökum smæðar. Þess vegna er ég búin að stara á bíla að undanförnu og orðin nokkuð slyngur bílþekkjari. Skoda Octavia (station-týpa) er nokkuð lekker auk þess sem hún hefur hlotið gullna stýrið. Þá veit ég ekki hvort ég myndi vilja stærri vél og beinskiptan, eða minni vél og sjálfskiptan, nú eða dísel. Fáir vistvænir bílar eru í boði sem eru stærri heldur en smábílar (og við þurfum aðeins stærri en smábíl). Helst ber þar að nefna Toyota Prius sem er bara svaka dýr týpa þó maður myndi glaður vilja þannig grip umhverfisins vegna.

mánudagur, 17. mars 2008

dularfullu kassarnir

Þar sem við Sophie Magdalena eyðum dágóðum hluta af deginum fyrir framan gluggann starandi upp götuna gætum við sett á laggirnar njósnaraspæjarafyrirtæki. S. snýr að vísu að brjóstunum á meðan ég horfi út en hún er engu að síður mikilvægur liður í njósnunum sem eiga sér stað. Ef ekki væri fyrir hana myndi ég aldrei sitja svona lengi fyrir framan gluggann. En í dag semsagt með mjög stuttu millibili fór konan á 5 út í bíl með 2 litla hvíta kassa og keyrði á brott. Skömmu síðar renndi bíll upp að 4 og konan þar (með sólgleraugu) fór inn til sín, náði í 2 eins hvíta kassa og fór aftur upp í bíl og ók á brott.

Ég fékk þá flugu í höfuðið um daginn að blogga smá á hverjum degi, en gleymdi því jafnskjótt og hún flaug inn. Náði að gera 1 blaðsíðu í skattaframtalinu í dag. Hef heyrt á 2 stöðum að ekki þurfi að gefa upp bankainnistæður? Fékk góðan gest frá Svíþjóð í te. Hann kom með fallegan sumarkjól handa S. Annars allt bara í blóma enda vorlykt í Lofoten.

mánudagur, 10. mars 2008

þriðjudagur, 26. febrúar 2008

Hvar skal byrja? Þegar nýr fjölskyldumeðlimur hefur bæst við og er óhjákvæmilega stór hluti af lífi manns og líkama manns vegna þess endalausa tíma sem fer í brjóstagjöf verður ekki komist hjá því að fjalla um alla þessa reynslu á þessu bloggi. Þess vegna mega lesendur ekki láta sér bregða þegar fjallað verður í tíma og ótíma um börn, bleyjur og brjóst. Allt er að gerast, við að kynnast og það er gaman. En hér er ég núna, alltaf að blogga. Já, heyrði nýtt orð um daginn þegar vinkona mín sagði: ,,... já, ég ætla bara að secreta þetta til mín...”

Bókina Íslam með afslætti las ég um daginn og naut vel. Athyglisverð og þörf lesning, en frágangur bókarinnar og yfirlestur var frekar losaralegur. Frábært framtak þó hjá Nýhil að koma þessari bók út með greinum eftir bæði lærða og leikna. Næst á dagskrá eru The Yacoubian Building, Under the Black Flag (söguleg sjóræningjabók) og ævisaga Jayne County – Man enough to be a woman. Annars er gomma af barnabókum í lesningu, um það hvernig maður á að höndla ungabörn, afar mikilvægt fyrir manneskju eins og mig sem þorði varla að halda á ungabörnum fyrir stuttu síðan.

Það voru nokkur atriði í kjölfar fæðingarinnar sem komu mér verulega á óvart. Brjóstagjöf er ekki eitthvað sem gerist náttúrulega hjá móður og barni, heldur er það þjálfun, þolinmæði og þrautsegja, gleði og notalegheit sem fylgja. Tíminn sem fer í svonalagað er ógurlegur en sem betur fer er ég ennþá soldið tímalaus. Umræður foreldranna eru að miklu leyti um það sem fer inn og kemur út úr barninu og í þessum töluðum orðum vorum við að velta fyrir okkur sprey-mist-hægðum eða á betri íslensku: frussukúk. Þá hafði ég ímyndað mér að öll ungabörn litu nokkurn veginn eins út. Það var ekki fyrr en ég mætti í mömmuklúbb yoga-mæðra sem allar höfðu átt börn á svipuðum tíma að ég áttaði mig á því að ungabörn hafa öll sín sérkenni og eru jafn ólík og fullorðið fólk. Það var líka þá sem ég andaði fyrst léttar yfir því að möguleikarnir snarminnkuðu á því að ruglingur á börnum á spítalanum hefði átt sér stað. En um tíma hugsaði ég með mér að það hefði alveg getað gerst... Læt fylgja eina mynd af mánaðargamalli stelpu að chilla.

fimmtudagur, 31. janúar 2008
Hi.

Mass emails have never been my thing. However, on this occasion of
my daughter's birth I feel it makes sense to do this. So there you
have it.
She was born at 23:49 on the 24th of January 2008. She was 4.59 kg
and 52cm long, which tricked everyone in the hospital into thinking
she was a boy.
She has no name yet, at least none that we're telling anyone. Anna
Katrin is doing very well, resting etc... I've never been happier,
sleepless, etc...

If you have any specific questions you'd like to ask, I'd be happy to
oblige and hone my skills as a proud father. It's a very odd
feeling, as if time has slowed to a crawl. It's also very odd to
look at someone who has never existed and feel like they've always
been there. I know that sounds cheesy / druggy, but it's true.

More on the name later... I think you'll all agree that she's workin'
some serious attitude. Just you and me, punk rock girl.
So far, her favourite albums are Abbey Road and The Reminder by
Feist. She thinks the Ramones are okay, but kinda repetitive.
She likes to be sung Johnny Cash songs, especially the ones about
mining, but she isn't so keen on the recordings.

I hope all is well with all of you.

Alex & Anna Katrin

sunnudagur, 20. janúar 2008

sunnudagssol

Spenningurinn magnast, eða kannski er það bara utanaðkomandi spenningur sem elskulegir ástvinir senda okkur. Takk kærlega fyrir kveðjurnar, það er óneitanlega styrkur í því að vita að fólk er að hugsa til manns. Við erum bara frekar róleg, enda eðlileg meðganga allt að 42 vikur og sá tími er ekki enn runninn upp. Auðvitað verður látið vita þegar baby mætir á svæðið. Annars líður mér bara mjög vel, horfi hugfangin á hrafnana leika sér, bíð eftir að tunglið fyllist pínu betur og ætla að fara út að njóta sólarinnar. Það er ekki annað hægt en að senda gleðistrauma út á þessum fallega sunnudegi. Friður.

þriðjudagur, 15. janúar 2008

41 vika


Allt í rólegheitunum hérna megin. Stundum hugsa ég til þess þegar ég hef haft svo mikið að gera að ég hef þráð að eiga stundir þar sem ég hef ekkert að gera. Núna eru þær stundir runnar upp... Ég er að reyna að vera þakklát fyrir þessar þöglu stundir og njóta þeirra í botn. Listin að dunda sér er mér ekki framandi, en segja má kannski að ég sé ekki í þjálfun. Erum við að tala um lognið á undan storminum? Ég hlakka mikið til þeirrar reynslu sem bíður handan við hornið og sama má segja um hinn verðandi pabba sem er svo spenntur að hann vaknar syngjandi og trallandi og segir það vera barninu til góða. Of mikið af hinu góða getur aftur á móti farið í taugarnar á mér sem millilið.

Það var farið í hossubíltúr upp á gamla mátann og ég meikaði bara alls ekki Sonic Youth og Blonde Redhead. Ég bara gat ekki hlustað á þá annars góðu tónlist. Hvað er að verða um mig? Er ég bara að verða ógó væmin týpa sem getur bara hlustað á nýaldartónlist Klaus Wiese og Búddamunka? Mér finnst svosem spennandi að leyfa væmninni að blómstra og spretta út hjá mér í nýju hlutverki. Önnur heimilisráð eru prófuð í tíma og ótíma, en næst á dagskrá er að afla upplýsinga um ilmkjarnaolíurnar Clary Sage, Jasmín og Ylang Ylang. Mary Popplove benti síðan á eitt rauðvínsglas á dag sem hljómar bara alls ekkert illa, en henni óska ég gleði og gæfu á nýjum vettvangi. Og til að enda þetta, þá er ég sannfærð um að barnið viti best hvenær það á að koma, ég hef lítið sem ekkert um það að segja og er bara ofsalega spennt fyrir því að hitta þetta barn og þakklát fyrir að meðgangan hefur gengið eins og í sögu og enn líður mér vel í góðum fíling. Ást og friður til ykkar allra.

þriðjudagur, 8. janúar 2008

40 vikur i dag

Súpa með kókosmjólk og sætum kartöflum

1 kg sætar kartöflur –
afhýddar, skornar í teninga, olífuolía yfir þær og inn í ofn í svona 25 mínútur við 200 gráður.

1 mtsk rautt karrí mauk (red curry paste) –
Kartöflurnar settar í pott eftir baksturinn og karrýmaukið sett út á kartöflurnar í pottinum.

1 líter kjúklingasoð –
sett út í pottinn og allt maukað með töfrasprota þangaði til mjúkt og kremkennt.

400 ml kókosmjólk –
sett út í heita súpuna, öllu blandað vel saman og hitað í smá stund.
Njótið vel.

þriðjudagur, 1. janúar 2008

Hjá mér gekk árið 2007 í garð niðri við vatn á Cape Breton eyjunni hjá tengdafjölskyldunni þar sem var brenna og gleði. Sveitalífið þar á vel við mig þar sem allt er dimmt og kyrrt á nóttunni, brakið í trjánum og vatnsniðurinn spilar undir þegar maður læðist út í skúr að reykja.
Vorönn ársins einkenndist af skólavinnunni minni sem fól í sér að klára ritgerð til m.a.-prófs í mannfræði sem fjallaði um konur í jaðartónlist í Reykjavík. Eitt af skrifborðum mínum leit svona út um tíma:

Að vera að vinna svona lokaverkefni fól líka í sér þátttöku í háskólasamfélaginu á ýmsum skapandi og skemmtilegum sviðum og þannig hitti ég þá Hjálmar og Þórð sem ég vinn nú að rannsókn með um tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. Sumarvinnan mín var eðlilegt framhald þess sem verið hafði og notaði ég styrkinn sem ég fékk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Mannfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að taka viðtöl við 10 tónlistarmenn og –konur sem tekið höfðu þátt á Airwaves 2006. Þess vegna var sumarvinnan mín alveg frábær.

Í byrjun maí var ég hætt að reykja enda komið barn í bumbu sem er mikið gleðiefni. Ég velti því líka oft fyrir mér hvers vegna þetta barn sem fer bráðum að fæðast velur okkur fyrir foreldra. Síðan var stundum svolítið skrítið að upplifa það að vera kannski búin að vera að hjóla heim úr vinnunni og allt hringsólaði fyrir augunum á mér, flassbökk, endurminningar, nýjar minningar og fleira skringilegt í þeim dúr. Kannski var þetta bara barnið að verða meira til og verund þess?

Yogað er alltaf hluti af lífi mínu, og nú er ég búin að stunda það í mörg mörg ár, a.m.k.15. Ég hreinlega elska yoga og get ekki án þess verið. Þess vegna skiptir það mig miklu máli að vera með góðum kennurum þar og annars staðar í lífinu.

Og síðan varð ég bara óvart aftur kennari í haust (að vísu fyrir fullorðna) þegar Alþjóðahúsið réð mig í íslenskukennslu og önnur verkefni. Soldið fyndið, því ég var ekkert búin að stíla inná það að vera að fara að kenna aftur. En þessi reynsla var mér ofurdýrmæt og skemmtileg.

Tillitssemin alveg að gera út af við Kanadabúa, en í sumar fórum við aftur til Kanada m.a. til þess að vera viðstödd þegar Jean mágkona mín myndi eiga sitt fyrsta barn. Við vorum búin að reikna og reikna til að við myndum örugglega ná að hitta nýjustu manneskjuna. En svo fór sem fór, Elizabeth Jean fæddist þegar við vorum í flugvélinni frá Halifax til Keflavíkur og ég hlakka mikið til að hitta hana.

Aðrir fjölskylduvænir atburðir:
Mamma sextug, Katrín (systurdóttir mín) tvítug, ég og partner þrítug, brósi flytur til New York, hinn brósi gengur í hjónaband, ég skráð í sambúð í Þjóðskrá og úr þjóðkirkjunni, ein systir mín flytur aftur með fjölskylduna frá Húsavík í Hafnarfjörð. Fullt af fallegum börnum fæðast vinum mínum, eins og Guðjón Ísak, Freyja, Konráð Ari, Valdís Árný og Pétur.

Tónleikar:
Björk í Laugardalshöll – Curver + Kimono í Kling og Bang - Konono nr.1 í Hafnarhúsi - Danielsson í Fríkirkjunni - Iceland Airwaves 2007.

Ég sendi ykkur gleði, ljós og frið á nýju ári.