mánudagur, 17. desember 2007

Jörð Vatn Loft Eldur

Heppnin, lukkan og gæfan fylgja mér þessa dagana og ég er viss um þær eigi eftir að fylgja mér áfram. En ég á heilladísir, vinkonur mínar sem voru svo yndislegar að framkvæma mæðrablessun að hætti Navajo-indjána, sjá nánar hér
.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa sérstöku stund sem við áttum saman, en í stuttu máli sagt var þetta mér mjög dýrmæt gjöf og þakka hér með opinberlega fyrir mig. Þá ber að bæta við að heilladísirnar eru góðir kokkar og fylltu frystinn okkar af ýmsu góðgæti sem á eftir að fylla munna og maga af gleði og næringu.

Síðastliðinn föstudag náði ég að klára öll verkefni vinnunnar þannig að nú er ég komin í fæðingarorlof. Það er pínu skrítið. Í upphafi meðgöngunnar gat ég ekki gert mér í hugarlund hvernig það myndi vera eða bara hvernig ég myndi vera þegar síga færi á seinni hlutann, nú eða sumir myndu bara kalla þetta loka-sprettinn. En tíminn líður og mér líður vel og ég er viss um að barninu líður vel og þetta er bara allt í góðu. Yogað og sundið eru akkeri mín, auk þess sem ég heimsótti bókasafnið á föstudaginn til þess að verða mér úti um lesefni fyrir andvökunætur. Ég skil einmitt ekki þetta með það að vakna á nóttunni og geta ekki sofið, jafnvel þó barnið sé kannski líka sofandi. Það er alveg skiljanlegt að vera vakandi og geta ekki sofið þegar barnið er á fullu spani. En hitt skil ég ekki. Kannski er bara verið að æfa mann í því að vera vakandi á mismunandi tímum sólarhringsins og taka því eins og það er...

Á föstudaginn var síðasta stundin mín með ólæsu konunum sem hafa verið með mér í haust, en þær konur eru án efa skemmtilegustu nemendur mínir í vetur. Enda ekkert skrítið að hafa gaman þegar svona fallegar konur eru komnar saman með það að markmiði að eiga góða stund, jafnvel læra eitthvað, nú og hlægja saman. Konur sem tala tungumál heimalandsins, kunna sjaldan að skrifa eða lesa það og íslenskan er þeim framandi heimur þar sem stafrófið er yfirleitt gjörólíkt því sem þær hafa kannski einhvern grunn í. Latneska stafrófið og hljóðkerfið sem er hér við lýði er bara nokkuð flókið þegar betur er að gáð miðað við t.d. arabísku, nepölsku eða tælensku. Þegar íslenskukunnáttan er takmörkuð reynir á leik- og teiknihæfileika sem náttúrulega blómstruðu hjá okkur á oft mjög fyndinn hátt. Já, ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum sterku konum, frumkvöðlum sem búa í nýju landi, frumkvöðlum að því leyti að hér eru þær að sækja sér betra líf sem þær vonast yfirleitt til að geta deilt með öðrum fjölskyldumeðlimum heimafyrir, eins og t.d. börnum sínum sem eru ekki hér. Þetta námskeið sóttu konur sem eru yfirleitt utan vinnumarkaðar og hafa fá tækifæri til þess að eiga í félagslegum samskiptum við aðra. Þrátt fyrir bágar og oft ömurlegar og sorglegar félagslegar aðstæður þeirra (að mati velflestra Íslendinga) voru þær alltaf glaðar og bjartar, brosandi og hlæjandi. Þessar konur voru líka kennararnir mínir enda lærði ég fullt um sjálfa mig og önnur efni bara af því bara að vera með þeim. Næsta verkefni er að fá sér tesopa með slettu af ást og friði fyrir okkur öll.

3 ummæli:

Linda sagði...

Ég vildi að allir myndu blogga jafn fallega og þú Anna mín. Ég var farin að fyllast vonleysi vegna þeirrar neikvæðni sem fyrirfinnst í garð innflytjenda; fjölmiðlar vilja stundum einblína á neikvæðu hliðina, eða reyna að finna neikvæða hlið á málunum þó það sé auðvitað ekki algilt og svo fer ég á blogg þar sem fólk er svo heiftúðugt í garð erlendra í landinu að ég hreinlega á ekki til orð.

Ég skil ekki hvernig fólk getur ekki séð það hvað það er jákvætt að búa í fjölmenningu og margbreytileika. Og ég skil ekki hvernig fólk getur sleppt því að setja sig í spor annarra og spurt sig;"hvað myndi ég gera". Ég dáist að fólki sem fer frá heimalandi sínu í von um betra líf fyrir sig og sína og mér verður alltaf hugsað til Vestur Íslendinganna sem kvöddu ástvini sína áður en þeir héldu út í óvissuna.

En jæja, þetta er orðið langt komment. Ég vona að þú eigir ánægjulegar stundir í fæðingarorlofinu.

AnnaKatrin sagði...

Takk fyrir kveðjuna, það eru alltaf perlur á leiðinni til þín. kv.ak

Linda sagði...

þær koma þegar þær koma og örugglega á hárréttum tíma.