föstudagur, 27. maí 2005

hnakkinn

Í gær fékk ég skemmtilegan texta í símann minn sem svaraði spurningu minni sem var birt hérna á þessari síðu fyrir nokkru. Textinn var svohljóðandi: potluck dinner = pálínuboð. Vinkona mín staðfesti þessa notkun á orðinu, og kannaðist við það frá kfumk kökuboðum. Hef litið í orðabók menningarsjóðs frá ´88 þar sem ekki er minnst á þetta orð, pálínuboð. Þyrfti jafnvel að kíkja í nýju útgáfuna.

Sá tónleika á grandrokki í gær, þar sem enn sem áður stóð Æla uppúr. Hljóð hvers einasta hljóðfæris var kristaltært og það er gott að geta fylgst með því hvað hver er að bauka þarna á sviðinu. Þá er Ælan orðin svo þétt að maður getur flotið ofan á henni, en kafað oní hana ef maður hefur sundgleraugu. Stemningin í salnum var ekki upp á marga fiska. Barinn búinn að koma fyrir borðum á gólfinu fyrir framan sviðið og eins og ein kona benti á að með því væru tónleikahaldarar / barinn að viðurkenna að fólk dansaði ekki almennt á svona tónleikum. Síðan komu tvær aðrar hljómsveitir sem mér fannst heldur ekki upp á marga fiska. En kannski leynast þar snillar sem ekki náðu til mín í gærkveldi, maður verður alltaf að gefa séns. Þangað til komið er nóg.

Aðalmálið er að á eftir mun ég renna brautina á hnakkanum. En það er nafnið á nýja bílnum okkar sem við fjárfestum í gær í. Þýsk rennireið, ábyggilega sett saman í Asíu. En hnakkanum fylgir góður andi og kannski bið ég alheimsorkuna um að umlykja hann hjúpi svo aldrei gerist neitt óskemmtilegt. Þarf ég þá að færa fórnir á móti, á altari alheimsorkunnar? Þakklæti er nú lágmarkskurteisi. En kæra keyri ég í flugstöðina þar sem hann mun hverfa frá um sinn. Í viku eða svo.

Fjögurra daga vinnutörn framundan, þar sem verður reynt að fara reglulega í sund inn á milli til þess að samhæfa líkama og sál. Nú er ráð að vinda sér niður á bókasafn, leigja fullt af ódýrum dvd myndum til að horfa á í tölvunni, því helgarvaktirnar geta orðið langar. Þá hef ég hafið lestur á bók Umberto Eco, Foucault´s Pendulum. Spennó spennó.

Engin ummæli: