sunnudagur, 8. febrúar 2009

saur og þvag

Á Klambratúninu í dag skein sólin, þar var kalt og inni í safninu var margt um manninn. Skáklistasýningin er góð og ég hugsaði með mér hverstu sneddý þau voru sem stýrðu sýningunni. Að fá þetta forvitnilega safn listaverka sem öll fjalla um taflborðið. Frekar klassískt að nota dæmigerða húsmuni, mat og eldhúsdót sem skákmennina en þarna voru líka súrari verk auk eins eftir Damien formalínsgaur Hirst. Þrátt fyrir að S.M.M. hefði bara verið bleikrauðklædd spurði einn eldri hvort hún væri strákur.

Amma mín er með alshæmi eins og hún sjálf kallar það í daglegu tali um alla aðra en sjálfa sig. Í samræðum sem spunnust upp af Bréfinu vakti hún athygli á því að sauri og þvagi hefði verið beitt í mótmælunum. Ekki þrautsegju og staðfestu íslensku þjóðarinnar sem mótmælti og mótmælti. Svona er það nú, þegar allt kemur til alls er það úrgangurinn sem fólk man.

Bókin er Óreiða á striga sem ég svolgra í mig eins og ég gerði með Karitas án titils sem kemur á undan. Nákvæmar lýsingarnar eiga vel við mig, hvort sem Kristín Marja Baldursdóttir lýsir kolaeldavél, briminu, samskiptum, síldarsöltun, lífinu í París, Laugaveginum eða náttúrunni á fyrri hluta 20. aldar. Mæli með þessum skít.

Næst á dagskrá er að horfa á mynd um Simone og Jean-Paul. Þarnæst á dagskrá er að fara á námskeið hjá skattstjóra í reikningsskilum fyrirtækja, tónlistarnámskeið með S.M.M., kaffi, brauðbakstur, yoga, ganga og sumarbústaður. Nú og kannski detta inn í útvaldar myndir Óskars þetta árið og hingað til stendur Slumdog Millionaire uppúr. Bókin var líka æðigóð en hún kom frá B&B sem ég sendi bestu kveðjur. Ást og friður.

1 ummæli:

The Rivingtons sagði...

ha getur þú lesið bækur? ég hef ekki lesið svo mikið sem einn bókstaf í nákvæmlega 10 mánuði í dag! en hlakka alveg óskaplega mikið til. skemmtilegt blogg!