fimmtudagur, 29. júní 2006

changes

bowie að syngja fyrir mig og síðan ætlar fullt af öðru fólki að syngja fyrir mig í kvöld því af nægum tónleikum er að taka.

Þær breytingar sem hafa orðið í mínu lífi eru lítilsháttar, en sumarfríið eins og gefur að skilja er ein breytan. Önnur breyta á eftir að koma upp n.k. þriðjudag þegar ég fer til Berlinar auðvitað til að horfa á hm. En eins og gefur að skilja keypti ég ekki miða á úrslitaleikinn fyrir 400000 krónur á svörtum markaði, heldur ætla að vera í öruggu umhverfi bjórgarðs... eða missa af öllu saman... hvað gerist... endilega fylgist með

Klippimaðurinn klippti hárið mitt í dag og talaði mikið, en samt ekki um of. Stundum svaraði ég þó bara já eða nei án þess að bjóða upp á frekari samræður. Nú má segja að hárið mitt sé með ,,sand" effect samkvæmt hártísku-lingóinu. Mjög lekkert. Og það er miklu léttara einhvern veginn...

Já á döfinni er: hlusta á tónlist, (greiða)vinna, endurheimta sambýling, fá sér í tána með útlenskum guide og sérmenntuðum ævintýraguide, samfagna í viku-eftirá útskrift, halda surprise-grillveislu, pakka niður, þvo, koma blómum í fóstur (nú nægir sturtubotninn ekki) og stinga af í nýtt sumarfrí á nýjum stað.

sunnudagur, 25. júní 2006

gæsahuð

breiddist um líkama minn í vinnunni í dag. Ekki þó vegna drauganna sem eru pottþétt orðnir vinir mínir því ég tala alltaf við þá. Gæsahúðin stafaði aftur á móti af leik-dans-tónlistarhóp frá Okinawa. Ævaforn list þeirrar eyju soðin saman í eitt 70 mínútna stykki sem var magnað. Tónlistin klikkuð. Orðanotkun mjög rytmísk og átti í danis við ásláttarhljóðfærin og skrítnu þriggja-strengja gítarana. Síðan flautuðu sumir og slefuðu ógurlega. Hreyfingarnar ómótstæðilegar. Og í lokinn í uppklappinu braut karate-maðurinn 2 spýtur með fætinum. Boðskapurinn var stundum mjög fallegur, hreinn og beinn og minnti mann m.a. á það að við erum það sem við erum, komin af foreldrum okkar og það verður að virða langt afturábak. Vera hreinskiptin og heiðarleg. Karlar eiga að styðja konurnar sínar. Aðstæður til áhorfs voru slæmar. Horfði á þetta í gömlu Samsung sjónvarpi sem sýnir sviðið, en hljóðið tók ég af og hlustaði frekar á innanhússkerfið sem er nokkuð gott. Vanalega hlusta ég ekki á innanhússkerfið þar sem maður fær þá öll boð sýningarstjóra sem vanalega hljóma sem svo: kjú 54 .... innn yfir þann hljóm sem berst frá sviðinu, oft fá kjaftasögur að fljúga inn á milli í grafalvarlegum atriðum þar sem áhorfendur standa á öndinni. En Japanarnir komu með sín eigin tæki og tól þar sem sýningarstjórinn þeirra stjórnaði þessu öllu á japönsku að sjálfsögðu. Nú kann ég 4 orð á japönsku.

kónitsjúa= góðan daginn, halló
sayonara = formlegt bless
matanei = vinalegt bless
arigató = takk

Rússnesku orðin voru... daaaaaaaaaa man ekki.
Heppilegur vinnustaður enn og aftur. Já, einmitt, þá hafði kokkurinn hrefnukjöt í brúnni sósu í hádegismatinn í gær. Vildi láta fólkinu líða eins og heima hjá sér. Hrefnukjötshvalur í ríkisstofnun. Fékk mér ekki. Man bara eftir því að hafa verið úti í sveit með fjölskyldunni þegar ég var lítil og mamma steikti hvalkótilettur. Djöfull seigt og vibbalegt. Matarminningar maður minn. En heppilegur vinnustaður að því leyti að núna er yfirvofandi sumarfrí, fæ ekki nóg af því að tala um það, á morgun takk fyrir, og allir eru rosa glaðir.

Svitabaðið var sveitt. Ekki svo heitt. Gæti verið að fólk upplifi hitann eftir því hvernig andlega stemningin er? Hefur farið upp í 100 gráður á celsíusi í loftinu á svona tjöldum. Magnað alveg hreint. Að fá að svitna og hugleiða og hreinsast og vera uppgefinn og vera glaður og vera þakklátur og sjá sýnir (sumir) og kyrja. Það er ekki á hverjum degi sem maður upplifir þetta og í morgun klukkan 08:25 hafði ég enga líkamlega löngun til þess að fara í gufu sem ég geri vanalega í Vesturbæjarlauginni.

Núna singur Nina Simone fyrir mig og ég er ein heima í nokkra daga sem er frábært. Smá fallegt andrými. En ég hlakka óneitanlega mikið til að fá að hitta kæra aftur, bara svo enginn misskilningur geti átt sér stað því þetta er nú einu sinni ritað mál.

Gengið frá og lokað kl.00:12

föstudagur, 23. júní 2006

tesopasol

Með tónlist í eyrunum naut ég sólarinnar og horfði á mávana frekjast á tjörninni. Endur og gæsir og dúfur þurfa að hverfa frá yfirganginum sem er sorglegt. Ein dauð önd vaggaði með magann upp. Amerískir krakkar að fríka út yfir henni. Og ég í raun líka. Og það var ekki vegna H5N1 hræðsluáróðurnum sem var boraður inn í alla fyrir nokkrum mánuðum. Kannski frekar vegna þess að mávarnir mega frekar eiga heima við sjóinn þannig að endur og gæsir geti verið áfram í friði á tjörninni og skitið út gangstéttina þannig að maður renni í grænum skítnum, sem hefur þó snarlega minnkað.

Nú stefnir allt í sveita- og svitaferð. Því ég ætla í svitabað með góðu fólki. Hlakka ógurlega til. Hlakka minna til að vera lokuð inni um helgina við vinnu. En sumarfríið byrjar á þriðjudaginn. Jibbý jei.

Gleðilega Jónsmessu.

þriðjudagur, 20. júní 2006

i'm rap rap rapping

fjárfesti í Big Apple Rappin´ sem er svo sannarlega 1999 króna virði (með special price for you my friend og 2 cd) og ég leyfi mér að vitna í umslagið: the early days of hip-hop culture in New York City 1979 - 1982.

Var að hjóla heim eftir vinnu og stoppaði til að kaupa kóko(g)mjólk.
Hnyttni og hrekkjabrögð.
Samt telst ég ekki svo fyndin, allaveganna ekki af sambýlingnum... Það verður að segjast að það er erfitt að vera fyndinn á útlensku. Og þar sem ég þýði oft míns menningarkima húmor beint yfir á útlensku, kemur það ekkert sérlega vel út. En ég hef gaman af orðum og gaman af scrabble. Útlendingurinn hefur meira að segja unnið mig í íslensku skrafli.

Amma hringdi í dag til að athuga hvort ég gæti skotist að kaupa dóp fyrir hana. Það gat ég ekki vegna bifreiðaskorts og vinnu. Hún á marga að sem hafa aðgang að bifreiðum. Ertu búin að hringja í alla hina? (sem margir eru karlkyns). Nei ansaði hún og sagði þá alla vera að vinna... Hvað er málið? Má frekar biðja konur um greiða heldur en karla? Eru þær betur til þess fallnar að snúast og snattast? Er vinna þeirra ekki eins mikilvæg? Því trúi ég ekki, en verð að gefa ömmu minni það að hún er kona síns tíma sem klæddist ekki í bleikt í gær.

Á morgun eru sumarsólstöður. Njótið dagsins.

sunnudagur, 18. júní 2006

kokokokokokoko lo

IMG_2785
IMG_2795
IMG_2790
IMG_2784
IMG_2791

Hössi og Björg fengu ekki myndatöku við verslunariðju sína á aðalbásnum þessa helgina. Áeggjan kærrar konu hafði áhrif á þá reglu að smella mynd af öllum þeim sem ég þekkti sem versluðu. Niðurstaða að öllum kostnaði frádregnum = 23.130. Allir aðrir hlutir sem ekki gengu í endurnýjun lífdaga þessa helgina dúsa nú í gámum Rauða Krossins og eiga spennandi framtíð framundan.

Gangverðið var 100 - 200 krónur. Að selja föt á 500 er dýrt. Margir misáhugaverðir stöldruðu við. Maður með grátt skegg spurði eftir leikjum í gömlu playstation. Hann var búinn að spila svo mikið kung-fu leikinn að hann vildi fá sér nýjan. En tók það jafnframt fram að eftir að hafa komist í gegnum öll borðin í leiknum hafði gítarleikur hann snarbatnað. Jesús er í hjartanu á þér, sagði annar eftir að hafa spurt mig af hverjum ákveðin mynd var. Starfsmenn á Aþenu, skemmtiferðaskipinu sem lá í Reykjavíkurhöfn kunnu verslunartæknina. Prútt. Prútt. Tjútt. Þetta var bæði gaman og erfitt. En tók skjótt af. Var fljót að bursta af sölutæknihæfileikum mínum og koma þeim í gagnið. Gomma af trikkum og pólitík í gangi hjá sölufólkinu í koló.

Ekki spillti að í gærkvöldi var haldið á vit ævintýranna úti í Garði. Maður minn, hvað ég er þakklát fyrir að þekkja svona fallegt fólk. Þar var sannkallað humarsumar. Bjargaði alveg deginum í dag þegar sólin titraði á hafinu í augnablik og mig langaði ekki að vera stundinni lengur í koló. Nú er þjóðhátíðarhelgin að kvöldi komin. Ein vika þangað til sumarfríið byrjar...

föstudagur, 16. júní 2006

kodd i kolo a þjoðo

hæ allir saman nú,
við skötuhjú munum selja ýmsa dýrgripi á mjög góðu verði í kolaportinu um helgina (bæði lau&sunn).
Þar verður að finna safn ritvéla, bóka, klæðnaðar, skarts og e.t.v. laumast nokkrir geisladiskar með. Komið inn úr hátíðarhöldunum í rigningunni og hlýið ykkur í kolaportinu - þar er alltaf friður, alltaf fjör. Hlakka til að sjá ykkur.

IMG_2776 hm í rvk

IMG_2759
allir stara út í óvissuna í óvissuferð

miðvikudagur, 14. júní 2006

hm spenna

mér líður eins og ég get ímyndað mér að fótboltaáhugamönnum líður um þessar stundir. ég er nefnilega að fara í óvissuferð á morgun með vinnunni. og síðan æsir bara svo margt annað mig í lífinu... þarf ég að réttlæta það að ég horfi ekki á fótbolta? fótboltafélagið á íslandi gat ekki einu sinni sent yfirlýsingu til útlanda og sagt að þeir digguðu ekki innflutning á konum í kynlífsiðnaðinn/vændi í stórum stíl... 60.000 konur áætluð tala. Íþróttir/karlmennska og bjór og kynlíf. Hvaða fyrirmyndir eru það? Enginn vill taka ábyrgð og bendir á hinn.

en kvöldið hér er sérlega blautt, enda rignir og rignir og rignir. hlakka til að fá að njóta sólar. MIg þyrstir í vítamínin hennar. Sendi góða orku yfir hafið til þess fólks sem þarf á henni að halda í Sydney.
Gengið frá og lokað 23:36

sunnudagur, 11. júní 2006

óvænti aukadagurinn

þannig er mál með vexti að í dag á ég vakt, en er ekki í vinnunni. Ekkert að gera, engin nauðsyn fyrir viðveru mína. Sem er sér i lagi undursamlegt. Það gerði þ að að verkum að í gær eftir vinnu fór ég á stjá í partý. Einblíndi á jákvæða orku á meðan ég gæddi mér á vodkalegnum ávöxtum. Það gekk vel og var gaman. Á gönguferðinni heim mætti ég svö mörgu fólki (engum sem ég þekki) að ég gat varla orða bundist. Mannfjöldinn var gífurlegur. Klukkan 03:30 var slökkt á ljósastaurunum.

Ég hef áhyggjur af uppsprettu og ræktunarskilyrðum bænda hér á landi. Hvar er sólin? Bráðum fer h ún að snúa á braut. Og sumarið rétt í startholunum. Hvers vegna að lifa á þessum stað í heiminum? Ég held ég verði bóndi einhvern tímann. Ríkisstjórnina og lýðræðið í þessu landi skil ég ekki og er hætt að botna í hvernig þetta viðgengst. Hvar er mafían þegar maður þarfnast hennar?

það er gaman að eiga aukadag í lífinu. Þá má maður gera allt það sem maður myndi annars ekki gera... pakka inn afmælisgjöfum vel og vandlega og búa til kort (ég þekki svo rosalega marga tvíbura sem mér þykir vænt um og vill gleðja í tilefni fæðingarafmæla), búa til túnfisksalad, vaska upp, setja í þvottavél, reykja sígó og horfa út um gluggann, hlusta á tónlist, fara í bað, undrast yfir regninu sem ætlar aldrei að linna og síðast en ekki síst er á planinu að spila Diplomacy. Þannig er nú það.

Gengið frá og lokað kl.16:19

föstudagur, 9. júní 2006

1919

ein góð vinkona mín er fædd árið 1919. Hún er þýsk og ólst upp í Vestur-Berlín. Foreldrar hennar voru kristnir, en pabbi hennar lést rétt fyrir stríð (seinni heimsstyrjöldina). Í gegnum tíðina hef ég reynt að tala við hana um stríðstímann í Þýskalandi og í dag fékk ég mestu upplýsingarnar hingað til. Þannig er mál með vexti að eldri kynslóð Þjóðverja á oft erfitt með að tala um þennan tíma, kannski vegna tilfinninga á borð við skömm, niðurlæging, depurð og fleira í þeim dúr. Yngri kynslóðir Þjóðverja eru líklega smám saman að sætta sig við þetta og yngstu kynslóðir Þjóðverja tala glaðir um þetta (en kannski líka vegna þess að þeir upplifðu ekki hryllinginn). En hvað veit ég svosem?

Í 6 mánuði vann hún hjá Flokknum. Til þess að fá skólastyrk og bara það að fá að fara í skóla þurfti hún að vinna fyrir Flokkinn. Þar skrifaði hún utan á umslög sem send voru til fólks með áróðri Flokksins. Eftir þessa 6 mánuði fékk hún að fara í skólann/halda náminu áfram. Þess má geta að hún er lærður flugmaður, skurðlæknir og nálastungulæknir. Til þess að læra til læknis var hún m.a. í starfsnámi á spítala rétt fyrir norðan Berlín. Þangað tók hún lestina á hverjum morgni. Það eina sem hún tók með sér var skartgripir og skammbyssa. Hún vissi aldrei hvort hún myndi koma aftur eða hvaða ástand myndi bíða hennar við heimkomu. Hryllilegustu minningar hennar eru þegar sírenurnar fóru í gang þegar verið var að sprengja Berlín, en móðirin og systurnar 2 höfðu ekki aðgang að neinum kjallara/neðanjarðarbyrgi og bjuggu á 3.hæð. Og hún segist bara hafa verið heppin.

Nóg í bili. Vildi bara koma þessu út úr hausnum á mér.
Sendi bara gleðilega og fallega strauma til ykkar heppna fólk.
Njótið dagsins.

þriðjudagur, 6. júní 2006

stjörnuspa II

Laugardagstónleikarnir sem ég upplifði einkenndust af konum. Fyrst má nefna Berglindi í Skakkamanage, og síðan stórhljómsveitirnar, alla leið frá útlöndum, ESG og Sleater-Kinney. Hressandi að sjá kvennabönd, tvö í röð. Þegar kvennabönd stíga á svið er nokkuð augljóst að þær eru undir meiri pressu frá áhorfendum, þ.e.a.s. þær þurfa að sanna sig betur fyrir áhorfendum heldur en karlabönd. Oftar en ekki er litið á kvennabönd fyrst sem konur og síðan tónlistarkonur.

ESG stóðu fyrir magnaðri tjútt-stemningu, enda mikil orka í gangi og nærri ómögulegt að vera kjurr undir þessum kringumstæðum. Þær voru ófeimnar við að taka gamla slagara og lýðurinn trylltist...
Sleater-Kinney voru með öðruvísi orku, 2 gítarar og trommur. Ekki beint minn punkrokk- tebolli, en gaman að upplifa.

sunnudagur, 4. júní 2006

Stjörnuspa

sannkölluð tónlistarveisla í eyrum mér, afmælisveisla í maga mér og gleði, eintóm í hjarta. Þetta er allt eins og stjörnuspáin boðar, sporðdrekinn er félagslyndur í meira lagi þessa dagana. Fékk vöfflu að norskum hætti í afmælinu, búin að sjá góða og skemmtilega skáta, Apparat, The foghorns sem höfðu sérstakan mann til að spila á þríhorn undir heldur leiðinlegri tónlist, Jeff Who voru í feiknastuði og spiluðu a.m.k. 1 nýtt lag með synthana í fínum fíling. Kimono þéttir að vanda. Ég ródaði í fyrsta sinn á ævinni í gær. Það var gaman. Notaði vöðvana. Leaves leiðinlegir en með góð vídeó og Supergrass ekkert spes. En ég skemmti mér ógeðslega vel. Sjaldan tek ég svona til orða en læt bara allt flakka ógeðslega ógeðslega mikið. Hitti ógó mikið af fólki. Gaman gaman.

Nú er stefnan tekin inn á Nasa. Póli-tíkin leyfir ekki að halda útisamkomutónleika á heilögum degi, what´s up with that? Ábyggilega soldið önnur stemning. En stemning engu að síður. Skakkamanage verður fyrsta upplifun mín af lifandi tónlist á eftir... hvað svo veit ég ekki.

Gengið frá og lokað klukkan 19:37.