miðvikudagur, 23. febrúar 2005

Gagnryni og brottför

kannski verður nýtt kríli í saumaklúbbsfjölskylduna komið þegar ég kem heim. Brottför frá G13a klukkan 06:13 á morgun. Stefnan tekin suðreftir þar sem bílnum verður komið fyrir í pössun hjá naglanum. Aukanefni við hæfi og kannski dyttir hún að samlæsingunni sem er biluð, nú eða ljósunum. Bíllinn þyrfti að fá nýjan eiganda sem getur hlúð að honum. En bílasölur eru bara svo óspennandi. En ekki Duty Free og læti. London í hálfan dag og læti. Rye og læti. Tónlistarhátíðin ATP og læti. úff hvað ég hlakka til. Nýtt umhverfi. Nýtt fólk. Ný tónlist.

Upplifði Grjótharða áðan. Nýtt íslenskt leikrit um 4 fanga sem sitja inni í fangelsi í nútímanum. Skemmtilegt hvernig sagan var sögð og fléttan vatt upp á sig. Plottið kom manni ekkert á óvart, og mér fannst nú vanta aðeins meira plott í dæmið. En tvisvar hugsaði ég um þríeininguna sem verður ekki farið nánar útí hér svo ekkert upplýsist. Verandi innan lokaðra veggja og algerlega sviptur öllu frelsi, alltaf með sama fólkinu, borðandi sama séríósið úr sömu diskunum, í sömu fötunum. Jú, leikararnir náðu alveg að túlka persónurnar sínar nokkuð vel. Lýsing mjög settleg sem og förðun. Leikmynd góð. Tónlistin mjög hressandi og með nauðsynlegar þagnir. Aðstandendur sýningarinnar fóru í heimsóknir á Litla Hraun. Aðstandendur sýningarinnar einungis karlmenn. Dýnamík sem er ekki oft í gangi á tímum herópa kynjabaráttunnar.
AKÞ leiklistargagnrýnandi dægradvalar og dægurlaga.

þriðjudagur, 22. febrúar 2005

forsidan

á eftir að gera forsíðuna, en annars get ég skilað umfjölluninni á morgun. Er að hlusta á Hjálma í fyrsta sinn heimahjámér. Er líka að bíða eftir að maturinn sem er að eldast inni í ofni verði tilbúinn. Er búin að vera á fartinni í dag. Heimsóknir og læti. Amma að tala um sjálfsvíg, pillunotkun, dagvist fyrir aldraða og fólk meðan hún gerði við 2 göt á peysunni minni og ég lapti þunnt kaffið með kaffirjóma með skólabók í kjöltunni. Alltaf þegar ég var búin að lesa svona hálfa blaðsíðu byrjaði hún aftur. Tuðaði síðan yfir sjálfri sér að hún leyfði mér ekki að lesa, því hún talaði svo mikið. Hún var bara sæt, gömul kona sem líkar ekki svo vel við þokuna sem er búin að hanga hér í Reykjavík síðustu daga, heldur líkar mun betur við þokuna fyrir austan, þar sem hún er svona meira blágræn. Ekki svona grá. En mér finnst þokan bara soldið spennó því maður veit aldrei hvað býr í þokunni...

fimmtudagur, 17. febrúar 2005

ritskoðun a fimmtudegi

En þessa dagana er ég mest að spá í það hvernig Vesturlöndin þvinguðu hugtakinu og tvíhyggjunni karl/kona upp á ýmis samfélög í Afríku. En á sumum stöðum var ekkert sem greindi kyn í tungumálinu, eða kyn í félagslegri stöðu. Það eina sem greindi fólk að í goggunarröð / virðingarstiga var líffræðilegur aldur. Þetta var semsagt áður en Evrópa söðlaði Afríku undir sig. Nema Eþjópíu og eitthvað eitt annað land sem ég man ekki hvað heitir.

Jamm og jæja.

mánudagur, 14. febrúar 2005

hitt og þetta

eftir að hafa hlustað á frosetann tala á ensku og vera skrítinn og reyndar töluðu allir ensku þarna, þá fór ég í helgarferð. Brunaði brautina og heimsótti skemmtilegt sýningarrými í Keflavík, kallað suðsuðvestur. Ekki seinna vænna, enda lokahelgi sýningar Magnúsar Pálssonar. Hann raðaði m.a. matardiskum á gólfið. Veit hann ekki að það eru til skápar? En sýningin var skemmtileg og ég hlakka til að fylgjast með þessu sýningarrými. Takið eftir að ég nota það orð, en ekki gallerí. Það er munur þar á. Í huggulegheit, Backgammon og kaffisopa í heimahús í Kef og síðan út í Garð í almennilegt pizzupartý. Heimalagaðar pizzur með öllu mögulegu, en aðallega skemmtilegt fólk með öllu mögulegu. nammi mann. Sunnudeginum varði ég við lestur etnógrafíu um fólk sem býr á Tróbríandeyjum. Það getur nefnilega verið ágætt gaman að lesa fyrir skólann. Skólabólan er í ágætum málum, nema hún er soldið eftirá í lestri, sem kemur að sjálfsögðu fyrir þegar um margt er hugsað. Samt finnst mér ég ekki hafa verið niðursokkin í einhverjar heimspekilegar vangaveltur og hreinlega gleymt að lesa, heldur frekar ýmsir aðrir þættir eins og vinna, stuttur sólarhringur, stuttar vikur og þess háttar. Verð að gera hreint fyrir mínum skóladyrum áður en ég held til Bretalands á fyrrverandi sumarleyfisdvalarstað á tónleika.

Held að ég skelli mér síðan til Miami í forsumarleyfi í apríl. Þar get ég verið hjá bróður besta og hlustað á hann útskrifast. En um það má ég ekki byrja að hugsa strax. Það kemur að því þegar nær dregur. Eitt skref í einu. Læra, yoga, vinna, kaffi, helgarútlandafrí um þarnæstu. Hverf ég þá aftur til Tróbríandeyja.

föstudagur, 11. febrúar 2005

skringifallegur dagur

vaknaði á hádegi eftir væran svefn. Vann til klukkan þrjú í nótt enda frumsýning og allir fullir og vitlausir. En fyndnir soldið. Er búin að ganga um mitt nánasta umhverfi, fá mér að borða og kaffi í góðum félagsskap og í fallegri birtu. Þyrfti að gera svo margt, er samt þreytt og vinur minn að koma í heimsókn með þær fréttir að amma hans hafi rétt í þessu verið að kveðja þennan heim. Jæja. Soldið skrítin í höfðinu - tóm, hlakka til að fara að vinna og eiga helgina í góðu fríi. Stefni á að njóta hennar vel. Vonandi fyllist höfuð mitt.

sunnudagur, 6. febrúar 2005

eg eg eg eg e gge g eg eg eg

það er notalegt að heyra frá lesendum og vegna fjölda athugasemda (comments) við uppskriftirnar býst ég við að ég læði þeim inn svona annað slagið... þannig að þegar ég birti uppskriftir þá vil ég að þið takið undir. Síðan finnst ég ég vera svo mishátíðleg þegar ég ritskoða setningarnar í huganum eftir að ég skrifa þær en svona er það nú og ég er komin heim. Jei. Semsagt eftir helgardvöl í búrinu sem leið óvenju hratt, sérstaklega fyrir þær sakir að 4 góðkunningjar komu við til að sjá mig í búrinu. Sýningargripurinn ég.

Á föstudaginnn var hringt um matartímaleytið og okkur skötuhjúum boðið í kvöldverð svo lengi sem við kæmum með 2 hnífa með okkur. Hljómar skringilega en samleigjandi þess sem matarboðið hélt hafði brugðið undir sig betri fætinum, með hnífa hússins. Hljómar enn undarlegra... en var að fara að gera sushi og þurfti því alla tiltæka hnífa. Matarboðið heppnaðist með einsdæmum vel enda húsráðandi ekki óvanur því að jafnvel koma til okkar og elda. Hann lærði semsagt 2 rétti af tilvonandi tengdamóður sinni og skellir óspart í þá, sem eru þó ekki af verri endanum. Athugið að hér er ekki verið að gera lítið úr viðkomandi heldur er lögð áhersla á nennuna sem hann hefur við að elda. Matarboðið breyttist í partý. Partý í þremur herbergjum. Það var fjör. Rifjaði upp Backamonn Bakgammon Bakkamon Bachgammon (minnir að það sé samt ekki skrifað svona) sem endaði í svo miklu fjöri að í hita leiksins þeytti ég leikborðinu og öllum köllunum á eldhúsgólfið. Góður endir á góðum leik. Fór á tónleika Ælu á ellefunni og mér finnst þeir einmitt ótrúlega frábærir. Allavega gat ég dillað mér endalaust, þó ég sæti síðari hluta tónleikanna. Það er gaman að dilla sér.

Eftir vinnu í gærkvöld fór ég á 3 staði en stoppaði yfirleitt stutt.
Kristalshátíð: sætavísanna haldin í Kristalsal hússinss. Hattaþema. Ég ekki með hatt þó ég eigi einn sérstakan svartan hatt, sem ég keypti mér fyrir nokkrum árum á útsölunni í Hattabúðinni og er jarðarfarahatturinn minn. Synd að ég eigi ekki gleðihatt. En samt finnst mér dauðinn einmitt ekkert sérlega ógleðilegur. Jæja. Allir voða fínir í boðinu, snittur og læti. Fór áður en skemmtiatriðin byrjuðu.
Grandrokk: uppselt á Hjálma. Svona fór um sjóferð þá, en gleðilegt fyrir Hjálma og þá sem komu á réttum tíma. Á hæðinni fyrir ofan mig voru semsagt 4 og hálfur, alla leið frá Reykjanesi og ég ekki að hitta þá. Vonbrigði. En ekki svo stór að ég færi í eitthvað þunglyndi. Heldur hélt áfram minni för, í þörf fyrir að hitta fólk.
Klink & Bank: Framsæknum raftónleikum nýlokið. Bull og vitleysa hugsaði ég og lenti í kennslustund hjá skemmtilegum og góðum kennara um það hvernið rokkið varð til (vesturafrísk + blús + hillbilly) og síðan smá upphafið af House tónlist (Donna Summer) og fleira í þeim dúr. Það var góður andi sem fylgdi mér út í laugardagsnóttina þar sem fólkið hafði verið og var á barnum að fríka eitthvað út en mér, nýkominni úr kennslustund leið vel.

p.s. núna veit ég afhverju mér líður alltaf svona skringilega á einum stað í leikhúsinu þegar ég er að slökkva og loka á kvöldin. komst að því hjá einni í glasi sem sagðist ekki meika að vera ein á þessum ákveðna stað á vakt því hún sæi alltaf eitthvað fólk. Það er semsagt gömul kona sem er oft þarna og yngri maður. Ég hugsaði hlýtt til þeirra í kvöld. Samt finnur maður það mismikið á mismunandi dögum.

fimmtudagur, 3. febrúar 2005

uppskriftir fyrir veislu örnu

KJÚKLINGASALAT FYRIR FJÓRA TIL FIMM

4-5 kjúklingabringur skornar í bita
Kryddlögur:
1dl púðursykur
1dl b.b.q. sósa
hálfur dl soya sósa
2-10 hvítlauksrif (pressuð, magn eftir smekk)
Kryddleginum blandað saman í skál og kjúlla hent út í hann, látið standa í svona 4-5 tíma.
Salat:
1 poki Alabama salat - tómatar - rauðlaukur - rauð paprika - sveppir - fetaostur - brúnaðar hnetur
Kjúlli brúnaður vel, verður nánast klístraður á endanum sem er skemmtilegur fítus, púðursykurinn að standa fyrir sínu. Kjúklingi hellt yfir salatið og hnetum stráð yfir.KJÚKLINGABITAR ÚNNU
100 gr. smjör
3 mtsk Madras kryddblanda
1 bolli hvítvín
Allt þetta í pott og suða látin koma upp.
Blöndunni hellt yfir kjúklingabitana sem maður er búinn að setja í smurt eldfast mót.
Bakað í ca 30 mín.
Þá er 1 krukku af Mango Chutney hellt yfir hálfbakaða kjúklingabitana.
Bakað aftur í 30 mín.
Áður en kjúkl. er borinn fram er kókosmjöli og klipptum graslauk/vorlauk stráð yfir.

þriðjudagur, 1. febrúar 2005yoga á þriðjudagsmorgnum og fimmtudagsmorgnum. Held það verði gott.