miðvikudagur, 22. desember 2004

jolaskap

Undanfarna daga hef ég hlustað mikið á Ríkisútvarpið sem er hin mesta skemmtan. Það jaðrar við að dagskráin sé svolítið hátíðleg, en kannski er það bara ég að reyna að vera í hátíðarskapi. Sem hefur að vísu tekist ágætlega enda stysti dagur ársins að baki og nú tekur kraftur sólarinnar við þótt það gerist svo ofurhægt. Jólaskapið mitt er semsagt ró og friður og ekkert stress. Það er bannað. Ég vona að þetta eigi líka við í samskiptum við annað fólk, þó ég viðurkenni að hafa orðið svolítið pirruð á ostaafgreiðsludömunni í Hagkaupum, Kringlunni fyrr í dag. Hún bara blaðraði og blaðraði við 2 vinkonur sínar. En ég greip í taumana og brosti undurljúft til hennar og sagðist vera tilbúin þegar hún væri tilbúin. Keyptum 3-4 kílóa Kalkún og nú þiðnar hann inni í ísskáp. Vonandi þiðnar hann fyrir aðfangadagskvöld. Heimilismenn hafa ráðfært sig við mæður varðandi kalkúnaeldamennsku, sem verður í fyrsta skiptið hér á bæ og það besta verður tekið úr báðum áttum. Spennó.

Er að spá í að mæta í leikhúsið um hádegi á morgun, Þorláksmessu og sjá aðalæfingu jólaleikritsins, en mér finnst að ég verði að sjá það þar sem ég verð að vinna á annan jóladag við frumsýningu. Spennó. Siðaskiptaleikrit. Kaþólska kirkjan stærsta fyrirtækið...

Vona að friður verði í hjörtum flestra yfir bláhátíðarnar. Og annars alltaf með hækkandi sól.

föstudagur, 17. desember 2004

gt

í gleði minni og góðum gír skilaði ég lokadæminu, innbundinni ritgerð í hólf kennara míns í dag. Það var góð tilfinning. Er í fjögurra daga vinnufríi. Það er líka góð tilfinning. Útréttaði í dag, Sorpa (1530) áfengi, jóladiskinn hans Elvis á 799, jólatré sem er þó ekki með greninálum heldur meira svona stofublóm. Það var sameiginleg niðurstaða á heimilinu að það væri nú soldið rugl að kaupa tré sem deyr. Þess vegna var fjögurrafingraplantan fyrir valinu í Blómaval. Með pottinum er hún svona 1 meter á hæð. Og hana má skreyta. Þá bauð kæri upp á síðbúin rómó hádegisverð á Pítunni. En þar var einmitt ungur maður sem við hittum mjög reglulega undir skringilegum kringumstæðum. En það er alltaf gaman að hitta hann. Eftir þetta allt saman var Elvis settur á fóninn og tekið til við þrif og skipulagningu enda gestir að koma með jólunum og þá er um að gera að setja seríur út í glugga svo þeir viti hvert skuli fara. Það var góð tilfinning. Á morgun er hins vegar fjögurrakvennaklúbburinn að fara að hittast við konfektgerð í Garðinum. Hver veit nema skundað verði á Stapann um kvöldið því þar leika Hjálmar. Það verður ábyggilega mjög góð tilfinning.

þriðjudagur, 14. desember 2004

a morgun segir su lata?

það fer ekki hjá því að maður fari með góða netrafstrauma í poka í prófið á morgun frá góðu fólki. Það þykir mér vænt um. Er á þessum tímapunkti að hugsa um að fara að þrífa ofan af eldhússkápunum. Sem undir venjulegum kringumstæðum myndi alls ekki koma upp í huga minn, en get bara ekki lært meira. Þó að sjálfsögðu ég geti lært endalaust meira, bara ekki núna.

Amma hringdi áðan og vildi alls ekki trufla mig, en var að spá í jólagjöf handa pabba. Niðurstöður samtals:
- nú er allt í lagi að gefa kiljur í jólagjöf, áður var það glatað
- sumum finnst nú heldur illa talað um fólk í bókinni Dauðans óvissi tími eftir Þráin Bertelson
- Þóra, kona Björgúlfs sem er víst einn karakterinn í þeirri bók, var víst gift bandarískum nasista og Björgúlfur gekk börnum hennar úr fyrrverandi hjónaböndum í föðurstað, hvernig er þá hægt að tala illa um manninn í bókinni?
- Ég á að láta mér detta eitthvað í hug fyrir hana að gefa pabba og mömmu.
- hún á tvö koddaver, útsaumuð og læti inni í skáp???

jóla hjól og jóla amma og jóla próf að verða búin á morgun. Á morgun segi ég, er ég þá löt?

föstudagur, 10. desember 2004

negulnagli i poka

Jamm, var að pakka niður dóti til helgarsetu í vinnu, og ofan í poka með skólabókunum fóru negulnaglar og mandarínur. Bara rétt svona til að jólast á einfaldan en öruggan hátt. Síðar í kvöld er stefnan tekin á jólabingó starfsmannafélagsins og ég get ekki beðið, enda alræmdur bingóspilari. Að vísu kem ég til að standa eitthvað bakvið barinn en er handviss um að geta afgreitt öl um leið og ég spila. Það er sko bingóvél og allt.

Fyrsta prófið að baki. Púff. Leið líkamlega illa í morgun áður en ég hélt af stað, en síðan var þetta bara venjulegt próf, og líkaminn kominn í lag. Síðasta prófið á miðvikudag. Jibbí jei. Fyrsta jólakortið barst inn um lúguna í dag. Hjartnæmt.

Farin til vinnu og í bingó.

mánudagur, 6. desember 2004

undirbuningur í vefheimum

komin við til að pústa fyrir læridagana komandi viku. Búum nú þrjú hér við strætið. Vinur í millibili. Það er gott og gaman. Góður undirbúningur fyrir jólagestina tvo. Frá mismunandi stöðum á Bretlandseyjum. Annar undirbúningur: skellt í 3 sortir fjandinn hafið það á þessum öðrum sunnudegi í aðventu. Hátíðlegt. Er að fara að senda eitt jólaumslag vestur um haf á morgun og undirbý mig enn frekar með því að kaupa nokkur frímerki.
Nauðsynlegt að eiga frímerki um jólin.
Og að neysluhyggjunni þá leit ég við í Smáralindinni og var þar í klukkustundar geðveiki. Kannski að ég hafi farið í nokkurskonar hjúp þegar ég gekk framhjá DJ, förðunarfræðingum, gegnalnæmisvaralit og Jónsa og úff hvað það var gaman hjá þeim.
En magnaðir voru úlfarnir í Úlfhamssögu. Það var sko líka gaman að upplifa þetta leikrit sem tvinnaði saman mörgum sviðum listagyðjunnar eins og vídeólist, lifandi tónlist, umhverfis/hreyfilist og náttúrulega leiklist. Já, samruni í öllu. Evrópa til dæmis, heimurinn alltaf minni. All possibilities... lag með Badly Drawn Boy. Í vefheimum er gaman, en sný á vit svefnsins og læt mig dreyma um það hvernig er hægt að skoða vald en það er ég að fara að gera í morgun samkvæmt nýja læriplaninu mínu, tel mig samt ekki vera að fríka út í skipulaginu, það er innra skipulagið sem er málið. Og núna er verið að spila ljúfa tóna hér í stofunni sem ég get sofnað útfrá.

föstudagur, 3. desember 2004

Gisli i gislingu

Er að verða tekin í gíslingu af prófundirbúningi sem lýkur 15. desember með ánægjulegu lausnargjaldi sem ég veit ekki enn hvað verður. En ég reyni að minna mig á það að þetta er gaman þegar ég er að sofna yfir málsgreinum sem hafa engin greinarmerki. Það er gaman að láta reyna á heilann sem maður notar hvort sem er bara lítinn hluta af.

Stefni á að upplifa leiksýningu á morgun, Úlfhamssögu. Hlakka til. Stefni líka á að skella í nokkrar sortir með mömmu á sunnudaginn. Það verður líka gaman. Gott að hafa eitthvað til að stefna að, annað heldur en bókalestur.

Hér myndi koma brandari, ef ég myndi einhvern. En ég er fáránlega léleg í því að muna og segja brandara.
Hugur minn er semsagt í gíslingu og því hætti ég bara að bulla. Núna.

sunnudagur, 28. nóvember 2004

Vinnutidindi

komid kvold og eg a skritnu lyklabordi. Skritnar voru nu sidustu minutur vinnudags mins. 3 ungar telpur snorudu ser inn og vildu bida eftir einni mommunni sem i vinnunni. Kom i ljos ad ein theirra, dottirinn hafdi brotid i ser framtonn thegar hun rakst i eitthvad og hun leit ut eins og eg get imyndad mer ad Bjorgvin Halldorsson leit ut a theim tima. Vinkonan helt a brotinu. Thegar thaer frettu ad sama hefdi gerst fyrir brodur minn og ad hann liti alveg edlilega ut roudust thaer adeins. Hefdi att ad segja theim hryllingssogur i stadinn. Thetta var mogulegt daemi um mogulegt vald mitt a vinnustad, en eg er einmitt mikid ad spa i valdi thar sem eg er a sidasta snuning med ritgerd um hvort tiska hafi ahrif a kyngervi.

(nofnum breytt)
Thegar syningin var buin og stelpurnar farnar kom onnur stelpa. Hun bad um ad fa ad hitta Sigthor. Fyrst kalladi eg i rangan Sigthor og thad var fyndid ad sja vidbrogd beggja. Sidan hofst bidin. Bidin langa. Manninn var ekki haegt ad finna thratt fyrir ad hann vaeri i husinu. Einhverra hluta vegna smeygdi stulkukindinn ser inn um annars vandlega vaktadar dyrnar og var komin inn til min. Hofust tha samraedurnar. Hverning eru launin? Hann var buinn ad segja ad eg maetti alltaf koma. Sa hvar madur atti ad fara a vefsidunni. nei, er ekki med gsm-numerid hans. heldur thu ad oryrkjar geti unnid her? ofsalega varstu flott\flottur i syningunni. Eg var ad springa. Bad hana vinsamlega ad fara fram i thriggja saeta bidstofuna thar sem eg thyrfti ad sinna ymsu. Meira en 20 minutum seinna kom eg til baka, buin ad taka minn tima og anda og fann Sigthor tala vid hana a bidstofunni. Seinna um kvoldid sagdi hann mer ad thau thekktust ekkert mikid. Biddu, biddu, hugsadi eg, a listafolk alltaf fatlada addaendur? Spurning sem eg vik fra i augnablikinu, thvi enn sidar um kvoldid, til ad klara soguna, sat stulkukindin i straetisvagnaskyli a Hverfisgotu og veifadi mer.

miðvikudagur, 24. nóvember 2004

plötutiðindi

bíddu bíddu, afhverju koma sumir íslenskir stafir alltíeinu í dag í titilinn hér að ofan? hingað til hafa stafirnir ekki birst sem íslenskir. Athyglivert. En skemmtilegra var þó að koma heim úr vinnunni í gærkvöld og sökkva sér í nýjan bækling sem barst inn um lúguna, Plötutíðindi. Þar kennir ýmissa grasa og ég merkti samviskusamlega við allar þær listafurðir sem ég hef hug á að upplifa. Og útgáfa á Íslandi er bara í góðum málum, ef taldir eru titlarnir sem gefnir eru út. M.a. er ég skotin í: Ragnari Bjarnasyni, silfurplötu Iðunnar með 200 stemmum, Elegíu Gunnars Kvaran og Selmu Guðmundsdóttur, Steindóri Andersen og Úlfhamsrímum, Szymon Kuran og Ramonu prinsessu, Tvísöng, Wu Tang Clan (live), DVD David Attenborough. Og síðan skunda ég bara á Borgarbókasafnið í Janúar og fæ þetta lánað ásamt 80.000 króna virði af jólabókum sem mér langar að lesa.

dagatalakerti, dagatalakerti,
kúnígúnd laugavegi.
Alveg frá því ég var lítil smátelpa hef ég ekki skilið nafnið á þessari verslun og geri ekki enn. En ég veit að þúfnalúra þýðir niðurgangur.

mánudagur, 22. nóvember 2004

utopia i hagkaupum, kringlunni

Hagkaup, Kringlunni á laugardegi. Inni í mátunarklefann heyri ég samtal fullorðinnar manneskju við barn. Þar var fjallað um jólagjafir, hvað barninu langaði í frá þessum og hinum o.fl.

Það var heldur skringilegt að handfjatla nýja tegund af þúsundkallinum við afgreiðsluborðið. Mörgum mörgum þannig var eytt í kynningarbækling um nýtt útlit hans. Sem á þó ekki eftir að hafa mikil áhrif á mig sem einstakling, en mér finnst samt gamli flottari. Mér finnst bara ekki passa að myndin þekji flötinn langsum að ofan og niður. Mörg talnakerfi hafa verið með manninum og því þætti sumum e.t.v. skringilegt að fá tvo fimmhundruðkrónaseðla, þegar upphæðin er þúsund einingar. Er einmitt búin að vera að sökkva mér í mannfræðilegar frásagnir frá suður-Afríku þar sem hugmyndir um samfélög, verðmæti og samskipti eru ólík því sem maður þekkir hér. Í framhaldi af því hef ég komist að því að ýmsu, m.a. því að jöfn skipting skipti mjög miklu máli, sem og það að aldraðir geri ráð fyrir að samfélagið sjái um þá þegar þeir geta ekki lengur orðið sér úti um nauðsynjar og við líkamlega hrörnun og þeir þurfi ekki að afsaka sig og skammast sín. Þá er það að mynda tengsl við aðra stór þáttur í góðri samfélagsgerð, þar sem maður getur treyst á aðra og réttir hjálparhönd þegar þess þarf. Annars hef ég margt að bæta við þetta en læt staðar numið við útópískar hugmyndir mínar. Já, og svo kannski í sambandi við allt þetta má bæta við að ef allir hlustuðu á hvorn annan og hættu að láta valdaskrímslið éta sig að innan, hlusta á hjartað sitt, þá myndi heimurinn sko verða betri.

En afhverju er ég að blaðra um þetta. Jú, vegna þess að núna fer sá tími í hönd, þar sem allir þykjast vera að vera góðir við alla og hugsa fallega til annarra o.s.frv. En afhverju ekki bara að gera það alltaf? Maður þarf ekkert endilega að gefa gjafir til þess að sýna hversu maður metur viðtakandannn. Og þeim mun dýrari gjafir, því meiri virðing. Eða hvað. Mæli með að leggja einn nýjan þúsundkall af jólaeyðslunni á stað sem hann getur verið til góðs.

þriðjudagur, 16. nóvember 2004

dagurinn i gær

Mér finnst gaman að eiga afmæli. Komst að ýmsu í gær á þessum fallega degi. Til dæmis því að pabbi þekkti sjúkraflutningamanninn sem sótti mömmu á sjúkrabílnum þegar hún var að fara í fæðingu. Þá var víst normið að sækja konurnar í sjúkrabíl. En hann mundi varla meira, jú, hann var viðstaddur. Sem hann taldi ekki hafa verið í tísku fyrir þann tíma. En mér þykir vænt um blómvöndinn frá honum og allar skemmtilegu og fallegu gjafirnar, kveðjurnar, símtölin og símskeytin sem mér bárust. Líður núna eins og 80 ára í Mogganum að segja ,, þakka öllum þeim er glöddu mig..."

Forgangsröðun átti sér líka stað í huga mér í gær þegar ég skrópaði í tíma eftir hádegi til þess að chilla á eðalkaffihúsinu Stúdentakjallaranum með 2/3 hluta systra minna og 1/2 hluta bræðra minna. Það var gott.

Missti nú samt soldið dampinn í gær í þessum gleðihugsunum þegar ég var í vinnunni. Vesenið á sumu fólki er óviðjafnanlegt. En hei. Átti fallegt óundirbúið kvöldkaffi í faðmi rosalegrar köku sem var löguð inni í eldhúsi af kæra en ég vann við þýðingar á uppskriftinni sem hét Pæjuterta eða -kaka, valin uppúr Kökubók Hagkaups.

Og núna snjóar bara og snjóar þannig að snúið verður að lærdómi.

mánudagur, 15. nóvember 2004

kveðjur

plássið er nóg fyrir kveðjur í tilefni þessa nýja dags hér að neðan

fimmtudagur, 11. nóvember 2004

orð af ymsum toga

Það var orðið dimmt úti þegar ég labbaði heim úr skóla klukkan hálf sex í dag. Merkilegt að vera alltaf að taka eftir veðrinu og umhverfinu þegar maður hefur búið við stöðuga hringrás þess í einhvern tíma. En ég er glöð yfir því að vera ekki að vinna í kvöld og annað, en fer með eftirvæntingu um helgina því þá hef ég hugsað mér að ritgerðast. Og á morgun klukkan tíu árdegis fer ég í ókeypis heimspekilega ráðgjöf. Kannski er hún svarið við vandamálum heimsins. En hún Gugga hefur einmitt velt því fyrir sér í bloggheiminum og benti mér á þetta göfuga hugtak löngu áður en ég fékk fjöldapóstinn frá skólanum um þetta ókeypis fyrirbæri. Hlakka til, nenni ekki að búast við að þetta verði eitthvað krapp, því þá er ég að jinxa áhrifunum og fær maður ekki alltaf það sem maður vill/óskar/hugsar?

p.s. fékk splunkuheimsókn eftir skóla frá 4 yndislegu Reykjanesfólki ásamt 1 fyrrverandi Reykjanesveru. Það var gaman.
pp.ss. fór á snyrtivörukynningu með leshópnum mínum í skulen og fór í fótabað í bala. Gasalega gaman.

mánudagur, 8. nóvember 2004

Nyr maður

það fer ekki hjá því að maður sé stoltur meðlimur vefsamfélagsins eftir að hafa kynnt sér og fundið út hvernig maður fiffar síðuna sína. Það tekur smá tíma og enginn grunnskilningur á vefsíðugerð í gangi. En það virkaði og hver veit hvað gerist næst.

Hef velt fyrir mér hnattvæðingu í dag en heyrði í gær hryllingssögu í nútímanum, nánar tiltekið frá ameríkunni. Þar var það svo að í íbúð einni fór saur að berast upp um niðurföll baðkers og handlaugar. En stíflur í lögnum hússins voru þess valdur. Huggulegt að fá saur annarra upp um niðurfallið sitt, og hvað þá kúkafýluna. Margt verra getur þó gerst, en hryllingssaga engu að síður.

Varðandi hnattvæðinguna þá er heimurinn orðinn bæði stærri og minni. Stærri að því leyti að nú er allt skoðað í hnattrænu sjónarmiði, en minni að því leyti að nálægðin er svo mikil með hraða tækninnar. Spennandi ekki satt. Ég hlakka til þegar farið verður að skoða hnattvæðingu annarra pláneta þar sem veran verður með vængi og ferðast um í geimskutlum.

Hvað með þennan nýja mann sem var fundinn nýlega á eyjunni Flores rétt hjá Indónesíu? Ekkert hefur gerst í þessum málum síðan á sjöunda áratuginum þegar Lucy fannst í Afríku (beinagrindin kölluð Lucy af því að fundarmenn voru að hlusta á Lucy in the skye with diamonds). En núna er þessi floresmaður kominn í ljós og talið er að hann hafi verið mjög lágvaxinn og jafnvel hærður. Bjó þarna fyrir svona 18000 árum, bara núna nýlega semsagt í sögunni. Og að hann hafi þróast út frá homo erectus, en minnkað vegna þeirra aðstæðna sem hann bjó við (þ.e. á þessari eyju). En það er víst að hann hafi haft tungumál, viðhaldið æxlun sinni, veitt míni - fíla og haft einhvers konar áhöld, og það með miklu minni heila en maðurinn (meira að segja með minni heila en simpansi). Humm og ha. Og þessi mannvera bjó þarna bara í chillinu meðan maðurinn var að koma sér fyrir í heiminum og menningin fyrir botni Miðjarðarhafs að byrja að blómstra. Ja, hvað veit maður svosem.

sunnudagur, 7. nóvember 2004

alþjoðavæðing og orkusöfnun

Það var undarlegt að átta sig á því að klukkan væri að verða eitt á hádegi á föstudaginn. Það þýddi að móðir mín góð og ég vorum búnar að vera í rúma 2 tíma í sænsku gæðaversluninni Ikea. Það kom líka spánskt fyrir sjónir að sjá kínverska leturgerð á kassanum utan af hillunum sem ég keypti. Hvað varð um sænska gæðastimpilinn? Kannski var viðurinn í hillunum frá Kína, nú eða kannski þegar búið var að setja gripinn í það form sem er aðgengilegur nútímamanninum að þá var hann sendur til Kína og settur í kassa þar eða kannski eru höfuðstöðvar Ikea í Kína? Ég veit það ekki en alþjóðavæðingin er staðreynd og þær eru lekkerar, hillurnar. Minna mann svolítið á setbekkina úr viði í gufuböðum, enda hentar það vel inni á baði. Það tók engan tíma að skrúfa þær saman og meira að segja skrúfjárnið fylgdi með. Ég held ég versli samt ekki aftur í bráð í búðinni. Það er nefnilega ótrúlega orkufrekt og brenglandi fyrir hugann að vera innan í svona verslun, og reyndar finnst mér það um fleiri, ef ekki langflestar verslanir. (dæmi um undantekningar: Melabúðin utan annatíma, Woolmarket í Hafnarstræti, Pétursbúð)

Orkunni var síðan safnað aftur saman í Garðinum á laugardagskvöld þar sem var boðið til hálfgerðar afmælisveislu (söngurinn var ekki sunginn) og hvílíkar kræsingar. Jedúddamía. Hvað getur maður sagt í svona löguðu annað en: umm... já, ég held ég fái mér aðeins meira... En það var ekki bara borðað, heldur var tekið til við hljóðfæraspilun, sem gekk svona upp og ofan, en ég held að það sé hressandi þegar nokkrir eru komnir saman að tjá sig á annan hátt heldur en með orðum og líkama, t.d. með hljóðfærum.

Hef eytt deginum í dag á Reykjanesbrautinni og heima með horlufsu. Mér finnst gaman að keyra og gæti alveg hugsað mér að vera leigubílstýra. Eða rútubílstýra. Eða með stýri hangandi í slaufu inni í stofu til þess að sýna akstri mína virðingu. Nokkurs konar krans. Maður gæti tengt það svona við jólahátíðina sem er að byrja að læða sér inn í vitund okkar með blaðaauglýsingum og síðan hef ég heyrt af því að fólk er byrjað að plana jólagjafakaupin. Jólagjafakaup verða tekin til umfjöllunar síðar.

fimmtudagur, 4. nóvember 2004

eg sit og gægist oft ut um gluggann

Þegar ég vaknaði í morgun var snjór á þökunum í kring. Það var bara nokkuð notalegt. Nú, nokkrum klukkustundum síðar er hann horfinn. Fljótt afstaðin ánægja. Og það rigndi meira að segja á gluggann núna rétt áðan þar sem ég sit fyrir innnan og læri og lít öðru hvoru út til þess að sjá hvað er í gangi á götunni. Fjölþjóðleg gata, svo lítið sé sagt, en við hana býr fólk úr ýmsum áttum, Kanada, Kína, Rússlandi, Frakklandi o.s.frv. En allt á rólegu nótunum og engir papparassar eða limósínur. Að vísu fara konurnar í rússneska sendiráðinu alltaf á fimmtudögum um kl. 13:30 í stóran bíl sem ferjar þær eitthvert, líklega í verslunarferðir vikunnar. Þá standa þær úti í hóp, vel farðaðar og með ilmvatn og bíða eftir bílnum og ég hjóla eða labba framhjá í skólann en ekki í dag, því það er verkefnavika og ég er búin að vera að rembast við að æla einhverju í tölvuna alla vikuna.

En varðandi veðrið, þá er mér oft hugsað til þess hversu og hve mikil áhrif það hefur á vitundina. Ef veðrið er alltaf síbreytilegt, er þá ekki eðlilegt að skap manns sé alltaf síbreytilegt?

Lærði allt um hangin lambalæri í gærkvöldi í matarboði hjá mömmu og pabba. Þau læri sem eru vel hangin eru meyrari og eru dekkri á litinn. Hagnýtt húsráð. Og Amma bara að fíla sig, verandi 83ja ára en bölvandi yfir elli og hrumleika annars fólks... Ætli maður fatti ekki að maður eldist líka þegar maður er kominn á eitthvað ákveðið stig í lífaldrinum? Eða vill maður ekki viðurkenna það að maður breytist náttúrulega?

Best að vinda sér í vinnuna seinna í dag, en fyrst læra smá.

sunnudagur, 31. október 2004

Bjarni M.

hringdi í síma bakdyravarðar kl,00:09 áðan. Röddin nokkuð hrjúf, búin að lifa lífinu sínu, konan í bakgrunninum og líklega sjónvarpið, búin að panta 2 einfalda viskí á barnum fyrir sýningu og fara á klósettið (þetta í miðjunni) og sat á 8.bekk í sæti 51 (konan í 52), fannst sýningin áhrifamikil en veskið var ekki í rassvasanum þegar hann kom heim. Hann var að íhuga að hringja á lögregluna. Sem ég skil ekki. En fór niður í Þjóðleikhúskjallara til að tékka á málum og fá barstrákinn til að fara inn á herrasnyrtinguna þar sem ég er ekki herri. Veskið fundið og Bjarni M. kemur á morgun að nálgast kortin sín þrjú í veskinu ásamt öðru.

Ég er semsagt að vinna þessa helgi. Og í fyrsta sinn mætti ég þunn í vinnuna í morgun (12 á hádegi), sem var upplifun út af fyrir sig. Afar þægileg vinna að því leyti. En þynnildið kom til vegna drykkju á grímuballi hjá Björt & Bigga. Mikið var um dýrðir enda er það sjaldan sem fólk gerir sér dagamun og klæðist einhverju allt öðru en það gerir vanalega. Og ég tala nú ekki um að fara í annan karakter. Hvað um það. Einfaldleikinn var í fyrirrúmi hjá mér þar sem ég klæddist venjulegum kvenfatnaði en öllum öfugt, þ.e.a.s. ég gat klóra mér í rassinum að framanverðu. Það var gaman. Og þynnildið er farið.

Góða nótt Bjarni M. Sé þig á morgun.

fimmtudagur, 28. október 2004

Tiskustraumar

já, væmnin er komin aftur í tísku. Ætli það sé tilkomið vegna mótstöðu við allt hið tæknivædda og tilfinningalausa í samfélaginu? Maður fer ekki einu sinni í heimsókn til bestu vina sinna nema hringja á undan og allir eru á kúlinu. Síðan náttúrulega áherslan á tilfinningalega greind til viðbótar við allar hinar greindirnar sem við búum yfir. Þá er ég að meina að tilfinningagreindin var nýlega ,,uppgötvuð". Mér er það alls ekki að móti skapi að tilfinningasemin sé að fara að hellast yfir. En ég get varla ímyndað mér að hún setjist að í fólki á þann hátt að það fari að faðma alla sem það hittir og lýsa tilfinningum sínum opinberlega. Það er allt of langt gengið fyrir þessa lokuðu kynslóð fólks sem hugsar oft bara um sjálft sig (að undirritaðri meðtalinni). En væmnin má birtast í tónlist, tísku og fjölmiðlum að matri sumra. Mér finnst hún t.d. birtast í klæðnaði þar sem rómantískum áhrifum (blúndum, pallíettum, glingri ýmis konar) en að sjálfsögðu í bland við eitthvað töff og pönk, þá finnst mér hún birtast í samtímatónlist, þar sem söngvarinn syngur tilfinningaríka texta, oft með einlægri, næstum barnalegri rödd og ég veit ekki um fjölmiðla, kastaði þeim bara með því þeir birta myndir og umfjallanir um tónlist og tísku og þar með nær það athygli fjöldans sem gerir það að sínu. Væmnin. Kannski er ég bara að bulla og ein um það að vera að taka eftir væmninni. Kannski er það bara tunglið sem er óðum að fyllast, nú eða tíðahringurinn. Við sjáum hvað setur.

Varð hreinlega bara að kíkja í íslenska orðabók Menningarsjóðs sem segir væmni vera kvenkyns orð en jafnframt óbeygjanlegt og þýðir það að vera væminn.
Væminn: sem veldur klígju, velgju; tilfinningasamur; smeðjulegur.
Þar höfum við það.

sunnudagur, 24. október 2004

Laugardagur

Síðasti dagur ótalmargra tónleika. Og ekki laus við það að maður hafi verið orðinn svolítið þreyttur. Það kannski útskýrir hvers vegna ég fór ekki á marga tónleika í gær, eða það að það sem í boði var þetta ágæta laugardagskvöld var ekki alveg nógu spennó fyrir mig.

Nasa
Mugison í öllu sínu veldi. Hann er fyndinn gaur. Og nú er það væmnin sem er töff. Lokalagið spilaði hann með pabba sínum og konu. Mjög spes stemning. Pabbinn svona sjóari með hendurnar. En góðir tónleikar þó sumum sem hafa séð Mugison oft fannst þetta losaralegir tónleikar. En ég skemmti mér.

Yfir á Kapital þar sem T.Cuts spilaði á tölvu. Upplifði 1 lag. Það var fínt.

Grandrokk - Lokbrá. Hef aldrei séð þá áður. Blanda af ýmis konar rokk stefnum, maður heyrði alveg ákv. hljómsveitir hjá þeim en þeir voru mjög flinkir við að skipta um stefnur í lögunum sínum. Kannski aftrar það þeim að finna sinn eigin stíl. Ég veit það ekki, en kannski gerist eitthvað skemmtilegt hjá þeim sem lætur mig fara aftur á tónleika þeirra.

Missti af nýrri hljómsveitarskipan Singapore Sling, En það er allt í lagi, því ég sé þá bara síðar.

Sá smá The Stills og síðan The Shins en þeir eru massa stuðboltar. Gaukurinn var of-pakkaður og algerlega ótækt að mínu mati að bjóða fólki upp á svona stóra hljómsveit við þessar aðstæður. En Vúbbíhú. Mjög skemmtilegt og góður endir.
Skemmtilegt fólk og mikið af því. Bless hátíð. Hlakka til að ári.

Nú er kominn sunnudagur og sólin skín. Best að líta í bækur og síðan jafnvel kíkja á chill-tónleika í kvöld til þess að loka hringnum endanlega.

laugardagur, 23. október 2004

Föstudagur

Þar sem ég var við vinnu fram á kvöld þá byrjaði ég á því að kíkja á Þjóðleikhúskjallarann og sá lokalag Sigga Ármanns. Hmm.

Nasa
eftir að hafa beðið í röð í nokkurn tíma með góðu fólki, þá datt ég inn í stemningu Hjálmars eða Hjálma. Nokkuð nett, en ég fíla meira reggae-ið þeirra heldur en sýru-rokkið. Reggae lætur mann óhjákvæmilega hreyfa sig.

Hot Chip voru magnaðir og ákkúrat eitthvað sem ég myndi vilja skoða/heyra nánar.

Þjóðleikhúskjallarinn aftur. Hudson Wayne. Tónleikarnir urðu betri með hverju laginu, en það þurfti smá tíma fyrir þá að koma sér í gang. Er það kannski klisja? En mér fannst það þannig en naut tónanna þeirra í botn því þeir eru svo sætir. En enn sætari voru Kimono, þar sem ég er hlutdræg og spiluðu þeir mjög góða tónleika að margra annara mati en líka að mínu.


Orðskýring dagsins í dag úr útvarpinu Rás 1.
flæmingur = (að fara undan í flæmingi) það að flækjast um, flakka um, flakkari (flæmingi = Hollendingur).

Sundferð í hádeginu var algjör unaður og lostæti og nú ætla ég að lesa blöðin og halda áfram að hlusta á útvarpið og slappa af. Hlakka til kvöldsins. Loftbylgjuhátíðin er bara svo notaleg.


föstudagur, 22. október 2004

Fimmtudagskvöld
Hafnarhúsið Domino-Kvöld
Byrjaði á því að missa af To Rococo Rot af gildum ástæðum, en mér var skemmt heima í stofu með píanóspili og píanópælingum Gylfa.
Kom þegar Hood var að spila og það var sérdeilis ljúft, en ekkert rosalegt.
Á eftir þeim spiluðu Slowblow sem ég sá nýlega bæði í Austurbæ og í Hafnarfirði. Og þau spiluðu bara eins, ef ekki betur en í hin fyrrnefndu skipti.
Um klukkan 22 byrjaði Four Tet maðurinn sem var ólýsanleg snilld. Það kom mér á óvart hversu geggjaður hann var miðað við þær plötur sem ég hef heyrt og framdi hann hljóðpróf fyrir áhorfendur, til þess að leyfa þeim að fara sem meikuðu ekki meira en hinum að grúúva feitt. Ágengur en dansandi draumur.

Gaukur á Stöng
Hip hop sveitin Non Phixion. Að sjá síðustu lög þeirrar sveitar var eins og á trúarsamkomu, þar sem allir voru dáleiddir en í góðum fíling. Gaman að heyra hip hop.

Nasa
Sænska stúlknasveitin Sahara Hotnights. Segir allt sem segja þarf. Sænskt stúlkupopp með kröftugum trommara, en ekki nógu aðlaðandi né krefjandi tónlist.

Þjóðleikhúskjallarinn
Sá Steintrygg slá í síðasta lagið. Og mér finnst þeir tveir alltaf skemmtilegir. Enda hrifin af áslátturshljóðfærum með einsdæmum.

Því næst var klukkan farin að ganga í Ghostigital sem héldu sér einhverra hluta vegna í hlustunarlegum kanti, en stundum þegar ég hef séð þá finnst mér þeir fara yfir strikið sem fagurfræði eyrna minna getur meðtekið. Það kemur kannski með æfingunni, en gærkvöldið var geðveikt og góður endir á góðu kvöldi.

Fór heim og reyndi að heimta mann úr helju sem var ekki alveg nógu hress og sendi hann heim til sín í leigubíl.
Nú er nýr dagur kominn, ég á leið í vinnuna og í kvöld á ég eftir að sjá og upplifa meiri forvitnilega tónlist. Hlakka til.

fimmtudagur, 21. október 2004

Nokkrar lýsingar á því sem er upplifað á tónlistarhátíð:
nasa miðvikudagskvöld:
kom inn þegar Geir Harðarson var að klára, pínlegur uppi á sviði og höfðaði alls ekki til mín eins og sá sem kom á eftir honum, Þórir, einn með gítarinn og skringilega rödd sem hafði ekkert fram að færa. Annað heldur en KK sem spilaði á eftir af þekktri snilld. Allt rosalega vel gert, nostrað við hverja nótu. Og röddin hans, rödd þess sem hefur upplifað ýmislegt. Soldið rólegir tónleikar og ekkert sem ég er að fara að einbeita mér að, en gott upphaf af því sem koma skal, þó ég ímyndi mér að það verði aðeins meira í rokkgírnum. Meira síðar.

miðvikudagur, 20. október 2004

Kossar

Kári er alltaf að kyssa mig þessa dagana og það er bara nokkuð gott. Eða allaveganna finnst mér yfirleitt líka bara hressandi að fjúka smá, sérstaklega þegar er komið að gapinu mikla við Lækjargötuna, þegar engar byggingar skýla manni.

Þýskaland stakk upp á því við Frakkland og Spán að hafa skýli fyrir ólöglega innflytjendur í Norður Afríku saman. Frakkland og Spánn vildu ekki vera með og sögðu að það yrði að tala við fleiri sem að málunum koma. Innflytjendurnir myndu dvelja þar meðan farið væri með mál þeirra. Hvað tekur það annars langan tíma?

Skólinn er búinn að lepja upp tíma minn að undanförnu enda stóð ég með kynningu í dag í 2 tíma, sem liðu bara nokkuð hratt og fólk duglegt að tjá sig. Það var gaman en soldið stressó. Þá aðallega allur undirbúningurinn. Spilaði Gram Parsons þegar bekkjarfélagar mínir gengu inn til þess að skapa réttu stemninguna fyrir umfjöllunina um N-Ameríku.

Nú er það annað sem hugur minn má fara að velta fyrir sér og það er tónlistarhátíðin mikla sem byrjar bara á morgun.

Var gefinn nýr Capri sígarettupakki þegar ég kvaddi húsráðanda á heimili einu hér í Vesturbænum um helgina. Þegar ég færði mig undan móttöku, var svarað með orðinu ,, prumpi" Hvað þýðir það nú? En það var fyndið og ég stakk sígarettupakkanum inn í kæli þegar ég kom heim eins og ég hef séð vinkonu mína gera.

kossar

miðvikudagur, 13. október 2004

solgleraugu i rigningunni

Þrátt fyrir þungskýjaðan himininn þá var maðurinn sem lagði bílnum sínum ólöglega meðan hann hljóp inn til skósmiðsins með sólgleraugu með bláum glerjum. Ógrynnin öll af upplýsingum um Norður-Ameríku eru að herja innrás í heila minn, og núna er það grein um Generation X í mannfræðilegu ljósi. Fyrst var því haldið fram að sú kynslóð væri það fólk sem hefði fæðst 1965 - 1976 en síðan var ramminn stækkaður frá 1961 - 1981. Já já, þannig að ég er í Generation X. Síðan er talað um Kurt Cobain og Beck sem söng I´m a loser baby sem á m.a. að einkenna þessa kynslóð. Ég segi nú bara sveiattan. En skemmtilegt.

Hef fengið fjölda ábendinga í gegnum tölvupóst vegna óvirks ábendingakerfis. Hef reynt að kippa því í liðinn.
Hávaðinn frá götusóparabílnum er að dvína út þar sem hann fjarlægist og kominn tími til að halda áfram lestrinum.
Í friði.

sunnudagur, 10. október 2004

helgarfri að renna ut

eftir vinnu á föstudagskvöld upplifði ég bjórkvöld að hætti vinnustaðarins. Skundaði á tónleika með hljómsveitinni Hjálmar og náði síðustu tveimur lögunum í stútfullum sveittum sal fólks sem dillaði sér endalaust, en persónulega fannst mér gítarspilið einkennast of mikið af sýrurokki sem ég náði ekki að tengja við en fílingurinn nötraði um merg og bein. En dilledí dill og myndin Cold Mountain vermdi vídespólutækið með góðri tónlist og hægum en góðum framgangi. Ásamt myndinni Jesus de Montreal sem sýnir hóp leikara setja upp sögu Jesú fyrir siðblindan prest o.s.frv. En persónur myndarinnar eru forvitnilegar þó ég hafi sofnað undir lokin undir jesúræðum leikaranna.

Risk var spil kvöldsins þar sem tekist var á um lendur heimsins. Þegar spilið var búið hafði ósjálfrátt myndast ákveðið jafnvægi í heiminum. Og þá spyr maður sig um landamæri heimsins í dag, alþjóðavæðinguna, allsherjarsamböndin og fólksflutningana. Til hvers þarf landamæri? Er einmitt að fara að skoða menningarsvæði Norður - Ameríku til þess að halda fyrirlestur um þau og hvort menningarsvæði séu enn til í skólanum sem verður eflaust forvitnilegt.

The Fiery Furnaces systkinin gera skemmtilega tónlist. Hlakka líka til þegar airwaves kemur. góða nótt.

föstudagur, 8. október 2004

The Caterpillar

Það er margt sem flýgur í gegnum hausinn á mér þessa stundina þegar ég hlusta á Dusty Springfield syngja skrítin lög. Lísa og vinnan. Byrja á vinnunni.

Göturnar glitra og ég er að hjóla heim eftir vinnu. Þegar hafa myndast hópar fólks utan við skemmtistaðina. Þvílíkt og annað eins. En þjóðleikhúsið glitrar líka, því ég held að það séu hrafntinnubrot í klæðningunni. Vinnustaðurinn þar sem ég er andlitið ,,útávið" eins og starfsmannalýsingin kveður á um. Ég er semsagt andlitið í plexíglerbúrinu með lúgunni við bakdyrnar. Þar streymir endalaust af starfsfólki út og inn. Fáir sem eiga þangað ekkert erindi fara þar í gegn. Kannski eiga æstir aðdáendur einhverra leikarana eftir að safnast saman í forstofunni. En þannig var það næstum því í kvöld. Einn hljóðfæraleikaranna bað um að 4 ungar stúlkur (14-16) sem voru á sýningunni, 3 vinkonur og 1 frænka fengu að bíða eftir að þær yrðu sóttar. Gott og vel.

boy in da corner með Dizzee Rascal komin á fóninn, því ég má bara hlusta á d í kvöld. Hve langt í stafrófinu kemst ég? Ok. þarf samt ekki að vera í stafrófsröð, því ég var að byrja.

Skyldan kallaði og ég þurfti að arka af stað kvöldrúntinn sem felur það í sér að villast um ranghala byggingarinnar, slökkva ljós, læsa sumum hurðum (8 í einum stigaganginum), tékka á gluggum o.fl. í bjarma neyðarútgangaljósanna. Ég var ekki viss hvaða tilfinningar ég bæri til spurningarinnar: ertu myrkfælin? og það eina sem mér datt í hug var tilbúin sena í anda Ichi the killer. Semsagt: hinar 4 ungu meyjar bútaðar í blóðuga bita í plexígler búrinu. Er leikhúsið byrjað að hafa áhrif á mig? Eru hryllingsmyndir draugar nútímans? Án efa verður fjallað meira um myrkfælni síðar en út í aðra sálma

þegar Dizzee er að ganga fram af mér með klámfengnum textum, skipti yfir í... augnablik... Death Cab for Cutie og Phonebooth, Hvílíkur léttir.

Lísa í Undralandi er mögnuð. Var hugsað til hennar og teikninganna í bókinni, fann meira að segja fallega mynd sem hægt er að ímynda sér hér.

Góða nótt.

þriðjudagur, 5. október 2004

tölvutregða

hef aðeins reynt að finna útúr því hvernig maður getur látið svona fítusa inn, en gengur hægt. Nýja starfið leggst vel í mig og ég búin að fá lykla. Las grein um egypskar sápuóperur í skólanum sem var forvitnilegt, þar sem fjallað var um afturhvarf til upprunans í menningarlegu tilliti. (hægt er að ímynda sér að hér væri mynd af aðalleikurm sápuóperunnar ef ég bara fyndi út hvernig. Sem gerist einn góðan veðurdag.

föstudagur, 1. október 2004

ertu myrkfælin?

en ég var einmitt spurð þeirrar spurningar í atvinnuviðtalinu í gær. Jú, mikið rétt, ykkar einlæg er orðin bakdyravörður í þjóðleikhúsinu. Byrja á mánudaginn. Spenna og draugar í lofti. Nánar um starfið síðar. Ætli ég fái stóra lyklakippu? hvað með úlpuna (svart glansefni með appelsínugulu fóðri og hvítum flögnuðum stöfum á bakinu)?

fimmtudagur, 30. september 2004

Skoðunarferð um Skotaland

Fimmtudagur: flogið til Glasgow FI430, náð í svartan sænskan bílaleigubíl. Ekið til Oban (á vesturströndinni) í gegnum þjóðgarðinn og meðfram Loch Lomond. ég hafði prjónadótið með til þess að þurfa ekki alltaf að hafa augun á veginum því alex var búinn að taka það að sér að vera ökumaður. Prjónadótið var í skottinu.

Oban: keyrðum í gegnum þennan bæ sem var ekkert spes, fullur af eldra fólki. Fundum mömmuna Betty og systurina Jean niðri á höfn. Ferjan ferjaði okkur og bílinn til Lochboisdale á eyjunni South Uist á eyjaklasanum sem kallast Outer Hebrides. Ferðin yfir tók um 5 klukkustundir.

Lochboisdale: komum í myrkri og fundum Bed & Breakfast húsið okkar úti í sveit hjá gamalli hvíthærðri konu. Morgunmaturinn sem hún framreiddi morguninn eftir samanstóð af hafragraut, eggjum, pulsum, blóðmör, lifrarpylsu, steiktum tómötum og að sjálfsögðu tei. Og með þetta í maganum héldum við á vit ævintýranna.

Föstudagur: Keyrðum á einbreiðum vegum í suður, þar sem við fundum ferju sem fór til eyjarinnar Barra. En það er einmitt staðurinn þaðan sem MacNeilararnir koma. Eyjan er ekki stór, en falleg. Í Castlebay, sem er aðal staðurinn, var fyndin stemning. Í glugga einnar búðarinnar var skilti sem á stóð: we´re open when we´re open. Smábátur við höfnina færði okkur yfir á eyjuna sem kastali ættarinnar stendur á. En hann var lánaður skosku varðveitingarstofunni til þúsund ára fyrir eina viskíflösku. Kastalinn var magnaður. Hann stendur semsagt á lítilli eyju í höfninni og fyllir alveg útí eyjuna. En innan veggjana er garður sem kom mér mjög á óvart.

Keyrðum alla leið til South Uist og fundum B&B þar þar sem við lögðumst til hvílu.

Laugardagur: Eyjan South Uist skoðuð og m.a. svona mini-Stonehenge. Ferja tekin til Isle of Skye frá Lochmaddy. Keyrt frá Skye til skosku hálandanna. Nánar tiltekið Inverness sem er aðalborgin þar í norður Skotlandi. Í sveitinni þar hafði Jean reddað sumarbústað rétt við Loch Ness. Það tók rosalegan tíma að finna staðinn og allir orðnir nett pirraðir á því að vera í svona nánu rými sem einn bíll er, en á endanum voru allir glaðir.

Sunnudagur: Þrátt fyrir að vita það að vísindalega séð, þá gæti skrímsli á stærði við Nessie aldrei lifað á því æti sem finnst í Loch Ness, þá var ég nú samt aðeins að líta eftir henni Nessie. En hvað um það.

Keyðum um sveitirnar þarna í kring og ætluðum að enda í Granttown, þaðan sem Grantararnir koma. Betty (mamman) er semsagt fædd Grant og fyrir u.þ.b. 30 árum heimsótti hún staðinn og Grant-kastalann sem þá var í eyði. Og heldur brá okkur í brún þegar við komum að honum að augljóslega var búið í honum. Og eins og sveitafólki sæmir bönkuðum við uppá og var boðið inn að skoða. Þessi skoðunarferð átti eftir að taka langan tíma, enda talaði maðurinn endalaust, fullur af fróðleik, en kastalann keypti hann eftir að hafa séð hann auglýstan í Home & Gardens tímaritinu. Til þess að gefa nánari mynd af upplifuninni, þá minnti hann mig á brjálaða vísindamanninn / einræna rithöfundinn, en við komumst aldrei að því á hverju hann lifði, en hann var búinn að vera retired í tvö ár. Hér sletti ég ensku, enda finnst mér ,, það að vera komin á eftirlaun" ekki passa, því það er sjaldgæft að vel efnað fólk fari á eftirlaun hjá ríkinu. Jæja, uppi á þaki í miklu roki tók kappinn upp dauðan skorpnaðan fugl sem hann ætlaði að eiga, taka mynd af honum og varpa henni upp á vegg í veislunni sem verður í nóvember. Og að sjálfsögðu var okkur boðið. Grant-kastalinn og umhverfi hans var alveg einstakt og ævintýri líkast.

Eftir þennan túr og te, var haldið til Colladen, en það er sléttan sem skosku Stewartarnir börðust við ensku Tutorana. 1200 skotar féllu. England vann og í kjölfarið voru allar skosku ættirnar gerðar útlægar, m.a. mátti ekki vera í skotapilsum og ekki spila skoska tónlist. Þess vegna fluttu MacNeil fjölskyldan og Grant fjölskyldan til Kanada.

Mánudagur: Lestin tekin til Glasgow, þar sem leiðir skildu. Mæðgurnar héldu áfram för sinni í leit að ævintýrum, en við Alex hurfum inn í borgargeðveikina og enduðum ferðina á frábærum ítölskum veitingastað þar sem við borðuðum kjöt af Boar (er það villisvín?)

Þriðjudagur: Flogið með FI431 frá Glasgow heim eftir frábæra ferð, en jafnframt mjög nána, bæði í líkamlegum og andlegum skilningi þar sem þurfti að ræða mörg fjölskyldumál. En kastalarnir voru tvímælalaust hápunkturinn.