þriðjudagur, 29. apríl 2008

Les Jardins des Mandarines

Það var dimmt úti og ljós borgarinnar lýstu upp hafflötinn. Klettarnir við höfnina voru dimmir og tignarlegir. Við sátum afturí og bílstjórinn keyrði okkur tvö, ástfangin sem aldrei fyrr, um borgina. Ég vissi að ég þurfti að fara ein af stað og bað bílstjórann um að láta mig út. Ákveðið var að við myndum hittast aftur á sama torgi eftir skamma stund. Ég hélt af stað og fór m.a. inn í einnar hæðar verslunarmiðstöðvar sem voru mjög gamaldags með gömlum vörum í. Þar var margt um manninn. Þegar líða tók á drauminn fann ég að ég þyrfti að fara að finna leiðina á torgið til að hitta sambýlinginn/ástmann minn í bílnum hjá bílstjóranum. Það gekk ekki vel. Ég leitaði út um allt að torginu en án árangurs. En var mikið af fólki sem ég mætti í þessum gömlu verslunum á meðan ég var að leita að torginu. Að lokum fann ég lögregluþjón sem ég var sannfærð um að gæti hjálpað mér. Við hann talaði ég frönsku eins vel og ég gat, enda komst ég að því þegar ég talaði við hann að ég væri stödd í borginni Les Jardins des Mandarines. Lögreglumaðurinn gat ekkert hjálpað mér. Ég vissi að ég yrði að finna torgið og komast burt, því á morgun, klukkan 13:30 var áformaður fundur. Fundur þar sem ég myndi hitta manninn sem aðrir höfðu ákveðið að ég ætti að giftast.

mánudagur, 21. apríl 2008

list

Smágerð og fínleg listaverk innan á sturtuhurðinni verða til við hvern hárþvott þessi misserin. Ég er með þykkt hár og eðlilega losnar um slatta af hárum undir eðlilegum kringumstæðum. Þegar ég var með barn í bumbu hætti það en núna hrynur hárið á mér úr höfði mínu. Ekki svo að skilja að ég sé komin með skalla, heldur er ég með ágætan makka, en þetta veldur mér smá heilabrotum á borð við:
á hárið á mér eftir að þynnast mjög og aldrei verða samt aftur?
Þarf ég að nota stíflulosandi eitur í niðurfall sturtunnar?
Ætti ég að snoða mig, því þetta er pirrandi í sturtunni og við hárburstun (annars tek ég ekki eftir þessu.)?
Getur maður fengið hárlos ef maður er snoðaður?

Nóg um það.
Heimsóttum útskriftarsýningu LHÍ á sunnudag. Þessi sýning í heild sinni náði mér ekki eins vel og þær hafa oft gert áður. Ég þarf líka aðeins að setja mig í stellingar til þess að sjá point-ið í welfare- bónus - listinni sem bar stundum á góma á sýningunni. Mörg verk náðu þó að sjóða hausinn á mér og það var hressandi.

Allt í sómanum hér, halleljúka allegjója. Uppi á lofti er verið að brasa við að semja texta fyrir kórinn sem verður hluti af stærri hljómsveit í lokaverki tónsmíðanemandans. Hvers vegna má ekki bara vera da da da do do do dí dí dí fyrir kórinn? Verður merking listar dýpri ef raunveruleg orð eru til grundvallar listaverkinu? Getur listaverk ekki verið til af því bara?

Listarlaus kveð ég með ljós í hjarta.

föstudagur, 18. apríl 2008

Göngutúr í kreppunni

Í mömmuklúbbnum sem haldinn var hérna heima í fyrradag var mér litið yfir stofuna og sá 20 fallega einstaklinga haldandi á snuddum og bleyjum. Hugurinn bar upp svipaða mynd af góðu fólki í stofunni okkar fyrir um ári síðan haldandi á bjór og sígó.

Á horninu á Snorrabraut og Laugavegi voru 2 bílar á rauðu ljósi fyrr í dag. Allt í einu heyri ég dynk og lít við og sé þá stóran ruslapoka liggja á götunni. Innkaupapoka fullan af rusli, drykkjarumbúðum og slíku. Ljósið verður grænt og bílarnir keyra í burtu. Ég veit ekki úr hvorum bílnum ruslið kom, hneykslaðist mjög af vanvirðingu fólks við umhverfið. En kannski er þetta ekkert verra en að henda sígarettustubb út um bílglugga? Fattaði síðan að ég hefði gleymt spæjaramerkinu heima, því ég gleymdi að taka niður bílnúmerin og hringja og kvarta... já hvert hringir maður og kvartar yfir svona löguðu....? Ein sem hefur nógan tíma á höndum sér þessa dagana.

Við gamla útvarpshúsið á Skúlagötu sem nú hýsir Sjávarútvegsráðuneytið hitti ég eldri mann. Hann kom akandi á stóra jeppanum sínum, sá mig með vagninn, keyrði upp á gangstétt og lagði bílnum þar. Þvert í veg fyrir gönguleið mína. Hann vippaði sér út og spurði eitthvað á þá leið hvort hann væri fyrir mér. Já, svaraði ég og sagði það hættulegt að fara út á götuna með vagninn. Hann svaraði því til að jú, verðmætin í vagninum væru mikil, en umferðin væri lítil og því gæti ég nú alveg skotist fram fyrir bílinn á götunni....

Annars þýtur tónlistarhúsið upp. Það verður spennandi að sjá hverjir fá þar inni. Verður skilum há- og lágmenningar viðhaldið, eða fá allir aðgang að húsinu til tónleikahalds? Síðan má líka vera að húsið bjóði ekki upp á það andrúmsloft sem margir kjósa og verði of sterílt með hörðum útúrnýtískulegum plastsætum.

Þrátt fyrir þessa viðburði dagsins í dag, var dagurinn ljúfur og góður. Ég er södd og sæl.
Já kreppan.

sunnudagur, 13. apríl 2008

brjost og bilar

Þá er ungfrúin að ná þriggja mánaða aldri utan þjónustusvæðis. Ekki amalegt það og brjóstin full sem aldrei fyrr. Merkilegt hvað þessi brjóst eru fullkomin. Alltaf nóg að drekka á réttu hitastigi. Athyglisvert er að nú tekur hver drekkutími mun skemmri tíma en til að byrja með og getur farið niður í allt að 15 mínútur á meðan hann var um 60 mínútur fyrst um sinn. Þetta gefur mömmunni meira svigrúm til að athafna sig eins og til dæmis til rannsókna og er lestur ýmissa fræðirita hafinn. Það er gaman. Annað sem vekur furðu er að það skiptir ungfrú S. miklu máli á hvoru brjóstinu byrjað er að drekka. Það vinstra er best í desert og því má aldrei byrja á því í forrétt. Síðan er klassískt að kúka vel og ropa kröftuglega án tafar eftir að búið er að svolgra í sig.

Þegar að þjónustusvæðum kemur, þá hefur þjónusta Reykjanesbúa á bílasölum algjörlega vinninginn miðað við í Reykjavík. Það er engin spurning að næsti bíll sem kemur í fjölskylduna í framtíðinni mun koma af Reykjanesinu. Nú nýlega skiptum við út Hnakkanum fyrir The Red Thunder (sem er dökk-blá-grá Skoda Octavia, keyrð 51000 km, árgerð 2005 (nýrra módelið)) og fengum klárlega besta dílinn á Reykjanesi auk þess að nýjum heilsársdekkjum var hent undir kaggann. Hér í Reykjavík var viðmótið yfirleitt það að fyrst þú varst ekki alveg á kafi í bílum (ég tel mig nú nokkuð vel á kafi í bílum miðað við sambýlinginn) þá varstu ekki ómaksins verð í viðskiptum. Mér dettur líka í hug hvort það hafi skipt máli að ég væri kona í þessum viðskiptum með karlkyns útlending í ,,eftirdragi”. Topgear.com hefur verið mitt hald og traust í þessum viðskiptum auk þess sem pabbi kom í einn bíltúrinn og gaf góð ráð. Annars er allt í blóma og kominn tími á það að maður hætti að vakna við snævi þakta jörð. Sumar og sól takk.

föstudagur, 11. apríl 2008

sunnudagur, 6. apríl 2008

in the ghetto?



Í skjóli nætur skrásetti Tagg-art viðveru sína hér í götunni með því að skilja eftir merki sitt HPCS á útidyrahurðinni. Mér brá nokkuð þegar sambýlingurinn tilkynnti mér þetta og varð jafnvel reið án þess að hafa séð merkið. Sú reiði rann fljótt af mér enda hugsa ég vanalega til veggjalistar og graffítis sem ákveðna tegund listforms. Þegar ég svo sá loksins merkið á leið til ömmu varð ég fúl og glöð. Fúl yfir því að það sé ekki einu sinni flott. Glöð yfir því að það rennur ágætlega inn í viðinn og að Taggart hafi séð ástæðu á þeim tímapunkti að merkja þessa hurð. En hver taggar á viðarhurð?

Eins og glöggir lesendur láta ekki fram hjá sér fara má sjá hvítan límmiða á dyrabjöllunni sem einmitt fékk þetta nýja heimili í skjóli helgarnætur fyrir löngu. Enginn hefur einu sinni reynt að fjarlægja hann. Nú verður forvitnilegt að sjá hvað íbúar hússins gera, verður aksjón um að fjarlægja HPCS eða fær merkið að vera?