Þá er The Red Thunder komin á sjúkrahús. Hún æsti sig eitthvað á Strandgötunni í Hafnarfirði þegar ég var að litast um hvar hægt væri að beygja og keyrði aftan á jeppa. Til allrar hamingju meiddist enginn annar en hún og jeppinn. Einungis ég og önnur kona vorum í bílunum. Vinstra framhornið, ljós og bæði innra og ytra bretti í maski, hurðin óopnanleg og nokkrar beyglur. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins kom fyrstur á vettvang úr Firðinum þar sem unglingar höfðu verið að safnast saman og hugsaði vel um okkur. Tryggingarfélagið keyrði mig heim eftir að ökumennirnir höfðu gefið rafræna skýrslu í þjónustubílnum. Það er víst svo mikið að gera hjá löggunni að hún er í minna mæli að sinna svona atburðum ef ekki þarf að kalla til sjúkrabíls. Ég fékk pínu sjokk í magann sem leið hjá seinna um kvöldið. Satt best að segja fékk ég tár í augun og þakklætið streymdi fram í huga mér fyrir það að ekki fór verr. Nú jæja, lexíurnar sem myndgerðust þarna voru t.d. þær að flýta sér hægt, horfa á veginn og umferðina fyrir framan og þakka fyrir kaskó. Og fara með blóm og konfekt á sjúkrahúsið.
Aðgerðir á þakinu hafa gengið vel og koma vonandi í veg fyrir leka á loftinu í hvassri suðvestanátt. Þakið glansandi fínt en svalirnar fengu sinn skerf af grænu þakmálningunni. Spurningin er hvort það sé charmant að hafa sletturnar eða ekki. Ilmur terpentínunnar er að gera út af við mig í svona miklu magni auk þess sem vírbursti dugar skammt. Vanalega finnst mér þó terpentína á olíumálunarpensli afar seiðandi.
Spenningur fyrir sumrinu og helgarplön af ýmsu tagi láta kræla á sér. Brúðkaup, ættarmót, sumó, heimsókn frá Kanadia, útskriftarveisla og svo veit maður aldrei nema litli bærinn Ribiers í Suður-Frakklandi fái að njóta nærveru okkar í ágúst. Það er í spilunum þó óákveðin enn, hús í boði og frábært fólk. Best að fara að skoða flugmöguleika og æfa frönskuna. Mais oui, bien sur. Las nýlega í The Economist um hvernig ritmál frönskunnar er að breytast með tilkomu rafrænna samskiptamáta, þannig er t.d. á morgun eða demain orðið að 2m1. Semsagt, sams konar áhyggjur í France eins og hjá hreinræktunarsinnum íslenskunnar sem líta á tungumálið m.a. sem hluta af þjóðarímyndinni en síður sem lifandi miðil. Sumarið er tími aðgerða.
miðvikudagur, 4. júní 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Gott að heyra að enginn slasaðist í óhappinu...það er eina sem skiptir máli. Ágætis áminning um að fara varlega.
Takk fyrir skemmtileg skrif...sammála þér með terpentínuna í smáskömmtum
Hrefna
Skrifa ummæli