mánudagur, 4. september 2006

not so smooth criminal

Hér kemur krimmasaga laugardagsins þar sem ég var við vinnu í húsinu. Fyrir þá sem nenna ekki að lesa, þá náðist húsbrjóturinn sem náði ekki að koma neinu þýfi undan.

Um klukkan 14 sér samstarfskona mín mann á vappi í kringum húsið, íklæddan svörtum jakka með röndum á ermum og í rauðum skóm. Hún segir hann grunsamlegan, jafnvel reynandi að brjótast inn í bíla á planinu.

2 starfsmenn hússins koma inn á svið úr bakhúsi, sjá baksvipinn á manni uppi í ljósaklefa. Einn gerir ráð fyrir að þetta sé nýr ljósamaður og spáir ekki meira í þetta, hinn fer upp í ljósaklefa og býður góðan daginn og maðurinn svarar ekki, heldur fer niður í stúku austanmegin. Þá fer einn starfsmaðurinn og hittir mig í búri bakdyravarðar og saman förum við að leita að manninum. Í góðar 40 mínútur göngum við um húsið án þess að verða vör við nokkurn mann. Samstarfsfélaginn heldur aftur til starfa og ég hverf aftur í búrið og geri ráð fyrir að maðurinn hafi komið sér út úr húsinu í gegnum dyrnar úr austur-turninum út á plan. Hugsa síðan lítið meir um þetta, en fer þó í nokkra styttri túra um húsið til að athuga hvort allt sé ekki með kyrrum kjörum sem það og er. Ekki fór ég sérstaklega inn í kjallarann á þessum styttri túrum og er eiginlega hálf-ánægð með það eftir á, sérstaklega í ljósi þess að maðurinn hefur líklega eytt dágóðum tíma þar við ýmsa skringilega iðju (eins og t.d. að grandskoða allt, endurraða undirskálum o.þ.h.).

Um hálf-fimmleytið hringir samstarfskona mín í mig úr mötuneytinu og biður mig að athuga hvort fartölvan hennar er á sínum stað í eldhúsinu í kjallaranum. Það geri ég og sé fartölvuna á gólfinu í bakpokanum, alveg eins og hún hafði lýst því.

Um klukkan hálf sjö hringir sama kona í mig neðan úr kjallara og segir fartölvuna vera horfna. Ég fer niður til hennar þar sem hún er í miklu uppnámi. Hún kíkir með lykli inn í búningsherbergi starfsfólks kjallarans og sér rauða skó og svartan jakka á gólfinu og mjög sterk lykt er í herberginu. Hún lokar, við förum upp, ég sný við og næ í veskið hennar og lykla sem hún hafði haft með sér ofan úr eldhúsi og uppi í búri bakdyravarðar hringi ég í lögregluna í annað skiptið þann daginn og tilkynni að í nú hafi eitthvað horfið og bið lögregluna um að koma á vettvang.

Við setjumst út á tröppur og reynum að slappa af, ímyndum okkur að þjófurinn sé á bak og burt og bíðum eftir lögreglunni. Án þess að margar mínútur líði, sé ég mann ganga á miðri Lindargötunni framhjá Jónshúsi og beygja niður Skuggasund. Hann var klæddur í rauða skó og jakka með röndum. Þá hringi ég aftur í lögregluna og segi að ég elti innbrotsþjófinn og bið um að lögreglan flýti sér sem hún og gerir en þá hafði ég séð manninn beygja til hægri út Sölvhólsgötu. Manninum var náð í Skuggahverfinu.

Það sem gerðist á eftir líktist mest æsispennandi lögguþætti í sjónvarpinu. Rauðu skórnir mannsins voru notaðir fyrir þefhundinn til þess að finna út hvar maðurinn hafði látið tölvuna frá sér. Það kom þó ekki í ljós fyrr en löngu seinna að tölvuna hafði hann falið inni í skáp í kjallaranum, þar sem hann faldist sjálfur á meðan við vorum að bardúsa í kringum búningsherbergið þar sem hann hafði farið úr skónum og jakkanum, líklega til að slappa af. Honum datt ekki í hug að fá sér ný föt, en nóg var af fötum í þessu herbergi og síðan laumaðist hann út á meðan við fórum upp til að hringja í lögguna. Löggan þurfti a.m.k. að heyra söguna þrisvar sinnum (þrjár mismunandi löggur báðu okkur um söguna). Tæknideild lögreglunnar kom með skjalatösku og myndavél og tók fingraför, skóför, munnvatnssýni og myndir. Húsbrjóturinn hafði gætt sér á heilli ananas-dós (opnuð með hníf) þriggja mánaða gamalli köku og tveggja daga gömlu kaffi á meðan hann var við iðju sína. Vinna lögreglunnar í húsinu tók u.þ.b. 3 klukkustundir. Öllu mögulegu (og ómögulegu(dæmi: súkkulaðirúsínur, dömubindi og ýmis konar snúrur)) þýfi hafði verið safnað á ákveðna staði og fært til. Á meðan vinnu lögreglunnar stóð töluðu þeir saman (eini kvenkynslögregluþjónninn var sú sem var með hundinn sem hafði lokið vinnu sinni á þessum tímapunkti) en þegar mest var voru 6 lögregluþjónar (blanda af tæknideild og rannsóknarlögreglu og fíknó) á staðnum, og báru saman sögur úr vinnunni auk þess sem nafn húsbrjótsins kom fram og búseta. Það fannst mér nokkuð svakalegt, enda ímyndaði ég mér að persónuupplýsingar sem þessar væru trúnaðarmál.

Þetta mál verður semsagt höndlað sem svo að ógæfumaðurinn sé húsbrjótur, þar sem hann náði ekki að koma neinu þýfi undan. Hann var í klefa um nóttina og skv. Fíknó var ekki hægt að tala við hann sökum ástandsins sem hann var í, en það yrði gert á morgun (í gær sunnudag) og seinni hluta sunnudagsins tóku starfsmenn hússins eftir tveimur mjög grunsamlegum mönnum standandi við sama stað og húsbrjótur gærdagsins hafði farið inn um, en annað fólk en starfsfólk hússins hefur ekkert að gera þar. Þess vegna ímynda ég mér að þegar húsbrjóturinn hafði losnað frá lögreglunni hafi hann frætt vini sína um hvernig hann komst inn...

3 ummæli:

Hrefna sagði...

Vá hvað þetta var merkileg og spennandi saga. Rosalega ertu mikil lögga Anna Katrín og mjög hugrökk.

AnnaKatrin sagði...

Takk fyrir en í kvöld fundum við einmitt sprautu, nál, húslykla og veski (með debetkorti) viðkomandi húsbrjóts á enn einum stað. Verandi frekar löghlýðin manneskja bað ég lögguna um að koma og sækja þetta dót, og aðspurð sagðist hún líklega ætla að afhenda eigandum þessar eignir!
Já, það er ýkt glatað að tapa debetkorti og húslyklum og auðvitað kemur löggan því til skila.

Viðurkenni fúslega að ég veit ekki hvernig tilfinningar eiga eftir að koma upp í framtíðinni við vinnu á staðnum þegar ég er orðin ein eftir í húsinu... hrædd, óörugg o.þ.h. tilfinningar býst ég nú alveg við að komi upp. Við sjáum hvað setur.

Nafnlaus sagði...

Úff Ak, þvílík spennusaga !! Ég sat með öndina í hálsinum að lesa. Öfunda þig ekki af því að vera ein í húsinu en þá blívar að hugsa fallegar hugsanir og vera með símann við hendina. Knús
Ágústa