laugardagur, 17. mars 2007

Hapolitiskur spennitryllir: Draumalandið

Það fellur mér í geð að fara í leikhús. Þangað má ég fara inn og dvelja um stund í öðrum raunveruleika. Raunveruleikinn var einmitt mikið til umfjöllunar í sýningu gærkvöldsins, frumsýningu á Draumalandinu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Andri Snær sat fyrir aftan mig. Það hlýtur að vera skrítið að skrifa bók sem selst í bílförmum og fær verðlaun og umfjöllun og endar á fjölunum. Heimurinn sem var skapaður á sviðinu var kaldur og hvítur. Vídeólist sýningarinnar var interactive og tóku leikararnir virkan þátt í þeirri framleiðslu. Þú verður að fara og upplifa Draumalandið í leikhúsinu. Það er æði. Í alvörunni. Bíddu. Draumaland hvers? Spurningin er kannski bara hvað get ég gert? Hvað skiptir máli í raunveruleikanum?

Leikhópurinn var alveg prýðilega samsettur og er erfitt að segja valin kona í hverju hlutverki því persónusköpunin var ekki fyrir staðar, heldur brugðu leikarar sér í ýmis gervi eins og krúttfemínistann með melódíkuna og þýska útlendinginn sem voru einmitt báðar konur til að varpa ljósi á umfjöllunarefnið. Sem er?

Umfjöllunarefnið voru margar litlar senur sem við öll höfum lent í, ákkúrat í raunveruleikanum. Senur þar sem maður endar á því að spurja, æi, hvað vorum við aftur að tala um (eftir að hafa talað um hvað sé hagvöxtur?)?, hvort allt fari í klessu ef við stækkum ekki álverið í Straumsvík og þar sem konan er náttúran, táknmynd dóttur okkar, landsins Íslands sem við eigum að passa, hreina og fína. Hugmyndir um konuna tengda náttúrunni og manninn menningunni vakna í kjölfarið. En ég velti því líka upp hvers vegna konur flykkjast til vinstri þessi misserin?

Álið er málið. Enda snýst þetta um að planta bráðnauðsynlegum álverum út um allt, ekki satt? Álverum sem koma til með að skapa einu og hálfu prósenti þjóðarinnar atvinnu. 1,5%. Atvinnuleysið hefur verið um 1% að mig minnir. Hvað er aftur málið? Álið? Nei. Það er svo margt annað sem hægt er að gera. Eitt af markmiðum Draumalandsins fyrir mér er að benda á að úr verður ekkert rosa drama ef álið er ekki málið. Við getum breytt því. Hvernig viljum við hafa umhverfið okkar? Hvað skiptir okkur máli?

Leikritið býður upp á margar hugmyndir, þ.á.m. hugmyndinni um að sleppa því að virkja Kárahnjúka og láta mannvirkið standa með listaverkinu sól eftir Ólaf Elíasson til þess að sýna fram á það að maðurinn ráði yfir tækninni. Þar aftur má benda á tenginguna milli náttúru og manns (tækni). En það var kúl hvernig leikritið tók með í leikinn þá umræðu sem hefur átt sér stað í samfélaginu eftir að bókin kom út, m.a. þá vakningu sem hefur birst í stofnun ýmissa Sólar-samtaka hér á suð-vestur horninu. Og það var svolítið skemmtilegt hvernig bókin Draumalandið rifjaðist upp fyrir mér með sýningunni.

Umgjörð sýningarinnar var einföld og tímalaus þó efni hennar sé einmitt á réttum stað og á réttum tíma. Það er engin tilviljun að þessi leiksýning hafi verið sett á svið núna. Til þess að við vitum hvað við viljum verðum við að hafa aðgang að upplýsingunum. Draumalandið er ekki matarskammtur, heldur meira svona smakk, þar sem maður fær tækifæri til þess að hugsa um (m)álið. Auðvitað ræður hver og einn hvaða upplýsingar hann tekur úr sýningunni sem hafði yfir sér mjög svo póstmódernískan blæ þar sem annaðhvort enginn sannleikur sé til eða að enginn sannleikur sé réttur. Allir í leikhúsið. Keep it real.

Engin ummæli: