föstudagur, 21. maí 2010

andandi

Kvöldsólin gerir laufblöðin ógurlega skær svona þegar liðið er á maí.
HÆ. Ekkert amalegt að það styttist í sumarfrí. Prófum lauk í dag. Nú er bara að ganga frá. Mér finnst gaman að ganga frá. Sérstaklega eftir á, þegar ég er búin að ganga frá. Það hreinsar líka til í hausnum á mér. Líkami og andi, andandi.

Nokkur atriði til afreka yfir Hvítasunnuhelgina: matarinnkaup, yoga, bókabúð+útskriftarveisla, Húsdýragarðurinn (get ekki verið þekkt fyrir að 2ja+ ára barnið hafi aldrei komið í HDG eða í tæri við lítil lömb og unga og önnur dýraafkvæmi), sund, Kaffiboð á gamlar slóðir, Lísa í Undralandi, athuga með lakk á snagann, hengja upp 2 ljós. Almenn gleði og grænka. Vei sumarið er næstum því komið...

föstudagur, 7. maí 2010

Tilraunastofan

Á góðum stað á góðri stund. Nú loksins kalla ég þetta vor. Ilmurinn, birtan og það að geta verið úti án þess að verða úti. Náttúran kallar á mig. Ég verð komin í sumarfrí áður en ég veit af. En ég er nú aðeins byrjuð að laumast í náttúruna sem er svo mögnuð vera.

Umpottaði kálinu mínu í dag og það lítur svolítið slapplega út eftir að það er komið í stærri potta. En ég trúi að þetta séu harðgerar plöntur... en ekki hvað? Næst á dagskrá þegar þær eru búnar að venjast stóru pottunum er að þjálfa þær í útiveru. Taka þær inn á nóttunni.

Almennur hressleiki. Kaffið komið aftur inn í líf mitt eftir 3ja vikna kaffipásu! Byrjuð að lesa Hjómið eitt sem er frekar niðurdrepandi en spennandi samfélagsaðstæður. Bíð spennt eftir að sjá kynbættan lista B.F. Hlakka til morgundagsins. Ást og friður.

þriðjudagur, 20. apríl 2010

cinematic baaa

jahérna hér. Hélt að ég væri að fara að hlusta á nýjustu Cinematic Orchestra en allt kom fyrir ekki. Hér er margt að gerast enda lögboðið vor fyrst sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn. Nýjir einstaklingar hafa fæðst í þennan heim sem ég hlakka ógurlega til að kynnast. Velkomin í heiminn Emily og Moritz. 2 fersk krútt í Kanada til viðbótar. Mig langar til að fara og sjá vorbörnin í Húsdýragarðinum. Meeee. Baaaa.

Sinfóníutónleikar fjölskyldunnar þetta misserið voru sl.laugardag með SÍ og Maxímús Músíkmús. Fyrsta átrúnaðargoðið?

Vinnuvikan mín er ánægjuleg. Best er þó hvað hún líður hratt. Það er gaman og í gær lágum við á gólfinu í slökun og sólin skein inn um þakgluggana. Heví næs. Face er samt aðalorðið. Fail er líka svolítið að koma inn. Nemendur reyna að nota Face við öll möguleg tækifæri þó þau yngri skilji ekki alveg út á hvað orðatiltækið gengur.

Hér fer fram líkamleg-, tilfinningaleg- og hugarhreinsun sem virkar vel svona á vordögum þegar vindarnir blása og eldgosið gýs og askan svífur. Ég svíf.

Hlýddi á 2 erindi nýlega um vistvænan femínisma. Ég vil vera vistvæn. Er femínisti. Núna bíður mín tebolli og grein um fegurð í fyrirbærafræðilegum og femínískum skilningi. Lifið heil.

miðvikudagur, 24. mars 2010

lítil afrek

Dagurinn rann upp bjartur og fagur. Smá yoga á stofugólfinu í morgunsárið. Notaleg hafragrautssamvera og síðan út í skóla. Við röðuðum í stafrófsröð, orðunum sem við vorum að vinna með úr drekasögunni. Svaraði e-mail. Töluðum um þegar Jesús var handtekinn og Júdas Ískaríot sem sveik hann með kossi. Töluðum um eilífðina og endurfæðinguna, vorið og eggin og byrjuðum á páskaföndurskransi í kjölfarið. Átti fund með foreldra, annan með samkennara. Kenndi tölvur og tæknimennt í tvo tíma og komst m.a. að því að gott skipulag gerir allt betra fyrir mig. Fór á kennarafund og fékk köku. Fór heim og þvoði þvott. Hugsaði um hvað barnið skyldi heita. Hringdi til að stuðla að endurnýtingu barnafata. Út á leikskóla og síðan út í garð að tína köngla sem þekja grasflötina eftir storminn. Blés úr tveimur eggjum í fyrsta sinn eftir að hafa fengið leiðbeiningar frá leikskólakennurunum. Horfði út um gluggann og fékk mér rúsínu með s. sem var klóruð til blóðs í dag. Var þarna búin að þrífa sárin og bera smyrsl á. Horfði á parta úr Jungle Book á milli þess sem ég las blaðið og e-mail. Komst að því þegar a. kom heim að barnið heitir Anna Lee Mason. Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn í Kanada, velkomin í heiminn. Borðaði chili pasta. Kúrði á teppinu með fjölskyldunni. Gekk frá eldhúsinu og bakaði brauð. Nú Ali Farka Touré á fóninum og sjónvarpsgláp í startholunum.

Þessi færsla er tileinkuð bróður d. sem ég er svo stolt af og vinum mínum sem hjálpa mér að sjá ljósið. ást og friður.

mánudagur, 8. mars 2010

píkur og snjór

8. mars Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti - áfram konur og líka karlar! Kominn tími á nýtt hugsunarferli þar sem t.d. konur og menn bræðast saman í verur sem hafa bæði ,,kvenkyns- og karlkyns eiginleika" ef þeir verða enn fyrir hendi í framtíðinni (sem ég vona ekki) og t.d. að hugtakið ofbeldi gegn konum verði gamaldags hugtak sem var notað þegar heili mannkynsins náði ekki lengra... Friður fyrir alla. Er að byrja að lesa Á mannamáli sem ég nældi mér í á markaðinum ásamt Viðfangsefni í lífsgildum fyrir börn og Hjómið eitt. Mæli síðan með nýja dagblaðinu Róstur. Róstur-róstur-róstri-róstra? Róstur - róstur - róstrum - róstra?

Í þessu augnabliki þegar snjórinn hefur bráðnað hefur vorandinn blásið í mig nýju lífi. Fyllir mig von um vor. Sóldýrkandinn með vörn 30. Svo hlakka ég til tónleika kimono í Íslensku Óperunni á fimmtudaginn. Láttu sjá þig!

miðvikudagur, 10. febrúar 2010

febrúarhrím

Vindurinn feykir vetrinum á brott. Vindurinn minn feykir mér aftur í skólann. Í þetta sinn grunnskólann sem er a.m.k. frá árinu 1909. Nú í hlutverki umsjónarkennara með margt á sínum snærum. Nýtt fólk, nýir draugar, ný saga. Ég er mjög spennt og hlakka til. Skólabjallan hringir eftir hvern tíma og inn í þann næsta eftir hlé. Býð vind tímans velkominn að vera með mér.

Nýjustu afrek afkvæmisins eru að kunna að segja heimilisfangið sitt, telja upp á 10 og syngja endalaust. Að gráta er henni hugleikið þessar vikurnar. Móðurmálsblöndu má stundum greina eins og í: Dog þarna. Hún fer sjaldan í bað og er alveg frábær að öllu leyti. Nema þegar nei nei nei nei nei er þulið upp í belg og biðu og þegar hún tekur öskurköst sem yfirleitt má auðveldlega afvegaleiða.

Síðan bíð ég spennt eftir að heyra nýju Massive Attack plötuna. Annars er það bara eldhúsið sem bíður mín núna og undrauppþvottavélin sem þvær og þurrkar án þess að blikna.
Ást og friður.

laugardagur, 23. janúar 2010

púslið

Margir hlutar úr púslinu hafa nú smollið saman. Samvera og samskipti okkar S.M.M. eru enn sem áður í stöðugri þróun og endurnýjun, en tempóið sem hefur skapast er gott. Hún er að verða meiri einstaklingur. Einkar ánægjulegt að fylgjast með því. Heill sé henni á morgun, 2ja ára. Ef til vill urðu þessi tímamót okkar í kjölfar búsetuflutnings sem gefur óneitanlega öllum í fjölskyldunni meira rými sem ég er óendanlega þakklát fyrir. Stórfenglegt.

Vegna alls þess góða sem umlykur mig er ég orðin endurvinnslufrúin til heiðurs umhverfinu og náttúrunni. Nú er blá pappírstunna í garðinum sem allur daglegur pappír + fernur fer í og önnur tunna fyrir rusl (annað en pappír, gler, plast, ál) og það er strax mikill munur á fjölda ruslapoka. Þetta er gaman og ég vil gera meira. Eitt skref í einu. Sé samt alveg moltugerð úr lífrænum úrgangi í garðinum í sumar.

Veðrabrigðin í Janúar hafa verið með ólíkindum. Það er spennandi en jafnfræmt ógnvekjandi að vera í miðri klíð þegar jörðin er að kljást við áhrif hlýnunarinnar. Er ekki búin að sjá Avatar en mig langar pínu en mig langar ekki neitt á Facebook. Afmælisundirbúningur í fullum gangi. Gleði og hlýja og ilmandi ilmur úr eldhúsinu.

laugardagur, 16. janúar 2010

Nýtt tungl

Lamb í holu

Nauðsynlegt við eldamennskuna:
Lambalæri
Slétt yfirborð
Skóflu
Steina neðst í holu
Álpappír sem lærunum er margvafið inní eftir að það er búið að marinera lærin í einhverjum gordjöss jurtum og olíu.
Kol
Kolavökva
Góða hanska til þess að tína kartöflur uppúr holu og snúa læri.

1. Grafa holu. Geyma torfuna fyrir lok.
2. Steinar neðst
3. Álpappír
4. Góð Kol (5 pokar f. 3 læri) 1 kolapokinn er látinn í holuna í bréfpokanum, sem nýtist sem eldkveikur
5. 1 l kolavökvi
6. Kveikt í eftir að kolavökvinn hefur vætt kolin. Kol eiga að vera a.m.k. grá, jafnvel rauð áður en lamb er sett á og holu lokað með torfunni sem var skorin til við gerð holu.
7. Lamb og kartöflur sett á kolin á sama tíma. Lambi snúið á 20 mínútna fresti 3svar sinnum / eða lambi snúið 2svar sinnum á 30 mínútna fresti. Gott að hafa kjöthitamæli.

Ég get svarið það að mér finnst nánast vera vor. Þannig gæti maður næstum því gert uppskriftina hér að ofan, þó meiri sé stemmarinnn að gera hana á sumrin. Var sumsé að afrita þessa uppskrift úr dagbók 2009 í annað haldbærara form. Get látið mig hlakka til að grafa lamb í holu 2010.

Gleðilegt nýtt ár.