þriðjudagur, 30. september 2008




Myndirnar fara hægt inn í tölvuna mína þar sem hún er alltaf að gera eitthvað annað. Kaldur vindur í kvöld og ég sá glitta í Norðurljósin.

fimmtudagur, 11. september 2008

kúkínögl

Að bera hönd sína að andlitinu og finna gamla kúkafýlu úr pínulitlu kúkakorni fast undir einni nöglinni getur orðið leiðigjarnt dag eftir dag.

þriðjudagur, 9. september 2008

Daycare

Fyrsti í yoga í gær, fyrsti í dagmömmu í dag.
Ég tók einn sundsprett á meðan pían var ein í fyrsta skipti (stefnt er á 12 - 17 í framtíðinni). Aðskilnaðarstefnan, brjóstagjafaminnkun, öðruvísi frelsi fyrir móður og dóttur, gleði, grátur og gaumur.

Saftað í koníakflöskur. Galdrað á meðan hrært var í. Heppin að eiga mömmu sem kennir manni svonalagað. Spurning um að fiffa garðinn fyrir veturinn?

miðvikudagur, 3. september 2008

Svipmyndir úr smábæ

Hádegismaturinn var yfirleitt aðalmáltíð Madame Adeleine Blanc. Með henni fögnuðum við 93 ára afmæli hennar með ís og köku. Annars borðuðum við oft hádegismat með Adeleine ömmu Sophie Lavoie og Manon Lavoie, vinkvenna okkar. Hádegismaturinn var líflegur og oft rifist hátt og hvellt yfir saltmagni, edikmagni í salatdressingu, hvort morðinginn væri kominn aftur í götuna, hvort hann hefði tekið saman við yngri konuna á meðan hann sat inni, hvers vegna stólarnir fúna, nú eða hvort smábörn megi borða sykur, baguette og banana. Það var gaman. Adeleine elskar Scrabble og eftir hádegismatinn, áður en Siestan hófst spilaði hún oft við Sophie og Manon. Adeleine átti það til að svindla svolítið í spilinu.

Í öll þau ár sem Adeleine var gift Henri Blanc sem dó í fyrra sá hún um fjármálin og heimilið. Henni tókst að halda vel á spilunum og á nú enn íbúð í Marseille auk hússins sem hún býr í í Ribiers. Engin króna fór framhjá henni eða þar til Henri birtist einn daginn með umslag handa henni fullt af peningum. Hún spurði engra spurninga og enn veit enginn hvaðan peningarnir komu.

Adeleine var fyrst til að segja mér að Frakkar hefðu unnið Íslendinga í handboltanum hér á dögunum, en ég vissi ekki af leiknum. Hnén eru farin að láta segja til sín, en Adeleine fer oft á tíðum í styttri gönguferðir, sest á bekkinn fyrir ofan þorpið og horfir á fjöllinn með lokuð augun. Hnén eru þó ekki það slæm að hún rýkur upp úr eldhússtólnum og ætlar að æða út við heitar umræður þegar hún er gagnrýnd. Enn litar hún hárið á sér ljóst þó það sé orðið hvítt og notar stafinn sinn til þess að slá fíkjunum sem eru í vegi hennar á götunni.

Yngri kynslóðin átti líka sínar sögur. Einn af kunningjum okkar talaði opinskátt um reynslu sína af vændiskonum og ætlaði að hætta að hitta þær 15. september. Sá hinn sami hafði gefið út bók, en aldrei komst ég að því um hvað hún fjallaði. Önnur reddaði 9 manna gulum bíl (með stýrinu vinstra megin) til þess að koma okkur á tónleika. Eplauppskeran var að byrja og farandverkamaðurinn sá eina möguleikann á skemmtun á kvöldin að ríða. Hundur bareigandans dó. Faðir hins bareigandans (21) keypti barinn handa honum, vann sjálfur í eitt ár á barnum verandi í ársleyfi frá vinnunni sinni áður en hann tók son sinn úr skóla þá 16 ára til þess að sjá um barinn.

Skemmtun okkar, litlu fjölskyldunnar fólst í því að vera saman í nýju umhverfi. Við fórum reglulega í sund, bæði í gilið og í sundlaugina. Nokkrar ferðir á barinn á hverjum degi var algengt enda tókum við þá meðvituð ákvörðun um að kaupa ekki kaffivél, þar sem það var engin í hesthúsinu, heldur fara frekar á barinn og hitta fólk. Það gekk vel, enda bærinn lítill og vinalegur. Jazzkvöldið og kvöldið þegar cover-hljómsveitin spilaði á torginu hjálpaði okkur líka til við að kynnast stemmningunni.

Aix-en-Provence var heimsótt, enda hittumst við kæri þar fyrst og ekki hægt að sleppa því. Sú borg hefur mikið breyst á 11 árum. Ég verð samt að taka til greina þann möguleika að ég hafi breyst. Mér fannst þó sama lyktin vera til staðar. Heit borgar-matar-sólar-hellu-lykt. Einn daginn röltum við í garðinn (Parc Jourdan) í Aix til þess að slappa af og njóta blíðunnar. Ég vildi gefa brjóst í skugga og fann lausan bekk við hliðina á unglingahóp. Yfirleitt hef ég gaman af því að vera í návígi við ólíka hópa þjóðfélagsins og kippti mér ekkert upp við það þó þau reyktu hass og ærsluðust. Það var þegar einn strákanna tók upp hníf (týpan þegar blaðið þýtur upp þegar maður ýtir á takka að ég held) að mér stóð ekki á sama og við tókum saman föggur okkar til að færa okkur um set og klára brjóstagjöfina á öðrum sólríkari bekk.

Marseille var jafn hávær, rykug og skítug og mig minnti, en yndislega lifandi og litrík. Þar kynntumst við Béatrice og Eric sem vinna hjá félagsþjónustunni í Marseille. Já, best að taka það fram að allir þeir Frakkar sem við kynntumst púuðu á Sarkozy. Skv. Béa og Eric er ástandið ömurlegt í Marseille þegar kemur að minnihlutahópum. Fátækt hefur aukist til muna en Béa vinnur við að hlúa að börnum innflytjenda sem búa við erfiðar aðstæður, skoða aðstæður þeirra, fara með þau í réttarsal o.þ.h. og Eric vinnur með fólki sem er í vændi (80% kvenna og 20% karla). Í Marseille var Alex spurður hvar hægt væri að kaupa sterkt dóp og þjónninn á litla tapasbarnum kallaði einn viðskiptavininn (kvk) hóru eftir að henni fannst reikningurinn eitthvað hár.

Þess utan var líf okkar þriggja rólegt og notalegt og ég er þakklát fyrir að hafa átt svona góðan tíma. Sophie Magdalena varð veik í fyrsta skipti og við fórum á sjúkrahúsið í næsta bæ (þar sem ekkert er í Ribiers) og fengum jafn góða þjónustu og er sýnd í myndinni Sicko. Sophie jafnaði sig fljótt án lyfja (Roseole var nafnið á pestinni). Það var líka gott að fá að upplifa það að það er ekkert mál að ferðast með ungabarn. Við komumst meira að segja fram fyrir röðina í Louvre vegna þess að við vorum með kerru! Í fyrsta sinn fórum við skötuhjú í Louvre höllina til að berja listina augum. Nutum nokkurra daga í París á leiðinni heim og fórum fótgangandi út um allt auk þess að taka Batobus (Signu-strætó). Í París heimsóttum við líka Moskuna og Notre Dame dómkirkjuna (í fyrsta sinn) og vorum yfirhöfuð mjög staðfastir ferðalangar. Nú er bara að detta inn í íslenska raunveruleikann. Spennandi sjómennska á sólríkum dögum.

þriðjudagur, 2. september 2008

Svipmyndir úr smábæ

Komin heim. Sjávarlyktin mætti mér úti á svölum og grassprettan í garðinum með ólíkindum í þennan eina mánuð sem leið.

Lífið í Ribiers var svalt. Það var kaldara inni í húsinu okkar, sem var einmitt hesthús ljósmóðurinnar í sveitinni. Þegar konurnar á bæjunum í kring uppi í fjöllum voru komnar að því að eiga hengdu þær hvítt lak út. Húsin í götunni voru byggð á 17. öld. Gatan var aðeins breiðari en einn faðmur á minn eigin mælikvarða. Lítill Fiat gat bakkað upp hluta af henni þegar mennirnir frá Marokkó og Túnis voru að fara að laga baðherbergið hjá sér. Þeir voru nágrannar okkar og færðu okkur 11 nýtíndar perur á fati daginn áður en við fórum.

Madame Thérese Martin bjó á neðri hæðinni beint á móti. Sonur hennar og kona hans, ásamt dótturinni búa á efri hæðinni. Maður Madame Martin dvaldi nokkuð lengi á spítala á meðan dvöl okkar stóð og því náðum við ekki að hittast. Á hverju kvöldi fyrir háttinn mátti heyra Madame Martin ganga heim segjandi bænir upphátt. Hún heimsækir Maríu Meyjar styttuna sem er rétt við bæjarfótinn á hverju kvöldi.

Í Ribiers búa um 600 manns. Að sjálfsögðu er heilsast með kossum, 3 í Ribiers en annars staðar geta þeir verið 1 eða 2. Eftir að maður er búinn að kynnast einhverjum eða hitta einhvern í 1 skipti. Þá er það bókað að maður kyssist í næsta skipti þegar maður hittist og oft þegar maður kveður. Þessi siður gerir það að verkum að maður fær að nota lyktarskynið og snertiskynið á annan hátt en ella. Til dæmis var ein alltaf með of mikið af ilmvatni þannig að það sat í vitum mínum eftir að við heilsuðumst. Það pirraði mig mikið. Kannski líka af því að mér líkaði ekki lyktin. Orðrómurinn segir að þessi tiltekna kona sé alki. Ein var kölluð garðkonan því hún stal dóti úr görðum. Þar sem Ömmudóttir Madame Martin bjó til armband handa Sophie Magdalenu, með kuðung á. Á milli barna tíðkast að kyssa bara einu sinni í Ribiers.

Í Seinni Heimsstyrjöldinni var pabbi Madame Martin skotinn til bana á torgi Ribiers, eina stóra torginu, miðjunni sjálfri, Place de la Fontaine. Hann var skotinn af meðlimum Frakka, La Resistance. Enda hafði hann verið að leka upplýsingum til óvinarins. Enginn þorði að taka líkið svo dögum skipti. Þarna var Madame Martin um 10 ára gömul og í dag er sagt að hún sé mjög skrítin. Er það skrítið?

Að tala frönsku kom fljótt. Kannski af því að maður stökk bara út í djúpu enda engar grunnar laugar þarna á slóðum þó bærinn standi uppi í fjöllum með nóg af fersku góðu fjallavatni. Draumar mínir voru æsispennandi á meðan dvölinni stóð.

Myndir og meira seinna.