Eftir að hafa sturtað mig og borðað 2 ristabrauðsneiðar með einum Assam tebolla fór ég til tannlæknis. Hann er alltaf með rosa fönkí gleraugu. Mér finnst tannlæknastólar ekki þægilegir og þegar hausnum og búknum sem fylgir með er slengt aftur með rafmagnsfjarstýringunni ímynda ég mér píningarbekki gömlu tímanna. Þannig er það nú bara þó tannsi sé góður í sínu fagi og borar vel. Í dag var ekki borað heldur fylling sett á milli tveggja tanna til að hindra matarleifar og þ.a.l. Karíus og Baktus. Síðan var allt settið hreinsað.
Þegar út var komið beið mín símtal við samstarfskonu mína sem velti því upp hvort eitthvað skringilegt væri á seyði í húsinu hennar í kjölfar þess að símalínan virðist alltaf detta út. Við tók klukkustundar langur göngutúr með kerruna og sofandi barn. Ég er glöð yfir að geta nýtt dagsbirtuna og verið úti við þó það sé kalt. Á göngunni í dag sá ég m.a. menntaskólafólk og myndatakandi ferðamenn en enga róna. Dagmamman tók við barnavagninum og áður en ég hélt til vinnu fékk ég mér súpuskál í eldhúsinu og kíkti í blaðið.
Í einum kúrsinum erum við að vinna með nákvæmlega þetta. Hvernig var dagurinn í dag? sem skýrir þessa nokkuð nákvæmu lýsingu sem hér fer. Eftir vinnu kíkti ég til ömmu og náði í jólaóróana úr háa skápnum til vinstri inni í svefnherbergi. Amma spurði mig hvort ég tryði á endurholdgun og við ræddum það yfir tebolla ásamt kryddi af þjóðfélagsmálum og þó henni finnist Steingrímur J. góður ræðumaður er hún hrædd um að ,,kommúnistaflokkurinn" vilji bara komast til valda.
Þegar heim var komið náði ég einum kaffibolla áður en arkað var út í dimmuna til að ná í barnið sem sefur svo miklu betur úti heldur en inni. Skiptar skoðanir fjölskyldu barnsins eru um útisvefn barna, en í Kanada er fátítt að börn séu látin sofa úti. Heima tók við undirbúningur kvöldmatar þar sem þetta var mitt kvöld í að sjá um matinn og ég tók til við að gera 9 tómata tómatsósu með chili, lauk og sveppum sem var borin fram með spaghetti. Nú geri ég ráð fyrir að barnið sé sofnað og að stjörnurnar vaki yfir okkur.
miðvikudagur, 26. nóvember 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Góður dagur:)mig langar í gönguferð í birtunni en rokið er of hávært á vallarheiði í dag...
mér finnst svo gaman að lesa bloggið þitt þegar ég dett inná það.. takk fyrir kveðjuna hér að neðan! Á Akureyri gengur allt fínt. Er að byrja í prófum og reyna að fá hugann til þess að nenna að hugsa um neysluverðsvísitölur og peningamargfaldara og finnst fínt að hlusta á death cab for cutie á meðann. Söngvarinn minnir mig stundum á Alex, kannski eru það bara gleraugun. Love
Skrifa ummæli