samkvæmt stjörnuspá minni í einhverju dagblaðanna áttu að vera einhver endalok í mínu lífi í dag, þann 8. en nú er komið rétt yfir miðnætti og enn hafa engin endalok orðið. Kannski á ég bara eftir að fatta það seinna og muna, aha, já það var þarna 8. apríl...
Einu endalokin sem ég sé fyrir mér eru þau að í dag séu endalokin á því að hafa aldrei heimsótt elskulegan bróður minn í hættulegustu borg BNA, Miami. En klukkan 11:30 pm að staðartíma mun ég lenda í Fort Lauderdale, þangað sem hann sækir mig og ég á að bíða úti á stétt því hann nennir ekki að leggja. Tæp á tíma, einungis hálftími til stefnu ef maður er að spá í endalokadæmið. Ég hlakka ofurmikið til. Er búin að finna til stuttbuxur og sundföt enda býst ég við að notfæra mér laugina sem er í garðinum. Hver veit nema ég skelli mér á ströndina og horfi á eiturharða rassa þjóta framhjá á línuskautum. En pottþétt tek ég einn túristadag og vonandi eru tveggjahæða opnar rútur í það dæmi, en svo hef ég heyrt að það sé líka hægt að skoða borgina frá sjónum, semsagt á báti og sjá hús fræga fólksins. Annars veit ég ekkert hvernig ég á að eyða tíma mínum. Jú, er búin að finna á netinu heimilisföng búða Hjálpræðishersins í Miami og apple búðar. Þetta verður sko fjör, og mér hlakkar líka sérstaklega til útskriftartónleikanna sem eru jú yfirskrift þessarar ferðar. En nánar um það síðar, en annars var ég að velta því fyrir mér í dag, ef maður væri í þeirri aðstöðu að fara að spila svona tónleika og myndi bara frjósa. Líkaminn ekki svara hausnum. Já, allt getur gerst og best að ég taki með ilmduft til að lífga fólk við. Svona eins og í gömlum bíómyndum. Þá hef ég upplifað neikvæð áhrif ilmdufts þegar kaþólskur drengur sem var við altarið í fermingu hné niður vegna ilmduftsins...
Sýprusviðarkista - Sinkkista - Eikarkista. Afhverju þarf páfinn þrjár kistur? Ef sinkkistan er loftþétt, rotnar líkið þá ekki? Forsætisráðherra vor lýsti því yfir að athöfnin hefði vakið bæði gleði og sorg hjá honum. En hjartnæmt, sannarlega tilfinningavera þar á ferð. Nú er ég farin að bulla og líka bara farin. Í bili. Kannski er internet í miami.
laugardagur, 9. apríl 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Góða ferð til Miami, elsku Anna Katrín. Farðu varlega og vel með þig.
Hrefna
Skrifa ummæli