sunnudagur, 3. júní 2007

reuni

Í nótt flaug ég þyrlu yfir Atlantshafinu. Í fyrstu kunni ég það ekki og spurði þyrlufélaga minn sem ég þekki ekki hvernig réttu handtökin væru. Þau lærði ég fljótt (rétt áður en þyrlan steyptist ofan í hafið) og mér gekk vel.

Í gærkvöld hitti ég 10 ára gamla samstúdenta mína. Það var skrítið svo ekki sé minna sagt. Bekkurinn minn byrjaði á því að fara út að borða og var mæting góð þrátt fyrir að nokkrir kæmust ekki. Ísinn var ekki lengi að brotna og ég skemmti mér vel í þessum góða hópi yfir ágætum mat. Eftir það var haldið á þriðju hæð Kaffi Reykjavík þar sem öllum var stefnt saman. Þar byrjuðu skringilegheitin.

Á svona samkomum fæ ég það á tilfinninguna að maður eigi að fyllast stolti eða hroka yfir því að hafa verið í MR. Ég fékk aulahroll inn að beinum þegar ræðumaður kvöldsins steig á stokk og sagði hluti á borð við: að menntaskólaárin væru bestu ár lífsins, að MR-ingar væru bestir og mestir og mættu alveg vera hrokafullir og fleira í þeim dúr. Ég vil ekki trúa því að fólk sé enn þá fast í þessum hugsunarhætti. En þá má ég alveg spyrja sjálfa mig, hvað ég hafi verið að gera þarna? En ég gat auðveldlega getið mér til um hvernig stemningin myndi verða áður en ég mætti á staðinn. Auðvitað á þetta ekki við um alla þótt ræðumaðurinn hafi e.t.v. verið að reyna að finna leið til þess að gestir myndu fyllast samhug og ærinni gleði yfir því að hafa verið í sama skóla í ca. 4 vetur.

Síðan var drukkið. Allir þeir sem ég talaði við úr öðrum bekkjum fjölluðu um mál eins samstúdents okkar, en hann dvelur nú í fangelsi. Annars voru helstu umræðuefnin (í þessari röð): hvað gerði bekkurinn þinn áður en við mættum hingað á Kaffi Reykjavík? og hvað ert þú að gera í dag? (en þá fylgdi vanalega sagan af því hvernig maður komst þangað með). Það var gaman að hitta margt gott fólk. Sumir voru þó aðeins meira heldur en aðrir, og sögðu dömurnar líta jafnvel út og fyrir 10 árum og pöntuðu að sofa hjá sumum þeirra (bæði lofuðum og ólofuðum, gagnkynhneigðum og samkynhneigðum). Einn sagðist verða að fá að kyssa dömurnar, núna loksins þegar hann þorði að kyssa dömur. Aðrir töluðu um stjórnmál, skólamál, uppeldisaðferðir og enn aðrir um gamla kærasta/kærustur annarra heldur en þeirra sjálfra á menntaskólaárunum. Síðan var drukkið. Oft fannst mér soldið erfitt að vera þarna, en það var líka fyndið og ég viðurkenni líka vel að það hafi verið skemmtilegt. Mér finnst alveg sjálfsagt að fólk komi saman eftir að hafa deilt ákveðnum tíma lífs síns saman í misgóðum fíling, með misgóðar minningar. Það getur oft verið gaman að hitta gamla félaga. En mér finnst alveg við hæfi að fólk sleppi þessu stolti og hroka sem blossar upp á svona samkomum. Fólk breytist og tímarnir breytast, þessi umrædda skólastofnun hefur líklega ekki neina yfirburði á sínu sviði, heldur er það sagan og almenningsálitið (sem er ekki til?) sem hefur gert það að verkum að hróðri og tilbúnum yfirburðum stofnunarinnar er viðhaldið í gegnum hverja kynslóðina á fætur annarri. Síðan var drukkið.

Eftir að hafa flogið yfir hafið og skoðað borgir frá ströndinni fór ég til fjölskyldu vinkonu minnar en í því húsi var fleti þar sem einhverjir greinilega sváfu og þar var fjólublái svefnpokinn með 60´s munstrinu innaní sem hefur fylgt fjölskyldu minni lengi. Við matarborðið voru margir réttir í boði og ég fékk fisk með mjög löngum beinum í. Ég man eftir að hafa dregið eitt sérlega langt og mjótt fiskbein úr munni mínum. Fiskurinn var hvítur og gómsætur. Við borðið sat barn sem bað um rauðvín að drekka. Amman gaf því púrtvín í staðinn og blikkaði mig til að gefa til kynna að barnið myndi ekki finna muninn. Síðan var drukkið...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef afskaplega gaman af því að hitta gamla skólafélaga og rifja upp gamla tíma á kynskiptum heimavistum með þeirri hormónaspennu sem því fylgdi á árunum milli 15 og 18 he he he. Sennilega allt öðru vísi fílingur að hafa verið læstur inni á nóttunni heilu veturna en að stunda nám í MR.
Góður draumur :-)

Kvenfélagið Garpur sagði...

sammála. sammála. annála. ála. lalalalalala. aha. hananú. núna nananana. nasavængir. vængir. girða. .... en ekkert orð má byrja á Ð þannig það má ekki segja ða og því er þetta búið.

ps.. hahahhaha ð hafði samt síðasta orðið... eða þú veist síðasta stafinn..... orð..i.ð... bú...i..ð

baba sagði...

hahaha! skemmtilegur draumur! ég segi hann vera afskaplega góðs viti...maður lærir alltaf að stýra þyrlunni þó stundum finnist manni maður verða að hrapa í sjóinn...og svefnpokinn og matarboðið og púrtvínsbarnið...bara fallegt og gott líf...takk for sidst mín kæra...

Hrefna sagði...

Skemmtileg skrif um reunionið. Draumurinn um púrtvínið og rauðvínið frábær sérstaklega þar sem í fyrradag fékk ég mér smá púrtvín sem ég hef ekki gert örugglega í 2 ár.