þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Tímavörðurinn, kökugerðarkonan og vorlyktin

1:33 er alveg dæmigerður tími til þess að kíkja á skeiðklukkuna. Þá er búið að aumka sér inni í rúmi í 1:33. 27 sekúndum seinna vind ég mér inn aftur til að bjóða góða nótt. Á þriðja kvöldi tekur þetta ferli 20 mínútur. Á þeim tíma er margt hægt að gera til að stytta sér stundir. Þvotturinn brotinn saman. Gengið frá í eldhúsi. Gengið frá dóti í leikstofunni. Góður tími sem nýtist einstaklega vel undir óvenjulegri músík. Vanir segja að maður megi ekki missa móðinn. Á endanum fer barnið sjálft að sofa til þess eins að vakna glatt og brosandi daginn eftir. Og auðvitað verður mamman líka glöð og brosandi. Alltaf að átta mig meira og meira á því að ég sé komin í nýtt hlutverk og mér líkar það vel.

Hlutverkið kökugerðarkonan er annað sem er nú í bígerð. Ég mun leggja ást, einlæga gleði og frið handa öllum, til viðbótar við uppskriftina. Ég vona að þeir sem njóti fái þá strauma í hverjum munnbita. Spennandi verkefni og í kvöld fékk ég mörg góð kökuskreytingarráð frá systur minni. Ég hef ákveðið að nota fersk bláber, kannski svona 13 á hverja köku sem ég lími með bræddu súkkulaði. Blái liturinn varð fyrir valinu til að tóna við brúðarkjólinn.

Síðan er ég ekki frá því að vorið sé ekki langt undan. Laukar komnir upp í Þingholtunum. Vottur af vorlyktinni berst úr órafjarlægð langt utan af hafi og tekur sinn tíma til að komast í land.

3 ummæli:

baba sagði...

úúúííí hlakka til að borða bláa köku í vorinu! sendi góða strauma með vorlyktinni utan af hafi...

Nafnlaus sagði...

gleði, gleði, gleði, kökubökunarkveðjur sebnin og jo jo

The Rivingtons sagði...

enn hvetjandi að heyra af sofnasjálf búðunum hjá ykkur. þetta stendur einmitt til hér í þessari viku. maður er alltaf að fresta þessu, skil ekki af hverju því svo segja allir að það taki nákvæmlega þrjú kvöld. já hana nú!

einhver sniðug ráð fyrir utan þetta sem draumalandið segir?

knús
hrafnkell tími, nei ragga