þriðjudagur, 20. nóvember 2007

“Er nokkuð hægt að gera netfrumur á status frá því í gær?”

,,ekki setjast þarna elskan mín, ... komdu með grindina þína með þér...”

Nú er ég á spítala í sykurþolsprófi, öryggisins vegna þrátt fyrir að engin fjölskyldusaga sé um sykursýki og annað slíkt. Til þess að hægt sé að gera þetta þarf ég að vera hér á Landakoti hjá gamla fólkinu í Lazy-Boy stól í a.m.k.120 mínútur. Ég mætti klukkan 8 í morgun, fastandi frá því í gær með þurran munn, gleypti samt óvart vatn við tannburstun. Á móti tóku mér 2 hálfdanskar konur sem tóku blóðið mitt, gáfu mér sykurvatn að drekka og kalla mig litlu konuna o.s.v. Ég geri ráð fyrir að þær séu meinatæknar. Þær voru himinlifandi yfir því að bókabúðin hefði gefið þeim dönsku blöðin (sem búið var að rífa kápurnar utan af) svo fólk gæti lesið. Ég var aftur á móti ekki himinlifandi enda hef ég ekki viðhaldið dönskukunnáttunni sem safnaðist saman í menntaskóla. Hér á spítalanum er aftur á móti annað íslenskt tungumál sem ég skil heldur ekki.

,,Þannig að ég var að spá í þar sem æðin er náttúrulega stokkbólgin hvort ég gæti notað sermið síðan í gær til að mæla kreatínið og urea... það bara rennur pínulítið og síðan hættir...”

Ég þakka afmæliskveðjurnar. Það er ekki amalegt að verða 30 ára þegar viðskiptabankinn manns sendir manni innpakkaða matreiðslubók eftir líkamsræktarfrömuð í afmælisgjöf. Ætli 30 ára karlkyns viðskiptavinir bankans hafi fengið sömu gjöf? Er það bara gefið að allar konur hafi áhuga á matargerð með líkamsræktarívafi? Það vill svo vel til að ég hef áhuga á matargerð, en þessi bók var soldið prumpuleg. Maturinn á Fiskimarkaðnum var aftur á móti ekki með prumpubragði en þangað fóru skötuhjúin út að borða í tilefni dagsins um daginn. Grænmetis taco með chilisósu var forvitnilegur unaður og einn mest djúsí lax sem ég hef fengið var hinn aðalrétturinn, enda er þarna grill af japönskum ættum sem grillar í allt að 1200 gráður og lokar þar með laxinum mjög snöggt sem gerir það að verkum að hann verður ómótstæðilega safaríkur að innan. Venjuleg grill fara sjaldan yfir 600 gráður. Sushi-ið í forrétt stóðst ekki gæðakröfur sessunautsins, enda virtist sem hrísgrjónin hefðu verið soðin daginn áður. Fín þjónusta og notalegt andrúmsloft.

,, ... þetta er bara ill meðferð á einni gamalli konu sem er búin að þola alveg nóg...”

mánudagur, 12. nóvember 2007

Kryddlagkakan



Það er margt að bruggast í undirheimum mínum þessa dagana, sérstaklega á nóttunni. Ég veit ekki hvernig það kemur til, en oft einkennast draumar mínir af skrítnum aðstæðum með tilvísunum í eitthvað miður gott, eins og morð, dráp, vopn, og í nótt voru það eiturlyf. Bólfélaganum dreymir aftur á móti alltaf eitthvað skemmtilegt um baby. Athuga ber að þegar ég segi eiturlyf, þá á ég við efni unnin á tilraunastofum (eða í bílskúrum), efni sem eru mjög fjarlæg náttúrulegum efnum á borð við marijúana, en sumar vefsíður segja marijúana vera gott fyrir vöðva legsins í fæðingarferlinu. Ég veit ekki hvað læknar og ljósmæður Vesturlandanna í dag myndu segja við því?

Í gærkvöldi á meðan kæri bakaði pizzu kvöldsins sá ég í fréttatímanum frétt um rannsókn úr læknablaðinu Lancet (frá að mig minnir mars 2007) um skaðsemi eiturlyfja. Þar voru teknir félagslegir, líkamlegir og andlegir þættir með í leikinn og heróín var þar efsta á lista, en í 5. kom áfengi, þar á eftir amfetamín, seinna tóbak og þar á eftir kannabis, lsd og e-pillur. Því var velt upp hvort nauðsynlegt væri að endurskoða flokkun Vesturlandanna á eiturlyfjum og þ.m.t. áfengi.

Að öðrum gleðilegri efnum. Ég er að verða 30 ára á fimmtudaginn og hlakka til. Ekki út af einhverju húllum hæi, heldur finnst mér bara gaman að eiga afmæli. Ég bakaði köku í gær, fékk uppskriftina hjá Únnu systur sem lumar alltaf á massa uppskriftum. Hún á meira að segja spes jóla-uppskriftabók. Kökuna má kalla kryddköku eða lagköku og er soldið maus að gera en gaman. Brún röndótt kaka semsagt sem bólar alltaf á um þetta leyti árs. Hún er uppáhalds eftirrétturinn minn í morgunmat.



350 gr sykur
250 gr smjörlíki (mjúkt)
hrært saman

3 egg – eitt sett í einu, hrært á milli

500 gr hveiti
1 ½ tsk matarsódi
1 ½ tsk lyftiduft
2 ½ tsk kanill
2 ½ tsk negull
3 mtsk kakó
þurrefnum blandaði í sér skál og blandað hægt við hitt.

2 ½ - 3 dl mjólk blandað út í blöndu.

Skipta deigi sem er seigt og slímkennt í 3 jafna hluta, dreifa á bökunarpappír á bökunarplötur, reyna að jafna þykktina (verður pottþétt ójafnt, en maður sker endana af, til að gera fínt).

Hvert lag bakað í 15 mínútur við 180 gráður.

Krem:
225 gr smjör
4 eggjarauður
500 gr flórsykur
1 tsk vanilludropar

Skipta kremi í 2 hluta, setja ofan á kælda köku, vanda sig rosa mikið við að setja annað lag ofan á og krem þar á. Loka síðan dæminu með síðustu kökuplötunni. Kantskera. Skera í 6 – 8 bita, láta í álpappír og poka og frysta.