þriðjudagur, 1. janúar 2008

Hjá mér gekk árið 2007 í garð niðri við vatn á Cape Breton eyjunni hjá tengdafjölskyldunni þar sem var brenna og gleði. Sveitalífið þar á vel við mig þar sem allt er dimmt og kyrrt á nóttunni, brakið í trjánum og vatnsniðurinn spilar undir þegar maður læðist út í skúr að reykja.
Vorönn ársins einkenndist af skólavinnunni minni sem fól í sér að klára ritgerð til m.a.-prófs í mannfræði sem fjallaði um konur í jaðartónlist í Reykjavík. Eitt af skrifborðum mínum leit svona út um tíma:

Að vera að vinna svona lokaverkefni fól líka í sér þátttöku í háskólasamfélaginu á ýmsum skapandi og skemmtilegum sviðum og þannig hitti ég þá Hjálmar og Þórð sem ég vinn nú að rannsókn með um tónlistarhátíðina Iceland Airwaves. Sumarvinnan mín var eðlilegt framhald þess sem verið hafði og notaði ég styrkinn sem ég fékk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Mannfræðistofnun Háskóla Íslands til þess að taka viðtöl við 10 tónlistarmenn og –konur sem tekið höfðu þátt á Airwaves 2006. Þess vegna var sumarvinnan mín alveg frábær.

Í byrjun maí var ég hætt að reykja enda komið barn í bumbu sem er mikið gleðiefni. Ég velti því líka oft fyrir mér hvers vegna þetta barn sem fer bráðum að fæðast velur okkur fyrir foreldra. Síðan var stundum svolítið skrítið að upplifa það að vera kannski búin að vera að hjóla heim úr vinnunni og allt hringsólaði fyrir augunum á mér, flassbökk, endurminningar, nýjar minningar og fleira skringilegt í þeim dúr. Kannski var þetta bara barnið að verða meira til og verund þess?

Yogað er alltaf hluti af lífi mínu, og nú er ég búin að stunda það í mörg mörg ár, a.m.k.15. Ég hreinlega elska yoga og get ekki án þess verið. Þess vegna skiptir það mig miklu máli að vera með góðum kennurum þar og annars staðar í lífinu.

Og síðan varð ég bara óvart aftur kennari í haust (að vísu fyrir fullorðna) þegar Alþjóðahúsið réð mig í íslenskukennslu og önnur verkefni. Soldið fyndið, því ég var ekkert búin að stíla inná það að vera að fara að kenna aftur. En þessi reynsla var mér ofurdýrmæt og skemmtileg.

Tillitssemin alveg að gera út af við Kanadabúa, en í sumar fórum við aftur til Kanada m.a. til þess að vera viðstödd þegar Jean mágkona mín myndi eiga sitt fyrsta barn. Við vorum búin að reikna og reikna til að við myndum örugglega ná að hitta nýjustu manneskjuna. En svo fór sem fór, Elizabeth Jean fæddist þegar við vorum í flugvélinni frá Halifax til Keflavíkur og ég hlakka mikið til að hitta hana.

Aðrir fjölskylduvænir atburðir:
Mamma sextug, Katrín (systurdóttir mín) tvítug, ég og partner þrítug, brósi flytur til New York, hinn brósi gengur í hjónaband, ég skráð í sambúð í Þjóðskrá og úr þjóðkirkjunni, ein systir mín flytur aftur með fjölskylduna frá Húsavík í Hafnarfjörð. Fullt af fallegum börnum fæðast vinum mínum, eins og Guðjón Ísak, Freyja, Konráð Ari, Valdís Árný og Pétur.

Tónleikar:
Björk í Laugardalshöll – Curver + Kimono í Kling og Bang - Konono nr.1 í Hafnarhúsi - Danielsson í Fríkirkjunni - Iceland Airwaves 2007.

Ég sendi ykkur gleði, ljós og frið á nýju ári.

1 ummæli:

Fláráður sagði...

Gleðilegt ár Anna Katrín!
Ég hringi í þig eftir ákkúrat 15 klukkustundir! Jeiiii!