þriðjudagur, 21. nóvember 2006

IMG_3079

svona var útsýnið út um gluggann á sunnudagsmorguninn fyrir þá sem eru kannski í Svíþjóð, Lúxemborg eða Danmörku eða Boston. Þangað fer ég á morgun. Í þakkargjörðar-dinner. Og sprell og vonandi á tónleika. Veit ekki hvernig ég á að smygla jólaöli eftir að allar nýju hryðjuverka-vænissýkisreglurnar voru settar. Auðvitað vill maður vel og tekur niður pantanir þegar nýbúunum í Boston vanhagar um eitthvað frá heimalandinu. Þau báðu bara um jólaöl. Ekki malt & appelsín. Einhverra hluta vegna þori ég ekki að láta dósir í ferðatöskuna.... nema þá ég pakki þeim rosa rosa rosa rosa vel inn.

Nú hljómar undir geislanum selló-drone Hildar Ingveldardóttur Guðnadóttur. Mér finnst ótækt að hlusta á það í tölvu, það verður að vera hátt stillt og á meðan mallar súpan. Síðan er ég bara svo heppin. Ákkúrat þegar ég var úti í dag að þramma um og sinna erindum á bilinu 10 - 14 (sumardekkin duga skammt núna) þá skein sólin svo ljúf og góð. Og hún lá svo lágt. Þá var mér hugsað til hnattstöðu, veturs og sumars, hvernig hnötturinn snýst í hringi og hringi hirngi hringit hirngi.... þangað til ég var ringluð og datt í snjóinn og það kom bíll og keyrði yfir mig, og það kom ekkert blóð en ég er hetja, úr teiknimyndinni þar sem ég á mörg líf og töfra sem ég get óspart notað. Zimzalabimm.

(Þarna má kannski gæta áhrifa úr teiknimynda-raunveruleika þættinum Drawn Together, þar sem ólíkar staðalmynda-teiknimyndapersónur búa saman í 1 húsi, en nú hef ég lokið við að horfa á 2 seríur þessa afar djúpa sjónvarpsefnis).
Ást og friður.

1 ummæli:

Lara Gudrun sagði...

Hlakka til að sjá þig í kvöld skvís
kv. Lára í Boston :)