fimmtudagur, 4. nóvember 2004

eg sit og gægist oft ut um gluggann

Þegar ég vaknaði í morgun var snjór á þökunum í kring. Það var bara nokkuð notalegt. Nú, nokkrum klukkustundum síðar er hann horfinn. Fljótt afstaðin ánægja. Og það rigndi meira að segja á gluggann núna rétt áðan þar sem ég sit fyrir innnan og læri og lít öðru hvoru út til þess að sjá hvað er í gangi á götunni. Fjölþjóðleg gata, svo lítið sé sagt, en við hana býr fólk úr ýmsum áttum, Kanada, Kína, Rússlandi, Frakklandi o.s.frv. En allt á rólegu nótunum og engir papparassar eða limósínur. Að vísu fara konurnar í rússneska sendiráðinu alltaf á fimmtudögum um kl. 13:30 í stóran bíl sem ferjar þær eitthvert, líklega í verslunarferðir vikunnar. Þá standa þær úti í hóp, vel farðaðar og með ilmvatn og bíða eftir bílnum og ég hjóla eða labba framhjá í skólann en ekki í dag, því það er verkefnavika og ég er búin að vera að rembast við að æla einhverju í tölvuna alla vikuna.

En varðandi veðrið, þá er mér oft hugsað til þess hversu og hve mikil áhrif það hefur á vitundina. Ef veðrið er alltaf síbreytilegt, er þá ekki eðlilegt að skap manns sé alltaf síbreytilegt?

Lærði allt um hangin lambalæri í gærkvöldi í matarboði hjá mömmu og pabba. Þau læri sem eru vel hangin eru meyrari og eru dekkri á litinn. Hagnýtt húsráð. Og Amma bara að fíla sig, verandi 83ja ára en bölvandi yfir elli og hrumleika annars fólks... Ætli maður fatti ekki að maður eldist líka þegar maður er kominn á eitthvað ákveðið stig í lífaldrinum? Eða vill maður ekki viðurkenna það að maður breytist náttúrulega?

Best að vinda sér í vinnuna seinna í dag, en fyrst læra smá.

Engin ummæli: