laugardagur, 29. desember 2007

system overload

x: mhat thie tis hsi hohj
ak: ha?
x: mhat thie tis hsi hohj
ak: ha?
x: mhat thie tis hsi hohj... ertu með banana í eyrunum?
ak: nei, en ég er með bjúg í eyrunum!

Allt greinilega hægt þegar maður er að springa úr ófrísku. En bara í hægra eyranu samt. Það sér ekkert á því, við erum ekkert að tala um fílamannseyrað, það er bara stundum svona seyðingur innan í því.

Fyrirvaraverkir láta gera vart við sig, sér í lagi eftir að ég rústa partner í Guitar Hero. Hann er farinn að segjast ekki vilja spila við mig lengur til verndar heilsu minnar og baby...

Annállinn er í hugrænni vinnslu og vonandi birti ég hann hér fyrr heldur en síðar.

föstudagur, 21. desember 2007

mánudagur, 17. desember 2007

Jörð Vatn Loft Eldur

Heppnin, lukkan og gæfan fylgja mér þessa dagana og ég er viss um þær eigi eftir að fylgja mér áfram. En ég á heilladísir, vinkonur mínar sem voru svo yndislegar að framkvæma mæðrablessun að hætti Navajo-indjána, sjá nánar hér
.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa sérstöku stund sem við áttum saman, en í stuttu máli sagt var þetta mér mjög dýrmæt gjöf og þakka hér með opinberlega fyrir mig. Þá ber að bæta við að heilladísirnar eru góðir kokkar og fylltu frystinn okkar af ýmsu góðgæti sem á eftir að fylla munna og maga af gleði og næringu.

Síðastliðinn föstudag náði ég að klára öll verkefni vinnunnar þannig að nú er ég komin í fæðingarorlof. Það er pínu skrítið. Í upphafi meðgöngunnar gat ég ekki gert mér í hugarlund hvernig það myndi vera eða bara hvernig ég myndi vera þegar síga færi á seinni hlutann, nú eða sumir myndu bara kalla þetta loka-sprettinn. En tíminn líður og mér líður vel og ég er viss um að barninu líður vel og þetta er bara allt í góðu. Yogað og sundið eru akkeri mín, auk þess sem ég heimsótti bókasafnið á föstudaginn til þess að verða mér úti um lesefni fyrir andvökunætur. Ég skil einmitt ekki þetta með það að vakna á nóttunni og geta ekki sofið, jafnvel þó barnið sé kannski líka sofandi. Það er alveg skiljanlegt að vera vakandi og geta ekki sofið þegar barnið er á fullu spani. En hitt skil ég ekki. Kannski er bara verið að æfa mann í því að vera vakandi á mismunandi tímum sólarhringsins og taka því eins og það er...

Á föstudaginn var síðasta stundin mín með ólæsu konunum sem hafa verið með mér í haust, en þær konur eru án efa skemmtilegustu nemendur mínir í vetur. Enda ekkert skrítið að hafa gaman þegar svona fallegar konur eru komnar saman með það að markmiði að eiga góða stund, jafnvel læra eitthvað, nú og hlægja saman. Konur sem tala tungumál heimalandsins, kunna sjaldan að skrifa eða lesa það og íslenskan er þeim framandi heimur þar sem stafrófið er yfirleitt gjörólíkt því sem þær hafa kannski einhvern grunn í. Latneska stafrófið og hljóðkerfið sem er hér við lýði er bara nokkuð flókið þegar betur er að gáð miðað við t.d. arabísku, nepölsku eða tælensku. Þegar íslenskukunnáttan er takmörkuð reynir á leik- og teiknihæfileika sem náttúrulega blómstruðu hjá okkur á oft mjög fyndinn hátt. Já, ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum sterku konum, frumkvöðlum sem búa í nýju landi, frumkvöðlum að því leyti að hér eru þær að sækja sér betra líf sem þær vonast yfirleitt til að geta deilt með öðrum fjölskyldumeðlimum heimafyrir, eins og t.d. börnum sínum sem eru ekki hér. Þetta námskeið sóttu konur sem eru yfirleitt utan vinnumarkaðar og hafa fá tækifæri til þess að eiga í félagslegum samskiptum við aðra. Þrátt fyrir bágar og oft ömurlegar og sorglegar félagslegar aðstæður þeirra (að mati velflestra Íslendinga) voru þær alltaf glaðar og bjartar, brosandi og hlæjandi. Þessar konur voru líka kennararnir mínir enda lærði ég fullt um sjálfa mig og önnur efni bara af því bara að vera með þeim. Næsta verkefni er að fá sér tesopa með slettu af ást og friði fyrir okkur öll.

þriðjudagur, 11. desember 2007

sjónræninginn & joðlarinn

Ég var stödd í suður Þýskalandi, gekk eftir grænum engjunum, hlíðunum og ökrunum. Þar var margt um manninn, allir að jóðla. Ég var semsagt mætt á jóðl-mót og til í tuskið. Rosa fjör. Þarna voru m.a. jóðl-pönkarar sem tóku þátt og gerðu það með prýði. Sjálf tók ég ekki þátt en leið soldið eins og mig minnir að ég hafi upplifað bækurnar um Heiðu. Náttúran græn, mjúk og fín.

Úr öðrum raunheimum er það síðan að frétta að um daginn fór ég á Ceilidh á Íslandi. Hingað til hef ég bara farið á þesskonar samkundur í Kanada. En þar var sko fjör og allir að dansa eins og enginn væri morgundagurinn (svona til þess að nota frasa sem er einmitt ofnotaður í dægurskrifum nútímans). Í þetta skiptið meikaði ég ekki að dansa neitt þar sem ég er svona soldið þyngri á mér en vanalega, en næst mun ég dansa og hrista fram úr pilsfaldinum alla þá dansa sem gömlu mennirnir í Kanada hafa kennt mér. Semsagt skoskt danskvöld, lifandi tónlist og ótrúleg stemning.

Partner uppi á spítala í augnaðgerð. Ég sit við símann og bíð, reddý að fara að sækja. Vona að hann þurfi ekki að sofa þar. Ég hef alltaf fílað sjó(n)ræningja.

fimmtudagur, 6. desember 2007

sunnudagur, 2. desember 2007

upp upp

Pistill dagsins verður m.a. tileinkaður upphækkunum, en úr úthverfunum bruna þau, á upphækkuðum jeppum... Alltaf þegar eitthvað er um að vera í miðbænum (eins og menningarnótt, 17. júní og ljósin kveikt á jólatrjám) verða íbúar Grjótaþorpsins og þar fyrir ofan varir við ógurlegt safn bíla sem safnast saman uppi á gangstéttum í veg fyrir gangandi vegfarendur. Yfirleitt truflar það mig ekkert sérstaklega en það er mjög fyndið að sjá fullorðið fólk leggja kolólöglega og hlaupa af stað úr bílum sínum með börnin í eftirdragi til þess að missa ekki af neinu. Hvernig væri að fara fyrr af stað?

Aðrar upphækkanir eiga sér stað í rúminu. O sei sei, ekkert dónó hér á ferð, nema það að hin sístækkandi bumba er farin að krefjast aukins stuðnings og því hef ég hertekið alla kodda og púða heimilisins til að láta fara sem best um mig á nóttunni. En baunina er hvergi að finna, þó ég vakni ótt og títt á hverri nóttu. Það gerir það að verkum að ég er yfirleitt mjög þreytt, líka á daginn. Þess vegna er staðan sú að ég er komin með vottorð læknis upp á það að minnka vinnuna í 50%. Það ætti að verða munur nú þegar rúmlega 1 mánuður er eftir af þessu fyrirbæri sem meðgangan er. Annars get ég sagt að mér líði almennt mjög vel.

Þá eru skötuhjú þessa heimilis farin að stunda leiki á borð við að fara upphátt með stafrófið og segja nöfn fyrir hvern staf sem þeim dettur í hug. Verst er að ég kann stafrófið svo illa þannig að hinn fær alltaf að byrja, Zorro og Zelda í gær... spennandi að sjá hvað kemur upp úr krafsinu í dag... kannski Pókemon og Píla Pína. Annars bara gleði og friður.