þriðjudagur, 30. janúar 2007

með i leiknum

dring drrriiinnng.
ansað:

a. sveinbjörn...
(mikil læti í bakgrunninum)
b. hæ (hik) er elsa heima?
a. ertu ekki að djóka? hringdu aftur eftir þrjú korter...
lagt á.

alveg rétt, handboltinn.
ok. ég fer þá bara að gera eitthvað annað.
bæ.

sunnudagur, 28. janúar 2007

get your funk out

raftónleikar myrkra músíkdaga í Salnum á föstudaginn var.
Já já já. raf haf.
Umgjörð tónleikanna, staður og tónleikaröð, ásamt þeim sem léku verk sín er allt hluti af senu hér á landi sem gæti kannski flokkast sem hámenning. Þ.e.a.s. að tónlistarfólkið sé menntað og búið að vinna sér inn ákveðna virðingu innan ákveðins hóps tónlistarfólks (ekki stór sökum fólksfæðar á landinu) sem allt hefur t.d. menntað sig á svipuðum stöðum, er á sama aldri, í sömu stétt o.s.frv. Sumir myndu kannski nota orðið tónlistarelíta fyrir hópinn og forvitnilegt verður að skoða endurnýjun þessa hóps sem er kannski í startholunum með nýrri kynslóð rafskálda. Ætli sú kynslóð sem nú er að vaxa upp komi til með að þróast í elítur... hámenningu og lágmenningu eða er það strax byrjað? Skiptir menntun tónlistarfólks öllu máli? Færðu meiri styrki til þess að rembast við að lifa af tónlistarsköpun þinni ef þú ert búin að mennta þig hér og þar?

Flest verk tónleikanna voru samin árið 2006 af hvítum millistéttar karlmönnum yfir þrítugt. Öll verkin hljómuðu eins og eitthvað annað sem ég hef heyrt, kannski á tónleikum á reykmettuðum börum á sunnudagskvöldi. Það var spes að horfa á þá stíga eina upp á svið, kveikja á tölvunni og fikta í henni. Sumir voru með skalla. Aðrir með ístru. Uppáhalds var The inner voice eftir Marius Baranauskas. Það eins og fleiri verk voru leikin af geisladiski og höfundar ekki viðstaddir (þá erlend tónskáld). Eitt verkið var fyrir bassaklarinett og tölvu. Þá spilaði bassaklarinettuleikari með tölvunni sem tónskáldið stjórnaði, ábyggilega í einhverju hardcore forriti sem skáldið bjó sjálft til. Áhorfendur voru kannski 10 - 15. FUnkyStuð.

Annars er bara sunnudagssíðdegi og borðið er í málun. Ákvað að nota vatnsþynnanlegt lakk. Saumavélin (sem var keypt fyrir tilstilli kærastans á markaði í Köben og tekin með í flugvélina, þung, græn að lit) er í láni og því get ég ekki saumað dúk. Kann heldur ekki að sauma í hring. Bara fram og til baka.

fimmtudagur, 25. janúar 2007

innlit utlit

uppúr tíu í morgun fórum við pabbi á bílskrímslinu hans og sóttum sex stóla. Skrímslið getur komið sér vel þegar það hentar. Annars er ég yfirleitt á móti svona bílskrímslum sem eyða miklu, hafa læti, menga gommu og keyra yfirleitt um bara með einn innanborðs.

En stólarnir eru fallegir og ég er að byrja að verða vinur þeirra. Nú passar eldhúsborðið ekkert sérlega vel við að mati tískugúrúanna... mér datt í hug að sleikja það bláu skipalakki, en til þess þarf ég skemmuna sem ég minntist á hér á mánudaginn, því gufurnar eru líklega ekkert spes svona inni á þriðju hæð.

Annars er það helst á döfinni að fara upp á loft og finna út hver skaut JR?

mánudagur, 22. janúar 2007

manudagur

Í dag hækkar fullorðinsfargjald strætó upp í 280 krónur. Það eru næstum 2 lítrar af bensíni. Eins og gestgjafinn í Kópavogi benti á þá undrar maður sig á því hvernig Akureyri getur boðið ókeypis í strætó. Hópur fólks hélt í ævintýraferð upp í Kópavog í gær í strætó. Það var gaman. Börn og bakkelsi.

Hljómsveitin Sólstafir hélt tónleika í Nýló á laugardaginn. Þar var nettur sviti í gangi og hljómsveitarmeðlimir allir með þétt skegg. Söngvarinn sem er líka gítarleikari notaði hljóðfærið óspart sem framlenginu karlmennskutákns síns. Í rokkinu hefur kynímyndin snúist við að sumu leyti. Í samfélagi okkar er það konan sem er kynímyndin og er sett fram sem hlutur sem menn girnast. Rokkið er karllægur heimur þar sem konur eru í minnihlutahóp. Uppi á sviði eru þeir miðpunkturinn, hluturinn sem áhorfendur sjá og þrá. Þannig eru karlkyns-rokkarar orðnir að n.k. kynímynd uppi á sviði. Í framhaldi af því er ég að spá í því hvernig androgyny hefur verið í ,,tísku" að undanförnu. En bæði hafa konur sótt fram í rokkinu og ímyndin af indí-rokkaranum er oft (barnalegur) skegglaus maður /strákur (kannski með hýjung). Á tónleikunum á laugardag var spiluð heví-metal-rokktónlist. Þar virtist andinn annar og karlmennskan sveif yfir vötnunum. Tónleikarnir voru ágætir, en meira þótti mér koma til sýningarinnar sem er í gangi í safninu og gólfsins sem er þakið góðu lagi af ójafnri niðurþjappaðri mold sem gerir hljómburðinn í Nýló mun betri og mjúkhart undirlagið gerir það að verkum að það er átakslaust að standa í góðan tíma, stappa fætinum og hrista hausinn í takt við hraða tónlistina.

Það er tekið að dimma, ný vika framundan. Undanfarið hefur staðið yfir leit að eldhússtólum. Búið er að þræða helstu húsgagnaverslanir bæjarins þar sem útsölur og kostakaup eru aðalatriðið. Vandinn er að þrátt fyrir þessa ítarlegu leit höfum við ekki komist að niðurstöðu né fundið stóla sem sameina alla þá þætti sem leitað er að. Það pirrar mig. Stólarnir hennar ömmu voru fluttir inn fyrir fjörutíu árum, 1947, og enn eru þeir stöðugir og fínir. Nú væri ráð að hafa skemmu úti í garði, fullbúna smíðatækjum þar sem maður gæti sleppt sér og hent í fjóra stóla eða svo.

þriðjudagur, 16. janúar 2007

æblekage

,,undskyld (rop) æblekage"

sælla minninga í dönsku flutningaskipi hérna í Reykjavíkurhöfn. Fyrstu dönsku orðin sem ég lærði fyrir utan Anders, en ropið var á íslensku enda var dönsku appelsíni dælt í okkur krakkalingana sem fengu að fara með pabba í skipið. Ég ímynda mér að eplakaka hafi líka verið í boði.

Nú í dag bakaði ég eplaköku. Og brauð. Og kvöldmat. Ég er útbrunnin á útopnu.
Kærkomin ró við matargerð.

Búin að skrifa eins og vindurinn. Það er sko gott. Í kuldanum. Núna eru t.d. fingurnir á mér kaldir innað beini. Í dag fannst mér ég sjá bláar æðarnar. Fannst ég verða að blogga, leið hálf illa með að hafa henginguna þarna efst. Brazilian Girls eru alveg að gera sig.

mánudagur, 15. janúar 2007

ur hadegisfrettum RUV:

,, ... ekki fór betur en svo að höfuðið af hálfbróður Saddams slitnaði af við henginguna..."

sunnudagur, 14. janúar 2007

uppskrift

alveg meinhægt fer þessi janúar af stað. Ímynda mér að færðin og veðurfarið hafi þar mikil áhrif. Er samt að fara að verða tilbúin að byrja ferlið. Alltaf nýtt upphaf, nýr endir... passar það að það sé inni í einu ferli? Eða er ferli bara köngulóarvefur sem hefur grilljón ný upphöf og nýja enda? Ekki semsagt beinlína.

Bein lína,
ÞJóðarsálin,
Tökumst á
um sóðamálin...

Búin að prjóna smá uppskrift að ritgerðinni. Þarf bara að vinda mér í það að gera uppskriftina.
Yogað byrjað. Það er æði. Bíð eftir að sundið byrji... ég er alltaf að bíða eftir því. Ég elska að fara í sund. En ég á bara erfitt með að gera það reglulega. Ljúfur sunnudagur í gangi, enda te í bolla og píanóleikur í bakgrunninum.

miðvikudagur, 10. janúar 2007

12 teskeiðablus

hvílíkur munur það er, að vera löggildur eigandi 12 teskeiða.
Hingað til hefur ekki farið mikið fyrir teskeiðum fyrir utan 1 sem datt ofan í veskið mitt þegar Icelandair var enn með stálhnífapör - semsagt fyrir langa löngu, auk nokkura skeiða af mjög dularfullri stærð úr geymslu foreldra minna, stærð sem er einhvers staðar á milli matskeiðar og teskeiðar. Nú, aftur á móti, fylgdi með í einum jólapakkanum sett af 12 teskeiðum og 12 kökugöfflum úr stáli. Eða einhverju svona sem glansar. Ekki áli og ekki silfri... kannski álstálblöndu? úr hverju eru svona áhöld? Og nú er gaman að fá sér kókómalt, hunang út í teið og krydd í kryddblöndur sem er kannski það helsta sem teskeiðar eru notaðar í á þessu heimili. Kökugafflarnir hafa aldrei verið notaðir, þannig að ætli ég þurfi bara ekki að skella í köku til þess að geta notað þá. Eða henda í snittur í morgunmat...

Annars er ég búin að vera með hugann við blús undanfarna daga, enda sit ég hraðnámskeið í samberandi tónlistarfræði með áherslu á blús í skólanum. Það ætti að vera góð byrjun á þessari skólaönn. þ.e.a.s. að fara í skólann. En ég ,,þarf" ekki að mæta neitt í skólann á þessari önn sem óneitanlega hefur sína kosti og galla.

Þessi kuldi fer bara ágætlega í mig. Brakið í snjónum er gott undirspil. Kuldinn nístir inn að beinum og þannig hefur maður ærna? ástæðu fyrir því einmitt að hanga inni hjá sér. Sokkabuxur og gammósíur eru nauðsynlegar fyrir konu eins og mig sem ferðast lítið um á sumardekkjunum. Datt einmitt í hug í dag að klippa neðan af bómullarsokkabuxum til þess að nýta þær betur eftir að tekið hefur að glitta í fagurmálaðar táneglurnar sem eru loksins að ná 25 centimetrunum, ég veit, bráðum get ég sótt um í heimsmetabókina.

Ást og friður.

laugardagur, 6. janúar 2007

flugeldur

sprengjulætin dynja yfir og í gærkvöldi var kveikt í köku fyrir mig sem gladdi mig mjög, í dag var líka kveikt í morgum kökum hér fyrir utan gluggann minn, þ.e. ofan á morgunblaðshúsinu/tm. Þannig að þó engir flugeldar hafi verið til í sveitinni þá er ég sátt. Ég ætlaði reyndar að fara til Indjánanna að athuga hvort þar fengjust flugeldar en fékk engan bíl lánaðan þann daginn.

Það er óhætt að segja að frumefnin hafi umlukið mig í sveitinni en eldar voru daglegt brauð, þá svona mini-brennur. Vatnið breyttist stöðugt, enda er veðrahamurinn á Cape Breton líkur þeim sem hylur okkur hér. Ég dvaldi soldið úti í skógi... sá því miður ekkert dádýr. En það er svo mikið logn í skóginum. Sólin skein líka oft og mörgum sinnum. Allaveganna finnst mér það svona í minningunni. Snjór kom og snjór fór.

Útiveran var holl og góð og tók ég þátt í ýmsum vetrarverkum eins og mokstri, skógarhöggi og byggingu hlöðu.
Eina bæjarferðin var farin að kvöldlagi inn til Sydney þar sem yngsta bróðurnum var skutlað á stefnumót. Á meðan á því stóð þurftu ökumennirnir að hafa ofan af fyrir sér og varð fyrir valinu að sjá Blood Diamond í bíó. Ágætis mynd en DiCaprio fór sérstaklega í taugarnar á mér. Síðan var tekið í spil. Cranium, Trivial og Clue voru þar fremst í flokki, en Clue-spilið kannast eflaust margir við, nema þessi útgáfa var spiluð með aðstöð dvd-disks sem gerði spilið sérlega framandi og exótískt... Sendiherrann var jólabókin í ár. Jú jú, fyrst ég er farin að tala um það þá verð ég að segja frá Drekafræði-bókinni sem var mjög forvitnileg og hver veit nema gerist drekafræðingur þegar ég verð gömul.

Að lokum læt ég fylgja með stutta vísu sem ég lærði í sjónvarpinu í Kanada (að vísu án takts og handahreyfinga):
Nausea
heartburn
indigestion
upset stomach
diarreha