sunnudagur, 30. janúar 2005

helgi helgason og helga helgadottir

módel. já það er ég. var módel í gærkveldi og í dag. hvað ætli fyrirsætur séu að hugsa þegar þær eru með myndavélina fyrir framan sig? hversu krefjandi er það að túlka fyrir myndavélina? hvað þarf ljósmyndarinn að gera og segja til þess að ná ákveðnu andrúmslofti hjá fyrirsætunni? Ég komst nú ekki svo langt með rannsókn mína, því í bæði skiptin gengu tökur mjög fljótt fyrir sig. Ég held samt að þetta sé pottþétt spurning um þjálfun. Hafði gaman af. Velti þó fyrir mér á meðan þessu stóð hvort með því að horfa beint í linsuna sé maður að ýta undir það að gera kvenmanninn að hlut sem veit að verið er að horfa á sig. Sem er einmitt ólíkt því hvernig karlmenn eru oft sýndir á myndum eða eins og þeir viti ekki að verið sé að taka mynd af sér / horfa á sig. En til þess að hafa það á hreinu þá koma myndirnar ekki til með að birtast á opinberum vettvangi. Þetta eru ekki heldur erótískar myndir ef einhver skyldi hafa haldið það í ljósi ákveðinnar tísku sem er að ryðja sér til rúms hér í kynlífsgeiranum, eða myndir af stundargamani án andlita eru sendar manna á milli á netinu og í símum. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

Hitti gommu af mismunandi fólki á mismunandi stöðum í gær sem er gaman. Fór á útsölu og var mætt áður en búðin opnaði klukkan 12 á hádegi. Hversu indælt er það? Búðarmaðurinn gleymdi síðan lyklunum af búðinni heima þannig að við skötuhjúin tókum okkur bara til og skutluðum honum að sækja lyklana. Eftir þetta allt saman keypti ég geisladisk af búðarmanninum. Dj Signify. Ég elska sumt hiphop. Hádegisverður í foreldrahúsum. Rækjusalat, melónur og bollur. Hvað er málið? Bolludagur er sko ekkert kominn og spennan verður minni fyrir vikið ef maður er að raða þessum bollum í sig áður en aðaldagurinn kemur, en ég giska á að markaðsöflin hafi eitthvað um þetta að segja. Útskriftarveisla í Blesugróf í Reykjavík, en því miður veit ég ekki hvaða hverfi sú gata tilheyrir. Milli Fossvogs og Breiðholts og Kópavogs. Undurljúfar veitingar. Undurljúft fólk. Heim. Hlustað einu sinni á Gillian Welch kántrýkonu. Í partý á Grettisgötuna sem var mjög líflegt og þar lenti ég einmitt í módelbransanum. Á barinn. Heim og byrjaði að horfa á Team of America sem var of frábær til þess að horfa á hana svolítið úrvinda eftir daginn. Hún bíður bara betri tíma.

miðvikudagur, 26. janúar 2005


Nú er komið smá fútt í fítusana, komin mynd. jibbý jei.

mánudagur, 24. janúar 2005

Mer finnst gaman i buri

Helginni var eytt í búrinu. Ég hef alltaf verið mjög hrifin af sirkús. (hér: ekki barinn þó ég sé oft hrifin af honum, heldur alvöru sirkús). Kannski hef ég í fyrra lífi verið í sirkús, jafnvel innan í búri til sýnis fyrir gesti eins og gerðist hérna áður fyrr þegar nýlenduherrar tóku með sér lifandi dæmi (mannverur) úr nýlendum sínum og sýndu dæmin í búrum t.d. í sirkúsum. Þetta lærði ég semsagt m.a. í skólanum í dag. En nú, vinn ég semsagt í búri, sem mér er frjálst að yfirgefa þegar vinnudegi lýkur. Gæti jafnframt verið að kljást við einhver mál úr fyrri lífum með því að vera komin aftur í búrið. Yfirleitt þarf ég ekki að drepa tímann í búrinu, þó stöðugrar viðveru sé krafist í allt að 2 x 13 klukkustundir (með svefnhléi) um helgar.

Það fer ekki hjá því að aðrar mannverur slæðist nokkuð reglulega inní búrið til mín. Þá verður handagangur í öskjunni. Það sem skemmtilegast er að fólk er svo duglegt að ræða hin ýmsu málefni, sem mér koma ekkert við en finnst gaman að geta tekið þátt í, því stundum er skrítið að vera ekkert búinn að nota röddina í smá tíma og heyra hana aftur. Bíddu, af hverju er maðurinn félagsvera? Stundum syng ég, eða les frönsku upphátt til að æfa framburðinn... eða er ég bara að blekkja sjálfa mig. Hingað til hef ég alltaf talið mér trú um að ég þurfi að vera ein í ákveðinn tíma svona við og við, kannski til að halda mér við og nú fæ ég nóga þjálfun. Horfi líka reglulega á fréttir stundum á báðum stöðvum, Kastljósið, Alias, Gilmore girls, í Brennidepli og læri og les.

fimmtudagur, 20. janúar 2005

malshættir ur hatti

maður uppsker eins og maður sáir
Var að uppgötva það að ég gat ratað inn til þess að skrifa þetta í gegnum eitthvað merkja-tungumál, líklega austurlenskt. Svona er nú heilinn orðinn, getur ratað um vefheima á ókunnum tungumálum. Uppsetningin er alls staðar sú sama og auðvelt að rata á sjónrænan hátt. Nokkuð gott.

brennt barn forðast heitan eldinn
sá mann tala um munaðarlaus börn og þær afleiðingar sem vist þeirra á munaðarleysingjahælum hefur. Dæmi var gefið um ættleidda stúlku frá Serbíu sem sýndi ofsafengin viðbrögð við spítölum þannig að 8 manns þurfti til að halda henni.

Lifðu í lukku, en ekki í krukku
það segir sig sjálft.

Fleiri málshættir koma kannski síðar.

mánudagur, 17. janúar 2005

skóli

skólabólan er komin aftur, þó ekki á andlit mitt heldur inn í mig. Kannski sest hún síðar á andlit mitt þegar ég ríf í hár mitt og hársvörð yfir lestrinum og hárfitan rennur niður á enni og myndar kannski skólabólu. Vona ekki. Er búin að sjá Oldboy myndina sem er nokkuð svakaleg. En ég hef einmitt sérstaklega gaman af japönskum hasar/bardagamyndum. Gozu er líka nokkuð góð en mun skrítnari. Hún er eftir sama höfund og gerði myndina Audition sem er til á betri vídeóleigum bæjarins. Hvað hefur maður annað að gera í skammdeginu en að horfa á hressandi bardaga á götum iðandi stórborga austursins eða pervetískar mannraunir einstaklinga innan um milljónir manna... en samkvæmt einhverjum rannsóknum nýlega þjást ekki svo margir Íslendinga af skammdegisþunglyndi eins og talið var áður eða í samanburði við aðra staði á hnettinum á svipaðri breiddargráðu. Njótið dagsins.

miðvikudagur, 5. janúar 2005

snjor

Snjóflóð á Vestfjörðunum og fólk ekki búið að fá ferskar matvörur, eitthvað sem maður er ekki vanur að hugsa til á þessu ágæta landi. Var að enda við að kveðja hana Jeanie sem hefur nú dvalið hjá okkur og eldað góðar súpur og vaskað upp eins og herforingi. Ekki amalegt það að hafa svona góðan gest. Endalaus friður um hátíðirnar í hjörtum okkar hér í strætinu sem vonandi hefur áhrif á alheimsorkuna. Allaveganna sendi ég fólkinu við Indlandshaf alla mína strauma. Síðan fannst mér nokkuð átakanlegt að lesa það að nú eru barnaræningjarnir komnir á kreik og selja munaðarlaus börn úr hamförunum þeim sem geta og vilja kaupa þau. Þetta líkar mér ekki. Snjónum kyngir hér niður, best að fara að spenna á sig skíðin...