sunnudagur, 31. október 2004

Bjarni M.

hringdi í síma bakdyravarðar kl,00:09 áðan. Röddin nokkuð hrjúf, búin að lifa lífinu sínu, konan í bakgrunninum og líklega sjónvarpið, búin að panta 2 einfalda viskí á barnum fyrir sýningu og fara á klósettið (þetta í miðjunni) og sat á 8.bekk í sæti 51 (konan í 52), fannst sýningin áhrifamikil en veskið var ekki í rassvasanum þegar hann kom heim. Hann var að íhuga að hringja á lögregluna. Sem ég skil ekki. En fór niður í Þjóðleikhúskjallara til að tékka á málum og fá barstrákinn til að fara inn á herrasnyrtinguna þar sem ég er ekki herri. Veskið fundið og Bjarni M. kemur á morgun að nálgast kortin sín þrjú í veskinu ásamt öðru.

Ég er semsagt að vinna þessa helgi. Og í fyrsta sinn mætti ég þunn í vinnuna í morgun (12 á hádegi), sem var upplifun út af fyrir sig. Afar þægileg vinna að því leyti. En þynnildið kom til vegna drykkju á grímuballi hjá Björt & Bigga. Mikið var um dýrðir enda er það sjaldan sem fólk gerir sér dagamun og klæðist einhverju allt öðru en það gerir vanalega. Og ég tala nú ekki um að fara í annan karakter. Hvað um það. Einfaldleikinn var í fyrirrúmi hjá mér þar sem ég klæddist venjulegum kvenfatnaði en öllum öfugt, þ.e.a.s. ég gat klóra mér í rassinum að framanverðu. Það var gaman. Og þynnildið er farið.

Góða nótt Bjarni M. Sé þig á morgun.

fimmtudagur, 28. október 2004

Tiskustraumar

já, væmnin er komin aftur í tísku. Ætli það sé tilkomið vegna mótstöðu við allt hið tæknivædda og tilfinningalausa í samfélaginu? Maður fer ekki einu sinni í heimsókn til bestu vina sinna nema hringja á undan og allir eru á kúlinu. Síðan náttúrulega áherslan á tilfinningalega greind til viðbótar við allar hinar greindirnar sem við búum yfir. Þá er ég að meina að tilfinningagreindin var nýlega ,,uppgötvuð". Mér er það alls ekki að móti skapi að tilfinningasemin sé að fara að hellast yfir. En ég get varla ímyndað mér að hún setjist að í fólki á þann hátt að það fari að faðma alla sem það hittir og lýsa tilfinningum sínum opinberlega. Það er allt of langt gengið fyrir þessa lokuðu kynslóð fólks sem hugsar oft bara um sjálft sig (að undirritaðri meðtalinni). En væmnin má birtast í tónlist, tísku og fjölmiðlum að matri sumra. Mér finnst hún t.d. birtast í klæðnaði þar sem rómantískum áhrifum (blúndum, pallíettum, glingri ýmis konar) en að sjálfsögðu í bland við eitthvað töff og pönk, þá finnst mér hún birtast í samtímatónlist, þar sem söngvarinn syngur tilfinningaríka texta, oft með einlægri, næstum barnalegri rödd og ég veit ekki um fjölmiðla, kastaði þeim bara með því þeir birta myndir og umfjallanir um tónlist og tísku og þar með nær það athygli fjöldans sem gerir það að sínu. Væmnin. Kannski er ég bara að bulla og ein um það að vera að taka eftir væmninni. Kannski er það bara tunglið sem er óðum að fyllast, nú eða tíðahringurinn. Við sjáum hvað setur.

Varð hreinlega bara að kíkja í íslenska orðabók Menningarsjóðs sem segir væmni vera kvenkyns orð en jafnframt óbeygjanlegt og þýðir það að vera væminn.
Væminn: sem veldur klígju, velgju; tilfinningasamur; smeðjulegur.
Þar höfum við það.

sunnudagur, 24. október 2004

Laugardagur

Síðasti dagur ótalmargra tónleika. Og ekki laus við það að maður hafi verið orðinn svolítið þreyttur. Það kannski útskýrir hvers vegna ég fór ekki á marga tónleika í gær, eða það að það sem í boði var þetta ágæta laugardagskvöld var ekki alveg nógu spennó fyrir mig.

Nasa
Mugison í öllu sínu veldi. Hann er fyndinn gaur. Og nú er það væmnin sem er töff. Lokalagið spilaði hann með pabba sínum og konu. Mjög spes stemning. Pabbinn svona sjóari með hendurnar. En góðir tónleikar þó sumum sem hafa séð Mugison oft fannst þetta losaralegir tónleikar. En ég skemmti mér.

Yfir á Kapital þar sem T.Cuts spilaði á tölvu. Upplifði 1 lag. Það var fínt.

Grandrokk - Lokbrá. Hef aldrei séð þá áður. Blanda af ýmis konar rokk stefnum, maður heyrði alveg ákv. hljómsveitir hjá þeim en þeir voru mjög flinkir við að skipta um stefnur í lögunum sínum. Kannski aftrar það þeim að finna sinn eigin stíl. Ég veit það ekki, en kannski gerist eitthvað skemmtilegt hjá þeim sem lætur mig fara aftur á tónleika þeirra.

Missti af nýrri hljómsveitarskipan Singapore Sling, En það er allt í lagi, því ég sé þá bara síðar.

Sá smá The Stills og síðan The Shins en þeir eru massa stuðboltar. Gaukurinn var of-pakkaður og algerlega ótækt að mínu mati að bjóða fólki upp á svona stóra hljómsveit við þessar aðstæður. En Vúbbíhú. Mjög skemmtilegt og góður endir.
Skemmtilegt fólk og mikið af því. Bless hátíð. Hlakka til að ári.

Nú er kominn sunnudagur og sólin skín. Best að líta í bækur og síðan jafnvel kíkja á chill-tónleika í kvöld til þess að loka hringnum endanlega.

laugardagur, 23. október 2004

Föstudagur

Þar sem ég var við vinnu fram á kvöld þá byrjaði ég á því að kíkja á Þjóðleikhúskjallarann og sá lokalag Sigga Ármanns. Hmm.

Nasa
eftir að hafa beðið í röð í nokkurn tíma með góðu fólki, þá datt ég inn í stemningu Hjálmars eða Hjálma. Nokkuð nett, en ég fíla meira reggae-ið þeirra heldur en sýru-rokkið. Reggae lætur mann óhjákvæmilega hreyfa sig.

Hot Chip voru magnaðir og ákkúrat eitthvað sem ég myndi vilja skoða/heyra nánar.

Þjóðleikhúskjallarinn aftur. Hudson Wayne. Tónleikarnir urðu betri með hverju laginu, en það þurfti smá tíma fyrir þá að koma sér í gang. Er það kannski klisja? En mér fannst það þannig en naut tónanna þeirra í botn því þeir eru svo sætir. En enn sætari voru Kimono, þar sem ég er hlutdræg og spiluðu þeir mjög góða tónleika að margra annara mati en líka að mínu.


Orðskýring dagsins í dag úr útvarpinu Rás 1.
flæmingur = (að fara undan í flæmingi) það að flækjast um, flakka um, flakkari (flæmingi = Hollendingur).

Sundferð í hádeginu var algjör unaður og lostæti og nú ætla ég að lesa blöðin og halda áfram að hlusta á útvarpið og slappa af. Hlakka til kvöldsins. Loftbylgjuhátíðin er bara svo notaleg.


föstudagur, 22. október 2004

Fimmtudagskvöld
Hafnarhúsið Domino-Kvöld
Byrjaði á því að missa af To Rococo Rot af gildum ástæðum, en mér var skemmt heima í stofu með píanóspili og píanópælingum Gylfa.
Kom þegar Hood var að spila og það var sérdeilis ljúft, en ekkert rosalegt.
Á eftir þeim spiluðu Slowblow sem ég sá nýlega bæði í Austurbæ og í Hafnarfirði. Og þau spiluðu bara eins, ef ekki betur en í hin fyrrnefndu skipti.
Um klukkan 22 byrjaði Four Tet maðurinn sem var ólýsanleg snilld. Það kom mér á óvart hversu geggjaður hann var miðað við þær plötur sem ég hef heyrt og framdi hann hljóðpróf fyrir áhorfendur, til þess að leyfa þeim að fara sem meikuðu ekki meira en hinum að grúúva feitt. Ágengur en dansandi draumur.

Gaukur á Stöng
Hip hop sveitin Non Phixion. Að sjá síðustu lög þeirrar sveitar var eins og á trúarsamkomu, þar sem allir voru dáleiddir en í góðum fíling. Gaman að heyra hip hop.

Nasa
Sænska stúlknasveitin Sahara Hotnights. Segir allt sem segja þarf. Sænskt stúlkupopp með kröftugum trommara, en ekki nógu aðlaðandi né krefjandi tónlist.

Þjóðleikhúskjallarinn
Sá Steintrygg slá í síðasta lagið. Og mér finnst þeir tveir alltaf skemmtilegir. Enda hrifin af áslátturshljóðfærum með einsdæmum.

Því næst var klukkan farin að ganga í Ghostigital sem héldu sér einhverra hluta vegna í hlustunarlegum kanti, en stundum þegar ég hef séð þá finnst mér þeir fara yfir strikið sem fagurfræði eyrna minna getur meðtekið. Það kemur kannski með æfingunni, en gærkvöldið var geðveikt og góður endir á góðu kvöldi.

Fór heim og reyndi að heimta mann úr helju sem var ekki alveg nógu hress og sendi hann heim til sín í leigubíl.
Nú er nýr dagur kominn, ég á leið í vinnuna og í kvöld á ég eftir að sjá og upplifa meiri forvitnilega tónlist. Hlakka til.

fimmtudagur, 21. október 2004

Nokkrar lýsingar á því sem er upplifað á tónlistarhátíð:
nasa miðvikudagskvöld:
kom inn þegar Geir Harðarson var að klára, pínlegur uppi á sviði og höfðaði alls ekki til mín eins og sá sem kom á eftir honum, Þórir, einn með gítarinn og skringilega rödd sem hafði ekkert fram að færa. Annað heldur en KK sem spilaði á eftir af þekktri snilld. Allt rosalega vel gert, nostrað við hverja nótu. Og röddin hans, rödd þess sem hefur upplifað ýmislegt. Soldið rólegir tónleikar og ekkert sem ég er að fara að einbeita mér að, en gott upphaf af því sem koma skal, þó ég ímyndi mér að það verði aðeins meira í rokkgírnum. Meira síðar.

miðvikudagur, 20. október 2004

Kossar

Kári er alltaf að kyssa mig þessa dagana og það er bara nokkuð gott. Eða allaveganna finnst mér yfirleitt líka bara hressandi að fjúka smá, sérstaklega þegar er komið að gapinu mikla við Lækjargötuna, þegar engar byggingar skýla manni.

Þýskaland stakk upp á því við Frakkland og Spán að hafa skýli fyrir ólöglega innflytjendur í Norður Afríku saman. Frakkland og Spánn vildu ekki vera með og sögðu að það yrði að tala við fleiri sem að málunum koma. Innflytjendurnir myndu dvelja þar meðan farið væri með mál þeirra. Hvað tekur það annars langan tíma?

Skólinn er búinn að lepja upp tíma minn að undanförnu enda stóð ég með kynningu í dag í 2 tíma, sem liðu bara nokkuð hratt og fólk duglegt að tjá sig. Það var gaman en soldið stressó. Þá aðallega allur undirbúningurinn. Spilaði Gram Parsons þegar bekkjarfélagar mínir gengu inn til þess að skapa réttu stemninguna fyrir umfjöllunina um N-Ameríku.

Nú er það annað sem hugur minn má fara að velta fyrir sér og það er tónlistarhátíðin mikla sem byrjar bara á morgun.

Var gefinn nýr Capri sígarettupakki þegar ég kvaddi húsráðanda á heimili einu hér í Vesturbænum um helgina. Þegar ég færði mig undan móttöku, var svarað með orðinu ,, prumpi" Hvað þýðir það nú? En það var fyndið og ég stakk sígarettupakkanum inn í kæli þegar ég kom heim eins og ég hef séð vinkonu mína gera.

kossar

miðvikudagur, 13. október 2004

solgleraugu i rigningunni

Þrátt fyrir þungskýjaðan himininn þá var maðurinn sem lagði bílnum sínum ólöglega meðan hann hljóp inn til skósmiðsins með sólgleraugu með bláum glerjum. Ógrynnin öll af upplýsingum um Norður-Ameríku eru að herja innrás í heila minn, og núna er það grein um Generation X í mannfræðilegu ljósi. Fyrst var því haldið fram að sú kynslóð væri það fólk sem hefði fæðst 1965 - 1976 en síðan var ramminn stækkaður frá 1961 - 1981. Já já, þannig að ég er í Generation X. Síðan er talað um Kurt Cobain og Beck sem söng I´m a loser baby sem á m.a. að einkenna þessa kynslóð. Ég segi nú bara sveiattan. En skemmtilegt.

Hef fengið fjölda ábendinga í gegnum tölvupóst vegna óvirks ábendingakerfis. Hef reynt að kippa því í liðinn.
Hávaðinn frá götusóparabílnum er að dvína út þar sem hann fjarlægist og kominn tími til að halda áfram lestrinum.
Í friði.

sunnudagur, 10. október 2004

helgarfri að renna ut

eftir vinnu á föstudagskvöld upplifði ég bjórkvöld að hætti vinnustaðarins. Skundaði á tónleika með hljómsveitinni Hjálmar og náði síðustu tveimur lögunum í stútfullum sveittum sal fólks sem dillaði sér endalaust, en persónulega fannst mér gítarspilið einkennast of mikið af sýrurokki sem ég náði ekki að tengja við en fílingurinn nötraði um merg og bein. En dilledí dill og myndin Cold Mountain vermdi vídespólutækið með góðri tónlist og hægum en góðum framgangi. Ásamt myndinni Jesus de Montreal sem sýnir hóp leikara setja upp sögu Jesú fyrir siðblindan prest o.s.frv. En persónur myndarinnar eru forvitnilegar þó ég hafi sofnað undir lokin undir jesúræðum leikaranna.

Risk var spil kvöldsins þar sem tekist var á um lendur heimsins. Þegar spilið var búið hafði ósjálfrátt myndast ákveðið jafnvægi í heiminum. Og þá spyr maður sig um landamæri heimsins í dag, alþjóðavæðinguna, allsherjarsamböndin og fólksflutningana. Til hvers þarf landamæri? Er einmitt að fara að skoða menningarsvæði Norður - Ameríku til þess að halda fyrirlestur um þau og hvort menningarsvæði séu enn til í skólanum sem verður eflaust forvitnilegt.

The Fiery Furnaces systkinin gera skemmtilega tónlist. Hlakka líka til þegar airwaves kemur. góða nótt.

föstudagur, 8. október 2004

The Caterpillar

Það er margt sem flýgur í gegnum hausinn á mér þessa stundina þegar ég hlusta á Dusty Springfield syngja skrítin lög. Lísa og vinnan. Byrja á vinnunni.

Göturnar glitra og ég er að hjóla heim eftir vinnu. Þegar hafa myndast hópar fólks utan við skemmtistaðina. Þvílíkt og annað eins. En þjóðleikhúsið glitrar líka, því ég held að það séu hrafntinnubrot í klæðningunni. Vinnustaðurinn þar sem ég er andlitið ,,útávið" eins og starfsmannalýsingin kveður á um. Ég er semsagt andlitið í plexíglerbúrinu með lúgunni við bakdyrnar. Þar streymir endalaust af starfsfólki út og inn. Fáir sem eiga þangað ekkert erindi fara þar í gegn. Kannski eiga æstir aðdáendur einhverra leikarana eftir að safnast saman í forstofunni. En þannig var það næstum því í kvöld. Einn hljóðfæraleikaranna bað um að 4 ungar stúlkur (14-16) sem voru á sýningunni, 3 vinkonur og 1 frænka fengu að bíða eftir að þær yrðu sóttar. Gott og vel.

boy in da corner með Dizzee Rascal komin á fóninn, því ég má bara hlusta á d í kvöld. Hve langt í stafrófinu kemst ég? Ok. þarf samt ekki að vera í stafrófsröð, því ég var að byrja.

Skyldan kallaði og ég þurfti að arka af stað kvöldrúntinn sem felur það í sér að villast um ranghala byggingarinnar, slökkva ljós, læsa sumum hurðum (8 í einum stigaganginum), tékka á gluggum o.fl. í bjarma neyðarútgangaljósanna. Ég var ekki viss hvaða tilfinningar ég bæri til spurningarinnar: ertu myrkfælin? og það eina sem mér datt í hug var tilbúin sena í anda Ichi the killer. Semsagt: hinar 4 ungu meyjar bútaðar í blóðuga bita í plexígler búrinu. Er leikhúsið byrjað að hafa áhrif á mig? Eru hryllingsmyndir draugar nútímans? Án efa verður fjallað meira um myrkfælni síðar en út í aðra sálma

þegar Dizzee er að ganga fram af mér með klámfengnum textum, skipti yfir í... augnablik... Death Cab for Cutie og Phonebooth, Hvílíkur léttir.

Lísa í Undralandi er mögnuð. Var hugsað til hennar og teikninganna í bókinni, fann meira að segja fallega mynd sem hægt er að ímynda sér hér.

Góða nótt.

þriðjudagur, 5. október 2004

tölvutregða

hef aðeins reynt að finna útúr því hvernig maður getur látið svona fítusa inn, en gengur hægt. Nýja starfið leggst vel í mig og ég búin að fá lykla. Las grein um egypskar sápuóperur í skólanum sem var forvitnilegt, þar sem fjallað var um afturhvarf til upprunans í menningarlegu tilliti. (hægt er að ímynda sér að hér væri mynd af aðalleikurm sápuóperunnar ef ég bara fyndi út hvernig. Sem gerist einn góðan veðurdag.

föstudagur, 1. október 2004

ertu myrkfælin?

en ég var einmitt spurð þeirrar spurningar í atvinnuviðtalinu í gær. Jú, mikið rétt, ykkar einlæg er orðin bakdyravörður í þjóðleikhúsinu. Byrja á mánudaginn. Spenna og draugar í lofti. Nánar um starfið síðar. Ætli ég fái stóra lyklakippu? hvað með úlpuna (svart glansefni með appelsínugulu fóðri og hvítum flögnuðum stöfum á bakinu)?