Við útskrift í gær stóð ég stjörf á meðan nemendurnir stilltu sér upp með mér, einn og einn í einu fyrir myndatöku. Við myndatökur verð ég alltaf vör um mig og hugsa hvernig ætli þessi mynd komi út? Enn hef ég ekki þróað upp Zoolander/myndatöku-andlit með mér og er það á stefnuskránni fyrir næsta ár sem bíður mín, árið sem ég verð þrjátíuogeins árs. Helena las upp frumsamið ljóð (ein a4 síða) á pólsku sem var mjög svo hjartnæmt. Það fjallaði um hvernig Ísland hefur verið henni sem móðir þrátt fyrir þá erfiðleika sem nú steðja að í landinu og hvernig Ísland tekur opnum örmum á móti fólki alls staðar að. Þar sem ég tala ekki pólsku fékk ég þessar upplýsingar í gegnum þýðingu samnemenda Helenu. Kazimiera fékk tár í augun við upplesturinn. Ég var sannarlega snortin. Nemendurnir færðu mér ilmandi blómvönd og pakka sem ég á eftir að opna. Á svona stundum er gott að vera kennari. Það er líka gott að vera kennari á öðrum stundum. Ég er heppin að hafa vinnu.
Árið sem ég varð þrítug var ég líka kennari með barn í bumbu. Síðan sprakk bumban og barnið kom út. Það er hún Sophie. Hún er skemmtileg. Næstu mánuðir af þrítugasta árinu mínu liðu um eins og í stjörnuþoku. Ég man bara ekki neitt þangað til fór að vora. Þá kom sumarið með sól í lofti og í sinni. Núna er síðan kominn vetur, svo hratt sé farið yfir sögu. Á morgun verða friðsamleg mótmæli í 6. sinn á Austurvelli. Á sama tíma verður sherryflaskan sem mér áskotnaðist dregin fram og dreitill borinn fram með vöfflunum. Komdu ef þú þorir.
föstudagur, 14. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
til hammó með ammó aftur mín kæra:) ég mótmælti á laugardaginn en þurfti svo að snapa mér far heim aftur og gafst ekki tími í vöfflurnar...vonandi naustu dagsins ofurvel:) ég reikna fastlega með að mótmæla aftur á laugardaginn...kemuru með? svakalega hressandi að æpa já! eða nei! eða vei! aðeins að losa um og tjá reiðina...og magnað að gera það í 10 þúsund manna hóp...
Skrifa ummæli