mánudagur, 30. maí 2005

skyndi -

það er ekki oft af hinu illa þegar fólk kemur í búrið til mín. Í gærkvöldi gerðist það nefnilega að ég fékk skilaboð um kvöldið þar sem stungið var uppá að ég myndi bregða mér út fyrir mölina til að eyða nóttinni með ungfrú náttúru. Ein kona sem laumaðist í kaffi til mín úr vinnu minnti mig á að maður lifir bara einu sinni... ok. maður gleymir. Eyddi því nóttinni í náttúrunni við varðeld sem iljaði þar til sólin kom upp og þá fór ég að sofa. Magnaður skítur. Þessi náttúra og þetta fallega fólk sem sat/stóð/hljóp/hoppaði/dansaði í kringum eldinn. Var mætt til vinnu klukkan 12:20. Massatúr. Hlakka til að geta eytt tíma í sveitinni í sumarfríinu. Vúhúú. En einn mánuður til stefnu. Sumarið er svei mér þá bara pottþétt komið...

föstudagur, 27. maí 2005

hnakkinn

Í gær fékk ég skemmtilegan texta í símann minn sem svaraði spurningu minni sem var birt hérna á þessari síðu fyrir nokkru. Textinn var svohljóðandi: potluck dinner = pálínuboð. Vinkona mín staðfesti þessa notkun á orðinu, og kannaðist við það frá kfumk kökuboðum. Hef litið í orðabók menningarsjóðs frá ´88 þar sem ekki er minnst á þetta orð, pálínuboð. Þyrfti jafnvel að kíkja í nýju útgáfuna.

Sá tónleika á grandrokki í gær, þar sem enn sem áður stóð Æla uppúr. Hljóð hvers einasta hljóðfæris var kristaltært og það er gott að geta fylgst með því hvað hver er að bauka þarna á sviðinu. Þá er Ælan orðin svo þétt að maður getur flotið ofan á henni, en kafað oní hana ef maður hefur sundgleraugu. Stemningin í salnum var ekki upp á marga fiska. Barinn búinn að koma fyrir borðum á gólfinu fyrir framan sviðið og eins og ein kona benti á að með því væru tónleikahaldarar / barinn að viðurkenna að fólk dansaði ekki almennt á svona tónleikum. Síðan komu tvær aðrar hljómsveitir sem mér fannst heldur ekki upp á marga fiska. En kannski leynast þar snillar sem ekki náðu til mín í gærkveldi, maður verður alltaf að gefa séns. Þangað til komið er nóg.

Aðalmálið er að á eftir mun ég renna brautina á hnakkanum. En það er nafnið á nýja bílnum okkar sem við fjárfestum í gær í. Þýsk rennireið, ábyggilega sett saman í Asíu. En hnakkanum fylgir góður andi og kannski bið ég alheimsorkuna um að umlykja hann hjúpi svo aldrei gerist neitt óskemmtilegt. Þarf ég þá að færa fórnir á móti, á altari alheimsorkunnar? Þakklæti er nú lágmarkskurteisi. En kæra keyri ég í flugstöðina þar sem hann mun hverfa frá um sinn. Í viku eða svo.

Fjögurra daga vinnutörn framundan, þar sem verður reynt að fara reglulega í sund inn á milli til þess að samhæfa líkama og sál. Nú er ráð að vinda sér niður á bókasafn, leigja fullt af ódýrum dvd myndum til að horfa á í tölvunni, því helgarvaktirnar geta orðið langar. Þá hef ég hafið lestur á bók Umberto Eco, Foucault´s Pendulum. Spennó spennó.

þriðjudagur, 24. maí 2005

how does it feel?

morgunn
kaffið í steingerðum garði
mjög litlum, kannski 10 fermetrar.
3 götuhorn mætast.
Svartur hundur með gaddaól kom út um dyr
án manneskju.
Ímyndaði mér að ég ætti hann.
Hann vildi croissant.
Sólin yfir Hallgrímskirkjuturninum.
Klukkan alltaf vitlaus.
Hætti að vilja eiga hann
þegar hann var kominn með glerbrot
í kjaftinn og fór aftur með það inn.

dagur: málningaprufur á stofuvegginn

kvöld
fór krókaleið heim
allt bjart og fínt.
Elska birtuna á sumarkvöldum,
útlendingar byrjaðir að spretta upp,
endur og gæsakúkur og mávur á steini.

mánudagur, 23. maí 2005

3.kafli

fór og sá StarWars klukkan fjögur í Smárabíói í dag. Dottaði smá fyrir hlé og fannst George Lucas ekki alveg vera að gera sig, en eftir hlé varð allt miklu betra. Og þó maður vissi hvernig þetta myndi enda, þá vissi maður ekki hvernig. Hef undanfarin ár alltaf þurft á smá upprifjun í Starwars að halda áður en ég hef farið á nýju myndirnar þar sem ég var ekki mikill aðdáandi á yngri árum þótt ég hafi leikið mér með Starwars-plastkalla eldri bróður míns. En nú þekki ég söguna ágætlega, þó ekki hin minnstu smáatriði og er bara glöð með það að fá að taka þátt í geðveiki heimsins varðandi þessar kvikmyndir. Enda hef ég nú komið til Túnis þar sem Return of the Jedi var tekin upp að hluta til. En samt verð ég að viðurkenna að ég veit ekki neitt í samanburði við aðra Starwars aðdáendur.

Íbúðin er nú öll að verða tilbúin fyrir málun og lagfæringar. Ætlum allaveganna að mála loft og glugga og stofuveggi. Það verður gott þegar það verður búið. Síðan bíður bara sumarið og ég búin að fá eina einkunn sem var alveg í takt við það sem ég bjóst við og síðan er ég búin að fá bréf um að ég megi hefja nám í mastershluta mannfræðinnar í H.Í. í haust. Það verður líka bara gaman, en ekki eins gaman að punga út 45 þúsund kalli fyrir veturinn, þó það sé ekki neitt ef miðað er við aðra háskóla hér á landi, eins og t.d. lhí eða hr. Kannski er kennslan líka í samræmi við það, en það kemur í ljós. hilsen

miðvikudagur, 18. maí 2005


í gær fór ég í garðinn til að hitta fallega fjölskyldu sem var að stækka. Hjá þeim er gott að vera og yndislegt að hitta nýjasta meðliminn sem virðist búa yfir svipaðri visku, orku og vísdómi eins og Yoda (í starwars). Samt er ég alltaf svolítið skelkuð við það að vera að hnoðast með lítil kríli (undir eins árs) og reyni að komast hjá því þó það sé magnað að fylgjast með þeim. Eldri bróðir hans (næstum1oghálfs) er líka allt í einu orðinn svo stór og bara næstum því fullorðinn í samanburði við litla bróður sinn. Það er fyndið. Síðan spilaði eldri bróðirinn líka á nýja trommusettið inni í skúr og fjandinn hafi það, that boy got rhythm... ef svo má segja um ungabarn.

Annars er ég búin að vera að massa fimmdagafríið mitt og slappa vel af, en það er alltaf gott að hafa smá plan, á planinu er t.d. að mála svolítið innanhúss, veggi, glugga og þar fram eftir götunum. Hvaða lit ætti maður nú að láta á stofuna? Hlakka til að fá nýjan lit í umhverfið. Er ekki búin að teikna í tölvunni, en ég er búin að teikna á blað sem róar planlögðu sál mína sem tekur fyrir það að vera svikin.

Amma seldi mér hníf fyrir eina krónu í dag með postulínsskafti, grænu og handmáluðu. Brjálað fallegur smjör/smurostahnífur. Tók fyrir það að gefa mér hann en vildi bara selja mér hann, því maður má víst ekki gefa skæri, hnífa og svoleiðis því það getur slitið böndin milli gefenda og þiggjenda. Og ekki viljum við það nú, ég og amma. Amma lamma. Hún er líka fyndin, en eftir 3 tíma með henni einni er komið gott. Respect.

Kosningar í samfylkingunni á laugardag, hvorum fjölskyldumeðliminum á ég nú að gefa atkvæði mitt í formanninn? Ekki myndi ég vilja fara í barnaafmæli í þessari fjölskyldu.

Þessar myndir eru til sönnunar á göngutúrnum langa og ógurlega og á því að þetta var sko ekkert djók, myndbandsgerðin, hestar, búningar, andlitsgervi, förðun og gerviskegg (ekki samt í öllum tilvikum). Ég reyni að láta ekki inn mynd sem er of mikið lýsandi fyrir myndbandið, til að gefa ekki of mikið upp... halda spennunni, en verð að gefa smá forsmekk á dæmið. Góðar og gleðilegar stundir.

mánudagur, 16. maí 2005

jump

náttúran á kili var mögnuð. massaútilífsferð og ég er ekki frá því að sólin hafi kysst kinnina mína pínu of mikið og ég gleymdi sólarvörn. Fór í mjög mjög langa göngu og endaði inni í einhverjum dal, já heyrðu kannski set ég bara inn mynd. Allaveganna þá er ég mjög kát og sæl yfir því að hafa upplifað þessa bráðyndislegu ferð.

maður getur gert svo margt í þessum heimi, kíkið á þetta:

hoppaðu

laugardagur, 14. maí 2005

föstudagurinn þrettandi

í þessum skrifuðum orðum er bróðir minn örugglega í partýi í miami að fagna útskrift sinni. heill sé honum.

hér verður fjallað um: próflok, verkefni sumarsins, áhyggjur og gleði.

Eins og sjá má er hægri hönd mín enn undir áhrifum prófskrifa. Hún bara skrifar og skrifar og krampinn ekki alveg farinn, en við það að fara. Próflok eru undursamleg tilfinning. Ég er ekki stödd á bar í miðbæ reykjavíkur. Próflok mín lýstu sér þannig að ég ákvað að ég nennti ekki að skrifa meira þó tíminn væri ekki búinn. Ég hafði engu við að bæta eftir að hafa skrifað í tvær og hálfa klukkustund í dag. Í hinum tveimur prófunum skrifaði ég ávallt í um 3 klukkustundir. Álag á hægri höndina hefur því verið mikið og hún ekki vön svonalöguðu. Ég vildi bara að maður mætti skrifa próf á tölvur.

Það ber mig að næsta umfjöllunarefni, sem er þessu nátengt. Samband mitt við tölvuna hefur verið ljúft, en stundum finnst mér það jaðra við þráhyggju. Ég er alltaf aðeins að kíkja á þessa og hina bloggsíðu, póstinn minn á tveimur mismunandi síðum og stunda samskipti við umheiminn í gegnum þessa. Hvurslags félagslíf. Nú er tími á breytingar. Breytingarnar koma kannski líka eðlilega með því að ég verð ekki í skóla í sumar. Þá er ætlunin að fara á safnið á morgun áður en lagt verður í sveitaferðina og leigja fuglahandbókina.

Breytingarnar fela það í sér að í hverri viku verð ég að teikna eina mynd í þetta fína teikniforrit sem tölvan mín hefur að geyma. Ég verð bókstaflega að læra á helvítis forritið.

Áhyggjurnar felast í því að ég sé of tengd tölvunni, en það breytist vonandi með sumartíðinni sem er að fara að ganga í garð og það veitir mér gleði ásamt svo mörgu öðru, eins og því að labba heim úr vinnunni yfir arnarhólinn og horfa á skipin og ljósin í höfninni, og þá sérstaklega það að vera búin í vinnunni, sem veitir mér þó líka gleði því fólkið er svo fyndið og skrítið (eins og allt fólk á stórum vinnustað er líklega) og þar get ég gert núna hvað sem ég vil í vinnutíma mínum sem byggir á mörgum stundum til þess að eyða og er t.d. að lesa bókina diaries of a groupie núna. afar áhugaverð frásögn konu sem hefur t.d. haft kynlíf með mörgum tónlistarstjörnum eins og jim morrison, jimi hendrix, gram parsons, captain beefheart o.fl. mjög upplífgandi eftir próflestur. kynlíf spynlíf

Gleði gleði gleði og sveitaferð og fimm daga frí framundan. jaaahú. yahoo. com.

fimmtudagur, 12. maí 2005

daginn, good vibrations ekki satt? allaveganna er lagið í útvarpinu sem ég má hlusta á í smástund áður en áframhaldandi undirbúningur fyrir síðasta prófið sem er á morgun. Vel valið lag hjá rás 1. Eftir próf á morgun fer ég í vinnu og klukkan átta á laugardagsmorgun er útlit fyrir sveitaferð. Sumarbústaðaferð með góðu og umfram allt skemmtilegu fólki. Þar verður margt brallað, enda eru sumir ferðalanganna að fara að vinna að myndbandsupptökum en ég sé fram á afslappelsi í botn. úff púff hvað ég hlakka til. Orkan endurnýjuð eftir innisetu og skemmtilegan lærdóm fyrir sumarið sem kemur alltaf pottþétt eftir próf. Góðar stundir.

mánudagur, 9. maí 2005

eldhusborðið

kaffi, sígarettur og lærdómur við eldhúsborðið er góður kostur í dag, þegar hann rignir. Er á rúlluskrifstofustól þannig að afturendi minn þjáist ekki, einnig gott að geta rennt sér til og frá þegar maður er að hugsa og festa dótið í heilanum. Þar þarf það bara að sitja þangað til klukkan 16:30 á morgun þegar próftíma lýkur. Jibbý jei.

sunnudagur, 8. maí 2005

vandræðalegar vangaveltur

Eru ungir listamenn landsins ekki til þess að ögra, viðhalda hringrásinni, koma með nýja fleti á hugmyndirnar? Þannig held ég að fög eins og listir, akademísk fræði og annað lifi. Eru ungir listamenn landsins að fljóta sofandi, sofandi í heimi efnishyggjunnar, þægindanna, skuldanna og hinu svokallaða ,,normi"? Hvar er fúttið? fór semsagt í fúttið á sýningu lokaársnema í lhí. Eilítil flatneskja í gangi, þó að sjálfsögðu höfðu lítil smáátriði áhrif á mig, en sýningin yfirhöfuð var já, full af fólki. Kannski rölti ég við á Kjarvalsstaði síðar, í betra tómi til þess að endurígrunda þessa upplifun í dag. Eða allaveganna athuga hvort ég komist að einhverju nýju.

já, ég get semsagt haldið aðeins áfram með þetta og bent á iðnvæðingu lista hér á landi. Stórfyrirtæki, ríkið og einkaaðilar reka listina. Hafa gert hana t.d. að útflutningsvöru (sem er náttúrulega fínt fyrir landkynningu, ef hún gefur ,,rétta" mynd...) Hvar er listamaðurinn þá? Hvað fær hann? Hvers vegna er hann að gera það sem hann er að gera? Hvað fær hann að gera? Hefur hann svigrúm til þess að ögra? hefur hann hugmyndafrjóleika til þess að ná til áhorfandans? o.s.frv.

laugardagur, 7. maí 2005

vandræðagangurinn

um árshátíðina hef ég ekkert að segja nema það að 211 manns borðuðu sitjandi á sviðinu og ykkar einlæg og hennar viðhengi sátu náttúrulega á háborðinu með stjóranum og maka hennar ásamt einhverjum listamönnum af erlendu bergi brotnu sem ætla m.a. að bregða sér í strútsbúning á þingvöllum fyrir listina. Rauðvínið bjargaði mér því fyrst vissi ég ekki hvað ég átti að gera, hlægja eða gráta. En sætaskipanin varð alveg óvart, þó undanfarna daga hafi ég verið að hugsa um hvað það yrði fyndið að lenda í þessum aðstæðum, kannski var ég bara búin að senda strauma og þetta átti að gerast.

próf númer eitt af þremur lokið. Gekk bara vel. Andaði djúpt í góðan hálftíma áður sem gefur sig vel fyrir mig. Rokkið lifi. Tvö eftir.

mánudagur, 2. maí 2005

uti a dekki

Búin að sætta mig við það að vera í eðli mínu afslappaður lærari. Það bara virkar betur. Annars sá ég Lauru Bush í sjónvarpinu að halda einhverja rosa fyndna ræðu og hún meira að segja sagðist horfa á Desperate Housewifes. Veit ekki hvað ég á að halda um það, en ræðan hennar var mjög ófagleg og hún var soldið of mikið í því að reyna að vera fyndin.

Helgardagarnir liðu eins og ég væri úti á dekki í Smugunni. Tónleikar á föstudagskvöld og pizza í desert. Það var gott. Vinna á laug og sunn. Verkalýðsdaginn. Ætlaði pottþétt í göngu, en hugsaði bara til hennar. Undir lok gærdagsins komst ég að því að ég væri komin með húsveiki. Eða cabin fever á útlensku. Lýsir sér í bulli og flissi og einbeitingarskorti. Er að fara aftur á eftir í húsið. Kannski þarf ég ekki að vera lengi. Það verður fínt ef það verður því þá er búið að bjóða mér í skírnarveisluafganga jökuls orra péturssonar. Annars er lítið sem fer í gegnum huga minn þessa dagana, þar sem það er í eðli hins afslappaða lærara að læra þegar hann getur og nennir, eins lengi og hann vill og mér finnst það gaman.

Til þess að kóróna afslöppunina verður haldið á árshátíð á miðvikudaginn í vinnunni. Borðhaldið verður uppi á sviði. Það verður forvitnilegt. Nennti ekkert að bjóða kæra með, var viss um að hann nennti ekki, en síðan þegar ég minntist á það vildi hann ólmur fara. Ætla í sægrænum kjól með perlum ásaumuðum í kringum hálsmálið úr hjálpræðishersbúðinni í Miami, en fólkið fær ekki að sjá mig á hælum. Nú er það pulsa í síðbúinn hádegisverð á leiðinni í húsið. Bæ.