Komin heim. Sjávarlyktin mætti mér úti á svölum og grassprettan í garðinum með ólíkindum í þennan eina mánuð sem leið.
Lífið í Ribiers var svalt. Það var kaldara inni í húsinu okkar, sem var einmitt hesthús ljósmóðurinnar í sveitinni. Þegar konurnar á bæjunum í kring uppi í fjöllum voru komnar að því að eiga hengdu þær hvítt lak út. Húsin í götunni voru byggð á 17. öld. Gatan var aðeins breiðari en einn faðmur á minn eigin mælikvarða. Lítill Fiat gat bakkað upp hluta af henni þegar mennirnir frá Marokkó og Túnis voru að fara að laga baðherbergið hjá sér. Þeir voru nágrannar okkar og færðu okkur 11 nýtíndar perur á fati daginn áður en við fórum.
Madame Thérese Martin bjó á neðri hæðinni beint á móti. Sonur hennar og kona hans, ásamt dótturinni búa á efri hæðinni. Maður Madame Martin dvaldi nokkuð lengi á spítala á meðan dvöl okkar stóð og því náðum við ekki að hittast. Á hverju kvöldi fyrir háttinn mátti heyra Madame Martin ganga heim segjandi bænir upphátt. Hún heimsækir Maríu Meyjar styttuna sem er rétt við bæjarfótinn á hverju kvöldi.
Í Ribiers búa um 600 manns. Að sjálfsögðu er heilsast með kossum, 3 í Ribiers en annars staðar geta þeir verið 1 eða 2. Eftir að maður er búinn að kynnast einhverjum eða hitta einhvern í 1 skipti. Þá er það bókað að maður kyssist í næsta skipti þegar maður hittist og oft þegar maður kveður. Þessi siður gerir það að verkum að maður fær að nota lyktarskynið og snertiskynið á annan hátt en ella. Til dæmis var ein alltaf með of mikið af ilmvatni þannig að það sat í vitum mínum eftir að við heilsuðumst. Það pirraði mig mikið. Kannski líka af því að mér líkaði ekki lyktin. Orðrómurinn segir að þessi tiltekna kona sé alki. Ein var kölluð garðkonan því hún stal dóti úr görðum. Þar sem Ömmudóttir Madame Martin bjó til armband handa Sophie Magdalenu, með kuðung á. Á milli barna tíðkast að kyssa bara einu sinni í Ribiers.
Í Seinni Heimsstyrjöldinni var pabbi Madame Martin skotinn til bana á torgi Ribiers, eina stóra torginu, miðjunni sjálfri, Place de la Fontaine. Hann var skotinn af meðlimum Frakka, La Resistance. Enda hafði hann verið að leka upplýsingum til óvinarins. Enginn þorði að taka líkið svo dögum skipti. Þarna var Madame Martin um 10 ára gömul og í dag er sagt að hún sé mjög skrítin. Er það skrítið?
Að tala frönsku kom fljótt. Kannski af því að maður stökk bara út í djúpu enda engar grunnar laugar þarna á slóðum þó bærinn standi uppi í fjöllum með nóg af fersku góðu fjallavatni. Draumar mínir voru æsispennandi á meðan dvölinni stóð.
Myndir og meira seinna.
þriðjudagur, 2. september 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
vá og vei! hlakka til að mæta í kaffi á garðastræti mín kæra:)
Skrifa ummæli