miðvikudagur, 24. mars 2010

lítil afrek

Dagurinn rann upp bjartur og fagur. Smá yoga á stofugólfinu í morgunsárið. Notaleg hafragrautssamvera og síðan út í skóla. Við röðuðum í stafrófsröð, orðunum sem við vorum að vinna með úr drekasögunni. Svaraði e-mail. Töluðum um þegar Jesús var handtekinn og Júdas Ískaríot sem sveik hann með kossi. Töluðum um eilífðina og endurfæðinguna, vorið og eggin og byrjuðum á páskaföndurskransi í kjölfarið. Átti fund með foreldra, annan með samkennara. Kenndi tölvur og tæknimennt í tvo tíma og komst m.a. að því að gott skipulag gerir allt betra fyrir mig. Fór á kennarafund og fékk köku. Fór heim og þvoði þvott. Hugsaði um hvað barnið skyldi heita. Hringdi til að stuðla að endurnýtingu barnafata. Út á leikskóla og síðan út í garð að tína köngla sem þekja grasflötina eftir storminn. Blés úr tveimur eggjum í fyrsta sinn eftir að hafa fengið leiðbeiningar frá leikskólakennurunum. Horfði út um gluggann og fékk mér rúsínu með s. sem var klóruð til blóðs í dag. Var þarna búin að þrífa sárin og bera smyrsl á. Horfði á parta úr Jungle Book á milli þess sem ég las blaðið og e-mail. Komst að því þegar a. kom heim að barnið heitir Anna Lee Mason. Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn í Kanada, velkomin í heiminn. Borðaði chili pasta. Kúrði á teppinu með fjölskyldunni. Gekk frá eldhúsinu og bakaði brauð. Nú Ali Farka Touré á fóninum og sjónvarpsgláp í startholunum.

Þessi færsla er tileinkuð bróður d. sem ég er svo stolt af og vinum mínum sem hjálpa mér að sjá ljósið. ást og friður.

1 ummæli:

Heiða sagði...

ég skil alveg fullkomlega....held ég. er í sama pakka...held ég. mér finnst ég eyða dögum í vitleysu en fatta ekki allt sem ég hef áorkað. sko, við erum að tala um köku, þvott, vinnu, blása úr eggjum (vá! hef aldrei gert það á ævinni)....þetta eru ekki einu sinni lítil afrek. Ég er hins vegar soldið að gera milljón litla hluti og fresta aðal-hlutnum, "lesafyrirstóruritgerðina"......shitt. en lítil afrek....