föstudagur, 29. apríl 2005

læri læri læri

kannski tækifæri, ég veit það ekki, en reyni að vera iðin við lesturinn. Er samt ekkert að fríka út strax. Enda fyrst prófið ekki fyrr en á föstudaginn eftir viku. Þess á milli vinn ég, hjóla, fer í sund, borða, sef, horfi á Desperate Housewifes og margt fleira. Þó að D.H. sé ágætis afþreying líkar mér ekki sú staðreynd hversu vinsæll þátturinn er í usa. Þar er ekki mikið gert til að létta undir þeirri ákvörðun fólks að stofna fjölskyldur, og þeir sem þora að gera það þurfa að vinna á fullu, og oft kemur það líklega betur út, fjárhagslega að einn foreldrinn sé heimavið, vegna hás dagvistunarkostnaðar, skatta, o.s.frv. Og hver ætli það sé? er það ekki hún mamma litla. Og allar litlu mömmurnar, sem langar kannski að vera úti á vinnumarkaðinum, eða í skóla, sjá sér ekki kleift að gera það vegna samfélagsins og þess vegna horfa þær bara á D.H. og þannig heldur hringrásin áfram. Valdatöfl og íhaldssamar trúartruntur sem kippa í spottana á bakvið tjöldin til að hafa samfélagið sitt fínt og framleiða bara þætti sem ,,endurspegla" samfélagið og sýna hvað það er eðlilegt, gott og gaman, og stundum erfitt, eins og þegar maður verður háður rítalíni barna sinna, að vera heimavinnandi húsmóðir.

Ég ber fulla virðingu fyrir þeim húsmæðrum og húsfeðrum sem heima eru, en þegar þetta er komið í svona massavís eins og er svo oft í henni ameríkunni, þá stendur manni bara ekki á sama, sérstaklega ekki þegar aðalsjónvarpsþátturinn er orðinn DH. Ég er meira að segja viss um að ef út í það fer að börn láti sjá sig á þessu heimili, þá verði rifist um hvor foreldrinn verði meira heima. En það er ekki á planinu, bara svona til að róa lesendur sem hafa farið að hugsa eitthvað dónó. læri læri læri og góða nótt.

laugardagur, 23. apríl 2005

verða hugsandi tilfinningaverur a öllum sviðum

er hugmynd Birgis Sigurðarsonar við lífsflóttanum, græðginni og geðveikinni sem einkennir íslenskt samfélag. Honum er ég sammála.



Er að setja mig inn í og skipuleggja próflestur sem hefst fyrir fullri alvöru á mánudaginn. Það verður gaman vil ég telja mér trú um svona fyrirfram, en veit líka að stundum við eldhúsborðslesturinn er mér litið út um gluggan til að tékka á því hvað er að gerast í götunni. Það gerðist einmitt í gær þegar ég var að hita upp fyrir lesturinn. Og þá líka horfi ég lengi. Nýr hvítur köttur kominn á stjá, búin að fatta hver er maðurinn með skallann og í leðurjakkanum (séð ofanfrá) og að einn nágranninn er orðinn ískyggilega sólbrúnn. Ég sit og gægist oft út um gluggann á hér vel við. En er að hlusta á disk sem ég verslaði í Ameríkunni World Reggae. Reggí frá ýmsum stöðum heimsins. Forvitnilegt.

Þá bíður kaka í poka á eldhúsborðinu sem verður á boðstólnum í kvöld, enda vegleg veisla í uppsigi þar sem gestir koma með sinn eigin mat, en deila síðan. Svokallað Potluck dinner. Auglýsi eftir góðri þýðingu á hugtakinu yfir á hið ylkæra, ásthýra...



Í Ameríkunni var chillað feitt. Þá á ég við að dvöl mín þar var laus við allt stress og æsing. T.d. líkaði mér ákaflega vel að geta horft á sjónvarpið í undurmjúkum sófa með brósa. Mér líkaði líka vel að þurfa aldrei að fara í úlpu. Sniðgekk allar veitingahúsakeðjur, fyrir utan eitt skipti þegar einu Starbucks kaffi var svolgrað niður. Verslaði föt í Crap (Gap) en á móti verslaði ég líka föt í American apparel sem gefur sig út fyrir að vera Sweatshop-free. Áberandi munur á þyngd töskunnar við brottför og við komu. Hey, dolli er svo lár. Til að kóróna verslunarleiðangurinn var fjárfest í prýðis lárperuskerara. Hef reyndar ekki prófað hann. Tilgangsleysið alveg í botn. Tilgangur minn er hins vegar ekki ónýtur, njóta, elska og vera til. (upptalning breytileg).



Birgir S. skrifar einmitt handritið að leikritinu Dínamít sem fjallar um Nietzsche sem verður frumsýnt í næstu viku, en á morgun ætla ég að sjá Klaufa og Kóngsdætur byggt á verkum H.C.Andersens.

fimmtudagur, 14. apríl 2005

í miami

tja hvað skal segja. Goturnar i miami eru breiðar, enginn labbar neitt. Almenningssamgöngur nánast engar. Strætóar sem ekki er hægt að stóla á. Ein leigubílastöð. Allir eiga semsagt bíl. Líterinn af bensíni kostar 40 krónur og allir eru brjálaðir því verðið er orðið svo hátt. Er ekki búin að hræðast neitt í umhverfi mínu, nema Iguana eðlur og þvottabjörn. Þvottabjörninn elti mig. Horfði á mig eins og hann vildi mér eitthvað. Fyrst hélt ég að þetta væri skunkur, en hann var ekki svartur og hvítur eins og í teiknimyndunum og það kom aldrei einhver rosa fýla, síðan tók ég eftir svartri augnaumgjörðinni og þá fattaði ég að þetta væri þvottabjörn sem vildi kexið sem ég hélt á. Síðan er líka gomma af litlum eðlum sem maður kippir sér ekkert uppvið. Hér er gaman. Hér er hiti. Hér eru allir rosa almennilegir. Hér er allt stórt. Útskriftartónleikar Doddanns voru í gærkveldi. Það var gaman. Rosa trommusóló. Hann fraus ekkert, en var næstum því búinn að gleyma að bjóða í eftirápartýið. Í dag verður haldið á south miami beach. Ekki til að sóla sig, heldur frekar til að skoða mannlífið. Hér eru mafíur. T.d. er rússneska mafían sterk hér um slóðir. Ég hef samt ekki hitt hana. Já það er internet í miami.

laugardagur, 9. apríl 2005

endalok

samkvæmt stjörnuspá minni í einhverju dagblaðanna áttu að vera einhver endalok í mínu lífi í dag, þann 8. en nú er komið rétt yfir miðnætti og enn hafa engin endalok orðið. Kannski á ég bara eftir að fatta það seinna og muna, aha, já það var þarna 8. apríl...

Einu endalokin sem ég sé fyrir mér eru þau að í dag séu endalokin á því að hafa aldrei heimsótt elskulegan bróður minn í hættulegustu borg BNA, Miami. En klukkan 11:30 pm að staðartíma mun ég lenda í Fort Lauderdale, þangað sem hann sækir mig og ég á að bíða úti á stétt því hann nennir ekki að leggja. Tæp á tíma, einungis hálftími til stefnu ef maður er að spá í endalokadæmið. Ég hlakka ofurmikið til. Er búin að finna til stuttbuxur og sundföt enda býst ég við að notfæra mér laugina sem er í garðinum. Hver veit nema ég skelli mér á ströndina og horfi á eiturharða rassa þjóta framhjá á línuskautum. En pottþétt tek ég einn túristadag og vonandi eru tveggjahæða opnar rútur í það dæmi, en svo hef ég heyrt að það sé líka hægt að skoða borgina frá sjónum, semsagt á báti og sjá hús fræga fólksins. Annars veit ég ekkert hvernig ég á að eyða tíma mínum. Jú, er búin að finna á netinu heimilisföng búða Hjálpræðishersins í Miami og apple búðar. Þetta verður sko fjör, og mér hlakkar líka sérstaklega til útskriftartónleikanna sem eru jú yfirskrift þessarar ferðar. En nánar um það síðar, en annars var ég að velta því fyrir mér í dag, ef maður væri í þeirri aðstöðu að fara að spila svona tónleika og myndi bara frjósa. Líkaminn ekki svara hausnum. Já, allt getur gerst og best að ég taki með ilmduft til að lífga fólk við. Svona eins og í gömlum bíómyndum. Þá hef ég upplifað neikvæð áhrif ilmdufts þegar kaþólskur drengur sem var við altarið í fermingu hné niður vegna ilmduftsins...

Sýprusviðarkista - Sinkkista - Eikarkista. Afhverju þarf páfinn þrjár kistur? Ef sinkkistan er loftþétt, rotnar líkið þá ekki? Forsætisráðherra vor lýsti því yfir að athöfnin hefði vakið bæði gleði og sorg hjá honum. En hjartnæmt, sannarlega tilfinningavera þar á ferð. Nú er ég farin að bulla og líka bara farin. Í bili. Kannski er internet í miami.

mánudagur, 4. apríl 2005

soðningin

hæ og hó vefheimur. Þetta bréf skrifa ég soðin í hausnum eftir 14 tíma vakt. Líður soldið eins og hjúkrunarfræðingi að koma heim eftir vakt því stundum þarf ég að gefa út plástra, Aloe Vera og hausverkjapillur. Síðan þarf ég líka að hlusta á endalaust mikið af fólki, misáhugaverðu. T.d. keypti einn maður sér úr á 300 krónur í Kolaportinu í dag. Ein kona fræddi mig um núðlumyndir frá Tælandi sem hafa erótískan undirtón. Kaffið flæddi. Ritgerðin mín flæddi. Áhrif hnattvæðingar á tónlist frá Zimbabwe. Lyftan bilaði. Einn gaf mér Fréttablaðið í dag og annar fjallaði um mannfjöldann í Kína og þaðan fór hann út í kínverska fjármagnið sem að hans sögn flæðir um Bandaríkin. Einn velti fyrir sér hvað hann ætti að gera við sjávarfiskabúrið sitt og ein fjallaði um hvað hún elskar mikið að vinna í stressi og óvissu. Þannig að höfuð mitt er fullt af upplýsingum sem ég veit ekki alltaf hvað ég á að gera við, en ég gæti náttúrulega bara skellt mér út í glugga og öskrað. En þess þarf ég ekkert því nú er ég komin heim. Heim í frið og ró. Íbúðin fyrir neðan er til sölu, 17,8 og góðvinur minn sem er einmitt að leita sér að íbúð vestanmegin Lækjargötunnar skoðaði. Það væri ekki amalegt að geta haldið tveggja íbúða teiti. En hvað um það. Helgin byrjaði vel á því að þriggja dömu matarboð var haldið og öllu skartað. Sérstaklega gleði. Það var gott. Lífið er gott.