fimmtudagur, 16. apríl 2009

kosningar

Í heita pottinum í morgun fór maðurinn með tvö frumsamin ljóð fyrir mig.
Um kvótakerfið
og um útrásina (ort fyrir tveimur árum).

Bæði sagði hann vera hálfgerðan leirburð en þau voru bæði nokkur erindi. Eftir að hann lauk við að fara með fyrra ljóðið spurði hann mig hvort hann ætti ekki að fara með annað. Ég tók því fagnandi og þá komu tveir aðrir í pottinn. Við það fipaðist hann svo að hann hóf að fara með fyrra ljóðið á ný. Varð síðan mjög vandræðalegur þegar hann áttaði sig á mistökunum.

Kannski er hann vanur að fara með ljóðið um kvótakerfið á eftir útrásarljóðinu. En ég fór í gufuna með ljóð og leirburð í hausnum heim. Góður dagur.

Hverjir eru uppáhalds róló-arnir ykkar?

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Tileinkað pöbbum

Við pabbi vorum sammála um tónlistarviðburð kvöldsins. Sammála um það að þegar tónlistin vekur líkamann og verður ein með honum og smitast þaðan út í andrúmsloftið sem tónlistarfólkið síðan endurspeglar, þá sé tónlistin góð upplifun. Trans. Takk fyrir mig þþþ. Annars mætti pabbi bara með nýjasta hefti golf-tímaritsins til að glugga í við tækifæri á tónleikunum. Alveg eins og þegar sambýlingurinn mætti með krossgátu í fyrstu íslensku jólamessuna sína.

Ég er svo heppin að vera alltaf að læra eitthvað nýtt í gegnum barnið. Þannig höfum við pabbi tekið upp góðan þráð aftur og hann kemur og sér um S. tvisvar í viku þegar ég syndi með gamla fallega fólkinu. Enn hef ég ekki prufað vatnsleikfimina en tónlistin sem kemur undan plastpoka er sígild (Ellý, Haukur, Alfreð) og gaman að fara í sund með tónlist.

Af t-pabbanum í Canada er það helst að frétta að planlagt úthugsað aprílgabbið var hálfgert flopp, en ég er viss um að hann verði búinn að gleyma því að ári þegar kemur að því að úthugsa eitthvað nýtt og ólíkt því að hringja í yngsta barnið sem býr í öðrum bæ eldsnemma og biðja það um að opna fyrir sér þar sem foreldrarnir bíði fyrir utan og ætli að bjóða í morgunmat. Unginn var ekkert hress með þetta.

Unginn minn er hress. Vill vera með húfuna inni. Finnst það eitthvað töff... unglingurinn strax að birtast. Ætli erfðabreytt matvæli hafi áhrif á hraða og þróun þroskans?