miðvikudagur, 7. janúar 2009

rás 2009

Í dag var mér hugsað til munaðarleysingjahælisins í Rúmeníu þar sem ég var sjálfboðaliði 1997. Barnið var búið að vera í rimlarúminu sínu að dunda sér hátt í klukkustund í mestu rólegheitunum. Ef hún hefði verið í öðruvísi rúmi hefði hugur minn líklega ekki hvarflað til Rúmeníu. Hryllingurinn á Gaza er síðan annar handleggur sem ég dvel mikið við þessa dagana. Nú og síðan 20 sentimetra snjór í Marseille við Miðjarðarhafið svona til að minnka mannfallið í þessum pistli. Fólkinu okkar í Berlín er kalt í 20 stiga frosti skv. símtalinu í gær. Á ekki alltaf að vera kaldara í norðri og hlýrra fyrir sunnan? Nóg af alþjóðavettvangi og hingað heim í 8 stiga hita.

Árið leggst vel í mig. Ég reyni a.m.k. að láta hvern dag leggjast vel í mig. Ég er ofurheppin kona og þakka fyrir mig. Fór á Vinnumálastofnun með öll gögn fyrir samdrátt í rekstri fyrirtækisins og beið í klukkutíma röð. Mjög heilbrigð reynsla og fólkið streymdi inn til að taka númer, ég fékk það á tilfinninguna að þarna væru a.m.k. 2 kk á móti 1 kvk. Kannski er það bara vegna þess að maður tekur minna eftir konum almennt. Barnið öskraði þegar ég beit (ÓVART í annað sinn á stuttu tímabili) í fingurinn á henni og ég fór með hana fram af tillitssemi. Þar kom einn eldri og vinalegur með vínlykt gærdagsins framan í sér og sýndi manngæsku í garð okkar mæðgna. Mannkynið er semsagt ekki alslæmt. Ég er glöð og sæl. Sendi gleði og frið til þín.

Engin ummæli: