laugardagur, 14. júní 2008

bongóhlátur

Það fer ekki framhjá mér að sumarið er komið.
Það er gott og blessað og sólarvörnina verður að taka í gagnið.

Djass á Jómfrúnni og djass á hverfisgötunni í mjög metnaðarfullri garðveislu með heimasmíðuðu mini-golfi, búningsklefa fyrir 8 manna plastsundlaugina, sundlaugarpallur, bar með bárujárni á þakinu og barborð og stólar. Þá má ekki gleyma, skreytingunum og sundbúningaleigunni þar sem heimasaumuð gyllt sundföt voru einkennismerki og buxurnar voru með ásaumuðum píkuhárum í ýmsum litum, krulluðum úr hollenskum hárstofum fólks víðsvegar frá Afríku. Til að kóróna þetta allt var grillað hvalkjöt í sesam olíu með sósum og kartöflum í boði á barnum. Sannkallað listaverk, enda gjörningameistararnir listamenn. Eru allir listamenn?

Ég upplifði það að vera skapandi í yoga-tímanum í morgun. Skapandi í gegnum líkama minn og huga í því andartaki sem var hverju sinni með hjálp flæðisins í yogastöðunum. Mjög gaman, fullnægjandi og sveitt. Síðan hjólaði ég heim og gaf brjóst. Mér finnst ég soldið mikið í því þessa dagana og eiginlega er það búið að vera bæði hið ljúfa og hið erfiða í 5 mánuði. Ekki samt eins og fyrst, heldur einhvern veginn er brjóstagjöfin orðin markvissari ef svo má að orði komast. Ég upplifi brjóstagjöf ekki sem eitthvað sem gerist á náttúrulegan hátt án æfingar, heldur er hún lært ferli beggja aðila sem getur gengið misvel og misilla. Hver gjöf tekur skemmri tíma núna, mjólkurþeginn veit hvað hún vill og hvað hún fær, forvitin um umhverfið, farin að snúa sér kröftuglega af baki á maga. Vantar að komast aftur tilbaka eins og er, en annars bara vanalega í stuði. Mér þykir vænt um að það er stutt í hláturinn. Ég hef miklar mætur á hlátri.

Ég óska Garðbúum til hamingju með 100 ára afmælið og vona að forsetinn hafi aldrei þurft að vera einn í heimsókninni. Mér finnst við hæfi að enda á þessari kveðju: Gleðilegt sumar.

Engin ummæli: