fimmtudagur, 31. ágúst 2006

haustveiðar

Eftir að hafa farið eldsnemma í sund fór ég á bókasafnið og þaðan út í fjöru. Þar var háflóð og sólin skein, og lítill vindur. Það var yndislegt að sitja og horfa og hugleiða þangað til selurinn skaut upp kollinum og horfði í kringum sig. Ég var fljót að stökkva á fætur og gera viðvart, með tralli og hæi svo selurinn myndi nenna að sýna sig betur og kannski leika við mig. Hann virtist alveg til í það og fór upp á sker. Þá tók ég upp haglarann og skaut í skerið til þess að fæla hann af því í von um að hann myndi koma nær fjörunni svo ég gæti tekið hann af betra færi. En hann lét sig hverfa af skerinu vitlausu megin, þannig að ekkert varð úr selveiðum mínum í dag. Vinsamlega athugið, ég myndi aldrei veiða meira en ég gæti notað.

Þetta er búið að vera yndislegur dagur. Ég er kát og glöð. Besta fólk umkringir mig og er mér gott, styður mig og styrkir. Því er ég þakklát. Í sundinu var mér hugsað til B&B á búgarðinum í Svíþjóð og sendi ég þeim mínar bestu kveðjur. Helgin bíður spennt eftir mér, með Ljósanótt í Reykjanesbæ og Pakkhús Postulanna. Það væri ekki úr vegi að fá sér vínglas í tilefni dagsins og jafnvel skella einu aubergine á grillið með geitaosti. LIfið heil.

Engin ummæli: