þriðjudagur, 27. mars 2007

timi til að tengja

góða kvöldið hr. Tengingi,
Tenging átti sér stað um hádegisbil, þar sem miðjan var í aðallhlutverki. Merkilegt alveg hreint. Ég segi það enn og aftur, ég elska yoga.

Eftir afkastamikinn dag, undir áhrifum orkuendurnýjunar fyrr um daginn, hlusta ég á tónlist, því hana elska ég líka hr. Tengingi. Síðan er komið að sjónvarpsglápinu mikla. Hvort það verður Dallas, Prison Break, 24, Little Miss Sunshine, Heroes, Rome eða eitthvað annað veit ég ekki og því skrifa ég þetta bréf, hvað heldur þú að horft verði á?

Í leiðinni viðurkenni ég líka fyrir þér að hafa orðið starsýnt á bækur í hillum í dag og hugsað með mér hvers vegna ég hefði lesið 2 skáldsögur hérna fyrr á önninni? hvernig ég hefði haft tíma fyrir þær með allt þetta sjónvarpsefni?

Góð sveifla í vændum, það bara verður að vera þannig, einbeitingarsveifla fyrir skólann.
í friði.

mánudagur, 26. mars 2007

Ísjaki






Eftir hádegi í dag, nánar tiltekið frá klukkan 13:30 til 18:30 stóð yfir afþýðing á frystihólfi ísskápsins.

fimmtudagur, 22. mars 2007

fjallahringurinn

Það er gaman að fara Geirsgötuna núna því Esjuna má sjá frá nýju sjónarhorni.

Nú gæti ég t.d. verið að gera skattaframtal.
En það sem hefur á daga mína drifið er t.d. leghúsferð og tónleikar Ólafar Arnalds.
Seinustu helgi fór ég semsagt bæði fös og laug í leikhús. Leg er söngleikur undir áhrifum teiknimyndasögunnar. Framúrstefnuleg pæling um hvernig efnishyggjan er að gegnsýra okkur. Góð skemmtun. Fínt að taka svona leikhúshelgi. Umfjöllun um Draumalandið hér að neðan. Það afgreitt.

Ert þú búin/n að skrifa undir hjá Framtidarlandid.is?

Tónleikarnir voru afbragðs upplifun. Svo ekki sé meira sagt. Virkilega gaman að upplifa Nasa á forsendum lágstemmdar tónlistar þar sem áhorfendur sýndu tónlistarflutningnum þá virðingu sem hann kallaði á. Áhorfendur þögðu semsagt. Klingdu ekki glösum né mösuðu út í eitt. Ása masar í símann. Mjög gott stöff.

Annars er það Pierre Bourdieu hinn franski sem á hug minn allan þessa dagana. Hann bendir á skemmtilega punkta í því hvernig við sköpum og viðhöldum menningunum okkar. Hvernig smekkur mismuandi hópa fer eftir því umhverfi sem þeir búa við og fjárhag. Kannski engar nýjar fréttir... En menningarsviðin eru mörg og ólík (t.d. há- og lágmenning) og eru að sjálfsögðu undir áhrifum þeirra sem taka þátt auk þess sem þau sjálf hafa áhrif á þátttakendurnar. Síðan er ég jafnvel að fara að henda mér í það að lesa um hvernig má færa skynjun eyrans (ekki endilega á tónlist) í ritað mál, eða allaveganna taka hana með.

Veðrið er ekki alveg að gera sig fyrir mig.
Sat inni í kyrrstæðum bíl og horfði á Volvo gröfu slétta moldarhól í dag. Kodak moment.
Horfði líka á þumalfingur hægri handar skrifa sms á gsm (global service mobile) í dag. Ótrúlegt hvað þessi putti getur gert.
Fór líka í yoga þar sem þemað var þríhyrningar, bátur, borð og kráka. Horfði á skuggann minn sem kertaljósið varpaði á vegginn og velti því fyrir mér hvort hann væri líka ég.

þriðjudagur, 20. mars 2007

happa

ég er ekkert hætt að trúa á hugarorkuna....
en ég vann ekki neitt í happadrættinu.
Systir mín var svo góð að aumka sig yfir mér og gefa mér eina rauðvínsflösku af sínu góssi sem hún fór með heim. Flöskuna prýddu 2 páskaungar. Bjarni Ara kom og söng 4 lög. my my my delilah & pretender og svona. Stuð. Hvatti fólk til að kaupa plötur sínar, þ.á.m. plötu gefna út 1993. Stuð. Hann er pottþétt betri en ég í karókí. Sem minnir mig á hversu langt síðan er síðan ég fór í karókí.

Er eitthvað voða mikið að hugsa núna að slaka á, njóta og klára bara ritgerðina í sumar. Þá get ég notið þess að grúska í henni og umfaðma hana. Allt í góðu standi og ég bið ykkur vel að lifa.

laugardagur, 17. mars 2007

Hapolitiskur spennitryllir: Draumalandið

Það fellur mér í geð að fara í leikhús. Þangað má ég fara inn og dvelja um stund í öðrum raunveruleika. Raunveruleikinn var einmitt mikið til umfjöllunar í sýningu gærkvöldsins, frumsýningu á Draumalandinu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Andri Snær sat fyrir aftan mig. Það hlýtur að vera skrítið að skrifa bók sem selst í bílförmum og fær verðlaun og umfjöllun og endar á fjölunum. Heimurinn sem var skapaður á sviðinu var kaldur og hvítur. Vídeólist sýningarinnar var interactive og tóku leikararnir virkan þátt í þeirri framleiðslu. Þú verður að fara og upplifa Draumalandið í leikhúsinu. Það er æði. Í alvörunni. Bíddu. Draumaland hvers? Spurningin er kannski bara hvað get ég gert? Hvað skiptir máli í raunveruleikanum?

Leikhópurinn var alveg prýðilega samsettur og er erfitt að segja valin kona í hverju hlutverki því persónusköpunin var ekki fyrir staðar, heldur brugðu leikarar sér í ýmis gervi eins og krúttfemínistann með melódíkuna og þýska útlendinginn sem voru einmitt báðar konur til að varpa ljósi á umfjöllunarefnið. Sem er?

Umfjöllunarefnið voru margar litlar senur sem við öll höfum lent í, ákkúrat í raunveruleikanum. Senur þar sem maður endar á því að spurja, æi, hvað vorum við aftur að tala um (eftir að hafa talað um hvað sé hagvöxtur?)?, hvort allt fari í klessu ef við stækkum ekki álverið í Straumsvík og þar sem konan er náttúran, táknmynd dóttur okkar, landsins Íslands sem við eigum að passa, hreina og fína. Hugmyndir um konuna tengda náttúrunni og manninn menningunni vakna í kjölfarið. En ég velti því líka upp hvers vegna konur flykkjast til vinstri þessi misserin?

Álið er málið. Enda snýst þetta um að planta bráðnauðsynlegum álverum út um allt, ekki satt? Álverum sem koma til með að skapa einu og hálfu prósenti þjóðarinnar atvinnu. 1,5%. Atvinnuleysið hefur verið um 1% að mig minnir. Hvað er aftur málið? Álið? Nei. Það er svo margt annað sem hægt er að gera. Eitt af markmiðum Draumalandsins fyrir mér er að benda á að úr verður ekkert rosa drama ef álið er ekki málið. Við getum breytt því. Hvernig viljum við hafa umhverfið okkar? Hvað skiptir okkur máli?

Leikritið býður upp á margar hugmyndir, þ.á.m. hugmyndinni um að sleppa því að virkja Kárahnjúka og láta mannvirkið standa með listaverkinu sól eftir Ólaf Elíasson til þess að sýna fram á það að maðurinn ráði yfir tækninni. Þar aftur má benda á tenginguna milli náttúru og manns (tækni). En það var kúl hvernig leikritið tók með í leikinn þá umræðu sem hefur átt sér stað í samfélaginu eftir að bókin kom út, m.a. þá vakningu sem hefur birst í stofnun ýmissa Sólar-samtaka hér á suð-vestur horninu. Og það var svolítið skemmtilegt hvernig bókin Draumalandið rifjaðist upp fyrir mér með sýningunni.

Umgjörð sýningarinnar var einföld og tímalaus þó efni hennar sé einmitt á réttum stað og á réttum tíma. Það er engin tilviljun að þessi leiksýning hafi verið sett á svið núna. Til þess að við vitum hvað við viljum verðum við að hafa aðgang að upplýsingunum. Draumalandið er ekki matarskammtur, heldur meira svona smakk, þar sem maður fær tækifæri til þess að hugsa um (m)álið. Auðvitað ræður hver og einn hvaða upplýsingar hann tekur úr sýningunni sem hafði yfir sér mjög svo póstmódernískan blæ þar sem annaðhvort enginn sannleikur sé til eða að enginn sannleikur sé réttur. Allir í leikhúsið. Keep it real.

fimmtudagur, 15. mars 2007

gummuladi

Hlýjar afmæliskveðjur til Lúxembúrg, svona í upphafi færslu kvöldsins.

Aðþrengdar eiginkonur voru sko aðþrengdar í kvöld. ha. Mér fannst þátturinn góður fyrir utan endirinn, ég hefði viljað sjá aðra lausn en að Lynnette gæti reddað dæminu í draumnum. Samt er ég nú á því að maður geti haft áhrif á framvindu drauma sinna upp að vissu marki. Og ætli það eigi þá ekki líka við um dagdrauma?

Draumur minn er að vinna ferð fyrir tvo til Evrópu með Flugleiðum. Það mun gerast n.k. þriðjudag, nánar tiltekið um kvöldið þegar ég fer á happadrætti. Á morgun fer ég á leiksýningu, þá fyrstu í langan tíma. Félagslífið í stuði og ég er geim. Ég verð bara að vera það. Flæðið býður ekki upp á annað.

Lofthótel upptekið þessa dagana. Gott að gera. Mjög gott að vera.
Ætti að bregða fyrir mér einni limru eða svo en útvarpið kallar. Nú er það útvarpsþátturinn Marzipan á Rás 2.

þriðjudagur, 13. mars 2007

í sveitinni

seinni partinn í dag, allt til klukkan 20:30 leið mér sem ég væri í sveitinni. Fyrir utan nokkrum sinnum þegar ég leit út um gluggann á götuna. Annars var það frekar regnið, tónlistin og galopnir gluggar sem læddu þessari sveitatilfinningu inn. Það var grá ró.

Ef til vill þyrfti ég að þróa þennan tilfinninga-hæfileika til þess að geta horfið í sveitina hvaðan sem er á þriðjudagskvöldi, svolítið eins og Hiro. Eða kannski var ég að mótttaka skilaboð um að ég ætti að fara út í sveit. Að elta gamla geit.

Þessi misserin elda ég á þriðjudögum og fimmtudögum. Þegar ég geri hummus byrja ég á því að fjarlægja húðina af kjúklingabaununum eftir að ég hef haft þær stutt í vatni. Það tekur líka sinn tíma og kannski var baunapillingin hluti af sveitastemningunni. Næst ætla ég ekki að setja hvítlauk í hummusinn og hef haldbærar upplýsingar um að það sé ekki nauðsynlegt. Fleira fallegt kom upp í sveitasælunni í kvöld sem ekki verður tíundað hér.

Ég reyni eftir bestu getu að halda mig við skólaefnið. Það er gaman þó það sé stundum erfitt þegar maður vill frekar bara sitja við eldhúsborðið og drekka kaffi og hlusta á útvarpið og lesa um dvöl DiCaprios og Sports Illustrated kærustunnar uppi á jökli eða um reddingarnar sem eru í gangi á Alþingi og Hans Blix varðandi samskipti BNA og Íran sem hann segir vera pre-invasion replay frá Írak.
Yogað í dag var gott og ég varð ljón um stund.

föstudagur, 9. mars 2007

Sporðdrekinn í dag: Það sem þú gerir í dag og á hvaða hátt þú gerir það, mun skipta mjög miklu máli.

Svona er dagurinn minn einmitt búinn að vera. Þaulskipulagður en með mjög skemmtilegum uppákomum sem vonandi eiga eftir að skipta miklu máli. Nánar um það síðar.

Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir eru komnir nýir tenglar inn á síðuna. Þetta eru dúllurnar. Saman ætlum við að rannsaka mannfræðilega. Það verður gaman. Allaveganna plan eftir planið. Planið er sko að klára ritgerðina mína. Það er í vinnslu.

Að öðru mun merkilegra. Tíminn. Ég næ ekki utan um það hvernig hann getur liðið svona ótrúlega hratt. I know. Klisja. Var einu sinni að skrifa ensku útgáfu orðsins í menntaskólastíl og fékk meira að segja að kíkja í orðabók kennarans. Náði samt að klúðra því. Ætla að hlífa þér við sjónrænni tortímingu á orðinu hér. Já ég er semsagt að upplifa klisju varðandi tímann. Heyrði líka framlengingu á klisjunni sem er að tíminn verði hraðari eftir því sem maður eldist. Eða að maður upplifi tímann hraðar eftir því sem maður eldist. Ég veit ekki hvort ég get tekið undir það, en trúi frekar á mismunandi hraðatímabil. Það fer allt eftir því hvernig maður keyrir bílinn og hvernig vegurinn er, jafnvel veðurskilyrðin og hinir bílarnir sem eru á leiðinni frá a - b. Hitti sólina í dag í örskotsstund. Eftir eina uppákomuna, mjög nauðsynlegt. Hún gaf mér bensín.

2 litlir frændur mínir laskaðir eftir áhlaup á aðra manneskju (afleiðing: nefbrot) og smá slagsmál. Sendi orku til lemstranna. Hef aldrei átt hamstur.

miðvikudagur, 7. mars 2007

klammari

í umræðunni hafa verið fjölmiðlar, klám, fyrirbærafræði, tilvist, aðhygli og ætlandi hér við eldhúsborðið með nýjasta íbúanum hér heima sem er á hótel lofti.
Klámkvöld í kvöld. Nokkuð spennandi. Fair-Trade klám? Verðlaun verða ekki veitt að sinni. Doddi og Petra átu upp alla pizzukúponana eftir síðustu getraun. (ekki örvænta, gjafakortin eru í pósti).

Fannst mér jafnvel finna fyrir smá yfirbragði vors seinni partinn í dag. Dró sjálfa mig strax í efa, enda bara byrjun mars. Sá smá tunglið um helgina. Það var dekkra en vanalega. Hvar voru varúlfarnir? Verð að fara að þvo pott fyrir hrísgrjónin. Seinustu upplýsingar voru að það vantaði banana...

föstudagur, 2. mars 2007

ljomandi koppur

Í gær fór ég í lautarferð upp í Heiðmörk. Einnig var farið í skógarleiðangur eins og gefur að skilja. Fyrst var byrjað að planta 1949. Sem gerir trén sem ég var með 58 ára gömul. Viðmiðið var skógurinn í Kanada. Já þar er bara einn skógur..., eða allaveganna þær minningar sem sitja í mér og ég er eitt stykki kona með eitt stykki líkama. Eða ég get líka sagt að líkaminn sé ég. Það er samt soldið erfitt því líkaminn er oft bara einhver hlutur sem fer með manni allt. En ég held nú samt ekki. Ætla ekkert að fabúlera meira um líkamann sem geymir svo margt. Leiðangurinn var í stuttu máli skemmtilegur og mjög gaman að fara í Heiðmörk. Ég sá ekki verksummerki eyðileggingar eins og hefur verið í fréttunum að undanförnu og ég tók ekki með mér hund inn á vatnsverndarsvæðið.

En í dag gekk ég fram á gröfumann, sitjandi inni í stjórnklefanum sínum. Hann var með naglaþjöl að pússa á sér neglurnar.
Í dag barst líka bæklingur Nexus (fyrsti sem ég hef séð) inn um lúguna. Mér langaði í allt. Líka að fara að læra að spila hlutverkaleiki. Þar er skipt í hópa eftir aldri með þaulvönum stjórnendum. Hvort Nexus sé orðið að stórfyrirtæki veit ég ekki. En fyrirsagnirnar voru grípandi æsilegar. Turtles Bíll. Kawabunga. Leonardo var minn uppáhalds. Sverðið hans Luke. Warhammer kallar. Dót til þess að mála þá og náttúrulega bækur og dvd. Kawa bunggggaaaa.

Nú ætla ég að gæða mér á uppáhaldsmat Turtles sem er? (verðlaun verða veitt fyrir rétt svar).
góða helgi til þín. Ég sé allaveganna fram á eina góða...