miðvikudagur, 23. desember 2009

ljósahátíðin

Elsku vinir nær og fjær. Jólakortið í ár er þetta:

Megi hátíðarnar vera ykkur friðsælar.

Og síðan er alltaf plús að vera svona heppin eins og ég að hafa nóg að borða, hita, ljós og vatn og ást. Og auðvitað stemning að fá pakka. Gleði í poka frá leikskólaeinstaklingnum sem ég deili lífinu með. Fyrsta utanaðkomandi gjöfin til mömmu. Ný hlutverk hlaðast á mig og ég kasta gömlum á áramótunum. Brenni þau kannski með eldinum. Já, ég er dreki. Sporðdreki.

Að öðru jólastússi. Þá eru óopnuð jólakort í eldhúsinu. Veit ekki hvenær við búum til reglu um þau, en það er þó búið að opna nokkur snemmborin. Nú er ráð að ganga rösklega til verka, pakka inn jólagjöfum, fara í ísskápinn, ná sér í bita og njóta.

Gleðileg jól.
ak

miðvikudagur, 9. desember 2009

litlir kassar

Bara 17 kassar eftir til að taka upp.
Kannski ætti ég að gera 1 á dag til jóla... en þá yrðu 2 eftir.

Annars er jólaserían komin upp í setustofunni og ég búin að kaupa í konfekt. Mér finnast þessir dagar notalegir þegar dagsljósið lifir ekki lengi og maður getur notið kertaljóssins. Síðan er það bara gleði og gaumur í hjarta mínu og nýja plata kimono er flott, Easy music for difficult people.

Ljós og friður.

mánudagur, 30. nóvember 2009

Kertaljós

Gamlir veggirnir hafa verið málaðir. Þrekvirki. En ég er góður málari. Svo finnst mér líka mjög gaman að mála. Í nýafstöðnum flutningum hafði ég mottóið This is a simple move til hliðsjónar. Það virkaði vel. Enda umlykur okkur fjölskylduna ekkert nema gott fólk sem finnst gaman að hjálpa og taka þátt í mikilvægum breytingum fjölskyldunnar. Án ykkar hefði flutningurinn ekki verið eins smooth. Takk fyrir okkur. Mér finnst líka gaman að deila þessum breytingum með ástvinum. Nýtt rými til athafna. Stórkostlegt.

Hér er ég semsagt stödd við gamla eldhúsborðið í algjörlega nýju samhengi. Vá hvað það er gaman. Nýjir litir, ný horn, ný loft, nýjir gluggar, nýjar hurðir, nýtt klósett, nýtt eldhús og ný gleði.

Á morgun verður skápurinn olíuborinn. Kannski ég ryksugi uppúr honum fyrst. Dæmi um dæmigerðar hugsanir nýbakaðrar flutningskonu. Aðlögun fjölskyldumeðlima gengur vel. Sá yngsti sefur nú aðra nóttina sína vært í eigin herbergi. Mjög gott mál. Rými til að stækka á alla kanta.

Allt gott og blessað héðan frá kertaljósinu. Gleðilegan jólaundirbúning.

föstudagur, 2. október 2009

bláberjarokk

Undrin gerast í eldhúsvaskinum.

Til þess að ná bláberjablettum úr fötum gerði ég eftirfarandi með undraverðum árangri:

1. sjóða vatn í katli
2. taka flíkina og strengja yfir skál, þannig að efnið er strekkt, gott að nota teygju til að festa.
3. hella sjóðandi vatninu úr hárri bunu beint á blettinn, láta renna vel og muna að hafa bununa hátt uppi.
4. endurtaka nokkrum sinnum þar til bletturinn hverfur. Ég notaði svona 3 katla af vatni á nokkra bletti.
5. þvo flíkina strax í vél.

Einföld húsráð fyrir einfalda náttúrulega bletti.
Ást og gleði og friður til ykkar. Góða helgi.

miðvikudagur, 30. september 2009

In the infinity of life where I am,
all is perfect, whole, and complete. My life is ever new.
Each moment of my life is new and fresh and vital.
I use my affirmative thinking to create exactly what I want.
This is a new day. I am a new me.
I think differently. I speak differently. I act differently.
Others treat me differently.
My new world is a reflection of my new thinking.
It is a joy and a delight to plant new seeds,
For I know these seed will become my new experiences.
All is well in my world.

Louise L. Hay: You Can Heal Your Life.

fimmtudagur, 24. september 2009

appelsínugult dúndur frá Japan

2 rifnar gulrætur
2 mtsk. hrísgrjónaedik eða eitthvað annað edik
2 mtsk. vatn
1 mtsk. soya sósa
1/2 tsk. sesam olía
2 cm Rifin engiferrót -

Allt í mixer og úr verður gómsætt appelsínumauk sem er frábært sem saladdressing. Hægt að bæta við pínu mjúku tofu til að fá meiri pung í dæmið. Dressingin geymist í viku ef maður er ekki með tofu í henni. Slurp.

Annars er ég bara í réttum og fíla það vel.
Gleði og friður.

fimmtudagur, 13. ágúst 2009

síðsumarspistill

Sumargæfan 2009 felst í því að sumarfríið mitt framlengist fram í september með því að dvelja á eyjunni Cape Breton í 3 vikur. Rólega magnast spennan. Sé fyrir mér að reyna að ná bláma vatnsins á pappír. Sé fyrir mér nóg af eldi. Nóg af jörð og nóg af lofti. Rými til að anda. Kvöldið eftir annað kvöld sofna ég á eynni. Enginn er eyland. Sú hugmynd hefur einmitt tekið breytingum hjá mér síðan ég var með Maðurinn er alltaf einn á heilanum. Nú er öldin önnur. Bókstaflega.

Alpha og Omega á fóninum. Mæli með nýútkominni plötu bróður míns, Þorvaldar Þórs Þorvaldssonar. Umslagið er fyrir augað og fer vel í hendi. Tónlistin fer vel í eyrum. Sérstaklega ef þér dáið djass. Mér finnst djass stundum erfiður en ég get líka átt ómótstæðilega djúsí móment með honum. En ég hallast að hugtakinu ást og segi því köld: ég elska djass.

Ein mamman sem ég hitti stundum úti á róló er ofursvöl og fer í djassballet. Annars er maður ekkert mikið að bonda svona á dýpra leveli við foreldra og forráðamenn barnanna á róló. Þetta er alveg búið að vera rólósumarið mikla, góð kynning á því sem koma skal. Næsta sumar vonast ég til að geta verið á bekknum. Bekknum á róló.

Ali Baba á Ingólfstorgi er núna uppáhaldsveitingastaðurinn minn. Innflutt Baklava nammigott í boxi á 350 kall. Hentug tækifærisgjöf. Spari fékk ég chili-heitt sushi í take-out á Sushismiðjunni niðri á höfn. Athugið sumarfríið er framlengt. 4 bækur komnar í töskuna. Jii hvað ég er spennt. Vonast til að fara sem minnst í tölvu. Bara vera.

laugardagur, 25. júlí 2009

8 8 23 28 32 32

voru lottótölurnar sem ég veðjaði á í dag fyrir 1000 krónur. Ég veðjaði líka á gleði og gaman í sundi og í miðbænum í dag. Tapaði engu. Í miðbænum biðu líka eftir mér skór. Svona gerast kaupin á eyrinni stundum. Fór aðeins á tónleika á hjartatorginu í dag. Þar fannst mér vera samankomið fyrrverandi sirkús-fólk með barnavagna. Kannski tók ég bara svona mikið eftir því þar sem ég var með einn slíkan.

BRRuuuuummm Brruuum.
bababa = banana /i hjá afkvæminu um þessar mundir. Síðan er eins og orðin komist í tísku um stundarsakir og önnur taka við. Pizza í ofninum og ég á nýju skónum.

Kveðjustundin:
Gleði og friður til Seyðisfjarðar, í Þistilfjörð, til Suður-Frakklands (í megahitann) og að sjálfsögðu upp á Hrafnistu til ömmu sem átti afmæli í gær.

þriðjudagur, 7. júlí 2009

Fyrir vestan


kríuegg
álfakirkjan í Æðey
Æðardúnn í Æðey


Grímsey

sunnudagur, 31. maí 2009

Tímaleysi og ferðafrelsi

Gott að batteríið kláraðist í klukkunni á eldhúsveggnum. Það hefur gert mér kleift að njóta dagsins með ákveðnu frelsi frá tímanum. Samt er ég búin að standa mig að því margoft að líta upp eftir tímanum, þó batteríin séu búin og klukkan á hvolfi á kommóðunni.

Hvað ferðafrelsið varðar finnst mér frábært að foreldrar mínir taki glaðir við barnabarninu yfir nótt og fram á næsta dag því þá getum við skötuhjú verið saman, frjáls ferða okkar, eins og t.d. á föstudaginn á tónleikum og í tveimur partíum. Mér finnst math-rokk skemmtilegt og hafði mjög gaman af hljómsveitinni Me, The Slumbering Napoleon. Og ég og barnið lærum líka aðra hluti í annarra manna húsum sem hlýtur bara að vera gott mál.

Gleði og friður.

mánudagur, 25. maí 2009

Kona gengur niður götuna. Klædd í smart föt, milli 40 og 50 ára. Ég lít aftur út og þá er hún að bjástra við rúðuna á bíl í götunni og ég áleit sem svo að hún væri að fjarlægja stöðumælasekt af bílnum sínum áður en hún hélt af stað. Ekki var það svo. Hún fer að næsta bíl sem er bíll nágranna míns og bjástrar við rúðuþurrkurnar, skilur þær eftir uppistandandi og gengur sína leið.

Já ýmislegt hægt að gera í bítið á mánudagsmorgnum.

fimmtudagur, 14. maí 2009

rolo

Bræðraborgarstígur / Túngata
2 rólur í góðu standi
Kastali með rennibraut í stóran sandkassa
Vegasalt
Fjögurralaufasmára- jafnvægisgormur
2 bekkir mót suðri á steyptum sökkli – mjög traustir
Ruslafata – mjög nauðsynlegt fyrirbæri nema í þetta skiptið var hún yfirfull.
Gott rými

Update: búin að heimsækja þennan 2x aftur og enn var ruslið fullt og almennt soldið sóðó.


Grjótagata / Mjóstræti

Fínn bekkur
Rólur 2
Hús
Eftir að mynd af fólki að eðla sig birtist á netinu hérna um árið í þessu barnahúsi er ég ekkert of spennt að fara að leika þarna...


Landakotstún

Stórar ruslafötur
1 bekkur, vantar fleiri.
Konan með skeggið og enskumælandi með þýskum hreim eldri konan með staf.
2 rólur
1 vegasalt
1 lítil rennibraut
Mölin í kringum leiksvæðið fín, tekur athylgina frá ruslinu sem í henni leynist....


Freyjugata

Hreinleg möl?
1 bekkur
Engin ruslafata
Fín tæki:
Kastalinn góður
2 rólur
1 vegasalt
sandkassi
Jafnvægistæki sem S.MM fanst m jög gaman að, sat í miðjunni og lét mig um að hrista tækið.
Þrátt fyrir að allt grænt umhverfi vantar þá virtist þessi róló bara nokkuð góður, enda fórum við mæðgur yfir í garð Einars Jónssonar til að snæða matarkexið eftir viðburðaríkan dag í kastalanum.

Annars eru fleiri róló-ar sem ég á eftir að fjalla um, bíðið spennt! Síðan er síðan líka í viðgerð. Nýtt útlit birtist vonandi brátt... Hafið það gott í þessu fallega vori.

laugardagur, 2. maí 2009

húslesturinn

Bækurnar hafa verið vinkonur mínar að undanförnu og verða það líklega áfram því ég er með eintak af The Girl with the Dragon Tattoo/Karlar sem hata konur sem bíður lestrar.

Núna er það aftur á móti The Great Gatsby e. F. Scott Fitzgeral frá New York Ameríku í kringum 1920. Ég er búin að ætla mér það lengi að lesa þessa bók og fann núna frið til þess. Lifandi lýsing á lífi auðmanna þess tíma þar sem konurnar voru í ólíkum kjólum yfir daginn. Ég er svona hálfnuð og enn hefur bókin ekki hrifið mig sérstaklega, nema fyrir samfélagslýsingarnar.

Eric-Emmanuel Schmitt skrifaði þríleik þar sem hver ótengd saga fjallar um ólík trúarbrögð. Óskar og bleikklædda konan. Herra Ibrahim og blóm Kóransins. Milarepa. Nú hefur Bjartur gefið þennan þríleik út í einu hefti. Mjög stílhreinar sögur og falleg frásögn. Tilvalið fyrir pælarann!

Dave Eggers - What is the What?
Í formála er tekið fram að þessi frásögn gæti verið kölluð ævisaga, en að gefnu tilefni er hún skáldsaga. Tilefnið er að enn í dag eru margar sögupersónurnar bráðlifandi, fyrrverandi flóttafólk, núverandi flóttafólk, morðingjar, hermenn og margir aðrir sem upplifðu það að vera í Súdan í kringum 1990 og áfram. Þetta er saga manns sem byrjar í Súdan hvar þorpið hans er brennt og hann hrekst á flótta ásamt þúsundum ungra drengja. Foreldralausir ganga þeir frá Súdan og enda í flóttamannabúðum í Kenýa. Við erum að tala um hljóð næturinnar á sléttunum, drengi sem hverfa í gin ljónanna, marga líkfundi á veginum og ofbeldi af verstu sort. Söguhetja ver æsku sinni í flóttamannabúðum í a.m.k. 13 ár og fær síðan hæli í Atlanta, B.N.A. Hvílíkt þakklæti sem maður upplifir við lesturinn og mannlegur ömurleikinn og þjáningin birtast í öllu sínu veldi. Crazy saga, mjög þörf lesning.

Í spilaranum er það síðan Without Sinking Hildar Guðnadóttur. Mögnuð.
Þetta var menningarsjokk dagsins. Lifið heil.

fimmtudagur, 16. apríl 2009

kosningar

Í heita pottinum í morgun fór maðurinn með tvö frumsamin ljóð fyrir mig.
Um kvótakerfið
og um útrásina (ort fyrir tveimur árum).

Bæði sagði hann vera hálfgerðan leirburð en þau voru bæði nokkur erindi. Eftir að hann lauk við að fara með fyrra ljóðið spurði hann mig hvort hann ætti ekki að fara með annað. Ég tók því fagnandi og þá komu tveir aðrir í pottinn. Við það fipaðist hann svo að hann hóf að fara með fyrra ljóðið á ný. Varð síðan mjög vandræðalegur þegar hann áttaði sig á mistökunum.

Kannski er hann vanur að fara með ljóðið um kvótakerfið á eftir útrásarljóðinu. En ég fór í gufuna með ljóð og leirburð í hausnum heim. Góður dagur.

Hverjir eru uppáhalds róló-arnir ykkar?

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Tileinkað pöbbum

Við pabbi vorum sammála um tónlistarviðburð kvöldsins. Sammála um það að þegar tónlistin vekur líkamann og verður ein með honum og smitast þaðan út í andrúmsloftið sem tónlistarfólkið síðan endurspeglar, þá sé tónlistin góð upplifun. Trans. Takk fyrir mig þþþ. Annars mætti pabbi bara með nýjasta hefti golf-tímaritsins til að glugga í við tækifæri á tónleikunum. Alveg eins og þegar sambýlingurinn mætti með krossgátu í fyrstu íslensku jólamessuna sína.

Ég er svo heppin að vera alltaf að læra eitthvað nýtt í gegnum barnið. Þannig höfum við pabbi tekið upp góðan þráð aftur og hann kemur og sér um S. tvisvar í viku þegar ég syndi með gamla fallega fólkinu. Enn hef ég ekki prufað vatnsleikfimina en tónlistin sem kemur undan plastpoka er sígild (Ellý, Haukur, Alfreð) og gaman að fara í sund með tónlist.

Af t-pabbanum í Canada er það helst að frétta að planlagt úthugsað aprílgabbið var hálfgert flopp, en ég er viss um að hann verði búinn að gleyma því að ári þegar kemur að því að úthugsa eitthvað nýtt og ólíkt því að hringja í yngsta barnið sem býr í öðrum bæ eldsnemma og biðja það um að opna fyrir sér þar sem foreldrarnir bíði fyrir utan og ætli að bjóða í morgunmat. Unginn var ekkert hress með þetta.

Unginn minn er hress. Vill vera með húfuna inni. Finnst það eitthvað töff... unglingurinn strax að birtast. Ætli erfðabreytt matvæli hafi áhrif á hraða og þróun þroskans?

þriðjudagur, 24. mars 2009

Slægð ýsa - hvernig fara skal að

Í kvöld var kennslustund hjá karli föður mínum:

1. Beittur hnífur
2. skafa af slímið af hreistrinu
3. Finna góðan stað, eins þétt upp við hausinn og hægt er til að skera hausinn af. Nýtnisjónarmið eitt ræður því hversu nálægt hausnum maður sker.
4. Þetta skref fyrir pempíur - skafið innan úr iðrunum til að hreinsa enn betur - þó þessi hafi verið slægð og búið að fjarlægja allt gumsið var enn pínu blóð og dót... eldrautt blóðið er merki um nýjan fisk, það lýsist eftir því sem fiskurinn er eldri, og blóðið verður svart við soðningu.
5. uggarnir klipptir af með skærum
6. Fiskurinn bútaður niður - ja kannski í svona 6 búta - sporðinum hent.
7. Vatn og salt sett í flatan pott / pönnu með loki
8. suðan látin koma upp
9. Fiskbitarnir útí - slökkt undir hellunni.
10. Fiskurinn tilbúinn þegar kjötið losnar auðveldlega frá beinunum.

Fyrir óvana er það pínulítil kúnst að leggja sér bitana til munns þar sem beinin eru enn í fiskinum, en það er auðvelt að sjá út hvernig beinin liggja og maður tyggur bara varlega ef maður er óöruggur.

nammi namm. Ýsu sem þessa má fá á verðbilinu 300 - 600 krónur og þessi elska dugði fyrir fimm og eina einsárs. Soðnar kartöflur, smjör og rúgbrauð nauðsynlegt meðlæti. Takk fyrir mig.

sunnudagur, 22. mars 2009

power to the interconnexion galaxy taxi

Þegar við nálguðumst Melabúðina til að kaupa fiskinn laust þeirri hugmynd niður hvort það væri nú ekki við hæfi að baka eina Verkalýðsköku í kvöld. Ég minntist ekki á það og vatt mér inn til að ná í saltan steinbítinn.

Eftir að við höfðum matast sagði sambýlingurinn að hann væri að hugsa um að henda í Verkalýðinn. Þegar ég spurði hann hvenær hann hefði fengið hugmyndina, þá svaraði hann því til að það hefði verið á Hagamelnum þegar við nálguðumst búðina úr austri.

Hvar byrjaði hugmyndin?

Ekki að það sé eitthvað til að fara nánar útí, þá má ímynda sér að hægt sé að senda enn sterkari boð út um eitthvað sem maður vill virkilega. Gangi ykkur vel og notið máttinn vel!

Afmæliskveðja til kærrar vinkonu, meðal annars er hún þeim hæfileikum gædd að hún verður alltaf einu ári yngri þegar hún á afmæli. Og þá bíð ég bara eftir að Verkalýðurinn banki uppá með lúðrablæstri.

fimmtudagur, 19. mars 2009

Ég heyrði bolta driplað á gangstétt í dag sem er fyrir mér gott merki um að vorið sé á næsta leyti. Einhverra hluta vegna er ég heltekin af þörfinni fyrir að fá sumar og sól svona í áþreifanlega umhverfið mitt.

fimmtudagur, 26. febrúar 2009

update

Á fjórða og fimmta kvöldi tók ferlið minna en eina mínútu.
Getur það virkilega verið? Að eins árs barn fari bara sjálft að sofa no problemo baby? Ég er viss um að héðan í frá eigi svefn S.M.M. eftir að vera leikur einn og panta það hér með. Maður er sko alltaf að læra eitthvað nýtt. Gaman það og líka gengur bökun mjög vel. Listrænt frelsi voru orð tilvonandi eiginkonunnar.

Þegar ég heyrði umferðarfréttir utan af landi og lýsingum á ástandi vega tók ég til baka fullyrðingar mínar um vorkomu um stund. Þó vindar blási hér í kvöld er ég aftur komin í vorfílinginn!

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Tímavörðurinn, kökugerðarkonan og vorlyktin

1:33 er alveg dæmigerður tími til þess að kíkja á skeiðklukkuna. Þá er búið að aumka sér inni í rúmi í 1:33. 27 sekúndum seinna vind ég mér inn aftur til að bjóða góða nótt. Á þriðja kvöldi tekur þetta ferli 20 mínútur. Á þeim tíma er margt hægt að gera til að stytta sér stundir. Þvotturinn brotinn saman. Gengið frá í eldhúsi. Gengið frá dóti í leikstofunni. Góður tími sem nýtist einstaklega vel undir óvenjulegri músík. Vanir segja að maður megi ekki missa móðinn. Á endanum fer barnið sjálft að sofa til þess eins að vakna glatt og brosandi daginn eftir. Og auðvitað verður mamman líka glöð og brosandi. Alltaf að átta mig meira og meira á því að ég sé komin í nýtt hlutverk og mér líkar það vel.

Hlutverkið kökugerðarkonan er annað sem er nú í bígerð. Ég mun leggja ást, einlæga gleði og frið handa öllum, til viðbótar við uppskriftina. Ég vona að þeir sem njóti fái þá strauma í hverjum munnbita. Spennandi verkefni og í kvöld fékk ég mörg góð kökuskreytingarráð frá systur minni. Ég hef ákveðið að nota fersk bláber, kannski svona 13 á hverja köku sem ég lími með bræddu súkkulaði. Blái liturinn varð fyrir valinu til að tóna við brúðarkjólinn.

Síðan er ég ekki frá því að vorið sé ekki langt undan. Laukar komnir upp í Þingholtunum. Vottur af vorlyktinni berst úr órafjarlægð langt utan af hafi og tekur sinn tíma til að komast í land.

föstudagur, 13. febrúar 2009

vetrarhátíð

3 kindur í næsta garði hér í 101.
meeeeeeeeeee

mánudagur, 9. febrúar 2009

Hrísgrjónasalat frá Bali

Æði gott salad þar sem dressingin spilar skemmtilega á bragðlaukana.

Dressing:

½ bolli mango chutney (stóru bitarnir saxaðir niður ef maður nennir ekki að gera dressinguna í blandara)
2 mtsk. Edik (hrísgrjóna eða cider)
2 mtsk. Olía
2 mtsk. Ananassafi
1 mtsk. Soya sósa
1 hvítlauksrif (pressað eða skorið smátt)
1 tsk. Salt
Pínu Cayenne pipar.

Salat:

4 bollar af soðnum brúnum hrísgrjónum
1 bolli ananasbitar
1/2 saxaður laukur
2 sellerý stilkar skornir í bita
1 paprika skorin í bita
½ bolli rúsínur
Öllu blandað saman og dressingin út á.
2 bollar mung baunaspírur
1 bolli baby corn (fæst niðursoðið í dósum)
bætt varlega við salatið.
½ bolli ristaðar hnetur yfir allt í lokin.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

saur og þvag

Á Klambratúninu í dag skein sólin, þar var kalt og inni í safninu var margt um manninn. Skáklistasýningin er góð og ég hugsaði með mér hverstu sneddý þau voru sem stýrðu sýningunni. Að fá þetta forvitnilega safn listaverka sem öll fjalla um taflborðið. Frekar klassískt að nota dæmigerða húsmuni, mat og eldhúsdót sem skákmennina en þarna voru líka súrari verk auk eins eftir Damien formalínsgaur Hirst. Þrátt fyrir að S.M.M. hefði bara verið bleikrauðklædd spurði einn eldri hvort hún væri strákur.

Amma mín er með alshæmi eins og hún sjálf kallar það í daglegu tali um alla aðra en sjálfa sig. Í samræðum sem spunnust upp af Bréfinu vakti hún athygli á því að sauri og þvagi hefði verið beitt í mótmælunum. Ekki þrautsegju og staðfestu íslensku þjóðarinnar sem mótmælti og mótmælti. Svona er það nú, þegar allt kemur til alls er það úrgangurinn sem fólk man.

Bókin er Óreiða á striga sem ég svolgra í mig eins og ég gerði með Karitas án titils sem kemur á undan. Nákvæmar lýsingarnar eiga vel við mig, hvort sem Kristín Marja Baldursdóttir lýsir kolaeldavél, briminu, samskiptum, síldarsöltun, lífinu í París, Laugaveginum eða náttúrunni á fyrri hluta 20. aldar. Mæli með þessum skít.

Næst á dagskrá er að horfa á mynd um Simone og Jean-Paul. Þarnæst á dagskrá er að fara á námskeið hjá skattstjóra í reikningsskilum fyrirtækja, tónlistarnámskeið með S.M.M., kaffi, brauðbakstur, yoga, ganga og sumarbústaður. Nú og kannski detta inn í útvaldar myndir Óskars þetta árið og hingað til stendur Slumdog Millionaire uppúr. Bókin var líka æðigóð en hún kom frá B&B sem ég sendi bestu kveðjur. Ást og friður.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Fyrsta afmælið
Banana Muffins | The Ingredients:

2 Tbs (30 gr) unsalted butter
2 oozingly, bulgingly heaping Tbs clear honey (60 gr)
1/2 tsp vanilla extract
2 Large, very ripe bananas
1 cup all-purpose flour (150 gr)
1 heaping tsp baking powder
1/2 tsp baking soda
1/2 tsp cinnamon
pinch of salt


Banana Muffins | To do:

1. Preheat oven to 190 degrees.

2. Melt butter, honey, vanilla extract in pan on low heat. Remove. Set aside.

3. Mash bananas in one bowl.

4. In another bowl, measure out flour, baking powder, baking soda, cinnamon, salt.

5. Mix melted-butter mixture with bananas. Then mix that into dry ingredients. Don't overmix. Stir a few times til you have "a not terribly attractive lumpy sludge, but don't worry about it."

6. Place paper cupcake cups into muffin trays. Fill 2/3 full of mixture. Bake in oven for about 20-25 minutes. Leave in pans for 5 minutes, then remove and cool. Makes 12.

miðvikudagur, 7. janúar 2009

rás 2009

Í dag var mér hugsað til munaðarleysingjahælisins í Rúmeníu þar sem ég var sjálfboðaliði 1997. Barnið var búið að vera í rimlarúminu sínu að dunda sér hátt í klukkustund í mestu rólegheitunum. Ef hún hefði verið í öðruvísi rúmi hefði hugur minn líklega ekki hvarflað til Rúmeníu. Hryllingurinn á Gaza er síðan annar handleggur sem ég dvel mikið við þessa dagana. Nú og síðan 20 sentimetra snjór í Marseille við Miðjarðarhafið svona til að minnka mannfallið í þessum pistli. Fólkinu okkar í Berlín er kalt í 20 stiga frosti skv. símtalinu í gær. Á ekki alltaf að vera kaldara í norðri og hlýrra fyrir sunnan? Nóg af alþjóðavettvangi og hingað heim í 8 stiga hita.

Árið leggst vel í mig. Ég reyni a.m.k. að láta hvern dag leggjast vel í mig. Ég er ofurheppin kona og þakka fyrir mig. Fór á Vinnumálastofnun með öll gögn fyrir samdrátt í rekstri fyrirtækisins og beið í klukkutíma röð. Mjög heilbrigð reynsla og fólkið streymdi inn til að taka númer, ég fékk það á tilfinninguna að þarna væru a.m.k. 2 kk á móti 1 kvk. Kannski er það bara vegna þess að maður tekur minna eftir konum almennt. Barnið öskraði þegar ég beit (ÓVART í annað sinn á stuttu tímabili) í fingurinn á henni og ég fór með hana fram af tillitssemi. Þar kom einn eldri og vinalegur með vínlykt gærdagsins framan í sér og sýndi manngæsku í garð okkar mæðgna. Mannkynið er semsagt ekki alslæmt. Ég er glöð og sæl. Sendi gleði og frið til þín.