þriðjudagur, 25. september 2007

skapandi þyrluflug

Í þetta skiptið var ég ekki að stýra þyrlunni, heldur sat aftur í. Við flugum yfir strandlengjuna og sjórinn var fallegur. Himinninn fagurblár. Skyndilega komu tvær flugvélar á vinstri hönd og flugu framhjá okkur. Nokkru seinna vorum við komin yfir skóglendi, þar sem dökkgræn trén blöstu við. Ég heyrði að eitthvað snerti botn þyrlunnar, laufin snertu þyrlubotninn, þyrlan var komin að trjátoppunum. Hægt og rólega nauðlenti þyrlan og engan sakaði.

Nú var tekið að dimma og við héldum í gegnum skóginn þangað til við komum að kastalanum, sem var að vísu bara á tveimur hæðum, ólíkt Grant-kastalanum í Skotlandi sem er á fleiri hæðum, en þessi kastali var eins í laginu. (Á meðan ég skrifa þetta man ég allt í einu að tengdaforeldrar mínir eru eða eru nýlega búnir að vera að ferðast um Skotland og þá pottþétt að heimsækja kastala forfeðranna...) Allaveganna. Á leiðinni úr skóginum og í kastalann komu nokkrir strákar og buðu mér heróín sem ég afþakkaði. Þegar inn var komið í kastalann sem var ofsalega fallegur kom ég mér þægilega fyrir í eldhúsinu, hitti þar mömmu sem ætlaði aðeins niður í kjallara....

Svona er þetta bara. Ég er á fullu allan daginn og allar nætur. Síðan var mér var einmitt hugsað til sköpunarkraftsins. Ef ég er að skapa nýtt líf innan í mér þá hlýt ég að vera að nota sköpunarkraftinn heldur vel. Eftir yogað í dag tók ég tal við kunningjakonu mína, tónlistarkonu sem á líka von á barni. Hún hafði einmitt verið að hugsa það sama, sagði lítið vera að semja á þessum misserum þegar baby væri að vaxa. Sköpunarkrafturinn getur verið svo skrítinn, merkilegur og mismunandi eftir tímum. Ég skapaði t.d. þessa forláta tómatsósu í kvöld.

Annars er svo gaman í vinnunni að ég get ekki og hef ekki tíma til að hugsa um neitt annað. Hreiðurgerð og annað slíkt verður að bíða ,,betri" tíma. Þó komin með vilyrði frá vinkonu fyrir rúmi. Þá bíð ég spennt, ofurspennt eftir Iceland Airwaves þegar ævintýrin gerast og borgin ljómar af sköpunarkrafti.
ást og friður.

sunnudagur, 9. september 2007

A sunnudegi sem þessum

- vakna ég við dyrabjölluna um miðja nótt, einhver að leita að partýi
- vökva ég blómin
- bíð ég eftir að sundlaugin opni og fer í sund
- tek ég upp úr töskunni, dótið sem ég var með í vinnuferð á Flúðum sl. 2 daga
- hugsa ég alltaf um að baka köku, athuga hvort til séu egg, smjör og súkkulaði
- finn ég baby hreyfa sig
- horfi út um gluggann
- hugsa um vikuna framundan, hvað bíði mín í íslenskukennslu, fræðslu og verkefnastjórn.
- finnst mér æði ef mamma býður okkur í lambalæri, en ekki í dag þar sem hún er á leiðinni frá Istanbúl.
- fer út að labba, helst út í skóg, niður í fjöru eða eitthvert annað en 101 svona til hátíðabrigða
- fer ég ekki í kirkju, enda ekki skráð í neina
- les ég The Road eftir Cormac McCarthy
- undirbý ég viðtal fyrir Anthropology of Airwaves og MaS (Mannfræðisambandið/ModernAnthropologyStudies)
- þvæ ég þvott
- hugsa ég til Almodóvar og myndarinnar Pepi, Luci, Bom frá ca.1980 og hvort myndin hafi tengst því hvernig lífið gæti verið eftir Franco
- hlusta ég á tónlist
- borða ég jarðarberin frá Flúðum
- Takk fyrir boðskortin, en ég ætla ekki að fara á Facebook, heldur vera hér á blogspot og skrifa endrum og eins og hér getur fólk líka kastað kveðju á mig og ég get kastað kveðju til baka.
- kasta ég kossum til Valdísar Árnýjar sem ég gat ekki hitt í gær, Hrefnu, Örnu M.A.- skrifara og Möggu Stínu (sem nú ætti að vera aftur komin heim til sín og ég ætti að fara að setja krækju á), Dodda, Hjördísar, svo ekki sé talað um alla hina sem ég hugsa oft til en sé sjaldan eins og Gullu og Bigga og Björt. Og já maður, Siggu sem skv. íslenskum fjölmiðlum var að opna sýningu í New York. Maður veit aldrei hver er að koma í heimsókn hingað. Allaveganna soldill Facebook fílingur í þessu, ha... sendi öllum ykkur hér með raf-blóm, poke a friend and all that ...
- heyri ég í flugfél fljúga yfir húsið
- og skríð aðeins aftur upp í rúm og til að kúra smá meira...