sunnudagur, 7. nóvember 2004

alþjoðavæðing og orkusöfnun

Það var undarlegt að átta sig á því að klukkan væri að verða eitt á hádegi á föstudaginn. Það þýddi að móðir mín góð og ég vorum búnar að vera í rúma 2 tíma í sænsku gæðaversluninni Ikea. Það kom líka spánskt fyrir sjónir að sjá kínverska leturgerð á kassanum utan af hillunum sem ég keypti. Hvað varð um sænska gæðastimpilinn? Kannski var viðurinn í hillunum frá Kína, nú eða kannski þegar búið var að setja gripinn í það form sem er aðgengilegur nútímamanninum að þá var hann sendur til Kína og settur í kassa þar eða kannski eru höfuðstöðvar Ikea í Kína? Ég veit það ekki en alþjóðavæðingin er staðreynd og þær eru lekkerar, hillurnar. Minna mann svolítið á setbekkina úr viði í gufuböðum, enda hentar það vel inni á baði. Það tók engan tíma að skrúfa þær saman og meira að segja skrúfjárnið fylgdi með. Ég held ég versli samt ekki aftur í bráð í búðinni. Það er nefnilega ótrúlega orkufrekt og brenglandi fyrir hugann að vera innan í svona verslun, og reyndar finnst mér það um fleiri, ef ekki langflestar verslanir. (dæmi um undantekningar: Melabúðin utan annatíma, Woolmarket í Hafnarstræti, Pétursbúð)

Orkunni var síðan safnað aftur saman í Garðinum á laugardagskvöld þar sem var boðið til hálfgerðar afmælisveislu (söngurinn var ekki sunginn) og hvílíkar kræsingar. Jedúddamía. Hvað getur maður sagt í svona löguðu annað en: umm... já, ég held ég fái mér aðeins meira... En það var ekki bara borðað, heldur var tekið til við hljóðfæraspilun, sem gekk svona upp og ofan, en ég held að það sé hressandi þegar nokkrir eru komnir saman að tjá sig á annan hátt heldur en með orðum og líkama, t.d. með hljóðfærum.

Hef eytt deginum í dag á Reykjanesbrautinni og heima með horlufsu. Mér finnst gaman að keyra og gæti alveg hugsað mér að vera leigubílstýra. Eða rútubílstýra. Eða með stýri hangandi í slaufu inni í stofu til þess að sýna akstri mína virðingu. Nokkurs konar krans. Maður gæti tengt það svona við jólahátíðina sem er að byrja að læða sér inn í vitund okkar með blaðaauglýsingum og síðan hef ég heyrt af því að fólk er byrjað að plana jólagjafakaupin. Jólagjafakaup verða tekin til umfjöllunar síðar.

Engin ummæli: