mánudagur, 24. janúar 2005

Mer finnst gaman i buri

Helginni var eytt í búrinu. Ég hef alltaf verið mjög hrifin af sirkús. (hér: ekki barinn þó ég sé oft hrifin af honum, heldur alvöru sirkús). Kannski hef ég í fyrra lífi verið í sirkús, jafnvel innan í búri til sýnis fyrir gesti eins og gerðist hérna áður fyrr þegar nýlenduherrar tóku með sér lifandi dæmi (mannverur) úr nýlendum sínum og sýndu dæmin í búrum t.d. í sirkúsum. Þetta lærði ég semsagt m.a. í skólanum í dag. En nú, vinn ég semsagt í búri, sem mér er frjálst að yfirgefa þegar vinnudegi lýkur. Gæti jafnframt verið að kljást við einhver mál úr fyrri lífum með því að vera komin aftur í búrið. Yfirleitt þarf ég ekki að drepa tímann í búrinu, þó stöðugrar viðveru sé krafist í allt að 2 x 13 klukkustundir (með svefnhléi) um helgar.

Það fer ekki hjá því að aðrar mannverur slæðist nokkuð reglulega inní búrið til mín. Þá verður handagangur í öskjunni. Það sem skemmtilegast er að fólk er svo duglegt að ræða hin ýmsu málefni, sem mér koma ekkert við en finnst gaman að geta tekið þátt í, því stundum er skrítið að vera ekkert búinn að nota röddina í smá tíma og heyra hana aftur. Bíddu, af hverju er maðurinn félagsvera? Stundum syng ég, eða les frönsku upphátt til að æfa framburðinn... eða er ég bara að blekkja sjálfa mig. Hingað til hef ég alltaf talið mér trú um að ég þurfi að vera ein í ákveðinn tíma svona við og við, kannski til að halda mér við og nú fæ ég nóga þjálfun. Horfi líka reglulega á fréttir stundum á báðum stöðvum, Kastljósið, Alias, Gilmore girls, í Brennidepli og læri og les.

Engin ummæli: