miðvikudagur, 26. nóvember 2008

dagurinn í dag

Eftir að hafa sturtað mig og borðað 2 ristabrauðsneiðar með einum Assam tebolla fór ég til tannlæknis. Hann er alltaf með rosa fönkí gleraugu. Mér finnst tannlæknastólar ekki þægilegir og þegar hausnum og búknum sem fylgir með er slengt aftur með rafmagnsfjarstýringunni ímynda ég mér píningarbekki gömlu tímanna. Þannig er það nú bara þó tannsi sé góður í sínu fagi og borar vel. Í dag var ekki borað heldur fylling sett á milli tveggja tanna til að hindra matarleifar og þ.a.l. Karíus og Baktus. Síðan var allt settið hreinsað.

Þegar út var komið beið mín símtal við samstarfskonu mína sem velti því upp hvort eitthvað skringilegt væri á seyði í húsinu hennar í kjölfar þess að símalínan virðist alltaf detta út. Við tók klukkustundar langur göngutúr með kerruna og sofandi barn. Ég er glöð yfir að geta nýtt dagsbirtuna og verið úti við þó það sé kalt. Á göngunni í dag sá ég m.a. menntaskólafólk og myndatakandi ferðamenn en enga róna. Dagmamman tók við barnavagninum og áður en ég hélt til vinnu fékk ég mér súpuskál í eldhúsinu og kíkti í blaðið.

Í einum kúrsinum erum við að vinna með nákvæmlega þetta. Hvernig var dagurinn í dag? sem skýrir þessa nokkuð nákvæmu lýsingu sem hér fer. Eftir vinnu kíkti ég til ömmu og náði í jólaóróana úr háa skápnum til vinstri inni í svefnherbergi. Amma spurði mig hvort ég tryði á endurholdgun og við ræddum það yfir tebolla ásamt kryddi af þjóðfélagsmálum og þó henni finnist Steingrímur J. góður ræðumaður er hún hrædd um að ,,kommúnistaflokkurinn" vilji bara komast til valda.

Þegar heim var komið náði ég einum kaffibolla áður en arkað var út í dimmuna til að ná í barnið sem sefur svo miklu betur úti heldur en inni. Skiptar skoðanir fjölskyldu barnsins eru um útisvefn barna, en í Kanada er fátítt að börn séu látin sofa úti. Heima tók við undirbúningur kvöldmatar þar sem þetta var mitt kvöld í að sjá um matinn og ég tók til við að gera 9 tómata tómatsósu með chili, lauk og sveppum sem var borin fram með spaghetti. Nú geri ég ráð fyrir að barnið sé sofnað og að stjörnurnar vaki yfir okkur.

föstudagur, 14. nóvember 2008

3131313131313131 áramót

Við útskrift í gær stóð ég stjörf á meðan nemendurnir stilltu sér upp með mér, einn og einn í einu fyrir myndatöku. Við myndatökur verð ég alltaf vör um mig og hugsa hvernig ætli þessi mynd komi út? Enn hef ég ekki þróað upp Zoolander/myndatöku-andlit með mér og er það á stefnuskránni fyrir næsta ár sem bíður mín, árið sem ég verð þrjátíuogeins árs. Helena las upp frumsamið ljóð (ein a4 síða) á pólsku sem var mjög svo hjartnæmt. Það fjallaði um hvernig Ísland hefur verið henni sem móðir þrátt fyrir þá erfiðleika sem nú steðja að í landinu og hvernig Ísland tekur opnum örmum á móti fólki alls staðar að. Þar sem ég tala ekki pólsku fékk ég þessar upplýsingar í gegnum þýðingu samnemenda Helenu. Kazimiera fékk tár í augun við upplesturinn. Ég var sannarlega snortin. Nemendurnir færðu mér ilmandi blómvönd og pakka sem ég á eftir að opna. Á svona stundum er gott að vera kennari. Það er líka gott að vera kennari á öðrum stundum. Ég er heppin að hafa vinnu.

Árið sem ég varð þrítug var ég líka kennari með barn í bumbu. Síðan sprakk bumban og barnið kom út. Það er hún Sophie. Hún er skemmtileg. Næstu mánuðir af þrítugasta árinu mínu liðu um eins og í stjörnuþoku. Ég man bara ekki neitt þangað til fór að vora. Þá kom sumarið með sól í lofti og í sinni. Núna er síðan kominn vetur, svo hratt sé farið yfir sögu. Á morgun verða friðsamleg mótmæli í 6. sinn á Austurvelli. Á sama tíma verður sherryflaskan sem mér áskotnaðist dregin fram og dreitill borinn fram með vöfflunum. Komdu ef þú þorir.

föstudagur, 7. nóvember 2008

Updates frá kanadísku tengdó:

This was an exciting week with the election of Obama - we are really happy and my brother Bill put it this way: for the first time since November 22, 1963 when Kennedy was assassinated, he could think of the US without a knot in his stomach. It was like a great weight was lifted from all of us. I agreed remembering how depressing everything was after the assassination. The arrival of the Beatles helped, but the world still seemed to be spinning out of control into violence and chaos with the most unimaginable things happening and mostly bad news. Obama may actually be able to achieve what Lennon wrote about in Imagine. It puts a lot of expectation on him, but the fact that a black man could be elected and that he seems to have so much to offer is in itself a kind of cosmic shift. I hope he remains safe and whatever flaws he has he will accomplish some good. We might even be able to drop cynicism and adopt idealism and optimism. You young people must feel good about this.

mánudagur, 3. nóvember 2008

þetta helsta

Þegar kurteisi kom upp á pallborðið í einni kennslustundinni voru eftirfarandi atriði nemendum efst í huga hvað varðar siði og venjur í þeim efnum:

Að vaska upp með látum – þá telst uppvaskarinn greinilega reið/ur og bent var á að það er líka hægt að vaska upp hljóðlega í flýti. Semsagt leggja leirtauið hljóðlega niður.
Að stíga fast niður til jarðar þegar gengið er – talið vera óþarfi, sýndu jörðinni frekar virðingu og ekki meiða hana!
Að sýna eldri virðingu með því að lúta höfði þegar þú mætir þeim og hlusta á þau.
Að bjóða góðan daginn, þ.e. viðurkenna aðra sem deila sama rými, t.d. á gangi eða á gangstétt.
Að tala milli herbergja – hvers vegna að kalla þegar þú getur verið augliti til auglitis?
Að sleikja fingurna þegar borðað er – hundslegt og ekki æskilegt að sitja til borðs með fólki sem hagar sér svoleiðis.
Að smjatta, borða með opinn munn og að prumpa og ropa fyrir framan aðra– hvaða siðmenntaða fólk gerir það?

Annars bara allt í gangi. Nógur fiskur, svo mikill að kennsla fellur niður í HB Granda þessa vikuna. 2 nýir einstaklingar nýkomnir í heiminn í kringum mig sem er sérstaklega gleðilegt. Nóvember verður spennandi viðbót í framhaldssöguna mína sem er auðvitað óskrifuð. Mig langar að lesa fullt af bókum og stefni á að endurnýja bókasafnskortið. Fyrst væri þó við hæfi að klára Brick Lane sem er á náttborðinu. Jóla hvað?

p.s. spes kveðjur til Hjördísar, Atla Steins, og auðvitað litla bróðurs.