fimmtudagur, 26. febrúar 2009

update

Á fjórða og fimmta kvöldi tók ferlið minna en eina mínútu.
Getur það virkilega verið? Að eins árs barn fari bara sjálft að sofa no problemo baby? Ég er viss um að héðan í frá eigi svefn S.M.M. eftir að vera leikur einn og panta það hér með. Maður er sko alltaf að læra eitthvað nýtt. Gaman það og líka gengur bökun mjög vel. Listrænt frelsi voru orð tilvonandi eiginkonunnar.

Þegar ég heyrði umferðarfréttir utan af landi og lýsingum á ástandi vega tók ég til baka fullyrðingar mínar um vorkomu um stund. Þó vindar blási hér í kvöld er ég aftur komin í vorfílinginn!

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Tímavörðurinn, kökugerðarkonan og vorlyktin

1:33 er alveg dæmigerður tími til þess að kíkja á skeiðklukkuna. Þá er búið að aumka sér inni í rúmi í 1:33. 27 sekúndum seinna vind ég mér inn aftur til að bjóða góða nótt. Á þriðja kvöldi tekur þetta ferli 20 mínútur. Á þeim tíma er margt hægt að gera til að stytta sér stundir. Þvotturinn brotinn saman. Gengið frá í eldhúsi. Gengið frá dóti í leikstofunni. Góður tími sem nýtist einstaklega vel undir óvenjulegri músík. Vanir segja að maður megi ekki missa móðinn. Á endanum fer barnið sjálft að sofa til þess eins að vakna glatt og brosandi daginn eftir. Og auðvitað verður mamman líka glöð og brosandi. Alltaf að átta mig meira og meira á því að ég sé komin í nýtt hlutverk og mér líkar það vel.

Hlutverkið kökugerðarkonan er annað sem er nú í bígerð. Ég mun leggja ást, einlæga gleði og frið handa öllum, til viðbótar við uppskriftina. Ég vona að þeir sem njóti fái þá strauma í hverjum munnbita. Spennandi verkefni og í kvöld fékk ég mörg góð kökuskreytingarráð frá systur minni. Ég hef ákveðið að nota fersk bláber, kannski svona 13 á hverja köku sem ég lími með bræddu súkkulaði. Blái liturinn varð fyrir valinu til að tóna við brúðarkjólinn.

Síðan er ég ekki frá því að vorið sé ekki langt undan. Laukar komnir upp í Þingholtunum. Vottur af vorlyktinni berst úr órafjarlægð langt utan af hafi og tekur sinn tíma til að komast í land.

föstudagur, 13. febrúar 2009

vetrarhátíð

3 kindur í næsta garði hér í 101.
meeeeeeeeeee

mánudagur, 9. febrúar 2009

Hrísgrjónasalat frá Bali

Æði gott salad þar sem dressingin spilar skemmtilega á bragðlaukana.

Dressing:

½ bolli mango chutney (stóru bitarnir saxaðir niður ef maður nennir ekki að gera dressinguna í blandara)
2 mtsk. Edik (hrísgrjóna eða cider)
2 mtsk. Olía
2 mtsk. Ananassafi
1 mtsk. Soya sósa
1 hvítlauksrif (pressað eða skorið smátt)
1 tsk. Salt
Pínu Cayenne pipar.

Salat:

4 bollar af soðnum brúnum hrísgrjónum
1 bolli ananasbitar
1/2 saxaður laukur
2 sellerý stilkar skornir í bita
1 paprika skorin í bita
½ bolli rúsínur
Öllu blandað saman og dressingin út á.
2 bollar mung baunaspírur
1 bolli baby corn (fæst niðursoðið í dósum)
bætt varlega við salatið.
½ bolli ristaðar hnetur yfir allt í lokin.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

saur og þvag

Á Klambratúninu í dag skein sólin, þar var kalt og inni í safninu var margt um manninn. Skáklistasýningin er góð og ég hugsaði með mér hverstu sneddý þau voru sem stýrðu sýningunni. Að fá þetta forvitnilega safn listaverka sem öll fjalla um taflborðið. Frekar klassískt að nota dæmigerða húsmuni, mat og eldhúsdót sem skákmennina en þarna voru líka súrari verk auk eins eftir Damien formalínsgaur Hirst. Þrátt fyrir að S.M.M. hefði bara verið bleikrauðklædd spurði einn eldri hvort hún væri strákur.

Amma mín er með alshæmi eins og hún sjálf kallar það í daglegu tali um alla aðra en sjálfa sig. Í samræðum sem spunnust upp af Bréfinu vakti hún athygli á því að sauri og þvagi hefði verið beitt í mótmælunum. Ekki þrautsegju og staðfestu íslensku þjóðarinnar sem mótmælti og mótmælti. Svona er það nú, þegar allt kemur til alls er það úrgangurinn sem fólk man.

Bókin er Óreiða á striga sem ég svolgra í mig eins og ég gerði með Karitas án titils sem kemur á undan. Nákvæmar lýsingarnar eiga vel við mig, hvort sem Kristín Marja Baldursdóttir lýsir kolaeldavél, briminu, samskiptum, síldarsöltun, lífinu í París, Laugaveginum eða náttúrunni á fyrri hluta 20. aldar. Mæli með þessum skít.

Næst á dagskrá er að horfa á mynd um Simone og Jean-Paul. Þarnæst á dagskrá er að fara á námskeið hjá skattstjóra í reikningsskilum fyrirtækja, tónlistarnámskeið með S.M.M., kaffi, brauðbakstur, yoga, ganga og sumarbústaður. Nú og kannski detta inn í útvaldar myndir Óskars þetta árið og hingað til stendur Slumdog Millionaire uppúr. Bókin var líka æðigóð en hún kom frá B&B sem ég sendi bestu kveðjur. Ást og friður.